Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 475 . mál.


Nd.

828. Frumvarp til laga



um mannanöfn.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



I. KAFLI


Eiginnöfn.


1. gr.

    Hverju barni skal gefa eiginnafn, eitt eða tvö.
    Þeir sem fara með forsjá barns hafa bæði rétt og skyldu til að gefa því eiginnafn eftir því sem greinir í lögum þessum.

2. gr.

    Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafn má ekki heldur vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Hvorki má gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn.
    Óheimilt er að gefa barni ættarnafn sem eiginnafn nema hefð sé fyrir því nafni.

3. gr.

    Mannanafnanefnd skv. 17. gr. semur skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast skv. 2. gr. og er hún nefnd mannanafnaskrá í lögum þessum. Hagstofa Íslands gefur skrá þessa út og sendir hana öllum sóknarprestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga. Skrána skal endurskoða eftir því sem þörf er á, en hún skal gefin út í heild ekki sjaldnar en á fimm ára fresti.

4. gr.

    Barn getur öðlast nafn við skírn í Þjóðkirkjunni eða í skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Hagstofu Íslands, Þjóðskrár, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags.
    Skylt er að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess.

5. gr.

    Eigi að gefa barni nafn við skírn sem prestur Þjóðkirkjunnar, forstöðumaður eða prestur skráðs trúfélags á að annast skal forsjármaður þess skýra þeim, um leið og skírnar er óskað, frá nafni því eða nöfnum sem barnið á að hljóta. Sé nafn, sem barn á að hljóta, ekki á mannanafnaskrá skal prestur eða forstöðumaður trúfélags ekki samþykkja það að svo stöddu né veita umbeðna skírn heldur skal málinu skotið til mannanafnanefndar.
    Hafi barn verið skírt skemmri skírn má, þegar skírn er lýst eða hún tilkynnt skv. 1. mgr. 4. gr., gefa barni nýtt nafn í stað þess sem því var áður gefið eða annað nafn til viðbótar áður gefnu nafni.
    Berist Þjóðskrá tilkynning um eiginnafn, sem er ekki á mannanafnaskrá, skal það ekki skráð að svo stöddu heldur skal málinu skotið til mannanafnanefndar.

6. gr.

    Mannanafnanefnd kveður upp úrskurði í þeim málum sem til hennar er vísað skv. 5. gr. Ef felldur er synjunarúrskurður skal forsjármaður barns velja því annað eiginnafn. Skal nafn þá ekki fært á þjóðskrá fyrr en barninu hefur verið gefið eiginnafn sem er á mannanafnaskrá eða mannanafnanefnd samþykkir, sbr. enn fremur ákvæði til bráðabirgða II.

7. gr.

    Hafi barni verið gefið eitt nafn við skírn eða með tilkynningu skv. 1. mgr. 4. gr. er forsjármönnum þess heimilt að gefa því annað eiginnafn til viðbótar áður gefnu nafni. Þetta skal gert með tilkynningu til Þjóðskrár eigi síðar en sex mánuðum eftir að frestur til nafngjafar rann út, sbr. 2. mgr. 4. gr.
    Hafi barni verið gefið eitt nafn eða tvö við skírn eða með tilkynningu skv. 1. mgr. 4. gr. er dómsmálaráðuneyti heimilt að leyfa að eiginnafni/nöfnum barnsins sé breytt, enda sé ósk borin fram um það af forsjármönnum barnsins eigi síðar en sex mánuðum eftir að frestur til nafngjafar rann út, sbr. 2. mgr. 4. gr.
    Dómsmálaráðuneyti er heimilt að leyfa manni nafnbreytingu ef telja verður að nafn hans sé honum til ama eða aðrar gildar ástæður mæli með því.
    Sé barn ættleitt eftir að því var gefið nafn má í ættleiðingarbréfi gefa því nýtt eiginnafn í stað hins fyrra eða til viðbótar einu nafni sem það hefur áður hlotið. Sú ákvörðun skal jafnan háð samþykki barnsins sjálfs sé það orðið tólf ára.
    Það er skilyrði viðbótarnafngjafar og nafnbreytingar skv. 1.–4. mgr. að hin nýju nöfn séu á mannanafnaskrá eða samþykkt af mannanafnanefnd. Nafnbreyting barns samkvæmt þessari grein er enn fremur háð því skilyrði að séu forsjármenn þess tveir undirriti þeir báðir beiðni um nafnbreytinguna.

8. gr.

    Ákvæði 1. og 2. gr. taka ekki til barns, sem fætt er hér á landi, ef bæði faðir og móðir skilgetins barns, eða móðir óskilgetins barns hafa erlent ríkisfang.
    Sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari eða hafi verið það er heimilt að barninu sé gefið erlent nafn sem hið síðara af tveimur eiginnöfnum. Heimild þessi er háð þeim skilyrðum að fyrra eiginnafn barnsins fullnægi ákvæðum 2. gr. og að unnt sé að sýna fram á að hið erlenda nafn sé gjaldgengt eiginnafn í heimalandi hins erlenda foreldris þess.

II. KAFLI

Kenninöfn.

9. gr.

    Hver maður, sem hefur ekki ættarnafn, sbr. 2. mgr., skal kenna sig til föður eða móður þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum komi nafn föður eða móður í eignarfalli, að viðbættu orðinu son ef karlmaður er, en dóttir ef kvenmaður er.
    Íslenskir ríkisborgarar, sem samkvæmt þjóðskrá bera ættarnöfn við gildistöku þessara laga, mega bera þau áfram. Sama gildir um niðja þeirra hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg.
    Ekki er manni heimilt að bera fleiri en eitt kenninafn, sbr. þó 2. mgr.
    Óheimilt er að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.

10. gr.


    Erlend kona, sem giftist Íslendingi er ekki hefur ættarnafn, má kenna sig til föður eða móður eiginmanns síns á sama hátt og hann og hún má halda því áfram eftir að hún öðlast íslenskt ríkisfang. Ekki tekur þetta til niðja slíkra hjóna.
    Hafi íslensk kona gift Íslendingi tekið upp föðurnafn hans sem kenninafn við búsetu erlendis er henni skylt að leggja það niður við flutning til landsins, sbr. 1. mgr. 9. gr. Sama gildir um börn slíkra hjóna.
    Gift kona, sem við gildistöku þessara laga er kennd til föður eða móður eiginmanns síns á þjóðskrá, má gera það áfram.

11. gr.

    Barn erlends manns og íslenskrar konu má bera ættarnafn föður síns, kenna sig til móður sinnar eða hafa ættarnafn hennar ef til er. Þá er og heimilt, að fengnu samþykki mannanafnanefndar, að barnið beri íslenskt kenninafn sem lagað er að hinu erlenda eiginnafni föðurins.

12. gr.

    Ófeðrað barn skal kennt til móður sinnar, móðurafa síns eða fá ættarnafn móður sinnar ef til er. Gangi móðir barnsins í hjónaband má kenna barnið til stjúpföður síns.
    Heimilt er með leyfi dómsmálaráðuneytis að feðrað barn sé kennt til stjúpföður síns. Leitað skal umsagnar kynföður barnsins ef unnt er áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi.
    Þegar barn er ættleitt skal það kennt til kjörforeldris nema kjörforeldri óski eftir því að barnið haldi fyrra kenninafni sínu.
    Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal jafnan háð samþykki stjúpföður, svo og barnsins sjálfs sé það orðið tólf ára.

13. gr.

    Eiginkonu eða eiginmanni er heimilt að bera ættarnafn maka síns meðan hjúskapur stendur og eftir að honum lýkur. Þó getur maður krafist þess að dómsmálaráðuneyti úrskurði að fyrri maka sé óheimilt að bera ættarnafn hans eftir að hann eða hún gengur í annan hjúskap. Sé viðkomandi maður látinn hefur eftirlifandi maki hans sama rétt til að gera þess háttar kröfu. Krafa skal gerð innan sex mánaða frá því að hlutaðeigandi gekk í hjúskap. Dómsmálaráðuneyti reisir úrskurð sinn á því hvort þyngra sé á metum, hagsmunir fyrri maka af því að halda nafni eða þau rök sem fram eru flutt fyrir því að hann hætti að bera fyrra nafn.

14. gr.

    Ekki er manni skylt að bera ættarnafn þótt hann hafi rétt til þess. Maður getur fellt niður ættarnafn sem hann hefur borið og kennt sig svo sem segir í 9., 11. og 12. gr., sbr. og 21. gr. Eins getur maður, sem hefur ekki borið ættarnafn en hefur rétt til þess, tekið það upp. Þó er manni óheimilt að gera slíkar breytingar oftar en einu sinni eftir að hann nær sextán ára aldri nema með leyfi dómsmálaráðuneytis, enda mæli sérstakar ástæður með henni. Þessi takmörkun tekur ekki til réttar maka til breytingar kenninafns skv. 2. og 3. mgr.
    Þegar maður gengur í hjúskap er honum frjálst að bera áfram það kenninafn sem hann hafði þá, sbr. þó 13. gr., eða taka

1. gr.


    2. gr. laganna orðist svo:
    Bifreiðagjald skal vera 3,91 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar. Sé bifreið þyngri en 1.000 kg skal að auki greiða 1,96 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar sem er umfram 1.000 kg. Þó skal aldrei greiða lægra gjald en 2.000 kr. né hærra gjald 11.500 kr. af hverri bifreið á hverju gjaldtímabili, sbr. 1. mgr. 3. gr.

2. gr.

    Lokamálsliður 5. gr. laganna orðist svo: Grunngjöld bifreiðagjalds og lágmarksgjalds eru miðuð við vísitölu 1. júní 1990.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1990. Þó skal ákvæði til bráðabirgða I öðlast þegar gildi og innheimta bifreiðagjalds samkvæmt því koma til framkvæmda fyrir gjaldtímabilið 1. janúar 1990 til 30. júní 1990. upp ættarnafn maka síns en óheimilt að bera bæði kenninöfnin.
    Hafi maður tekið ættarnafn maka síns er honum frjálst að taka upp að nýju upprunalegt kenninafn sitt þegar hjúskap er lokið. Í öðrum tilvikum er manni, sem hefur eitt sinn hætt að bera ættarnafn, ekki heimilt að taka það upp aftur.

15. gr.

    Nú fær maður, er heitir erlendu nafni, íslenskt ríkisfang með lögum og skulu þá börn hans fimmtán ára og yngri, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 100/1952, taka upp íslenskt eiginnafn, sbr. þó 2. mgr. 8. gr., og kenninafn sem samþykkt er af mannanafnanefnd. Börnum hans sextán ára og eldri er þetta einnig heimilt. Maðurinn skal sjálfur taka sér íslenskt eiginnafn ásamt nafni sem hann ber fyrir er börn hans taka sem kenninafn. Honum skal þó heimilt, ef hann kýs heldur, að breyta eiginnafni sínu og/eða ættarnafni eftir ákvæðum þessara laga. Slík nafnbreyting skal ákveðin samtímis því að dómsmálaráðuneyti gefur út bréf um að hlutaðeigendur öðlist íslenskt ríkisfang. Barni, sem fæðist eftir að foreldri þess hefur fengið íslenskt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenskt eiginnafn, sbr. þó 2. mgr. 8. gr., og það skal fá íslenskt kenninafn.
    Ákvæði 1. mgr. taka á hliðstæðan hátt til útlendinga sem fá íslenskt ríkisfang skv. 2.–4. gr. laga nr. 100/1952.

