Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 451 . mál.


Sþ.

786. Skýrsla



um 41. þing Evrópuráðsins.

Frá íslensku þingmannanefndinni í Evrópuráðinu.



    Í 40 ár hefur Evrópuráðið verið samnefnari þeirra ríkja sem haft hafa lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. Síðasta starfsár hefur verið ár sögulegra áfanga og nýrrar þróunar í álfunni.
    Um skeið hafa farið fram miklar umræður um hlutverk Evrópuráðsins og stöðu þess gagnvart Evrópubandalaginu. Þessar stofnanir eru þó um margt ólíkar. Í Evrópuráðinu eru 23 ríki en í Evrópubandalaginu 12. Á þingi Evrópuráðsins sitja menn sem eru þingmenn í heimalöndum sínum, en á þingi Evrópubandalagsins eru menn kosnir beinum kosningum en þurfa ekki að vera þingmenn á þjóðþingi. Þetta veldur því að í Evrópuráðinu endurspeglar þingið viðhorfin á þjóðþingunum en svo er ekki í öllum tilvikum í Evrópubandalaginu. Þessi staðreynd kann að valda því að nokkur hætta er á óþörfum tvíverknaði þessara stofnana og hefur það reyndar nokkrum sinnum komið í ljós. Tvíverknaður á milli Evrópustofnana hefur orðið mönnum enn ljósari eftir að viðræður hófust milli EFTA og Evrópubandalagsins.
    Stundum hafa menn haft á orði að æskilegt væri að hafa vettvang eða samkomu þar sem aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA-ríkin gætu sameiginlega ráðið ráðum sínum. Ekki er þar með sagt að skynsamlegt sé að koma á fót einni stofnuninni enn með þingum og ráðherranefndum. Þetta hefur þegar verið gert í Evrópuráðinu. Þar er stofnun fyrir hendi sem sameinar báða þessa aðila og getur verið umræðuvettvangur fyrir þá. Á það hefur verið bent að þar eigi þó sæti örfá ríki sem eru ekki nú þegar innan vébanda Evrópubandalagsins og EFTA en að mati flestra Evrópuráðsmanna skiptir sú staðreynd ekki máli í þessu sambandi.
    Hugleiðingar af þessu tagi hafa sett nokkurn svip á umræður í stjórnarnefnd Evrópuráðsins, í pólitísku nefndinni og í ýmsum málefnanefndum þess á undanförnum mánuðum og árum. En þróunin í Evrópu hefur orðið með þeim hætti að niðurstaðan af þessum umræðum hefur aldrei endanlega komið í ljós vegna þess að atburðarásin hefur tekið í taumana ef svo má segja. Þróunin í
Austur-Evrópu hefur orðið til þess að Evrópuráðið mun sinna nýju og aðkallandi hlutverki í sókn þessara þjóða til lýðræðisskipulags og mannréttinda. Í ljós hefur komið, svo að ekki verður um villst, að enginn vettvangur er eins kjörinn til þess að verða farvegur fyrir þau ríki í sókninni til lýðræðis og mannréttinda og einmitt Evrópuráðið.
    Í yfirlýsingu um framtíðarverkefni Evrópuráðsins, sem samþykkt var þar 5. maí sl., segir m.a.:
    „Evrópa stendur nú frammi fyrir mikilvægri þróun. Evrópubandalagið er að ljúka við gerð sameiginlegs evrópsks markaðar. Evrópubandalagið og EFTA-löndin sex eru að vinna að víðara evrópsku efnahagssvæði. Í Austur-Evrópu hafa sum löndin tekið upp stefnu afvopnunar og endurbóta sem skapa nýtt svið fyrir viðræður og samstarf. Þessi þróun krefst þess af Evrópuráðinu að það ítreki og þrói sitt eigið hlutverk.“

Hlutverk Evrópuráðsins.


