Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 230 . mál.


Sþ.

621. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar um eignir og skuldir ríkisins í Seðlabanka Íslands.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
1.     Hvað eiga ríkið og stofnanir þess og sjóðir mikið fé á innlánsreikningum í Seðlabanka Íslands samtals?
2.     Hvað fær ríkið mikla vexti af þeim peningum og hve háir eru vextir (meðalvextir)?
3.     Hvað skulda ríkið og stofnanir þess og sjóðir mikla peninga í Seðlabanka Íslands samtals?
4.     Hvað borgar ríkið mikla vexti af þeim peningum og hve háir eru vextirnir (meðalvextir)?


    1. Í árslok 1989 voru innstæður ríkissjóðs og ríkisstofnana í Seðlabanka Íslands 1.478,6 milljónir króna. Þar af voru 679 millj. kr. á viðskiptareikningum sem eru vaxtafærðir í einu lagi með öðrum viðskiptareikningum ríkissjóðs og B-hlutastofnana, 25,8 millj. kr. voru á verðtryggðum reikningum og 773,8 millj. kr. á gjaldeyrisreikningum.
    2. Vaxtagreiðslur af verðtryggðum reikningum og gjaldeyrisreikningum á síðasta ári voru samtals 191,1 millj. kr. Meðalávöxtun gjaldeyrisreikninganna í erlendri mynt var um 8,2% á síðasta ári. Verðtryggðu reikningarnir bera 4% vexti umfram hækkun lánskjaravísitölu.
    3. Ríkissjóður og ríkisstofnanir skulduðu í árslok 1989 9.716,4 millj. kr. í Seðlabankanum. Þar af voru 2.661,1 millj. kr. á viðskiptareikningum, 3.747,4 millj. kr. á skuldabréfum, 1.217,9 millj. kr. í markaðsskráðum spariskírteinum og 2.085,0 millj. kr. í ríkisvíxlum.
    4. Vaxtagreiðslur á árinu voru 1027,1 millj. kr. af skuldabréfum (vextir og verðbætur án gengismunar) eða um 30% af stöðu í ársbyrjun, 18,7 millj. kr. af ríkisvíxlum eða 17% af meðalstöðu og 225,3 millj. kr. af markaðsskráðum spariskírteinum eða um 32% af meðalstöðu. Nettóvaxtagreiðsla á viðskiptareikningum var 1.298,4 millj. kr., sem er 21, 6% af meðalstöðu. Samanlagt námu vaxtagreiðslur með verðbótum 2.570 millj. kr. sem er um 25% af samveginni stöðu.

Nánar um vaxtakjör.


    Skuldabréfalán ríkissjóðs í Seðlabanka eru nær öll verðtryggð og að mestu tengd meðalvöxtum banka og sparisjóða.
    Nær allir viðskiptareikningar ríkissjóðs og ríkisstofnana eru ávaxtaðir samkvæmt sérstökum samningi um vaxtajöfnun. Ávöxtun á nettóskuld er 1% undir meðalávöxtun banka og sparisjóða í mánuðinum á undan, svo fremi nettóskuld sé innan marka sem samið er um þegar greiðsluáætlun ríkissjóðs liggur fyrir á fyrstu mánuðum ársins. Ávöxtun á þeim hluta nettóskuldar, sem er umfram samning, er 1% yfir meðalávöxtun banka og sparisjóða. Vaxtamunur milli innlána og útlána á viðskiptareikningum er því enginn. Vaxtajöfnunarsamningur Seðlabankans við ríkissjóð, sem byggist á áratuga hefð, hefur m.a. það hagræði í för með sér fyrir ríkissjóð að innstæður hans reiknast til lækkunar yfirdráttar þannig að innstæður bera útlánsvexti.
    Af gjaldeyrisreikningum ríkissjóðs eru greiddir Libor-vextir (London Inter Bank Offered Rate) að frádregnu 1 / 8 %.
    Kaup Seðlabankans á spariskírteinum og ríkisvíxlum eru einkum vegna viðskipta við fjármálastofnanir. Afföll eða álög frá útgáfukjörum í slíkum eftirviðskiptum breyta því ekki vaxtakjörum ríkissjóðs miðað við upprunaleg kjör þessara skuldbindinga.
    Meðfylgjandi yfirlit sýnir m.a. að áætlaðir raunvextir á innstæðum ríkissjóðs í Seðlabankanum voru á síðasta ári hærri en raunvextir á skuldum.


(Texti er ekki til tölvutækur.)