16. gr.

    Dómsmálaráðuneyti er heimilt að leyfa manni breytingu á kenninafni aðra en þá sem um getur í lögum þessum ef telja verður að kenninafn hans sé honum til ama eða aðrar gildar ástæður mæli með því.

III. KAFLI

Mannanafnanefnd.

17. gr.

    Dómsmálaráðherra skipar mannanafnanefnd til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skulu tveir nefndarmenn skipaðir eftir tilnefningu heimspekideildar Háskóla Íslands en einn eftir tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

18. gr.

    Mannanafnanefnd hefur eftirtalin verkefni samkvæmt lögum þessum:
1.    Að semja skrá um eiginnöfn sem heimil teljast, sbr. 3. gr.
2.    Að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Hagstofunni, dómsmálaráðuneyti og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn, sbr. 2., 5., 6., 7. og 15. gr.
3.    Að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun o.fl. þess háttar.
    Úrskurðir mannanafnanefndar eru fullnaðarúrskurðir. Nefndin skal árlega birta niðurstöður úrskurða sinna.

IV. KAFLI


Skráning og notkun nafna.

19. gr.

    Breyting á eiginnafni eða kenninafni samkvæmt lögum þessum tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð á þjóðskrá.
    Við skráningu kenninafns barns á þjóðskrá skal fara eftir ákvæðum 1. mgr. 9. gr. þessara laga nema fram sé tekið í tilkynningu til Þjóðskrár að barnið skuli bera ættarnafn, sbr. 2. mgr. 9. gr.
    Maður, sem við giftingu óskar að taka upp ættarnafn maka síns eða annað kenninafn sem hann á rétt á, skal tilkynna það vígslumanni og færir hann þau tilmæli á hjónavígsluskýrslu til Þjóðskrár.

20. gr.

    Fullt nafn manns er eiginnafn hans eða eiginnöfn að viðbættu kenninafni.
    Á öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skulu nöfn manna rituð eins og þau eru skráð á þjóðskrá á hverjum tíma.
    Í skiptum við opinbera aðila, við samningsgerð, skriflega og munnlega, svo og í öllum lögskiptum skulu menn tjá nafn sitt eins og það er ritað á þjóðskrá á hverjum tíma.

21. gr.

    Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, getur heimilað að ritun nafns á þjóðskrá sé breytt án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Slík breyting á nafnritun skal fara eftir reglum sem Hagstofan setur að höfðu samráði við mannanafnanefnd. Hver maður getur aðeins fengið slíka breytingu gerða einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

22. gr.

    Geti maður fært sönnur að því að annar maður noti nafn hans eða nafn sem líkist því svo mjög að villu geti valdið getur hann krafist þess í dómsmáli að hinn sé skyldaður til að láta af notkun nafnsins.

23. gr.

    Nú er barni ekki gefið nafn innan þess tíma sem um getur í 2. mgr. 4. gr. og skal Þjóðskrá þá tilkynna það dómsmálaráðherra. Heimilt er ráðherra, að undangenginni skriflegri áskorun, að leggja dagsektir á forsjármann/forsjármenn barns og falla þær á þar til barni er gefið nafn. Dagsektir renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra.
    Að öðru leyti varða brot gegn lögum þessum sektum nema þyngri viðurlög liggi við eftir öðrum lögum.

24. gr.

    Dómsmálaráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga.

25. gr.

    Lög þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru sex mánuðir frá birtingu þeirra.
    Jafnframt falla þá úr gildi lög um mannanöfn, nr. 54 27. júní 1925, svo og 67. gr. laga nr. 10/1983.
    Dómsmálaráðherra skal þegar eftir birtingu laga þessara gera ráðstafanir til að kynna almenningi efni þeirra.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Dómsmálaráðherra skal svo fljótt sem við verður komið eftir birtingu laga þessara skipa mannanafnanefnd og skal nefndin þá þegar hefjast handa við að undirbúa starfsemi sína og framkvæmd laganna.

II.


    Þar til mannanafnaskrá skv. 3. gr. hefur verið gefin út skulu prestar, forstöðumenn skráðra trúfélaga og Hagstofa Íslands skjóta öllum nafngjöfum, sem vafi er á að samrýmist ákvæðum 2. gr., til úrskurðar mannanafnanefndar, sbr. 6. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem menntamálaráðherra skipaði 2. október 1989. Í nefndinni áttu sæti dr. Guðrún Kvaran orðabókarritstjóri, formaður, dr. Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri og Svavar Sigmundsson dósent. Með nefndinni hefur starfað Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri Þjóðskrár. Áður hafði fyrrverandi menntamálaráðherra falið þeim Ármanni Snævarr og Hallgrími Snorrasyni að endurskoða gildandi mannanafnalög en því verki var ekki lokið.
    Í skipunarbréfi var nefndinni falið að endurskoða frumvarp til laga um mannanöfn sem lagt var fram á Alþingi sem stjórnarfrumvarp á 91. og 92. löggjafarþingi árið 1971 og vísað var til ríkisstjórnar í síðara skiptið. Auk þessa var í skipunarbréfinu vísað til ályktunar kirkjuþings 1986 um að ráðherra beiti sér fyrir endurskoðun á lögum um mannanöfn.
    Við starf sitt hefur nefndin stuðst mest við fyrrgreint stjórnarfrumvarp frá árinu 1971, svo og ýmsar aðrar tillögur og hugmyndir, sem fram hafa komið undanfarin ár, um breytingar á gildandi lögum um mannanöfn frá árinu 1925. Þá hefur nefndin litið til reynslu starfsmanna Þjóðskrár og dómsmálaráðuneytis af nafngjöfum, nafnbreytingum og óskum um nafngjafir og skráningu nafna. Loks hefur nefndin kynnt sér nýlegar breytingar á löggjöf um mannanöfn annars staðar á Norðurlöndum.

Frumvarpið 1971.
    Stjórnarfrumvarp það til laga um mannanöfn, sem lagt var fram á Alþingi á árinu 1971, var samið af nefnd sem menntamálaráðherra skipaði árið 1967. Nefndina skipuðu Klemens Tryggvason hagstofustjóri, formaður, prófessorarnir Ármann Snævarr, Einar Bjarnason og Halldór Halldórsson og Matthías Johannessen ritstjóri. Frumvarp þetta var hið vandaðasta. Því fylgdi ítarleg greinargerð og athugasemdir við einstakar greinar auk fjögurra fylgiskjala. Fylgiskjal I bar yfirskriftina: Sögulegt yfirlit, en í því fjallaði Halldór Halldórsson prófessor um þróun nafnaforðans, tvínefni og ættarnöfn og Ármann Snævarr prófessor um löggjöf um mannanöfn hér á landi. Í fskj. II var gerð grein fyrir þróun nafnréttar í grannlöndunum og í fskj. III gerð grein fyrir athugun Hagstofunnar á skírnaraldri barna. Fylgiskjal IV hafði loks að geyma greinargerð hagstofustjóra um hlutverk og starfsreglur Þjóðskrár í sambandi við skráningu mannanafna. Þrjú síðastnefndu fylgiskjölin eru nú röskum tuttugu árum eftir að þau voru samin fyrst og fremst heimildir um grundvöll frumvarpsins og einstaka hluta þess á sínum tíma. Sögulega yfirlitið er hins vegar í fullu gildi enn og má vísa sérstaklega til þess fyrir þá sem vilja fræðast meira um sögu mannanafna og löggjafar um þau, sjá Alþingistíðindi 1970–1971, þskj. 34, bls. 276–285.
    Í almennri greinargerð með frumvarpinu 1971 sagði m.a. að nefndin hefði reynt að gera það svo úr garði að íslensk mannanöfn gætu valdið því hlutverki sínu að vera til sem gleggstra auðkenna á mönnum. Þá hafi einnig verið haldið þeirri stefnu að stemma stigu við fleirnefnum en leyfa þó tvínefni og stuðla að því að íslensk mannanöfn væru í samræmi við íslenskt málkerfi og koma í veg fyrir að nöfn verði nafnbera til ama og óþæginda. Lagt væri til að barni skuli valið nafn innan hæfilegs tíma en um það skorti að mestu ákvæði í gildandi lögum. Þá sagði og að ljóst væri að mannanafnalög misstu marks nema tryggilegt eftirlit væri haft með því að nöfn væru valin í samræmi við slík lög. Talið var að með tilkomu Þjóðskrár hefðu fengist úrræði og stofnun sem álitlegt væri að virkja í þessu efni. Þannig var lagt til að nöfn gefin börnum fengjust ekki færð á þjóðskrá nema þau væru lögmæt. Jafnframt skyldi kenninafn barns vera í samræmi við þjóðskrá þannig að barn væri þar annaðhvort kennt til eiginnafns föður eða móður eða hefði ættarnafn þeirra.
    Í frumvarpinu var lagt til að stofnuð yrði mannanafnanefnd til að semja skrá um heimil eiginnöfn og úrskurða í ágreiningsmálum um nafngiftir. Nefndin taldi að nafnaskrá sú, sem mannanafnanefnd skyldi semja, yrði óhjákvæmilegur bakhjarl fyrir alla þá sem ættu að framkvæma lögin og hún ætti að geta verið foreldrum til mikils liðsinnis við nafngjafir. Skráin girti á engan hátt fyrir það að önnur nöfn yrðu leyfð en þau sem á henni stæðu en slík nafngjöf yrði þá borin undir mannanafnanefnd.
    Í frumvarpinu var hugtakið kenninafn látið taka jafnt til kenningar til eiginnafns föður eða móður í eignarfalli að viðbættu son eða dóttir og til ættarnafns. Í greinargerðinni sagði að nefndin hefði tekið til rækilegrar athugunar þær röksemdir sem uppi hefðu verið með og móti upptöku ættarnafna. Um þetta sagði nefndin m.a. orðrétt: „Í íslenzku þjóðfélagi tíðkast nú tvenns konar nafnakerfi, þ.e. hið forna nafnakerfi með kenningu til föður og svo ættarnafnakerfið. Lög nr. 54/1925 leyfðu tiltekin ættarnöfn, eins og fyrr er greint, þ.e. yfirleitt ættarnöfn, sem upp voru tekin fyrir 1915, og vegna innflutnings manna með erlend ættarnöfn og vegna barneignar erlendra manna með íslenzkum konum, svo og sakir giftinga íslenzkra kvenna og erlendra manna, hefur bætzt við mikill fjöldi ættarnafna síðan lög nr. 54/1925 tóku gildi. Eftirlit með framkvæmd þeirra laga hefur verið næsta máttlítið. Alkunna er, að þau ættarnöfn, sem tekin voru upp á tímabilinu 1915–1925 og hverfa áttu með þeim mönnum, er fengu leyfi til þeirra, og börnum þeirra, hafa haldizt áfram, án þess að stjórnvöld hafi gert neitt til að afstýra því. Liggur nærri að telja, að niðjum þeirra manna hafi, fyrir lagavenju, unnizt réttur á nafni sínu á borð við aðra þá, sem höfðu ættarnöfn fyrir 1915. Stórfelld upptaka nýrra ættarnafna átti sér stað frá því að mannanafnalög 1925 voru sett og þar til Þjóðskrá tók við almannaskráningu 1953–54 án þess að við því væri amazt, þ.e. menn voru á þessu tímabili skráðir á manntal og á opinberar skrár með þeim nöfnum og ekkert var gert til að afstýra slíkri sjálftöku ættarnafna. Ekki er sýnilegt, að almenningur hafi brugðizt öndverður gegn þessu eða krafizt þess með neinum þunga, að lögin yrðu framkvæmd. Alþingi hefur ekki gert neinar ályktanir um efnið, svo að kunnugt sé, og á gildistíma laganna hafa nálega allir stjórnmálaflokkar landsins átt fulltrúa í ríkisstjórn, án þess að gera reka að máli þessu.
    Telja verður, að þúsundir manna á landi hér beri ættarnöfn, ýmist svo að þau helgist af ákvæðum laga nr. 54/1925, og er þar um minni hluta að ræða, eða svo, að nöfnin séu í andstöðu við lög nr. 54/1925. Um þessi nöfn er þriggja kosta völ: 1. að framfylgja banni laga nr. 54/1925 og óheimila hlutaðeigendum að bera nöfn sín og eftir atvikum sækja þá til refsingar samkvæmt þeim lögum. Í því sambandi telur nefndin, að þá ætti að breyta lögum nr. 54/1925 í það horf að óheimila öll ættarnöfn, enda fela lögin í sér slíka mismunun á þegnum landsins, að ekki er viðhlítandi. 2. Að láta reka á reiðanum í þessu efni eins og gert hefur verið lengstum. 3. Að endurskoða lögin og leita úrræða, sem hald er í, til að koma þessum málum í bærilegt horf.“
    Nefndin var á einu máli um að fyrsti kosturinn væri gersamlega óframkvæmanlegur, enda kynnu sum ættarnöfn að hafa unnið sér lagavernd fyrir lagavenju og tómlæti stjórnvalda. Annan kostinn taldi nefndin ósamboðinn íslensku þjóðfélagi. Nefndin aðhylltist því þriðja kostinn, þ.e. að endurskoða lögin, lögmæla ýmsar úrbætur og taka afstöðu til ættarnafnamálsins.
    Í greinargerðinni sagði enn fremur að frumvarpið væri á því reist að skylt væri að horfast raunsætt í augu við þann vanda sem steðjað hefði að íslensku nafnakerfi. Frumvarpið byggði og á tillitinu til þeirra sem borið hefðu ættarnöfn átölulaust um langt skeið, enda teldu höfundar þess að nafn væri persónulegt málefni og varðaði tilfinningar manna og að fara bæri með aðgát að lagasetningu um slíkt persónu- og mannréttindasvið. Frumvarpið væri á því reist að farsælast væri, úr því sem komið væri, að tvenns konar nafnakerfi fengju að þróast. Í frumvarpinu var því lagt til að auk kenningar til eiginnafns föður eða móður yrðu ættarnöfn lögmæt. Var þá annars vegar gert ráð fyrir að ættarnöfn, sem íslenskir ríkisborgarar bæru við gildistöku laganna, mættu haldast. Hins vegar var lagt til að heimilt yrði með leyfi dómsmálaráðuneytis að taka upp ný ættarnöfn, enda væru þau íslensk og í samræmi við íslenskt málkerfi.

