Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 328 . mál.


Sþ.

604. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar H. Garðarssonar um virðisaukaskatt í ríkjum Evrópubandalagsins.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
1.      Hvernig er álagningu virðisaukaskatts háttað í ríkjum Evrópubandalagsins?
2.      Hversu mörg þrep eru í álagningu virðisaukaskatts í einstökum ríkjum EB?

    Leitað hefur verið upplýsinga um þetta mál hjá stjórnarnefnd Evrópubandalagsins og fylgir svarinu greinargerð frá stjórnarnefndinni. Hún byggir á stöðu mála 1. janúar 1989.

1.      Álagning virðisaukaskatts í ríkjum Evrópubandalagsins.
    Í greinargerð þeirri, sem hér fylgir á eftir, er á margvíslegan hátt fjallað um álagningu virðisaukaskatts í Evrópubandalagsríkjunum. Þar er í töflu sýnd þróun skattsins í hverju ríki Evrópubandalagsins, gerð grein fyrir því hvenær skatturinn var tekinn upp, hversu mörg þrep hafa verið í skattinum á hverjum tíma, hvert skatthlutfall er eða hefur verið í hverju þrepi og hvaða breytingar hafa í stórum dráttum orðið á virðisaukaskattskerfinu síðan það var tekið upp. Einnig fylgja skýringar og athugasemdir við einstök skattþrep. Í greinargerðinni er einnig sérstakt yfirlit um undanþágur í formi „núllskatts“ sem samsvarar undanþágum í 12. gr. íslensku virðisaukaskattslaganna. Þá er í greinargerðinni ítarleg tafla sem sýnir núverandi stöðu virðisaukaskattsins í ríkjunum tólf eftir einstökum flokkum vöru og þjónustu, hlutfall, þrep og undanþágur.