    Stofnskrá Evrópuráðsins frá 5. maí 1949 er mótuð af þeirri trú að Evrópuríkin geti með því að bindast fastari böndum staðið að því að varðveita lýðræði, mannréttindi og frið í heiminum. Í inngangi stofnskrárinnar segjast þau staðfesta á ný trú sína á þau verðmæti andleg og siðferðileg sem eru hin sameiginlega arfleifð þessara þjóða og hin sönnu upptök einstaklingsfrelsis, stjórnmálalegs frjálsræðis og skipunar laga og réttar.
    Í 3. gr. stofnskrárinnar segir um skilyrði til þess að vera aðili að Evrópuráðinu að sérhvert þátttökuríki þess verði að viðurkenna grundvallarreglurnar um skipun laga og réttar og um að öllum einstaklingum innan umdæmis þess skuli tryggð mannréttindi og grundvallarfrelsi. Ríkin verði og í orði og verki að taka þátt í samvinnu til að ná markmiði ráðsins eins og það er skilgreint í 1. kafla stofnskrárinnar.
    Ríkisstjórn Íslands lagði fram tillögu til þingsályktunar á 69. löggjafarþinginu 1949 um að Ísland tæki þátt í Evrópuráðinu. Tillögugreinin var orðuð svo:
    „Alþingi ályktar að veita ríkisstjórninni heimild til að gerast þátttakandi fyrir Íslands hönd í Evrópuráðinu og takast á hendur þær skyldur sem samkvæmt stofnskrá ráðsins eru samfara þátttöku í því.“
    Í nefndaráliti meiri hlutans sagði:
    „Það verður að sjálfsögðu ekki um það dæmt á þessu stigi hver verða afdrif Evrópuráðsins en markmið þess að koma á nánari einingu þátttökuríkjanna til tryggingar friði sem byggist á réttlæti og alþjóðasamvinnu, svo og til þess að stuðla að framförum á sviði efnahags- og félagsmála, hlýtur vissulega að vera í samræmi við utanríkisstefnu íslenska lýðveldisins. Ísland á ekki að sitja hjá í þessu samstarfi lýðræðis- og menningarríkja álfunnar. Er þess og að vænta er stundir líða fram að Evrópuráðið geti orðið öflugt tæki til að greiða fyrir framkvæmd þeirra hugsjóna er það hefur sett sér að markmiði.“
    Þann 7. febrúar 1950 var tillagan samþykkt og aðild Íslands kom til framkvæmda 1951.
    Á þeim tíma, sem liðinn er, hafa verið settir um 130 Evrópusáttmálar um ýmis svið þjóðlífsins. Allir þessir sáttmálar miða að því að bæta aðstöðu einstaklinga í hversdagslífi sínu með einhverjum hætti. Mikilvægastur þeirra allra er Mannréttindasáttmálinn. Hann er í raun sá þeirra sem veitir mest aðhald. Aðildarríkin verða að breyta löggjöf sinni í samræmi við hann ef niðurstaða Mannréttindadómstólsins felur það í sér að ríkið hafi með löggjöf sinni eða framkvæmd hennar brotið sáttmálann.
    Um hina sáttmálana gilda almennar þjóðréttarreglur og sú grundvallarregla af hálfu ríkjanna að þau geta ekki fullgilt sáttmálana fyrr en reglurnar í landinu sjálfu eru í samræmi við þá. Þess vegna þarf oft lagabreytingu til.
    Af Íslands hálfu hafa ýmsir sáttmálar því miður ekki enn þá hlotið fullgildingu þótt öll lagaleg skilyrði hafi verið í samræmi við þá. Liggja til þessa ýmsar ástæður, m.a. tafir á þýðingum. Sú skýring er þó ekki nægileg. Ástæða er til þess að leggja áherslu á að hér verði bætt úr. Nokkrir sáttmálar eru m.a. um efni þar sem Íslendingar hafa um langt árabil staðið framarlega en hafa þó ekki hlotið fullgildingu hérlendis. Veldur það undrun og er til vansa.
    Auk sáttmálanna er fjöldi ályktana og yfirlýsinga sem Evrópuráðið hefur notað til þess að ná markmiðum sínum, auk hins pólitíska samráðs sem aldrei má vanmeta.
    Í 1. gr. stofnskrár Evrópuráðsins segir:
    „Landvarnamál falla ekki undir verksvið Evrópuráðsins.“
    Þessi atriði, sem nú hafa verið talin, valda því, eins og áður er sagt, að Evrópuráðið hefur reynst kjörinn vettvangur til þess að styðja Austur-Evrópuþjóðir á leið þeirra til lýðræðis og þjóðskipulags, laga og réttar.

Evrópuráðið 40 ára.