Afdrif frumvarpsins 1971.
    Sem fyrr segir var frumvarp það frá 1971, sem núverandi mannanafnanefnd var falið að endurskoða, lagt fram á tveimur þingum, þ.e. 91. og 92. löggjafarþingi. Í fyrra skiptið dagaði frumvarpið uppi, en á síðara þinginu var því vísað til ríkisstjórnarinnar að tillögu menntamálanefndar efri deildar. Í nefndaráliti og framsöguræðu fyrir því kom fram að menntamálanefnd teldi að nauðsynlegt væri að endurskoða tillögur frumvarpsins um ættarnöfn. Nefndin væri þeirrar skoðunar að það væri ekki raunsætt að ættarnöfnum manna væri útrýmt með lögum. Á hinn bóginn teldi hún að ekki væri ástæða til þess að leyft yrði að ný ættarnöfn yrðu tekin upp, en með því væru raunverulega opnaðar allar gáttir fyrir fjölgun ættarnafna. Menntamálanefnd væri þeirrar skoðunar að þeim sem þá bæru ættarnöfn ætti að vera leyfilegt að halda þeim, en ekki ætti að leyfa að ný ættarnöfn væru tekin upp. En áður en ákvarðanir yrðu teknar í þessu efni teldi nefndin æskilegt að rannsakað yrði hvort ættarnöfn hefðu verið að vinna á og hvort þeim hefði raunverulega verið að fjölga síðustu áratugina.
    Í annan stað taldi menntamálanefnd þá tillögu frumvarpsins orka tvímælis að ættarnöfn gætu gengið í karllegg eingöngu. Hér væri um mismunun kynjanna að ræða og í frumvarpinu væru önnur ákvæði af sama tagi. Sú endurskoðun frumvarpsins, sem nefndin lagði til, skyldi miðuð við að karlar og konur nytu jafnra réttinda í hvívetna á vettvangi mannanafnalaga.
    Í trausti þess að ríkisstjórnin legði fyrir næsta Alþingi endurskoðað frumvarp um mannanöfn lagði menntamálanefndin því til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Var tillaga nefndarinnar samþykkt samhljóða. Frumvarpið var hins vegar hvorki endurskoðað né lagt fram að nýju.

Framvinda nafnamála frá 1971.
    Staða nafnamála er nú að flestu leyti svipuð því sem var þegar frumvarpið frá 1971 var samið. Vart er hægt að segja að nafnalögunum frá 1925 hafi verið framfylgt með samræmdum og ákveðnum hætti. Af hálfu Þjóðskrár hefur verið reynt að gæta þess að nafngjafir væru í samræmi við gildandi lög og stemma stigu við upptöku ættarnafna. Margir prestar hafa og leitast við að framfylgja lögunum en aðrir hafa verið eftirgefanlegir, enda hefur skort aðhald í þessum efnum og tómlætis gætt í framkvæmd.
    Í einu meginatriði má hins vegar telja að breyting hafi orðið á í nafnamálum og hún raunar gert illt verra í því stefnuleysi sem ríkjandi hefur verið. Er þá átt við stóraukin erlend áhrif á nöfn hér á landi. Hér kemur þrennt til að því er virðist. Í fyrsta lagi hafa áhrif erlendra tungumála og siða farið hríðvaxandi hér á landi á undanförnum árum. Í öðru lagi hefur orðið æ algengara að erlendir menn hafi flust til landsins, sest að og eignast hér börn. Í þriðja lagi hefur þeim Íslendingum, sem dveljast í útlöndum við nám eða störf, fjölgað að mun og er drjúgur hluti íslenskra barna fæddur og alinn upp í útlöndum og þeim gefin nöfn þar.
    Þessi þróun hefur haft ýmis áhrif gagnstæð gildandi lögum og hefur reynst erfitt að stemma stigu við þeim. Hvað eiginnöfn snertir hefur þess gætt mjög að foreldrar, þegar annað er erlent en hitt íslenskt, vilji gefa börnum sínum erlend nöfn. Sérstaklega er algengt að börnum séu þá gefin tvö nöfn, annað íslenskt og hitt erlent. Jafnframt gætir vaxandi tilhneigingar til að slíkum börnum séu gefin alútlend nöfn eða nöfn sem ekki samrýmast íslensku málkerfi. Loks virðist það færast í aukana að börnum séu gefin þrjú nöfn eða fleiri og má ætla að það megi rekja til erlendra fyrirmynda.
    Ekki ber síður á erlendum áhrifum í kenninöfnum. Hér má m.a. nefna að algengt er að börn erlendra karla, sem bera ættarnafn, og íslenskra kvenna séu kennd til föðurins, þ.e. beri ættarnafn hans. Við þetta hefur erlendum ættarnöfnum vafalaust fjölgað nokkuð hér á landi. Þá er ævinlega eitthvað um það að Íslendingar, sem búið hafa erlendis og flytjast heim, vilji halda áfram að kenna sig með sama hætti og þeir gerðu í útlöndum, þ.e. að eiginkona og börn séu kennd til föðurnafns eiginmanns/föður. Loks má nefna að það virðist færast í vöxt að menn vilji nota tvö kenninöfn. Tvöföld ættarnöfn eru mjög algeng annars staðar á Norðurlöndum og fer fjölgandi að því er talið er. Sérstaklega hefur það færst í vöxt, einkum í Danmörku og Finnlandi, að slík ættarnöfn séu tengd með bandstriki. Þessa hefur einnig orðið vart hér þótt við því hafi verið reynt að sporna. Í þessu efni gætir og áhrifa frá spænskumælandi þjóðum þar sem venja er að menn beri bæði ættarnafn föður og móður. Af hálfu spænskumælandi manna búsettra á Íslandi hafa komið fram óskir um að börn þeirra, sem eru fædd hér á landi og eiga íslenskan föður eða móður, beri tvö kenninöfn, annað íslenskt en hitt erlent.
    Að öðru leyti en hér hefur verið rakið verður ekki séð að ásókn í ættarnöfn hafi aukist. Alltaf er eitthvað um að menn vilji taka upp ættarnöfn, en ekki er talið að undanfarin ár hafi þess gætt í meira mæli en áður var.

Helstu ákvæði þessa frumvarps.
    Frumvarp þetta byggir að talsverðu leyti á frumvarpinu frá 1971, en í ýmsum greinum er þó vikið frá því í veigamiklum atriðum. Þar má sérstaklega nefna að ekki er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka upp ný ættarnöfn. Á hinn bóginn er í þessu frumvarpi komið talsvert til móts við óskir um heimildir til notkunar ættarnafna á íslenskum börnum erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hér á landi. Gert er ráð fyrir að ættarnöfn geti gengið jafnt í kvenlegg sem í karllegg og að menn geti kennt sig jafnt til föður eða móður. Þá skal tekið fram að í frumvarpinu er enn fremur lagt til að dómsmálaráðuneyti fari framvegis með mál sem snerta mannanöfn, en ekki menntamálaráðuneyti, eins og nú háttar. Frumvarp þetta er styttra en frumvarpið frá 1971 og stafar það einkum af færri ákvæðum um ættarnöfn en í fyrra frumvarpi og af því að ekki þykir nauðsynlegt að hafa ítarleg ákvæði í lögum um skráningu nafna á þjóðskrá, enda er nú komin fastari skipan á þau mál en þegar fyrra frumvarp var samið.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu tillögum frumvarpsins.

