Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 293 . mál.


Sþ.

679. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar um hlut Þróunarfélagsins í Iceland Crown í Hamborg og í dótturfyrirtæki þess í Reykjavík.

    Spurt er:
1.     Hvað hefur Þróunarfélagið lagt mikla peninga í Iceland Crown sölufyrirtækið í Hamborg?
2.     Hvers vegna er Iceland Crown að opna dótturfyrirtæki í Reykjavík?
3.     Hve mikla peninga hafa Iceland Crown og Þróunarfélagið lagt í það nýja fyrirtæki?
4.     Geta fyrirtæki einstaklinga og félaga þeirra ekki annast þau viðskipti sem:
    a.     Iceland Crown hefur í Hamborg,
    b.     dótturfyrirtæki þess hefur í Reykjavík?

    Forsætisráðuneytið leitaði svara við nefndum spurningum hjá Þróunarfélagi Íslands hf. Í svarbréfi, er barst ráðuneytinu frá félaginu, segir m.a. svo í inngangi:
    „Þar sem spurningin fjallar einnig um málefni annars fyrirtækis en Þróunarfélagsins vill félagið nota tækifærið og óska eftir að vakin sé athygli hæstvirtra alþingismanna á því að gera verður greinarmun á fyrirspurnum varðandi Þróunarfélagið sjálft og fyrirspurn um starfsemi sjálfstæðra hlutafélaga sem Þróunarfélagið á hluti í. Það verður að teljast í hæsta máta óeðlilegt að eignaraðild ríkisjóðs að hlutafélaginu Þróunarfélag Íslands og fyrirspurnatímar í hæstvirtu Alþingi séu notaðir til að opinbera einkamál hlutafélaga sem Þróunarfélagið á í flestum tilvikum minni hluta í. Fyrirtæki eiga flest hver í harðri samkeppni og spurning er hvort Þróunarfélagið hefur siðferðilegan eða lagalegan rétt til að verða við slíkum beiðnum. Hafi þingmenn í framtíðinni sérstakan áhuga á einkamálefnum hlutafélaga sem Þróunarfélagið hefur fjárfest í óskum við eindregið eftir að viðkomandi þingmenn hafi samband við Þróunarfélagið eða viðkomandi félag og fái þær upplýsingar, sem fyrirtækið kann að vilja gefa, afhentar í trúnaði. Með því móti er komist hjá að einkahagir séu á torg bornir.“
    Umbeðin svör eru svohljóðandi í réttri töluröð fyrirspurna:
1.     Þróunarfélagið lagði fram 3.772.953 kr. og á 41% hlut í félaginu.
2.     Iceland Crown hefur ekki opnað dótturfyrirtæki hvorki í Reykjavík né annars staðar í heiminum. Engin slík áform eru uppi eða hafa verið rædd. Fyrirspurnin byggist því á einhverjum misskilningi.
3.     Enga peninga, sbr. svar við spurningu 2.
4.     Iceland Crown er fyrirtæki í eigu einstaklinga og félaga. Fyrirtækið er alþjóðlegt verslunarhús sem leggur áherslu á innflutning á íslenskri matvöru sem og annarri vöru inn á markaðssvæði Efnahagsbandalagsins. Velta fyrirtækisins á sl. ári (fyrsta starfsári félagsins) var um 600 milljónir íslenskra króna. Hvort önnur fyrirtæki geta annast þessi viðskipti er því til að svara að verkin verða að tala, enda öllum frjálst að reyna. Sá hluti fjórðu spurningar, er snýr að meintu dótturfyrirtæki í Reykjavík, á ekki við rök að styðjast, sbr. það sem að framan segir. Þess má geta að flestir viðskiptavina Iceland Crown hér á landi snúa sér beint til fyrirtækisins í Hamborg varðandi sölu á vörum, enda fyrirtækið tilbúið að kanna sölumöguleika fyrir þá framleiðendur íslenskrar matvöru sem geta boðið góða söluvöru á samkeppnisfæru verði.