    Þing síðasta starfsárs skiptist í fjóra hluta: í maí, júlí, september og fjórði og síðasti hlutinn var í janúar. Starfsárið hófst hinn 5. maí með því að 40 ára afmælis ráðsins var sérstaklega minnst með ýmsu móti. Mitterand Frakklandsforseti var heiðursgestur ráðsins í því tilefni og ávarpaði það sérstaklega. Frakkar hafa veitt höfuðstöðvum ráðsins aðstöðu frá upphafi og raunar fór ekki hjá því að samtímis því sem afmælis Evrópuráðsins var minnst var einnig hátíðlegt haldið 200 ára afmæli frönsku stjórnarbyltingarinnar. Mátti stundum ekki á milli sjá í Strasborg hvort afmælið setti meiri svip á bæinn.
    Á afmælisdaginn var þó einn atburður gleðilegastur frá sjónarhóli Íslendinga séð og raunar flestra Evrópuráðsmanna, en það var hin formlega innganga Finnlands í ráðið. Þar með voru öll lýðræðisríki álfunnar orðin fullgildir aðilar að Evrópuráðinu.
    Af öðrum pólitískum atburðum má mikilvægasta telja afhendingu mannréttindaverðlauna ráðsins sameiginlega til Lech Walesa, hins pólska, og forvígismanna mannréttindahreyfingarinnar sem kennd er við Helsinki-sáttmálann. Bæði Lech Walesa og formaður mannréttindahreyfingarinnar í Vínarborg, sem kennd er við Helsinki-sáttmálann, fluttu ávörp á þinginu. Verður lengi í minnum höfð sú áhrifaríka stund er þeir voru í salnum og ávörpuðu okkur, bæði þeir og svo hinn þekkti andófsmaður Juri Orlov. Formaður mannréttindasamtakanna bar þinginu kveðju annarra samherja sinna, m.a. Václavs Havels sem þá gat ekki sótt fundinn vegna þess að hann var í fangelsi fyrir pólitíska baráttu sína. Engan óraði fyrir því þá að nokkrum mánuðum seinna yrði hann orðinn forseti lands síns.
    Auk þessa gleðilega atburðar, er þessir aðilar veittu formlega viðtöku mannréttindaverðlaunum Evrópuráðsins, héldu þeir fund með hinni pólitísku nefnd ráðsins, stjórnarnefnd ráðsins og nefndinni sem annast málefni ríkja utan Evrópuráðsins. Sá fundur var einnig opinn öðrum þingfulltrúum og þar talaði Lech Walesa og svaraði spurningum. Hafði fundurinn djúp áhrif á alla viðstadda og er óhætt að segja að þá lukust upp augu margra sem áður höfðu haft efasemdir um hlutverk Evrópuráðsins í sambandi við breytingar í Austur-Evrópu. Ræða Lech Walesa, þar sem hann lýsti baráttu sinni og baráttu þjóðar sinnar fyrir auknu frelsi, fól m.a. í sér skírskotun og eindregna bón til ríkja Evrópuráðsins um að þau og stjórnmálamenn í ríkjum þess veittu þeirri viðleitni Pólverja pólitískan stuðning.
    Á þessum fundi fóru fram orðaskipti af mikilli hreinskilni og Lech Walesa sagði m.a.:
    „Í Póllandi þurfum við að reisa efnahag landsins úr rúst. Við þurfum að draga úr skuldum, við þurfum að bæta lífskjör almennings, við þurfum að auka réttindi einstaklinga í baráttunni við stjórnvöld. Það sem við biðjum um er ekki fyrst og fremst fjárhagsaðstoð í venjulegum skilningi því að við megum ekki auka skuldirnar, heldur biðjum við um pólitískan stuðning.“
    Meðal þeirra sem fluttu ræður á þinginu, gáfu skýrslur og svöruðu fyrirspurnum voru Hocke, aðalframkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins. Norðmaðurinn Stoltenberg flutti einnig skýrslu og svaraði fyrirspurnum.
    Hinn 9. maí fór fram kosning nýrra forustumanna Evrópuráðsins, bæði aðalritara og þingforseta. Aðalritari sl. fimm ár hafði verið Spánverjinn Marcelino Oreja en í stað hans var kosinn franski þingmaðurinn Catherine Lalumiere og er það í fyrsta sinn sem kona er kosin til þessa starfs. Hún hafði verið mjög virkur þingmaður í ráðinu, hafði m.a. verið talsmaður pólitísku nefndarinnar. Frú Lalumiere, sem hætti þingmennsku er hún tók við þessu embætti, er fædd 1935, kennari að aðalstarfi, fyrrverandi ráðherra úr flokki sósíaldemókrata.
    Forseti þingsins var kosinn sænski þingmaðurinn Anders Björck, hægri maður, formaður hóps hægri manna á Evrópuráðsþinginu, en hætti því er hann varð forseti þingsins. Anders Björck er fæddur 1944 og hefur átt sæti á sænska þinginu síðan 1969. Báðir þessir embættismenn hafa sýnt í verki vilja sinn til þess að feta í fótspor fyrirrennara sinna, þeirra Oreja og Louis Jung, fyrrverandi þingforseta, að því er varðar samskiptin við Austur-Evrópuþjóðirnar.
    Fram fór umræða um framtíð Evrópuráðsins. Af hálfu Íslands talaði Ragnhildur Helgadóttir og fagnaði sérstaklega aðild Finnlands.
    Af venjubundnum verkefnum ráðsins, sem eru afgreiðsla ýmissa þingmála, má á maíþinginu nefna í fyrsta lagi afgreiðslu ályktunar um málefni flóttamanna frá Mið- og Austur-Evrópu, þar sem hvatt er til þess að nýttur verði í því sambandi Evrópski byggðasjóðurinn (eða European Resettlement Fund). Í öðru lagi tillaga um endurskoðaðan félagsmálasáttmála Evrópu. Í þriðja lagi um verndun guðshúsa. Í fjórða lagi skýrsla um 20 ára svæðaskipulag í Evrópu.
Þessi ályktun var gerð fyrst og fremst með það fyrir augum að auka vægi umhverfisverndar í svæðaskipulagi Evrópu. Í umræðunum um þetta mál tóku margir til máls, m.a. frá Íslandi Hreggviður Jónsson, en hann lagði ásamt Norðmanninum Thoresen áherslu á mikilvægi umhverfisverndar í, á og við sjó. Fimmta tillagan, sem vert er að geta um, varðar aðgerðir gegn eyðingu skóga í hitabeltinu og lögð var áhersla á þýðingu þeirra skóga til þess að halda við núverandi loftslagi og veðurfari.

Annar hluti þingsins.


    Sumarþing Evrópuráðsins var haldið í Strasborg 3.–7. júlí 1989. Þingið átti upphaflega að vera í Innsbruck í Austurríki en vegna komu Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna, á þingið var ákveðið að halda það í Strasborg. Á þingtímanum störfuðu nefndir mikið og síðasta dag þingsins fóru fram umræður um samskipti austurs og vesturs.
    Hápunktur þingsins var ræða Gorbatsjovs. Hann gerði mjög að umtalsefni þær miklu og öru breytingar sem heimurinn stendur frammi fyrir. Ræðan var öll í anda opnunar og samvinnu. Hann sagði að vandinn lægi ekki í mismunandi þjóðfélagsformi og lagði áherslu á sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða til að búa við það þjóðfélagsform sem þær kysu. „Þjóðfélagsleg og stjórnmálaleg skipan sumra þjóða breyttist í fortíðinni og getur eins breyst í framtíðinni en það verður að vera einvörðungu ákvörðun þjóðanna sjálfra og þeirra val.“
    Gorbatsjov hafnar þannig stöðugt Breshnev-kenningunni og leggur þunga áherslu á það. Í ljósi þessara orða hljóta menn að skoða þróunina í Póllandi og Ungverjalandi. Hann sagði:
    „Íhlutun í innri málefni, sérhver tilraun til að takmarka sjálfsákvörðunarrétt ríkja — bæði vina, bandamanna og annarra — er óleyfileg.
    Það er „perestrojku“ að þakka að Sovétríkin munu verða í aðstöðu til að taka þátt í heiðarlegri, uppbyggjandi samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Þrátt fyrir núverandi vanda okkar og að við höfum dregist aftur úr þekkjum við styrkleika þjóðfélagskerfis okkar.“
    Forsetinn lagði áherslu á menningu Evrópu og þátt hennar í þróun alls mannkyns „en gleymum ekki að héðan dreifðist nýlenduþrælkunin út. Í Evrópu varð fasisminn til og í Evrópu hófust hræðilegustu styrjaldirnar.“
    Gorbatsjov varði stórum hluta ræðunnar til að fjalla um afvopnunarmál.
Þar lagði hann áherslu á samþykkt þings Sovétríkjanna sem lýsir sig fylgjandi:
1.     Útrýmingu kjarnavopna úr heiminum um aldamót.
2.     Útrýmingu efnavopna svo fljótt sem auðið er.
3.     Verulegri afvopnun í hefðbundnum vopnabúnaði.
4.     Að draga erlendar hersveitir frá landsvæðum annarra ríkja.
5.     Að lýsa sig andstæða öllum geimvopnum.
6.     Að leysa upp hernaðarbandalög.
7.     Að koma á öflugu raunhæfu eftirliti með framkvæmd allra afvopnunarsamninga.