     I. kafli frumvarpsins fjallar um eiginnöfn. Þar er í upphafi haldið þeirri meginstefnu, sem fram kemur í gildandi lögum og einnig er í frumvarpinu frá 1971, að barni skuli gefið eitt eiginnafn eða tvö. Nafnið skal vera íslenskt, hafa unnið sér hefð í málinu og falla að íslensku málkerfi. Kveðið er á um skyldu til nafngjafar og mælt fyrir um að gefa skuli barni nafn innan hálfs árs frá fæðingu. Þá eru ákvæði um nafngjafir við skírn eða með tilkynningu til presta, forstöðumanna skráðra trúfélaga eða Þjóðskrár og um eftirlit þessara aðila með nafngjöfum. Þetta eftirlit byggist á þrennu fyrst og fremst, þ.e. á skrá um heimil nöfn sem mannanafnanefnd skal semja, á eftirliti presta, forstöðumanna skráðra trúfélaga og Þjóðskrár og málskoti til mannanafnanefndar í álitamálum um nafngjafir og loks á þeirri skyldu Þjóðskrár að taka ekki nafn til skráningar nema það sé á mannanafnaskrá eða samþykkt af mannanafnanefnd.
    Í gildandi lögum eru fyrirmæli um útgáfu skrár um þau mannanöfn sem bönnuð eru. Slík skrá hefur aldrei verið gefin út og eðli málsins samkvæmt er vandséð að slík skrá verði nokkurn tímann samin svo raunhæft sé. Í þessu frumvarpi, eins og í frumvarpinu frá 1971, er kveðið á um að samin verði skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast. Er þessi skrá talin ein helsta undirstaða þess að unnt verði að framfylgja lögunum auk þess sem hún verði öllum almenningi til leiðbeiningar við nafngjafir. Er lagt til að prestar, forstöðumenn skráðra trúfélaga og starfsfólk Þjóðskrár skuli ekki samþykkja nöfn sem ekki eru á skránni, heldur skuli óskum um slíkar nafngjafir skotið til úrlausnar mannanafnanefndar. Skráin á því ekki að standa í vegi fyrir því að ný nöfn séu tekin upp auk þess sem hún hlýtur að breytast eftir því sem starfsemi mannanafnanefndar miðar.
    Rétt er að nefna eitt álitamál sérstaklega í tengslum við ákvæði I. kafla um eiginnöfn. Sem fyrr segir er lagt til í 2. gr. að eiginnöfn skuli vera íslensk, hafa unnið sér hefð í málinu og falla að íslensku málkerfi. Í 8. gr. er þó gert ráð fyrir að þessar skorður gildi ekki um nöfn erlendra barna fæddra hér á landi, þ.e. ef foreldrar skilgetins barns eða móðir óskilgetins barns hafa erlent ríkisfang. Í sömu grein er enn fremur lagt til að ákvæði 2. gr. gildi ekki að fullu um íslensk börn ef annað foreldra er erlendur ríkisborgari eða hafi verið það. Samkvæmt þessari tillögu yrði heimilt að gefa börnum af slíkum blönduðum uppruna tvö nöfn, annað íslenskt en hitt erlent. Þegar hefur verið vikið að því að í tilvikum sem þessum eru óskir um þess háttar nafngjafir mjög algengar. Enginn vafi er á að verði þær bannaðar munu lögin verða ákaflega erfið í framkvæmd. Hér er úr vöndu að ráða. Með því að veita til þess heimild í lögum að barni, sem á annað foreldrið íslenskt en hitt erlent, megi gefa erlent eiginnafn auk íslensks, er að nokkru grafið undan meginstefnu laganna. Auk þess verða réttindi slíkra foreldra til nafngjafa ríkari en réttindi alíslenskra foreldra og því kynni að mega halda því fram að í þessu fælist mismunun. Á móti vegur að það sýnist sanngjarnt að mörgu leyti að barn af blönduðum uppruna fái, auk íslensks eiginnafns, að bera annað nafn sem er gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris þess. Hér er yfirleitt um mikið tilfinningamál að ræða og takmörk laganna að þessu leyti eru oft túlkuð sem skerðing á persónulegum réttindum manna og kunna að varða við Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að. Að mati nefndarmanna vega þó þyngst þau rök að verði þessi heimild ekki veitt er hætt við að lögin verði óframkvæmanleg að þessu leyti. Þannig yrði sífellt reynt að sniðganga þau, t.d. með því að gefa börnum nöfn erlendis, en á því hefur nokkuð borið að undanförnu.

     II. kafli frumvarpsins fjallar um kenninöfn. Á sama hátt og í frumvarpinu frá 1971 tekur hugtakið kenninafn í þessu frumvarpi til hvers konar kenningar samkvæmt lögunum, þ.e. er menn kenna sig til eiginnafns föður eða móður í eignarfalli að viðbættu son eða dóttir og til ættarnafns. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að menn geti kennt sig jafnt til föður eða móður og að jafnt sé heimilt að láta ættarnöfn ganga í kvenlegg sem karllegg. Hins vegar er lagt til að mönnum sé aðeins heimilt að bera eitt kenninafn. Í þessu sambandi skal bent á að svo virðist sem vaxandi tilhneigingar gæti til þess að menn vilji bera tvö kenninöfn. Dæmi um þetta er að konur, sem giftast mönnum er bera ættarnafn, óska stundum eftir því að taka upp ættarnafn eiginmannsins án þess að fella niður eigið kenninafn, hvort sem það er ættarnafn eða hefðbundið föður- eða móðurnafn. Nefndin er andvíg því að þetta verði heimilað, bæði vegna þess að hér er ekki um íslenska venju að ræða og vegna hins að með þessu sýnist hætta á að hér geti sótt í sama far og í nágrannalöndum og leitt til ásóknar í tvöföld eftirnöfn með bandstriki. Loks má geta þess að dæmi eru um að foreldrar vilji kenna börn sín til eiginnafna beggja og færa gjarnan fram jafnréttisrök í því sambandi. Þetta samrýmist hins vegar ekki íslenskri nafnvenju og þykir nefndinni nægja að menn geti valið um til hvors foreldranna barn sé kennt.
    Tillögur frumvarpsins um ættarnöfn eru um sumt svipaðar tillögum frumvarpsins 1971 en um sumt ólíkar. Á sama hátt og í frumvarpinu frá 1971 er nú gert ráð fyrir að hér á landi haldist tvöfalt kerfi kenninafna, þ.e. hið gamla kerfi föður- og móðurnafna og kerfi ættarnafna. Ekki þykir raunhæft að leggja til að ættarnöfn, sem ekki teljast lögleg í skilningi laga nr. 54/1925, verði afnumin. Telja má að í því fælist í mörgum tilvikum veruleg skerðing á mannréttindum þar sem mörg slík ættarnöfn yrðu vafalaust talin hafa unnið sér hefð fyrir afskiptaleysi stjórnvalda. Því er gert ráð fyrir að þeir menn, sem nú bera ættarnöfn samkvæmt þjóðskrá, megi bera þau áfram og sama gildi um niðja þeirra hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg.
    Ólíkt því sem er í frumvarpinu frá 1971 er í þessu frumvarpi ekki gert ráð fyrir að heimilt verði að taka upp ný ættarnöfn. Hér gætir þeirrar skoðunar að æskilegt sé að varðveita hið gamla kenninafnakerfi og því sé ekki æskilegt að veita heimildir til upptöku nýrra ættarnafna. Þetta er og í samræmi við afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu 1971. Einn nefndarmanna, Ármann Snævarr, tekur þó fram að hann hefði kosið að ganga lengra í þessum efnum og gera ráð fyrir að unnt væri að taka upp ný ættarnöfn með þeim hætti og þeirri gerð er greinir í II. kafla frumvarpsins 1971. Hann bendir í því sambandi á að ella fælist mismunun í því tvöfalda kerfi kenninafna sem gert er ráð fyrir í tillögum nefndarinnar. Að öðru leyti vísar hann til rækilegs rökstuðnings í greinargerð með frumvarpinu frá 1971.
    Að einu leyti gengur þetta frumvarp nokkru lengra en hið fyrra hvað ættarnöfn snertir. Hér er um það að ræða að gert er ráð fyrir að barn erlends manns og íslenskrar konu megi bera ættarnafn föður síns. Með þessu er í reynd opnað nokkuð fyrir notkun erlendra ættarnafna, a.m.k. miðað við það sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Hins vegar felst í þessu viðurkenning á framkvæmd, þ.e. að ekki hefur verið talið unnt að standa gegn notkun ættarnafna af þessu tagi. Er m.a. talið vafasamt að bann við að börn erlends manns fái að bera ættarnafn hans fái staðist gagnvart Mannréttindasáttmála Evrópu. Í frumvarpinu er til mótvægis þessu ákvæði í 11. gr. einnig tekið fram að auk þess að kenna sig til ættarnafns föður megi barn erlends manns og íslenskrar konu kenna sig til móður sinnar eða hafa ættarnafn hennar ef til er. Þá er og heimilt samkvæmt sömu grein að barnið beri íslenskt kenninafn sem lagað er að hinu erlenda eiginnafni föðurins, enda hafi mannanafnanefnd samþykkt það.
    Auk þess, sem hér hefur verið rakið, er gert ráð fyrir að manni sé ekki skylt að bera ættarnafn þótt hann hafi til þess rétt. Jafnframt er heimilað að menn felli niður ættarnöfn sem þeir hafa borið eða taki upp ættarnafn sem þeir hafa rétt til. Lagt er til að þó sé að öllu jöfnu einungis unnt að gera slíka nafnbreytingu einu sinni.