2.      Þrep í virðisaukaskatti í einstökum ríkjum Evrópubandalagsins.
    Virðisaukaskattur er við lýði í öllum ríkjum Evrópubandalagsins, en form skattkerfisins er mjög ólíkt frá einu ríki til annars og skatthlutfall mjög misjafnt milli ríkjanna. Bæði hefðir í þjóðlífi, misjafnar pólitískar aðstæður og ólík efnahagsleg skipan hafa valdið því að þrepafjöldi er afar fjölbreytilegur og undanþágum er hagað með sínum hætti í hverju aðildarríki Evrópubandalagsins. Þessi staða hefur leitt af sér að samræming á virðisaukaskattskerfum ríkjanna tólf er eitt flóknasta og erfiðasta verkefnið í því starfi sem nú fer fram undir merkjum sameiginlegs innri markaðar í Evrópubandalaginu.
    Í mjög grófum dráttum mætti segja að algengasta skatthlutfall á almenna vöru og þjónustu í ríkjum Evrópubandalagsins sé á milli 15 og 20%. Slík staðhæfing ein saman gæfi þó mjög villandi mynd. Víða er almennur skattur lægri, en almennur skattur frá 20–25% er þó í Danmörku, Belgíu og Írlandi. Hæsta virðisaukaskattshlutfall er í efsta þrepi ítalska kerfisins, 38%, og hjá Grikkjum 36%, en á Spáni er til 33% skattþrep, í Belgíu 32% þrep, í Portúgal 30% þrep og í Frakklandi 28% þrep.
    Í Bretlandi og Danmörku er virðisaukaskattur í einu þrepi, en skattkerfi ríkjanna eru þó mjög ólík innbyrðis vegna ólíkra reglna um núllskatt. Algengasta form virðisaukaskattskerfis í Evrópubandalaginu er einhvers konar útgáfa af tveggja þrepa kerfi og má segja að í stórum dráttum eigi slík skilgreining við um skattkerfi Frakklands, Hollands, Írlands, Lúxemborgar, Portúgals, Spánar og Þýska sambandslýðveldisins. Aðeins Hollendingar og Vestur-Þjóðverjar búa þó við strangt tveggja þrepa kerfi. Í Frakklandi bætast við lágþrep, háþrep og milliþrep. Á Írlandi eru tvenns konar lágþrep, í Lúxemborg er lágþrep að auki, en í Portúgal og á Spáni sérstakt háþrep. Í Grikklandi er þriggja þrepa kerfi og að auki sérstakt lágþrep. Á Ítalíu og í Belgíu er í stórum dráttum um fjögurra þrepa kerfi að ræða, en í Belgíu er þó að auki sérstakt lágþrep og sérstakt háþrep. Má þannig finna innan Evrópubandalagsins allt frá einu og upp í sex þrep í virðisaukaskatti.
    „Núllskattur“ eins og finna má í 12. gr. íslensku virðisaukaskattslaganna er að umfangi mjög misjafn í ríkjum Evrópubandalagsins. Í öllum ríkjunum nær núllskattur til þeirra sviða sem kerfið gerir ráð fyrir, útflutningsvara, vöruflutninga milli landa o.s.frv. Að öðru leyti er staðan sú að víðtækur núllskattur er í Bretlandi, á Írlandi og í Portúgal. Núllskattur er hins vegar hverfandi í öðrum ríkjum Evrópubandalagsins. Á Ítalíu og í Lúxemborg má segja að á móti komi mjög lágt skattþrep á nokkrar tegundir almennrar vöru.
    Undanþágur frá virðisaukaskatti eins og þær sem finna má í 2. gr. íslensku virðisaukaskattslaganna gilda alls staðar í bandalagsríkjunum um póstþjónustu, heilbrigðis- og menntastofnanir og ýmsar vörur þeim tengdar, góðgerðarstarf, ýmislegt menningarstarf, happdrætti og veðmál, jarðasölu, fjármálaþjónustu og fasteignaleigu. Reglur Evrópubandalagsins gera ráð fyrir að þessi svið verði undanþegin til frambúðar.
    Hér fer á eftir mjög stutt yfirlit um virðisaukaskattskerfið í hverju Evrópubandalagsríkjanna fyrir sig.
     Í Belgíu eru í megindráttum fjögur þrep, 6%, 17%, 19% og 25%. Í lægsta þrepi eru m.a. matvæli, lyf, bækur, listaverk og fornmunir. Í hæsta þrepi eru m.a. vín, heimilisraftæki, bensín og dísilolía. Að auki er lágt 1% þrep fyrir gull og sérstakur háskattur á t.d. skartgripi, loðfeldi og veiðivopn. Sá skattur nemur 8% umfram 25% þrepið og fylgir hann sömu meginreglum og virðisaukaskatturinn. Núllskattur er á dagblöðum, en er að öðru leyti óverulegur.
     Í Bretlandi er eitt þrep, 15%. Núllskattsundanþágur eru fjölmargar og ná þær m.a. til matvæla, prentmáls, fólksflutninga, barnafata, eldsneytis og húsbygginga.