Evrópsk samvinna.


    Gorbatsjov ræddi um framtíðarþátttöku Sovétríkjanna í Evrópuráðinu og hugsanlegt sendiráð þeirra í Strasborg. Til þess að auka samvinnu Austur- og Vestur-Evrópu nefndi hann:
1.     Byggð yrði nú háhraðajárnbraut um þvera Evrópu.
2.     Sett yrði af stað samvinnuverkefni um nýtingu sólarorku.
3.     Samvinna yrði hafin um vinnslu og geymslu kjarnorkuúrgangs og aukið öryggi kjarnorkuvera.
4.     Aukinn yrði fjöldi ljósleiðara.
5.     Evrópugervihnattasjónvarp.
    Hann stakk upp á miðstöð hjá Sameinuðu þjóðunum til þess að annast neyðarhjálp vegna umhverfisslysa og benti á rannsóknir Sovétmanna við að spá fyrir um jarðskjálfta, þurrka og hugsanlegar veðurfræðilegar breytingar. Jafnframt lagði Gorbatsjov áherslu á aukna samvinnu á sviði mannréttindamála og hvatti til þess að nýr Helsinki-fundur yrði haldinn innan tveggja ára.
    Að lokum sagði hann að „perestrojka“ væri að breyta Sovétríkjunum. „Við höldum ákveðnir fram þann veg og af honum verður ekki aftur snúið. Ríkisstjórnir ykkar og þjóðþing munu fljótlega skipta við algjörlega breytta sósíalíska þjóð.“

Þriðji hluti þingsins.


    Þriðja hluta þingsins sátu, auk fulltrúanna 133 frá 23 Evrópulöndum, gestasendinefndir frá Ungverjalandi, Póllandi, Sovétríkjunum og Júgóslavíu. Þessi lönd höfðu fengið sérstaka gestaaðild samkvæmt samþykkt fyrr á árinu til þess að efla tengsl milli þinga þessara landa í Mið- og Austur-Evrópu. Meðal þeirra, sem fluttu þinginu ávörp, og svöruðu fyrirspurnum, má nefna formann framkvæmdaráðs Evrópubandalagsins, Jacques Delors; forsætisráðherra Tyrklands, Ösal; formann ráðherranefndar Evrópuráðsins, Stoltenberg; og þáverandi formann EFTA-ráðsins, Jón Baldvin Hannibalsson, og aðalritara OECD, Jean-Claude Payer.

Ályktanir þingsins.