     III. kafli fjallar um mannanafnanefnd, skipan hennar og verkefni. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt frumvarpinu er mjög áþekkt því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu frá 1971. Mannanafnanefnd er nefnd sérfræðinga samkvæmt frumvarpinu og er því lagt til að tveir nefndarmenn verði skipaðir að tilnefningu heimspekideildar Háskólans en einn eftir tilnefningu lagadeildar. Ætlast er til að mannanafnanefnd gegni í aðalatriðum þríþættu hlutverki, þ.e. að semja skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast samkvæmt lögunum, að fella úrskurði og vera til ráðuneytis um nafngjafir. Af þessu leiðir að nefndin verður að starfa með reglubundnum hætti allt árið um kring og hafa fastan skrifstofutíma þannig að jafnan megi leita til hennar með skömmum fyrirvara. Óhjákvæmilegt er að nefndin hafi starfsmann og er gert ráð fyrir að hún hafi á að skipa sérfræðingi í hálfu starfi. Ætla má að hlutverk starfsmannsins verði að annast samskipti við þá sem fara með framkvæmd laganna og við almenning og að undirbúa úrskurði nefndarinnar. Þá gæti hann einnig tekið þátt í samningu mannanafnaskrár, en það verkefni hlýtur þó að koma mest til kasta nefndarinnar. Í upphafi þarf mikið átak til að koma saman mannanafnaskránni, en jafnframt er sýnt að samning slíkrar skrár er stöðugt verkefni þar sem skráin verður sífellt í mótun og endurskoðun. Um skipan nefndarinnar, verkefni hennar og kostnað af starfsemi hennar er fjallað ítarlega í athugasemdum við 17. og 18. gr.

     Í IV. kafla eru ýmis ákvæði um skráningu og notkun nafna. Þar er m.a. kveðið á um gildistöku nafnbreytinga, um samræmi í skráningu nafna á þjóðskrá og nafnnotkun manna. Til þess er ætlast að í skiptum við opinbera aðila, í lögskiptum og við samningsgerð riti menn ævinlega nafn sitt eins og það er skráð á þjóðskrá. Flest ákvæði þessa kafla voru í frumvarpinu frá 1971 og um sum gilda hliðstæðar reglur í norrænum mannanafnalögum.

     V. kafli frumvarpsins geymir ákvæði til að hindra misnotkun nafns annars manns, ákvæði um viðurlög, heimild til setningar reglugerðar, um gildistöku laganna og kynningu. Í ákvæðum þessa kafla felst m.a. að mál er snerta mannanöfn flytjast frá menntamálaráðherra til dómsmálaráðherra.
    Loks eru í frumvarpinu tvö ákvæði til bráðabirgða. Hið fyrra lýtur að tafarlausri skipan mannanafnanefndar svo ekki verði dráttur á því að hún hefji störf. Hið síðara segir til um hvernig fara skuli með álitamál um nafngjafir þar til mannanafnaskrá hefur verið gefin út.

Breytingar á norrænni löggjöf um mannanöfn.
    Með frumvarpinu frá 1971 var fylgiskjal um þróun nafnréttar í grannlöndunum. Þar var m.a. getið um nafnvenjur á Norðurlöndum frá fyrstu tíð og fram á sjöunda áratug þessarar aldar. Röskum áratug fyrr hafði tekist samvinna milli Dana, Norðmanna og Svía um samningu laga um mannanöfn. Megintilgangur samvinnunnar var sá að reyna að setja heildarlöggjöf um mannanöfn í hverju landanna um sig og samræma lagaákvæði. Danir riðu á vaðið með setningu heildarlaga árið 1961 og Svíar fóru í kjölfarið 1963 en Norðmenn 1964. Þessi samræming tókst ekki að öllu leyti. Íslendingar og Finnar tóku ekki þátt í samstarfinu. Mannanafnalögin íslensku frá 1925 héldust óbreytt og Finnar héldu fast í tvenns konar löggjöf sína, annars vegar lög um ættarnöfn frá 1920, en hins vegar lög um eiginnöfn frá 1945. Rök Íslendinga gegn samstarfi við önnur ríki á Norðurlöndum voru þau að nafnvenjur og þróun á sviði mannanafna væri svo sérstæð hér á landi að takmörkuð hliðsjón yrði höfð af erlendum lögum.
    Á áttunda og níunda áratugnum unnu Danir, Norðmenn og Svíar áfram að samræmingu mannanafnalöggjafar sinnar. Á þessu árabili beindust sjónir manna í norrænni lagasamvinnu mjög að jafnréttismálum kynja. Að lokum tókst að samræma lagaákvæði um jafnrétti kvenna og karla og skilgetinna og óskilgetinna barna til notkunar ættarnafna. Norðmenn urðu fyrstir til þessara breytinga árið 1979, Danir breyttu lögum sínum árið 1981 og Svíar 1982. Þá breyttu Finnar ættarnafnalögum sínum á hliðstæðan hátt árið 1985. Enn fremur hafa lög verið samræmd enn frekar á þessu sviði, t.d. hefur málsmeðferð fyrir stjórnsýsluhöfum verið einfölduð og tímatakmörk og aldursákvæði samræmd.
    Áður en jafnrétti til notkunar ættarnafna náðist giltu t.d. þær reglur í Danmörku við hjúskaparstofnun að eiginkona fékk sjálfkrafa ættarnafn manns síns nema hún lýsti því yfir að hún vildi halda ættarnafni sínu. Eftir lagabreytinguna heldur hvort hjóna eigin ættarnafni. Óski þau að hafa sama ættarnafn getur annað hjóna tilkynnt yfirvöldum að það vilji taka upp ættarnafn hins. Hvað börn snertir giltu þær reglur að skilgetið barn fékk ættarnafn föður við fæðingu en óskilgetið barn ættarnafn móður. Eftir lagabreytinguna er ekki gerður munur á skilgetnum og óskilgetnum börnum. Ef foreldrar bera sama ættarnafn við fæðingu barns, fær barnið það ættarnafn, en beri foreldrar sitt ættarnafnið hvort geta þeir valið hvort nafnið barnið fær.
    Íslendingar hafa öldum saman kennt sig til feðra sinna á annan hátt en nágrannar þeirra gera yfirleitt nú. Hvað ættarnöfn snertir gætir í gildandi lögum hér á landi misréttis kynja þar sem ekki er gert ráð fyrir að ættarnöfn geti gengið í kvenlegg. Í þessu frumvarpi er lagt til að ættarnöfn geti gengið jafnt í kvenlegg sem karllegg. Þetta er í samræmi við ábendingu Alþingis 1971 og breytingar á löggjöf annarra Norðurlandaþjóða auk þess sem þetta er sjálfsögð breyting til jafnréttis.
    Við samningu þessa frumvarps hefur ekki verið tekið sérstaklega tillit til ættarnafnareglna annarra Norðurlandaþjóða enda ástæðulaust. Hins vegur hefur í mörgum greinum verið höfð hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á liðnum árum á norrænum mannanafnarétti.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er í samræmi við gildandi lög, sbr. upphaf 1. gr. laga nr. 54/1925, svo og lagaframkvæmd. Ákvæði 1. mgr. um að barni skuli gefa eitt eiginnafn eða tvö eru og í samræmi við íslenska venju. Á síðari árum hefur það færst nokkuð í vöxt að fólk vilji gefa börnum sínum fleiri en tvö eiginnöfn. Í flestum tilvikum er þá annað foreldranna erlent. Ekki þykir ástæða til að nafnvenjur, svo ólíkar þeim sem Íslendingar eiga að venjast, hafi áhrif á heimildir íslenskra laga um tölu eiginnafna.
    Tekið skal fram að í frumvarpið hefur ekki verið tekin upp tillaga frumvarpsins frá 1971 um millinöfn. Í því frumvarpi var gert ráð fyrir að heimilt yrði að gefa börnum millinöfn sem komið gætu í stað eiginnafna. Nokkuð er um að börn séu skírð slíkum nöfnum og gætir þá oft tilhneigingar til að gera þau að ættarnöfnum. Annars staðar á Norðurlöndum hafa slík nöfn oft orðið hluti ættarnafna þannig að bandstrik er notað til að tengja millinafn raunverulegu ættarnafni. Vegna hættu á að millinöfnum verði breytt í ættarnöfn þykir ekki rétt að gera sérstaklega ráð fyrir þeim í lögum. Um slík nöfn gilda því ákvæði I. kafla um eiginnöfn, þ.e. að notkun þeirra verður háð áliti mannanafnanefndar á því hvort þau geti talist eiginnöfn í skilningi 2. gr.

Um 2. gr.


    Ákvæði 2. gr. eru að efni hin sömu og í 2. gr. frumvarpsins frá 1971.
    Í 1. mgr. er haldið þeirri reglu gildandi laga, sbr. 1. og 4. gr. þeirra, að nafn skuli vera íslenskt. Á þessu kann að leika vafi og er þetta því skilgreint nánar með þeim hætti að nafn skuli hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þá er áskilið að eiginnafn megi ekki fara í bág við íslenskt málkerfi. Mörg nöfn, sem eru algeng hér á landi, eru ekki íslensk að uppruna en hafa þó fyrir löngu unnið sér sess í íslensku. Á hinn bóginn kann svo að vera að nöfn hafi unnið sér hefð í málinu en brjóti gegn íslensku málkerfi, svo sem vegna orðmyndunar, hljóðkerfis eða beygingar.
    Í 1. mgr. er enn fremur kveðið á um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Nafn getur verið alls kostar íslenskt eða hefðbundið og fallið að málkerfinu en þó þannig að hæpið sé að nefna barn því. Ýmis dæmi eru um það að nöfn hafi verið börnum svo til ama að leitað hafi verið eftir nafnbreytingu. Í 7. gr. þessa frumvarps er veitt heimild til þessa. Á hinn bóginn er heppilegast að þessu sé gefinn gaumur þegar í upphafi og þykir því rétt að reynt sé að hindra óæskilegar nafngjafir með ákvæði síðasta málsliðar 1. mgr. Tekið skal fram að með óæskilegum nöfnum er m.a. átt við klaufaleg nöfn sem auðvelt er að afbaka og snúa út úr og ýmis heiti sem kunna að hafa verið notuð sem nöfn áður fyrr en hafa öðlast nýja og neikvæða merkingu í nútímamáli. Þá er enn fremur átt við gælunöfn en nokkuð hefur borið á að fólk vilji nefna börn gælunafni náins skyldmennis eða vinar. Dæmi um gælunöfn, sem menn hafa borið sem eiginnöfn, eru Gunna, Tóta, Laugi, Gaui o.fl. Þótt slík nafngjöf kunni að vera skiljanleg og beri vott um góðan hug til þeirra sem nefnt er eftir verður hún að teljast óæskileg og ýmis dæmi eru um að menn hafi liðið fyrir slík nöfn eftir að þeir hafa náð fullorðinsaldri. Ýmis vafatilvik geta vaknað í sambandi við það ákvæði sem hér um ræðir og því er gert ráð fyrir að hér geti komið til úrskurðar mannanafnanefndar. Nefndin þarf og að gæta þessa ákvæðis við samningu mannanafnaskrár skv. 3. gr. og hefur með henni bein áhrif í þessu efni.
    Í 2. mgr. er sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að gefa stúlku karlmannsnafn og dreng kvenmannsnafn. Raunar bryti það í bág við íslenskt nafnakerfi og væri því þegar óheimilt af þeim sökum. Ákvæðið er sett til öryggis og raunar ekki að ástæðulausu þar sem dæmi eru um að fólk hafi ekki alls kostar gætt þessa við nafngjafir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að óheimilt sé að gefa barni ættarnafn sem eiginnafn nema hefð sé fyrir því nafni. Nokkur brögð hafa verið að þessu og þykir rétt að taka fyrir það. Margt kemur hér til, þó aðallega að ætla má að nafn af þessu tagi verði naumast eðlilegt eiginnafn. Þá getur og falist í þessu hætta á ruglingi auk þess sem með slíku kynni að vera gengið á rétt þeirra sem bera ættarnöfn. Þetta ákvæði er í samræmi við norræna nafnalöggjöf.