     Í Danmörku er eitt þrep, 22%. Núllskattsundanþágur eru fáar, en nefna má dagblöð og tímarit. Af vöru og þjónustu utan kerfis má nefna sérstaklega safnrekstur og listaverkasölu frá listamönnum.
     Í Frakklandi er í megindráttum tveggja þrepa kerfi, 5,5% og 18,6%. Í lægra þrepi eru matvæli, lyf, bækur, fólksflutningar og fleira. Dagblöð og tímarit eru sköttuð á enn lægra þrepi, 2,1%. Milliþrep, 13%, gildir um byggingarlóðir, en 28% háþrep um t.d. bifreiðar, loðfeldi og skartgripi. Núllskattsundanþágur eru ekki teljandi. Af vöru og þjónustu utan kerfis má nefna sölu notaðrar vöru og listaverkasölu frá listamönnum.
     Í Grikklandi er í megindráttum þriggja þrepa kerfi, 6%, 16% og 36%. Matvæli, lyf, orkugjafar (nema bensín), fólksflutningar og fleira eru í lægsta þrepi og á prentmál leggst enn lægri skattur, 3%. Í hæsta þrepi eru ýmsar drykkjarvörur, tóbak, hljómflutnings- og myndbandstæki o.s.frv. Núllskattsundanþágur eru óverulegar.
     Í Hollandi eru tvö þrep, 6% og 18,5%. Í lægra þrepinu eru m.a. óáfengir svaladrykkir, lyf, bækur, blöð og tímarit, fólksflutningar, rekstur gisti- og veitingahúsa, listaverk og fornmunir. Núllskattsundanþágur eru óverulegar.
     Á Írlandi eru í megindráttum tvö þrep, 10% og 25%. Í lægra þrepinu eru m.a. fatnaður fullorðinna, dagblöð, gas, rekstur gisti- og veitingahúsa, nýbyggingar og byggingarvinna. Að auki er 5% skattur á rafmagn og 1,4% á sölu búfjár á fæti. Núllskattsundanþágur eru fjölmargar og ná þær m.a. til matvæla, bóka, barnafata, lyfja, heilbrigðisvara og hvítra skrautlausra kerta af venjulegri gerð. Af vöru og þjónustu utan kerfis má nefna fólksflutninga og vatn.
     Á Ítalíu eru fjögur þrep, 4%, 9%, 19% og 38%. Í lægsta þrepi eru m.a. ýmis matvæli, svo sem pastavörur, fiskur, mjólk og ávextir, einnig bækur, tímarit og íbúðarhúsnæði. Í 9% skattþrepi eru m.a. ýmis matvæli, svo sem kjöt, léttvín, kaffi, sykur og einnig rafmagn, gas, veitingasala, leiksýningar og kvikmyndasýningar. Í hæsta þrepi eru gripir úr platínu, loðfeldir, lystisnekkjur o.s.frv. Núllskattsundanþágur eru fáar, en þar á meðal dagblöð.
     Í Lúxemborg er í megindráttum tveggja þrepa kerfi, 6% og 12%, en að auki er 3% þrep fyrir ákveðnar tegundir matvæla og lyfja. Í 6% þrepinu eru m.a. matvæli, léttvín, tóbak, bækur, tímarit, dagblöð, gas, rafmagn, fólksflutningar, rekstur gisti- og veitingahúsa. Núllskattsundanþágur eru ekki teljandi. Af vöru og þjónustu utan kerfis má nefna vatn og nýbyggingar.
     Í Portúgal er í megindráttum tveggja þrepa kerfi, 8% og 17%. Í lægra þrepi eru m.a. ákveðin matvæli, bjór og sódavatn, gas, rafmagn, eldsneyti, fólksflutningar, rekstur gisti- og veitingahúsa. Að auki er 30% þrep fyrir nokkrar vörutegundir, þar á meðal tiltekin sterk vín, loðfeldi og skartgripi. Núllskattsundaþágur eru fremur víðtækar og ná m.a. til helstu matvæla, lyfja, aðfanga í landbúnaði, bóka, dagblaða og tímarita.
     Á Spáni er í megindráttum tveggja þrepa kerfi, 6% og 12%. Í lægra þrepi eru m.a. vatn, matvæli, svaladrykkir, lyf, bækur, dagblöð og tímarit. Að auki er 33% þrep fyrir nokkrar vörutegundir, skartgripi, loðfeldi og tilteknar gerðir bifreiða. Núllskattsundanþágur eru hverfandi. Af vöru og þjónustu utan kerfis má nefna safnrekstur.
     Í Þýska sambandslýðveldinu eru tvö þrep, 7% og 14%. Í lægra þrepi eru m.a. matvæli, bækur, blöð og tímarit, vatn, vissir fólksflutningar og listaverk. Núllskattsundanþágur eru hverfandi. Af vöru og þjónustu utan kerfis má nefna safnrekstur.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneytið:

VIRÐISAUKASKATTUR Í EB-RÍKJUM


(1. janúar 1989.)



I. Þróun skattþrepa í EB-ríkjunum.



(Texti er ekki til tölvutækur.)



II. Skýringar og athugasemdir við einstök skattþrep.



(Texti er ekki til tölvutækur.)



III. Yfirlit um „núllskatt“ í virðisaukaskattslöggjöf EB-ríkjanna.



(Texti er ekki til tölvutækur.)



IV. Yfirlit um hlutfall og þrep í virðisaukaskatti í EB-ríkjum.



Repró