    Ef fyrst eru taldar ályktanir sem fólu í sér áskoranir til ráðherranefndarinnar má nefna þessar:
1.    Ályktun um evrópskt fræðslusvæði. Þessi ályktun fól það í sér að skora á ráðherranefndina að beita sér fyrir og þróa evrópskt fræðslusvæði í samstarfi við Evrópubandalagið og UNESCO, Menningar- og fræðslustofnun Sameinuðu þjóðanna, svo og Austur-Evrópuþjóðirnar þar sem því yrði við komið. Samstarfið yrði fyrst og fremst á eftirtöldum sviðum:
    a.    að tryggja betra streymi upplýsinga um aðgerðir af hálfu þeirra stofnana sem vinna að evrópskum fræðslumálum, sérstaklega Evrópuráðsins,
    b.    að hvetja til evrópskrar samvinnu um þjálfun kennara, t.d. með því að beita sér fyrir kennaraskiptum og með því að setja á fót í Strasborg evrópska kennaramiðstöð,
    c.    leggja meiri áherslu á þá vinnu sem fram fer í sögukennslu og nútímatungumálum,
    d.    að styðja rannsóknir innan Evrópu í nýjum viðfangsefnum á sviði hagfræði, umhverfisfræðslu, sjónlistar, tónlistar og vísinda,
    e.    að hvetja til starfrækslu alþjóðlegra neta um samstarf skóla í milli og nýta í því sambandi nútímaupplýsingatækni,
    f.    að leita samstarfs um þessi atriði við þá sem bera ábyrgð á ferðamálum hvers lands.
2.    Þá var samþykkt ályktun um hina almennu stefnumörkun Evrópuráðsins og í henni fyrst og fremst lögð áhersla á samstarf austurs og vesturs í lok 20. aldar. Ályktunin er mjög ítarleg og fól m.a. í sér áskorun á ráðherranefndina um að tryggja nægilega fjármuni til þess að Evrópuráðið gæti sinnt skyldum sínum í þessu samstarfi.
3.    Skorað var á ráðherranefndina að bæta aðstöðu fjölmiðlunar fyrir Evrópuráðið, bæði að efla upplýsingadeildina sjálfa og auka samstarf við blaðamenn.
4.    Samþykkt var ályktun um aðstöðu þjóðernisminnihluta í Rúmeníu og ráðherranefndin, svo og ríkisstjórnirnar, hvattar til þess að hafa þau áhrif á stjórn Rúmeníu að staða þessara hópa batnaði.
5.    Samþykkt var ályktun um áhrif eiturefna sem berast milli landa og viðbrögð við því. Meðal annars var þar sett fram hugmynd um upplýsingamiðlun milli norðurs og suðurs til þess að sporna við mengun af þessum ástæðum.
6.    Ályktað var um mannréttindi og eyðni þar sem aðildarríkin voru m.a. hvött til þess að neita ekki landvist á þeim eina grundvelli að sá sem sækir um landvist sé smitaður eyðniveirum.
7.    Ályktað var um réttindi kynskiptinga þar sem m.a. var tekið fram að lögleiða bæri leyfi til að skipta um skírnarnafn.
    Þá voru gerðar nokkrar ályktanir sem fela í sér áskoranir á ríkisstjórnir aðildarríkjanna. Tvær af þeim vörðuðu málefni Chile. Annars vegar var áskorun á ríkisstjórnir þeirra ríkja þar sem útlagar frá Chile eru búsettir að bæta aðstöðu þeirra og hins vegar um nefnd til þess að fylgjast með kosningunum sem fram fóru í Chile í desember sl. og fylgjast með því hvort þær kosningar færu fram í samræmi við lýðræðisreglur.
    Ályktað var um málefni Ísraels og látin í ljós sú skoðun þingsins að óhjákvæmilegt væri að stefna að því að taka upp samband sem gæti leitt til gagnkvæms trúnaðar milli deiluaðila, þar á meðal sameiginlega og gagnkvæma viðurkenningu milli Ísraels og PLO.
    Ályktað var um málefni EFTA, sérstaklega lýst yfir stuðningi við markmið þeirrar stofnunar og ríkisstjórnir Evrópuráðsins hvattar til þess að athuga sérstaklega breytingu EFTA úr fríverslunarsvæði einvörðungu í tollabandalag.
    Sjötta ályktunin, sem beint var til ríkisstjórnanna, miðar að stækkun hins evrópska efnahagssvæðis til suðurs og skorað var á ríkisstjórnirnar að athuga þann möguleika, eða a.m.k. að stefna að eins hagstæðum verslunarsamböndum og hægt er við suðlægustu lönd Evrópu. Þar eru upp talin Kýpur, Malta, Tyrkland og Júgóslavía.
    Sjöunda ályktunin til ríkisstjórnarinnar er um hættu á veðurfarsbreytingum vegna breytinga á ósonlaginu. Í þessari ályktun er orðuð hugmyndin um evrópska sameiginlega yfirlýsingu um vernd umhverfisins þar sem gert væri ráð fyrir evrópskum dómstóli sem fjallaði um framkvæmd reglna til verndar umhverfinu og viðurlaga fyrir brot á þeim reglum.
    Í áttunda lagi má nefna ályktun um aðstöðu þjóðernisminnihluta og múhameðstrúarminnihluta í Búlgaríu.
    Í níunda lagi var áskorun til ríkisstjórnanna um aðgerðir til þess að draga úr og fylgjast með vopnaútflutningi til landa þriðja heimsins og um verndun mannréttinda í þessu sambandi.
    Í tíunda lagi var ályktun um framtíð hvalveiða. Þessa ályktun höfðu Íslendingar látið til sín taka þar eð framsögumenn voru Kjartan Jóhannsson og Kinnoull lávarður, en við framsögumannsstarfi Kjartans tók Eiður Guðnason þegar Kjartan hætti þingmennsku. Í þessari ályktun var það m.a. viðurkennt að vísindaveiðar gætu farið fram ef vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins féllist á það að þær mundu ekki stefna mikilvægum hvalastofnum í hættu og að þær mundu leiða til upplýsinga sem hefðu mikið gildi. Í þessari ályktun var líka viðurkennt að það gæti samt verið nauðsynlegt einhvern tíma í framtíðinni að endurskoða aðstöðuna til þess að tryggja jafnvægi í lífríki sjávarins. Eiður Guðnason tók þátt í umræðunum um þessa tillögu og útskýrði afstöðu og aðstöðu Íslendinga.
    Ellefta samþykktin, sem gerð var, varðaði starf Efnahags- og þróunarstofnunarinnar í París, OECD, en nefnd frá þeirri stofnun situr jafnan þing Evrópuráðsins og Evrópuráðið er í rauninni eina þingmannasamkundan sem á með þessum hætti aðild að og tekur þátt í umræðum. Þess vegna eru við þetta tækifæri í salnum fulltrúar, með málfrelsi, frá þingum þeirra aðildarríkja OECD sem eiga ekki aðild að Evrópuráðinu.
    Að síðustu má svo nefna ályktun Evrópuráðsins í formi tilskipunar um eigin aðgerðir þingsins en sú ályktun bannar tóbaksreykingar á nefndarfundum ráðsins og þykir mörgum mikil framför að og andrúmsloftið léttara í orðsins fyllstu merkingu.

Fjórði hluti þingsins.


