Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 194 . mál.


Ed.

263. Nefndarálit



um frv. til l. um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur rætt frumvarpið og fengið til viðræðna Magnús B. Jónsson búvísindakennara, Eyjólf Sverrisson frá Þjóðhagsstofnun, Leif Kr. Jóhannesson, forstöðumann Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Inga Tryggvason, stjórnarmann í Stofnlánadeild, Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, Jón Ragnar Björnsson, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra loðdýraræktenda, og Hauk Halldórsson, formann Stéttarsambands bænda.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þá leggur nefndin jafnframt til að ríkisstjórnin geri ákveðnar breytingar á samþykkt sinni frá 28. nóv. sl. um loðdýrarækt.
    Fyrri breytingartillaga nefndarinnar er við 1. gr. frumvarpsins og felur í sér að hámark ríkisábyrgðar hækki úr 280 millj. kr. í 300 millj. kr. Sú breyting er gerð til þess að mæta því að þeim 20 millj. kr., sem Framleiðnisjóði er samkvæmt bókun ríkisstjórnarinnar frá 28. nóv. sl. ætlað að leggja fram til fjárhagslegrar endurskipulagningar, verði varið til lækkunar fóðurverðs. Það framlag kemur til viðbótar þeim 25 millj. kr. sem verða veittar samkvæmt bókun ríkisstjórnarinnar og fyrirheiti því sem þar er gefið um útvegun viðbótarfjármagns. Nú þegar liggja fyrir upplýsingar um áhuga loðdýrabænda fyrir að halda bústofni sínum. Með þeirri breytingu vill nefndin tryggja að eftir áramót haldi jöfnunargjald á fóður verðgildi þessa árs enda telur nefndin það grundvallaratriði til þess að aðgerðir þessar nái tilgangi sínum. Nefndin beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að Framleiðnisjóður annist þessa framkvæmd í stað Byggðastofnunar. Nefndin leggur áherslu á að Framleiðnisjóður mun halda áfram fjárhagslegri endurskipulagningu og skuldbreytingum með því fjármagni sem óráðstafað er af þeim 60 millj. kr. sem ákveðnar voru til þess í febrúar sl. Til að sinna því verkefni og vinnu við framkvæmd ákvæða 1. gr. frumvarpsins þurfa Framleiðnisjóður og landbúnaðarráðuneytið að veita bændum sérfræðilega þjónustu við samningagerð.
    Seinni breytingartillaga nefndarinnar er við 2. gr. frumvarpsins og felur í sér að stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins verði heimilt að fella niður verðtryggingu og vexti, og fresta greiðslu afborgana, af lánum til bænda vegna loðdýrabúra á næstu fimm árum, sem og hluta höfuðstóls annarra veðskulda einstakra loðdýrabænda, enda verði hagsmunum Stofnlánadeildar betur borgið með þeim hætti. Með breytingu nefndarinnar er hins vegar fellt niður ákvæði um fóðurstöðvar þar sem nefndin telur eftir viðræður við forstjóra Byggðastofnunar að stofnunin taki að sér sambærilega aðstoð við þær eins og Stofnlánadeild veitir bændum, enda vinnur Byggðastofnun að fjárhagslegri endurskipulagningu fóðurstöðvanna.
    Til viðbótar þessum breytingartillögum beinir nefndin þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún breyti 1. og 2. tölul. í bókun sinni frá 28. nóv. sl. varðandi loðdýrarækt, sbr. fylgiskjal með frumvarpinu. Nefndin leggur til að í 1. tölul. komi „Framleiðnisjóður landbúnaðarins“ hvarvetna í stað „Byggðastofnunar“ og að í 2. tölul. verði kveðið á um að þeim 20 millj. kr., sem Framleiðnisjóður eigi að verja til fjárhagslegrar endurskipulagningar og skuldbreytinga, verði þess í stað varið til greiðslu jöfnunargjalds á loðdýrafóður á árinu 1990.

Alþingi, 7. des 1989.



Skúli Alexandersson,


Egill Jónsson,


Jón Helgason.


form., frsm.


fundaskr.


Þorv. Garðar Kristjánsson.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


Karvel Pálmason.


Danfríður Skarphéðinsdóttir.