Um 3. gr.


    Samkvæmt tillögum frumvarpsins gegnir mannanafnanefnd lykilhlutverki við framkvæmd mannanafnalaga. Til þess er ætlast að nefndin geri það með þrennum hætti, með samningu mannanafnaskrár, þ.e. skrár um eiginnöfn, sem teljast heimil í skilningi 2. gr., með úrskurðum í álita- og ágreiningsmálum um nöfn og með almennri ráðgjöf til almennings og þeirra sem falin er framkvæmd laganna.
    Um skipun og verkefni mannanafnanefndar er kveðið á í 17. og 18. gr. en auk þess er í ýmsum greinum fjallað um einstök verkefni hennar. Í 3. gr. eru ákvæði um eitt þriggja meginverkefna hennar, samningu mannanafnaskrár. Þessari skrá er fyrst og fremst ætlað að vera öllum almenningi til leiðbeiningar um val nafna, svo og bakhjarl þeirra, sem annast framkvæmd laganna og eftirlit mæðir mest á, þ.e. presta, forstöðumanna skráðra trúfélaga og starfsmanna Þjóðskrár. Þegar er að því vikið að slík skrá kemur aðeins að notum geymi hún þau eiginnöfn sem boðleg þykja en væri haldlítil ef hún geymdi einungis nöfn sem teljast óhæf. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að almenningur og þeir, sem fara með framkvæmd laganna fái vitneskju um þau nöfn sem mannanafnanefnd kann að dæma óheimil. Því verður að gera ráð fyrir að nefndin birti með reglubundum hætti niðurstöður sínar í þessu efni eins og kveðið er á um í 18. gr.
    Samning mannanafnaskrár skv. 3. gr. er vandaverk sem hlýtur að taka allnokkurn tíma og krefjast mikillar vinnu. Raunar er einsýnt að slík skrá verður seint fullsamin. Reikna má með að skráin komi út í áföngum þannig að í fyrstu verði lögð áhersla á að birta skrá um þau eiginnöfn sem ekki stendur styrr um, en skráin verði síðan aukin og endurbætt eftir því sem verki nefndarinnar miðar. Nafnaskrá þjóðskrár er vafalaust sú skrá sem mannanafnanefnd getur stuðst mest við í upphafi en ýmsar nafnaskrár koma og að góðu gagni við þetta verk sem og þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á mannanöfnum.
    Í 3. gr. er lagt til að mannanafnanefnd semji mannanafnaskrá en Hagstofan gefi hana út og dreifi henni. Þetta þykir heppilegt þar sem Hagstofan hefur alla aðstöðu til að annast slíka útgáfu og hefur bein tengsl við presta og forstöðumenn skráðra trúfélaga sem hvað mest þurfa á skránni að halda. Þá hefur Hagstofan mikil samskipti við almenning vegna nafngjafa.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. 4. gr. eru almenn ákvæði um hvernig barn öðlast nafn, þ.e. við skírn eða með tilkynningu um nafngjöf.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skylt sé að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. Hliðstæð ákvæði voru í frumvarpinu frá 1971. Þá eru einnig svipuð ákvæði í norrænni mannanafnalöggjöf. Ákvæði um tiltekna fresti til skírnar eða nafngjafar eru ekki ný í íslenskri löggjöf. Raunar eru engin slík ákvæði í gildandi lögum um mannanöfn. Í kirkjulöggjöf miðalda var mælt fyrir um að barn skyldi fært til skírnar svo fljótt sem verða mætti og ekki síðar en fimm dögum eftir fæðingu. Eftir siðaskiptin var þessi frestur lengdur í eina viku. Þetta hélst fram á síðustu öld er fresturinn var lengdur í átta vikur og síðar í tólf vikur (með lögum nr. 4/1886).
    Nokkur brögð eru jafnan að því að dregið sé úr hömlu að gefa börnum nafn. Af hálfu Þjóðskrár er reynt að fylgjast með þessu og benda forsjármönnum á skyldu þeirra í þessum efnum. Hér er hins vegar oft við ramman reip að draga enda eru engin bein ákvæði í gildandi lögum um hvenær fólk þurfi að hafa gefið barni nafn. Eðlilegt þykir að slík tímamörk séu tilskilin í lögum enda verða upphafsákvæði laganna um skyldu til nafngjafar ella naumast nægilega markviss.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. eru ákvæði um nafngjafir við skírn og með tilkynningu til Þjóðskrár. Í 1. mgr. er það gert að skyldu að forsjármaður barns, sem færa á til skírnar, greini þeim sem skírnina skal annast frá nafni því eða nöfnum sem hann hefur valið barninu. Í gildandi lögum eru engin ákvæði sem skylda presta til að leita vitneskju um það fyrir fram hvaða nafn barni hafi verið valið. Eins og nú háttar kemur iðulega fyrir að prestar eða forstöðumenn trúfélaga fá ekki vitneskju um fyrirhugað nafn barns fyrr en í þann mund sem skírnarathöfn skal hefjast. Þeir hafa því oft lítið ráðrúm til að kanna og ræða við forsjármenn barns um nafngjöfina. Þetta gerir þeim að sama skapi erfitt um vik við að hafa áhrif á nafngjöf og sinna því hlutverki, sem þeim er ætlað með lögum, þ.e. að koma í veg fyrir að börnum séu gefin erlend, ankannaleg eða óæskileg nöfn. Ákvæðum 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. er ætlað að veita þeim nægilegt svigrúm í þessu efni. Þá er og kveðið á um að þeir skuli ekki samþykkja nafn eða nöfn sem forsjármenn hafi valið barni ef nafnið/nöfnin eru ekki á mannanafnaskrá. Í þeim tilvikum, er prestur eða forstöðumaður skráðs trúfélags samþykkir ekki nafn, geta forsjármenn vitaskuld valið barni annað nafn ef það er á mannanafnaskrá. Haldi þeir hins vegar fast við val sitt á nafni sem ekki er á skránni er kveðið á um að málinu skuli skotið til mannanafnanefndar.
    Í 2. mgr. eru fyrirmæli um nafngjöf við skemmri skírn. Er þá yfirleitt skammur tími til stefnu til að velja barni nafn. Er því heimilað í þessari málsgrein að unnt sé að gefa barni nýtt nafn í stað þess sem áður var gefið eða annað nafn til viðbótar áður gefnu nafni.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um hvernig fara skuli með nafngjafir sem tilkynntar eru til Þjóðskrár ef nafn eða nöfn eru ekki á mannanafnaskrá. Skal þá nafn ekki skráð að svo stöddu heldur skal málinu skotið til mannanafnanefndar, sbr. ákvæði 1. mgr. Rétt er að benda á að hér getur verið um hvort tveggja að ræða, tilkynningar sem Þjóðskrá berast beint frá almenningi og tilkynningar presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga um nafngjöf við skírn. Í síðara tilvikinu felst að starfsfólk Þjóðskrár veiti þessum aðilum aðhald við samþykkt nafna eins og raunar er leitast við nú þótt erfitt sé um vik vegna haldlítilla lagaákvæða og áratuga tómlætis um framkvæmd gildandi laga.

Um 6. gr.