    Síðasti hluti 41. þings Evrópuráðsins var haldinn í Strasborg dagana 29. janúar til 2. febrúar á þessu ári. Þeir atburðir, sem settu mestan svip á þetta þing, voru ræður forsætisráðherra Ungverjalands og Póllands og auk þess mikil umræða um þróunina í Mið- og Austur-Evrópu og sérstök ályktun þar að lútandi.
    Opinber gestur þingsins að þessu sinni var Georgios Vassiliou, forseti Kýpur, og eins og jafnan áður varð líka mikil umræða í framhaldi af ræðu formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins sem nú er utanríkisráðherra Portúgals, Pineiro.
    Það var sérstakt andrúmsloft þegar Evrópuráðið kom saman til fundar að þessu sinni. Aðeins skömmu áður hafði hið mikla sýnilega tákn ófrelsis í Austur-Evrópu, Berlínarmúrinn, verið rofið. Austur-Þýskaland bættist í hóp þeirra ríkja sem sótti um gestaaðild að Evrópuráðinu. Þegar forsætisráðherra Ungverjalands, M. Nemeth, tók til máls á fyrsta degi þingsins var það ljóst að aldrei höfðu jafnmargir blaðamenn verið viðstaddir fundi þings Evrópuráðsins og að þessu sinni.
    Ungverjar höfðu sótt formlega um fulla aðild að Evrópuráðinu í nóvembermánuði og þá kom utanríkisráðherra landsins, G. Horn, fram fyrir hönd þess en núna forsætisráðherrann og flutti sams konar frelsisboðskap. Bæði ræða hans í sjálfum þingsalnum og ræða í hádegisverði, sem forseti þingsins hélt honum til heiðurs, vöktu mikla athygli viðstaddra og höfðu ýmsir á orði að það hefði ekki gerst fyrir tveimur eða jafnvel einu ári að hann gæfi viðstöddum til kynna kristið trúarviðhorf sitt, en með því lauk hann ræðu sinni.
    Næsta dag flutti forsætisráðherra Póllands, T. Masowiecki, áhrifamikla ræðu þar sem hann lýsti þróun í landi sínu og sókn ríkisins til frelsis, mannréttinda og lýðræðis, svo og markaðskerfis í efnahagsmálum. Hann lýsti því jafnframt yfir að þennan dag mundi Pólland einnig leggja fram formlega umsókn um fulla aðild að Evrópuráðinu.
    Þess er að geta í þessu sambandi að jafnan þegar nýtt ríki sækir um fulla aðild að ráðinu hefst af hálfu Evrópuráðsins vinna sem miðar að úttekt á stjórnlagakerfi þess lands til þess að ganga úr skugga um að skilyrðum stofnskrárinnar um mannréttindi, réttarríki og lýðræði í stjórnarfari sé fullnægt. Þess vegna má búast við því að á vori komanda verði bæði þessi ríki, Ungverjaland og Pólland, komin í hóp Evrópuráðsríkjanna. Um þetta leyti höfðu líka Búlgaría og Tékkóslóvakía óskað eftir því að fá gestaaðild að ráðinu eins og þegar hafði verið veitt löndunum fjórum, Ungverjalandi, Póllandi, Júgóslóvakíu og Sovétríkjunum. Gestaaðildin er eins konar bráðabirgðaaðild því að í upphafi hvers þings er gert ráð fyrir að athugun fari fram á kjörbréfum nefndarmanna og þá jafnframt á því hvort ríkin teljist uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir gestaaðild. Skilyrði er m.a. að ríkin uppfylli ákvæði Helsinki-sáttmálans um mannréttindi.
    Fyrsta ályktun þingsins fjallaði um stöðu mála í Mið- og Austur-Evrópu. Þar er m.a. skorað á ráðherranefndina að halda sérstakan fund eins fljótt og auðið er, að undangengnum viðræðufundi með fastanefnd Evrópuráðsþingsins, allt í þeim tilgangi að efla samstarfið við ríki þessa svæðis Evrópu og greiða fyrir því á allan hátt sem hugsanlegur er og framkvæmanlegur.
Ályktuninni lýkur á yfirlýsingu um að markmið ráðherranefndarinnar og þingsins hljóti að vera að styðja þá þróun í Mið- og Austur-Evrópu sem gerir löndunum kleift að uppfylla skilyrði fyrir aðild að Evrópuráðinu eins fljótt og auðið er svo að þau geti tekið fullan þátt í uppbyggingu Evrópu okkar daga. Ragnhildur Helgadóttir og Guðmundur G. Þórarinsson tóku þátt í umræðunni.
    Önnur ályktunin var um flóttamenn frá löndum Mið- og Austur-Evrópu eins og stundum hafði verið ályktað um áður, en að þessu sinni var ráðherranefndin hvött til þess að halda ráðstefnu eins fljótt og auðið er um vandamál flóttamanna í Evrópu og gera ráð fyrir því að Mið- og Austur-Evrópuríki, sem ekki væru aðilar að Evrópuráðinu, gætu tekið þátt í slíkri ráðstefnu á jafnréttisgrundvelli miðað við hin ríkin. Í ályktuninni er gert ráð fyrir að Ungverjalandi sé boðið að verða aðili að Þróunarsjóði Evrópuráðsins.
    Þriðja ályktunin, sem þingið samþykkti, fjallaði um réttindi barna. Mikil vinna liggur að baki þessari ályktun og gert er ráð fyrir að enn þá ítarlegri vinna fari fram. Í fyrsta lagi eru löndin hvött til þess að undirskrifa og fullgilda þá þætti félagsmálasáttmála Evrópu, sem varða börn, og ýmsa aðra Evrópusáttmála sem börn varða, m.a. sáttmálann um lagalega stöðu óskilgetinna barna. Þá er ráðherranefndin hvött til þess að skora á aðildarríkin að athuga, ef þau hafa ekki enn þá gert það, skipun sérstaks umboðsmanns fyrir börn. Enn fremur að gera það sem þau geta til þess að unnt verði að fullgilda fljótlega og koma til framkvæmda hinum nýja sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Stjórnarnefnd mannréttindamála við Evrópuráðið er hvött til þess að athuga möguleika á því að undirbúa viðbótarbókun við Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, sérstaklega með réttindi barna í huga. Hvatt er þó til þess að frekari rannsóknir fari fram áður en það yrði, sérstaklega á stöðu barna gagnvart dómstólum og hvernig börn geti borið fyrir sig ýmis grundvallarréttindi. Enn fremur er ályktað að betur þurfi að upplýsa börn um réttindi sín. Gert er ráð fyrir að allar þessar rannsóknir verði gerðar í samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir eins og Evrópubandalagið, Alþjóðavinnumálastofnunina, ráðstefnuna í Haag um alþjóðlegan einkamálarétt og auk þess verði haft samstarf við áhugamannasamtök um þessi efni. Af Íslands hálfu tók Ragnhildur Helgadóttir þátt í umræðunum um þessa ályktun.
    Ályktað var um atvinnumál í sveitum og að nýta upplýsingatækni til þess að auka atvinnu í sveitum. Var þar nefnt t.d. að skynsamlegt gæti verið að nota upplýsingatækni til þess að auka valddreifingu í opinberum þjónustustörfum og stjórnarstörfum.
    Ályktun var gerð um jarðir sem teknar eru úr notkun sem landbúnaðarjarðir fyrir atbeina stjórnvalda. Af Íslands hálfu talaði Guðmundur G. Þórarinsson í þessu máli.
    Samþykkt var ályktun um fjarskipti í Evrópu og skorað á ríkisstjórnir aðildarríkjanna að tryggja að þróun nýrra fjarskiptamiðla stuðli að því að auka frelsi einstaklinga til upplýsinga og efla þar með lýðræðið. Þar er einnig skorað á ríkisstjórnirnar að styðja upplýsinganet til þess að auka samstarf miðstöðva vísindarannsókna í Evrópu. Enn fremur að styðja verkefni til þess að þróa almenna menntun og starfsmenntun með verkefnum og kerfum sem nota allar tegundir nútímatækni í því skyni.
    Þá var ályktað um flutninga í Evrópu og þar gert ráð fyrir að fyrst og fremst þyrfti að leggja áherslu á þrjú svið. Í fyrsta lagi samvinnu í flutningamálum á hinu evrópska efnahagssvæði. Í öðru lagi samstarf milli Austur- og Vestur-Evrópu í flutningamálum. Í þriðja lagi lausn umhverfisvandamála sem tengjast flutningum.
    Loks var samþykkt ályktun vegna vaxandi umferðar í lofthelgi og við flugvelli Evrópu. Tók Guðmundur G. Þórarinsson þátt í þeirri umræðu.

