Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 247 . mál.


Sþ.

389. Tillaga til þingsályktunarum nánari skilgreiningu á bankarekstri.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að undirbúa frumvarp til laga um breytingar á lögum um viðskiptabanka, nr. 86/1985, og sparisjóði, nr. 87/1985, með það að markmiði að skilgreina og þrengja verksvið banka og sparisjóða þannig að þeir hætti að stunda aðra starfsemi en þá sem er í eðli sínu hrein bankastarfsemi. Þá verði bönkum og sparisjóðum ekki heldur heimilt að eiga að öllu leyti eða hluta fyrirtæki eða félög sem stunda annan rekstur. Viðskiptaráðherra leggi frumvarpið fram í upphafi þings haustið 1990.

Greinargerð.


    Í nútímaþjóðfélagi vaxa viðskipti með peninga hröðum skrefum. Verksvið banka og sparisjóða er skilgreint í lögum og jafnframt verndað þannig að ekki er heimilt að stofna til bankareksturs án leyfis ráðherra. Þá er rekstur banka að færast yfir á hendur einstaklinga í auknum mæli og þar með ber ríkissjóður ekki lengur ábyrgð á honum. Því er rangt að íþyngja bönkum með öðrum og óskyldum rekstri.
    Bankar og sparisjóðir eiga að verja óskiptum höfuðstóli sínum til að lána fólkinu og atvinnulífinu í landinu. Þeir eiga ekki að nota hann til að standa straum af óskyldum kostnaði eða bera uppi annan rekstur með þeirri hættu sem því fylgir. Þannig er frekar hægt að lækka vextina og bjóða ódýrari lán en ella. Lán sem atvinnulífið ræður við að borga. Það er hlutverk banka og sparisjóða.
    Bankar og sparisjóðir eiga heldur ekki að stunda rekstur sem einstaklingar og félög þeirra og fyrirtæki geta auðveldlega annast. Dæmi: Mötuneyti, prentsmiðjur, lögfræðiþjónusta, innheimtustofur og önnur starfsemi. Þannig geta myndast bæði viðskiptahringir og óheilbrigð samkeppni.
    Það er heldur ekki eðlilegt að bankar og sparisjóðir eigi að öllu leyti eða að hluta fyrirtæki sem fást við annan rekstur en bankastarfsemi. Dæmi: Greiðslukortafyrirtæki, verðbréfasölur, kaupleigur, fjármögnunarfirmu og annars konar rekstur. Bankar og sparisjóðir eiga ekki að keppa við fyrirtækin sem þurfa að leita til þeirra með fyrirgreiðslu og almenna bankaþjónustu. Þar með safnast líka of mikil umsvif á of fáar hendur.
    Þá er það ekki hlutverk banka og sparisjóða að eiga og hafa með höndum bókasöfn, orlofshús, laxveiðiár og ýmsa aðra óskylda hluti. Þess vegna er rétt að skilgreina bankarekstur í þrengstu merkingu og breyta þannig lögum um banka og sparisjóði.
    Á sama hátt á hið opinbera ekki að keppa við bankakerfið um þjónustu með peninga. Því er rétt að kanna hvort viðskiptabankar og sparisjóðir eigi ekki að taka við gjaldheimtum og öllum opinberum sjóðum á borð við Byggingarsjóð ríkisins, Lánasjóð íslenskra námsmanna og aðra sjóði sem hingað til hafa haldið úti eigin afgreiðslu með þeirri yfirbyggingu sem því fylgir. Enda er það hagræðing fyrir fólkið að afgreiða þessi lán í bönkum og sparisjóðum hringinn í kringum landið og auðvelt fyrir bankakerfið að annast þessa þjónustu.
    Þessi þingsályktunartillaga er flutt í samfloti við tillögu um að bankar og sparisjóðir annist alla opinbera sjóði og innheimtu.