    Hér er kveðið á um úrskurði mannanafnanefndar í þeim álita- og ágreiningsmálum sem til hennar kann að vera vikið skv. 5. gr. Meginefni þessa ákvæðis er að kveði nefndin upp synjunarúrskurð sé forsjármanni skylt að velja barni annað nafn, sem sé á mannanafnaskrá eða nefndin samþykki, og skuli nafn barnsins ekki fært á þjóðskrá fyrr en þeirri skyldu hafi verið fullnægt. Benda má á að það felst í 6. gr. að mannanafnanefnd skuli kveða upp formlega úrskurði um þau ágreiningsmál sem hér um ræðir. Í 6. gr. er loks vísað til ákvæða til bráðabirgða um það hvernig að skuli fara ef upp koma álitamál um nafngjafir eftir að lögin hafa öðlast gildi en áður en nefndinni hefur gefist ráðrúm til að gefa út mannanafnaskrá. Er þar mælt fyrir um að álitamálum skuli skotið til mannanafnanefndar, sbr. 5. gr., og með þau farið skv. 6. gr.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. er kveðið á um heimildir til breytingar eiginnafna. Í gildandi lögum eru nær engar heimildir til þessa. Í frumvarpinu frá 1971 var lagt til að dómsmálaráðuneyti yrði heimilt að leyfa manni nafnbreytingu ef það teldi nafn hans af einhverjum sérstökum ástæðum vera honum til ama. Við samningu þessa frumvarps hefur verið reynt að kanna hvaða þarfir eða óskir um nafnbreytingar hafi komið fram á undanförnum árum. Þá hefur og verið litið til nýlegra breytinga á nafnalögum annarra Norðurlandaþjóða. Þar hefur lögum verið breytt fyrir nokkru á þann hátt að veittar hafa verið víðtækar heimildir til nafnbreytinga. Leyfi til nafnbreytinga er ekki lengur háð heimild ráðuneytis heldur geta menn með einfaldri tilkynningu til skráningaryfirvalda breytt eiginnafni sínu einu sinni á ævinni. Leyfi til frekari breytinga er svo háð ákvörðun ráðuneytis. Frá því að þessar breytingar voru gerðar hafa heimildir til nafnbreytinga verið nýttar mjög mikið. Fyrsta árið, sem heimild þessi var í gildi í Noregi, breyttu yfir 30.000 manns eiginnöfnum sínum. Síðan hefur dregið úr ásókn í nafnbreytingar og eru þær nú 5.000–6.000 á ári. Í Danmörku eru nafnbreytingar enn fremur mjög tíðar. Má t.d. nefna að í tölvukerfi dönsku þjóðskrárinnar er ekki gert ráð fyrir að unnt sé að leita að tilteknum einstaklingi eftir nafni. Þetta er talið tilgangslaust af þjóðskráryfirvöldum þar sem nöfnum manna sé ekki lengur treystandi vegna sífelldra breytinga.
    Nefndin er á einu máli um að ekki komi til álita að veita jafnvíðtækar heimildir til nafnbreytinga og gert hefur verið á Norðurlöndum. Í þessu sambandi verður ekki síst að hafa í huga að eiginnöfn hér á landi hafa mun meira gildi til auðkenningar en víðast hvar erlendis. Því er eðlilegt að meira aðhald sé haft að breytingum eiginnafna Íslendinga en annarra Norðurlandaþjóða.
    Tillögum nefndarinnar um nafnbreytingar er ætlað að veita nokkru meiri heimildir í þessum efnum en verið hefur án þess þó að allar gáttir verði opnaðar. Í tillögunum er gerður greinarmunur á þrenns konar nafnbreytingum: a) breytingum á eiginnöfnum ungbarna en um þær álítur nefndin óhætt að gildi tiltölulega rúmar heimildir; b) breytingum á eiginnöfnum sem eru mönnum til ama eða aðrar sérstakar og gildar ástæður mæla með; c) breytingum á nöfnum barna í tengslum við ættleiðingu.
    Tvær fyrstu málsgreinar 7. gr. lúta að breytingu á eiginnöfnum ungbarna. Gerður er greinarmunur á tveimur mismunandi tilvikum. Hið fyrra, sem um ræðir í 1. mgr., lýtur að því er barni hefur við skírn eða með tilkynningu verið gefið eitt nafn, en forsjármenn æskja þess síðan að gefa því annað nafn til viðbótar hinu fyrra. Er þá gert ráð fyrir að þetta megi gera með einfaldri tilkynningu til Þjóðskrár. Síðara tilvikið nær til þess er barni hefur verið gefið eitt nafn eða tvö sem forsjármenn vilja síðan breyta. Er þá talið eðlilegt þar sem um hreina nafnbreytingu er að ræða að hún sé borin undir dómsmálaráðuneyti. Hvað nafnbreytingar skv. 1. og 2. mgr. snertir er litið svo á að óhætt sé eðli málsins samkvæmt að veita rýmri heimildir þegar í hlut eiga ungbörn fremur en fullorðnir einstaklingar. Alltaf er nokkuð um það að óskir berist um þetta. Yfirleitt má þá rekja óánægju með upphaflega nafngjöf til fljótfærni eða til þunglyndis og jafnvægisbrests sem ekki er óalgengt að mæður séu haldnar fyrst eftir barnsburð. Mál af þessu tagi eru einatt blandin tilfinningum og virðist eðlilegt að úr þeim sé reynt að greiða þegar svo skammt er liðið frá nafngjöf að nafnbreyting ætti ekki að koma að sök. Í 1. og 2. mgr. eru heimildir til nafnbreytinga samkvæmt þessu takmarkaðar við það að eftir þeim sé leitað eigi síðar en sex mánuðum eftir að frestur til nafngjafar skv. 2. mgr. 4. gr. er útrunninn, þ.e. eigi síðar en ári eftir að barnið fæddist. Ekki þykir skynsamlegt að hafa þennan frest lengri enda eiga þær ástæður, sem liggja að baki ósk um nafnbreytingu, að geta verið komnar fram innan þessa tíma. Auk þess sem hér hefur verið sagt eru í 5. mgr. sett þau almennu skilyrði að hin nýju nöfn séu á mannanafnaskrá eða samþykkt af mannanafnanefnd. Jafnframt er þar og áskilið að séu forsjármenn barns tveir verði þeir báðir að undirrita beiðni um viðbót nafns skv. 1. mgr. og um nafnbreytingu skv. 2. mgr. Tekið skal fram að hafi öðru foreldra verið falin forsjá barns er gert ráð fyrir að við meðferð máls skv. 2. mgr. leiti dómsmálaráðuneyti umsagnar hins foreldrisins ef unnt er.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að dómsmálaráðuneyti sé heimilt að leyfa manni nafnbreytingu ef það telur nafn hans vera honum til ama eða af öðrum sérstökum og gildum ástæðum. Þótt það sé meginstefna þessa frumvarps að þeirri íslensku venju sé haldið að menn beri sama nafn alla ævi þykir engu að síður rétt að heimila undantekningu frá reglunni um nafnfestu í þeim tilvikum að nafn teljist vera manni til ama eða um sé að ræða sérstakar ástæður sem ríkar geta talist. Hér getur verið um ýmislegt að ræða. Einfaldasta dæmið er um nöfn sem eru svo klaufaleg að menn líða fyrir þau, t.d. sakir stríðni eða vegna þess að út úr þeim er snúið eða þau afbökuð. Þá kann að felast í eiginnöfnum tenging við aðila sem er nafnbera til ama, t.d. sakir óvináttu, eða ef sá sem nafnið er tekið eftir er þekktur brotamaður eða hefur illt orð á sér. Á yfirborðinu kunna ástæður sem þessar að sýnast léttvægar í ýmsum dæmum, en hafa verður í huga að hér gætir oft mikilla tilfinninga sem æskilegt getur verið að tekið sé tillit til. Ógerlegt er að setja nákvæmar reglur um þetta efni og verður því að leggja það á dómsmálaráðuneytið að meta hvert tilvik fyrir sig.
    Í 4. mgr. 7. gr. er heimilað að barni, sem ættleitt er eftir að því hefur verið gefið nafn, sé í ættleiðingarbréfi valið nýtt nafn í stað hins fyrra eða til viðbótar einu nafni sem það ber áður. Ákvæði af þessu tagi eru ekki í gildandi lögum en þykja nauðsynleg ekki síst vegna ættleiðinga erlendra barna, sbr. 3. mgr. 15. gr. ættleiðingarlaga. Þá er kveðið á um að eigi að breyta nafni barns við ættleiðingu skuli samþykkis þess jafnan leitað sé það orðið tólf ára.
    Í 5. mgr. eru loks sett almenn skilyrði um nafnbreytingar sem þegar er um rætt, þ.e. að nöfn, sem taka á upp, skuli fullnægja kröfum mannanafnanefndar og að beiðni um nafnbreytingu ungbarna skuli gerð af báðum forsjármönnum séu þeir tveir. Síðasttalda atriðið er nauðsynlegt þar sem óhjákvæmilegt er að báðir forsjármenn séu samþykkir nafnbreytingu.

Um 8. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 8. gr. eru sett til að taka af tvímæli um að ákvæði 1. og 2. gr. gildi ekki um nöfn barna, sem fædd eru hér á landi, ef báðir foreldrar skilgetins barns eða móðir óskilgetins barns eru erlendir ríkisborgarar.
    Í 2. mgr. er svo kveðið á um heimild til þess að barni megi gefa erlent nafn ásamt íslensku eiginnafni ef annað foreldra þess er erlendur ríkisborgari eða hefur verið það. Er þá gert ráð fyrir að erlenda nafnið sé hið síðara af tveimur eiginnöfnum og að fyrra eiginnafnið sé íslenskt í skilningi 2. gr. Rétt þykir að heimild þessi gildi einungis um nöfn sem eru eðlileg eiginnöfn í heimalandi hins erlenda foreldris barnsins. Ljóst er að hér geta komið upp ýmis vafatilvik en þeim má þá skjóta til úrlausnar mannanafnanefndar. Nefndin á raunar að fjalla um íslensk nöfn en ætla má að nefndarmenn geti fengið liðsinni erlendra starfssystkina í tilvikum sem þessum. Að öðru leyti en hér hefur verið greint, vísast til almennra athugasemda um II. kafla hér að framan.

Um 9. gr.


    Hugtakið kenninafn kemur í fyrsta skipti fyrir í frumvarpi þessu í 9. gr. Eins og rakið er í almennri greinargerð tekur hugtak þetta til hvors tveggja, kenningar til föður eða móður og kenningar til ættar og notkunar ættarnafna.
    Í 1. mgr. 9. gr. eru ákvæði um hvernig menn skuli kenna sig til föður eða móður og þarfnast þau ákvæði ekki nánari skýringar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ættarnöfn, sem íslenskir ríkisborgarar bera samkvæmt þjóðskrá við gildistöku laga þessara, megi haldast. Um þetta efni vísast almennt til greinargerðar um II. kafla hér að framan.
    Um fleiri en eitt kenninafn eða tvöföld kenninöfn er fjallað í almennri greinargerð. Í 3. mgr. 9. gr. er kveðið á um að manni sé ekki heimilt að bera fleiri en eitt kenninafn. Þetta ákvæði snertir vitaskuld ekki þá, sem þegar bera tvö kenninöfn samkvæmt þjóðskrá né niðja þeirra, sbr. ákvæði 2. mgr. þessarar greinar. Hér er ekki heldur tekið fyrir breytingar á kenninöfnum en um ýmis tilvik slíkra breytinga er kveðið á um í síðari greinum þessa kafla.
    Í 4. mgr. 9. gr. er lagt bann við upptöku nýrra ættarnafna. Í þessu sambandi vísast til almennrar greinargerðar. Auk þess þarf við athugun þessa ákvæðis að hafa í huga tillögu 11. gr. þar sem gert er ráð fyrir að barni erlends manns og íslenskrar konu sé heimilt að bera ættarnafn föður síns.

Um 10. gr.


    Ákvæði 1. mgr. fela í sér undantekningu frá meginreglum þeim um kenninöfn sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Kveðið er á um að erlend kona, sem giftist
Íslendingi sem ekki ber ættarnafn, megi nota sama kenninafn og maður hennar. Þetta gildir enda þótt hún taki íslenskt ríkisfang en gildir hins vegar ekki um niðja slíkra hjóna. Þetta er eðlilegt þar sem hér er ekki um upptöku ættarnafns að ræða og kenninafnið á því ekki að verða varanlegt. Ákvæði svipað þessu er í 2. mgr. 3. gr. gildandi mannanafnalaga. Að auki hefur skapast um þetta hefð sem eðlileg þykir að flestra mati og ekki sýnist ástæða til að amast við.

Um 11. gr.