Fastanefndin og ályktanir hennar.


     Fastanefndin (Standing Committee) tekur ákvarðanir milli þinga. Hún undirbýr þingin, ákveður fyrirkomulag og tekur ákvarðanir um dagsetningar í því sambandi. Í fastanefndinni eru forseti ráðsins og allir varaforsetar, allir formenn málefnanefnda þingsins, auk nokkurra fulltrúa sem kosnir eru á þinginu. Það eru að öðru jöfnu þeir formenn sendinefnda sem ekki eru varaforsetar.
    Hér verður getið um nokkrar samþykktir fastanefndarinnar, annars vegar frá því í júlímánuði og hins vegar frá nóvembermánuði.
    Í júlímánuði voru samþykktar álitsgerðir um fjárlög Evrópuráðsins og um ráðstefnustarfsemi sveitarstjórnarmanna úr Evrópuráðslöndum, auk ályktana um aðstæður búlgarskra flóttamanna í Tyrklandi og ályktunar um fjarkennslu.
    Í nóvembermánuði var samþykkt stefnumörkun vegna þróunarinnar í Austur-Þýskalandi og um afstöðu til hugsanlegrar aðildar Evrópubandalagsins að félagsmálasáttmála Evrópuráðsins, en það mál hafði verið undirbúið í samstarfi Evrópubandalagsins og Evrópuráðsins, þ.e. félagsmálanefnda þessara stofnana. Samþykkt var tillaga um samsetningu þingmannanefnda aðildarríkjanna. Með tilvísun til samþykktar, sem fastanefndin hafði gert árið 1986 um breytingu á 26. gr. stofnskrár Evrópuráðsins um samsetningu nefndanna þar sem kveðið var á um að nefndirnar skyldu endurspegla hlutföll á þjóðþingunum, var samþykkt að undirstrika þetta sjónarmið og ályktað um breytingar á stofnskrárákvæðinu þess efnis að þess verði gætt eftir föngum í samsetningu nefndanna að hinir pólitísku straumar á þingunum endurspeglist sem allra best.

Íslenska nefndin á þingi Evrópuráðsins.


    Stofnskrá Evrópuráðsins segir til um hve marga fulltrúa hvert aðildarríki geti átt á þinginu. Ísland á samkvæmt stofnskránni þrjá fulltrúa á þingi Evrópuráðs. Hvert ríki hefur rétt til að tilnefna jafnmarga varafulltrúa og aðalfulltrúarnir eru. Kjörtímabil fulltrúanna er frá upphafi hvers þings til upphafs næsta þings, nema þingkosningar hafi farið fram á tímabilinu, fulltrúi forfallist, falli frá eða segi af sér í ráðinu. Í upphafi 41. þingsins voru aðalfulltrúar þau Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Kjartan Jóhannsson en varafulltrúar Ragnar Arnalds, Hreggviður Jónsson og Kristín Halldórsdóttir. Eins og kunnugt er sögðu þau af sér þingmennsku Kjartan Jóhannsson og Kristín Halldórsdóttir í sumar og haust en sæti þeirra tóku þau Eiður Guðnason og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Formaður nefndarinnar var Ragnhildur Helgadóttir og varaformaður Guðmundur G. Þórarinsson. Ritari nefndarinnar var fyrri hluta tímabilsins Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóri Alþingis, en síðari hluta tímabilsins Ólafur Ólafsson, varaskrifstofustjóri Alþingis. Aðstoðarmaður og umsjónarmaður skjalavörslu ráðsins er Þóra Guðnadóttir.
    Meginvinna þingsins fer fram í nefndum þess en þær eru alls 13, þar af eru 7 nefndir sem um 40 þingmenn eiga sæti í. Færri eru í hinum nefndunum en samkvæmt stofnskránni á Ísland eitt sæti í hverri nefnd, hvort sem heildarfjöldi nefndarmanna er 25 eða 40. Nefndirnar og aðild Íslendinga að þeim er sem hér segir:

1.    Stjórnmálanefnd:     Ragnhildur Helgadóttir.
2.    Efnahagsnefnd:     Guðmundur G. Þórarinsson,
         til vara:     Ragnar Arnalds.
3.    Laganefnd:     Eiður Guðnason,
         til vara:     Ragnhildur Helgadóttir.
4.    Mennta- og menningarmálanefnd:     Ragnar Arnalds,
         til vara:     Guðmundur G. Þórarinsson.
5.    Félags- og heilbrigðismálanefnd:     Ragnhildur Helgadóttir.
6.    Landbúnaðarnefnd:     Eiður Guðnason.
7.    Nefnd um samskipti við lönd
    utan Evrópuráðsins:     Þórhildur Þorleifsdóttir.
8.    Nefnd um almannatengsl þingsins:     Hreggviður Jónsson.
9.     Þingskapanefnd:     Ragnar Arnalds.
10.    Vísinda- og tækninefnd:     Eiður Guðnason.
         til vara:     Guðmundur G. Þórarinsson.
11.    Fjárlaganefnd:     Ragnar Arnalds.
12.     Skipulags- og sveitarstjórnarmálanefnd:     Hreggviður Jónsson.
13.     Flóttamannanefnd:     Guðmundur G. Þórarinsson.

    Ef vikið er að nokkrum verkefnum Íslendinganna í nefndunum má nefna að Kjartan Jóhannsson hafði á fyrri hluta tímabilsins, en Eiður Guðnason á síðari hluta tímabilsins, með höndum framsögu um tiltekið málefni í landbúnaðarnefndinni, þ.e. um framtíð hvalveiða. Ragnar Arnalds er framsögumaður og undirbýr framsögu í máli sem varðar kennslu og varðveislu tungumála þjóðernisminnihluta. Ragnhildur Helgadóttir er framsögumaður og undirbýr skýrslu um heilbrigðismálastefnu Evrópu fyrir hönd félags- og heilbrigðismálanefndarinnar. Heilbrigðismálanefndin fól Ragnhildi að sækja fyrir hönd Evrópuráðsins ráðherrafund um heilbrigðis- og umhverfismál sem haldinn var í Frankfurt í desember sl. Flutti hún þar ávarp fyrir hönd ráðsins.
    Það skiptir miklu máli að taka þátt í nefndarstörfunum því að þar gefst best tækifæri til að hafa áhrif á einstök mál og móta niðurstöðu nefndanna sem venjulega verður niðurstaða þingsins sjálfs. Meðal annars hafa verið haldnir mikilvægir fundir í mörgum nefndanna nú á þessu liðna starfsári þar sem bein samskipti og viðræður við Austur-Evrópuþjóðirnar hafa verið ríkur þáttur. Utanríkisráðherrar þriggja Austur-Evrópuríkja sátu fundi í pólitísku nefndinni nú í vetur, utanríkisráðherrar Ungverja, Tékkóslóvaka og Pólverja. Pólverjinn og Ungverjinn töluðu með eindregnum hætti um markaðsbúskap og einstaklingsfrelsi, raunar tékkneski ráðherrann líka þótt með örlítið öðrum hætti væri. Nefndarfundur var með hverjum ráðherranna fyrir sig og svöruðu þeir spurningum.
    Nefndarfundirnir á liðnu starfsári hafa einnig skipt miklu í sambandi við þær hræringar sem nú eiga sér stað vegna aðdraganda hins evrópska efnahagssvæðis og aukinna umsvifa Evrópubandalagsins.
    42. þing ráðsins hefst svo í Strasborg í maímánuði nk. og má búast við að þar verði einnig mikið um fréttnæma atburði eins og á síðasta þingi. Óhætt er að segja að það hafi verið tímabær ábending á sínum tíma sem fyrrverandi forseti Evrópuráðsins, Louis Jung, setti fram í fyrra að ráðinu bæri í ljósi þróunarinnar að endurskoða og endurmeta hið upphaflega hlutverk sitt og ítreka meginatriði þess því að það er ljóst að fleiri ríki og stærri svæði heims en áður var hafa nú lært að meta það.