    Í frumvarpinu frá 1971 eru tillögur um ákvæði um kenninöfn óskilgetinna barna erlendra manna og íslenskra kvenna. Var lagt til að óskilgetið barn erlends manns og íslenskrar konu skyldi kenna sig til móðurafa síns eða bera ættarnafn móður sinnar ef til væri. Hins vegar var ekki gert ráð fyrir að barnið yrði kennt til föður síns né að það kenndi sig til eiginnafns móður. Þá voru ekki í frumvarpinu frá 1971 ákvæði um skilgetið barn erlends manns og íslenskrar konu og raunar er óljóst af frumvarpinu hvaða kenninafn slíkt barn skyldi bera.
    Við samningu þessa frumvarps hefur ekki þótt ástæða til að greina á milli skilgetinna og óskilgetinna barna. Sá vandi, sem hér blasir við, er hinn sami hvort sem um skilgetið eða óskilgetið barn er að ræða, þ.e. að nafn föður viðkomandi barns er erlent og því álitamál hvort heimila eigi að það sé notað til kenningar í íslensku nafnakerfi.
    Eins og þegar er um rætt í almennum athugasemdum þessa frumvarps er í 11. gr. lagt til að heimilað verði að barn erlends manns og íslenskrar konu beri ættarnafn föður síns. Við fyrstu sýn gæti þessi tillaga virst vera í ósamræmi við þann tilgang íslenskra mannanafnalaga að viðhalda íslensku nafnakerfi. Á móti vegur það, sem kann að reynast þyngra á metunum þegar fram í sækir, að bann við því að íslenskt barn erlends manns beri ættarnafn föður síns kann að leiða til slíkra undanbragða og vandkvæða í framkvæmd að hætt er við að lögin missi marks að þessu leyti. Að margra dómi fælist og í slíku banni ónærgætni og ósanngirni auk þess sem bannið kynni að stangast á við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Það er álit frumvarpshöfunda að nauðsynlegt sé að ný löggjöf um mannanöfn sé þannig úr garði gerð og svo sanngjörn að hún þyki yfirleitt ásættanleg og henni megi framfylgja. Í því felist og meiri trygging fyrir varanleika nafnakerfisins íslenska en fáist með boðum og bönnum sem sett kunna að verða í nafni hreinræktarstefnu í mannanöfnum en ekki verði unnt að framfylgja þegar á reynir.
    Í þessu sambandi má benda á það val sem veitt er til kenningar í 11. gr. Þar er gert ráð fyrir að barn megi kenna til móður sinnar, eiginnafns hennar eða ættarnafns, en auk þess er kveðið á um að heimilt sé, að fengnu samþykki mannanafnanefndar, að barnið beri íslenskt kenninafn sem sé lagað að hinu erlenda heiti föðurins. Sem dæmi um þetta má taka að kenninafn á barni manns, sem bæri engilsaxneska eiginnafnið Charles, gæti orðið Karlsson eða Karlsdóttir. Tekið skal fram að Þjóðskrá hafa að undanförnu borist óskir um slíka aðlögun kenninafna en fyrir henni eru engar heimildir í gildandi lögum.

Um 12. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um kenninöfn ófeðraðra barna, stjúpbarna og ættleiddra barna.
    Í 1. mgr. er lagt til að ófeðrað barn megi kenna til móður sinnar, móðurafa síns eða hafa ættarnafn móður sinnar beri hún ættarnafn. Svipuð ákvæði eru í frumvarpinu frá 1971. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að hér getur verið um viðkvæm og vandasöm mál að ræða sem krefjast nokkurs vals um hagnýt úrræði. Beri móðir ófeðraðs barns ættarnafn er sjálfsagt að heimilt sé að barnið beri það einnig, enda í samræmi við ákvæði 2. mgr. 9. gr. Beri móðirin hins vegar ekki ættarnafn er henni vandi á höndum. Reynslan sýnir að fremur fá dæmi eru um það að barn sé kennt til eiginnafns móður þótt það sé heimilt. Þótt réttur til þessa sé sjálfsagður er reyndin sú að kenninöfn af þessu tagi geta valdið fólki, einkum börnum, ýmsum vandkvæðum. Þessi kenninöfn vekja athygli, á þau er litið sem vísbendingu um að faðerni sé óþekkt og ekki síst af þeim sökum verða börn, sem þau bera, fyrir stríðni og áreitni jafnaldra sinna. Af þessum sökum og í ljósi reynslu starfsfólks Þjóðskrár af tilvikum sem þessum er í 1. mgr. 12. gr. lagt til að lögin veiti það úrræði í þessu efni að ófeðrað barn sé kennt til móðurafa síns. Í þessari málsgrein er jafnframt heimilað að gangi móðir barnsins í hjónaband megi hún kenna barnið til stjúpföður þess. Ekki er gert ráð fyrir að til þess þurfi sérstakt leyfi heldur dygði að slík breyting á kenninafni væri tilkynnt Þjóðskrá, sem tæki þá nafnið á skrá eftir að gengið hefði verið úr skugga um að barnið væri ófeðrað, að stofnað hafi verið til hjúskapar og samþykki stjúpföður lægi fyrir.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilað verði með leyfi dómsmálaráðuneytis að feðrað barn sé kennt til stjúpföður síns. Er gert ráð fyrir að umsagnar kynföður sé jafnan leitað áður en slík ákvörðun er tekin. Í gildandi lögum eru engar heimildir til þessa, en slíkar heimildir hafa lengi verið í öðrum norrænum nafnalögum. Talið er að hér á landi séu óskir um breytingar
kenninafna, eins og þær sem hér er gert ráð fyrir, mjög oft undirrót ættleiðinga. Því megi í mörgum tilvikum komast hjá ættleiðingu með því að heimila breytingu á kenninafni.
    Ákvæði 3. mgr. um kenningu ættleidds barns til kjörforeldris er í samræmi við ættleiðingarlög og sams konar ákvæði eru í öðrum norrænum nafnalögum.
    Í 4. mgr. er loks kveðið á um að ákvarðanir samkvæmt þessari grein skuli jafnan háðar samþykki stjúpföður, svo og barnsins sjálfs sé það orðið tólf ára.

Um 13. gr.


    Í þessari grein er heimilað að eiginmanni eða eiginkonu sé heimilt að bera ættarnafn maka síns meðan hjúskapur stendur. Ef vilji er til þess gilda ákvæði 2. mgr. 18. gr. um að viðkomandi skuli tilkynna það vígslumanni sem aftur tilkynnir það til Þjóðskrár. Heimilt er og að viðkomandi beri ættarnafn maka síns eftir að hjúskap lýkur. Þó er gert ráð fyrir að dómsmálaráðuneyti geti úrskurðað að kröfu hlutaðeigandi að fyrri maka sé óheimilt að halda áfram að bera ættarnafnið gangi annar hvor aðilinn í hjónaband á ný. Hér geta togast á mismunandi hagsmunir. Sá, sem tók ættarnafn maka síns við hjúskap, getur t.d. talið sig hafa hag af því að bera nafnið áfram eftir slit þess hjúskapar af því að hann sé þekktur undir því nafni á opinberum vettvangi. Slíka hagsmuni verður að meta í hverju tilviki og yrði það hlutverk dómsmálaráðuneytis.

Um 14. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að manni sé ekki skylt að bera ættarnafn, þótt hann hafi rétt til þess, og honum sé heimilt að fella niður ættarnafn sem hann hefur borið. Á sama hátt er manni, sem hefur ekki borið ættarnafn þrátt fyrir rétt til þess, heimilt að taka það upp. Gert er ráð fyrir að slíkar breytingar á kenninöfnum, sem um getur í þessari málsgrein, megi aðeins gera einu sinni eftir að viðkomandi nær sextán ára aldri. Er þetta nauðsynlegt til að koma í veg fyrir hringl með kenninöfn og forðast vanhugsaðar breytingar. Þrátt fyrir þetta þykir rétt að gera ráð fyrir að leyfa megi undantekningu frá þessu ef sérstakar ástæður mæla með því. Er það lagt í vald dómsmálaráðuneytis að leggja mat á slík tilvik. Tekið skal fram að ákvæðið um að aðeins megi gera slíka breytingu kenninafns einu sinni, þ.e. að í því felist endanleg ákvörðun ef ættarnafn er fellt niður eða tekið upp, tekur ekki til þeirra tilvika er menn taka upp ættarnöfn maka við stofnun hjúskapar eða leggja þau niður við hjúskaparslit. Um þau tilvik er fjallað sérstaklega í 2. og 3. mgr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að manni, sem gengur í hjúskap, sé frjálst að bera áfram það kenninafn sem hann hafði þá. Gildir þá vitaskuld einu hvort hann kennir sig til eiginnafns föður eða móður að fornum sið eða ber ættarnafn. Ef viðkomandi ber ættarnafn fyrri maka geta þó ákvæði 13. gr. komið til álita eins og áður var rakið. Í þessari málsgrein segir enn fremur að manni sé og heimilt að taka upp ættarnafn maka síns en honum sé óheimilt að bera bæði kenninöfnin. Samkvæmt þessu væri Jónu Jónsdóttur frjálst að nefna sig áfram Jónsdóttur þótt hún ætti Sigurð Hansen og eins væri henni heimilt að nefna sig Jónu Hansen. Hið sama gilti um Jónu Jónsen. Jónu Jónsdóttur væri hins vegar óheimilt að nefna sig Jónu Jónsdóttur Hansen og Jónu Jónsen óheimilt að nefna sig Jónu Jónsen Hansen. Þær yrðu samkvæmt þessu að velja um það hvort kenninafnið þær bæru. Um ástæður þessa ákvæðis hefur þegar verið rætt í almennum athugasemdum. Er þar vísað til vaxandi ásóknar í tvöföld eftirnöfn bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Þetta samrýmist ekki íslenskum nafnvenjum og þykir því ástæða til að stemma stigu við þessu. Tekið skal fram að þetta ákvæði nær ekki til þeirra sem þegar bera tvö kenninöfn á þjóðskrá, sbr. það sem segir í 2. mgr. 9. gr. Þannig mættu þeir, sem bera tvö ættarnöfn á þjóðskrá, halda þeim og sama gilti um niðja þeirra. Hinir, sem á þjóðskrá eru skráðir með hvoru tveggja, kenninafni til eiginnafns föður eða móður og ættarnafni, sbr. Jóna Jónsdóttir Hansen, mættu og halda áfram að bera bæði kenninöfnin og niðjar þeirra fá ættarnafnið en vitaskuld ekki kenninafnið til eiginnafns föður eða móður. Ófædd börn Jónu Jónsen Hansen mættu þannig bera ættarnöfnin Jónsen Hansen en ófædd börn Jónu Jónsdóttur Hansen mættu bera ættarnafnið Hansen. Hin síðarnefndu mættu hins vegar ekki jafnframt kenna sig til eiginnafns föður síns og kalla sig Sigurðsson eða Sigurðardóttir Hansen.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að manni, er hefur tekið upp ættarnafn maka síns, sé frjálst að taka að nýju upp eigið kenninafn er hjúskap lýkur. Gildir þá einu hvort um hefur verið að ræða kenninafn til eiginnafns föður eða móður eða ættarnafn. Hafi hlutaðeigandi lagt niður eigið ættarnafn við stofnun hjúskapar og tekið ættarnafn maka síns er honum heimilt við hjúskaparslit að taka aftur upp eigið ættarnafn. Hins vegar er manni, sem eitt sinn hefur hætt að bera ættarnafn, ekki heimilt að taka það upp aftur í öðrum tilvikum nema dómsmálaráðuneyti leyfi sérstaka undantekningu, sbr. 1. mgr.

Um 15. gr.


    Þessi grein fjallar um nöfn þeirra sem fá íslenskt ríkisfang með lögum. Greinin fylgir þeim lagaákvæðum sem sett hafa verið á undanförnum árum í
tengslum við veitingu ríkisfangs. Ein breyting er þó gerð hér á þessum reglum. Er hún í samræmi við ákvæði 2. mgr. 8. gr., en þar er gert ráð fyrir að sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari, eða hafi verið það sé heimilt að barninu sé gefið erlent nafn sem hið síðara af tveimur eiginnöfnum enda sé hið fyrra íslenskt í skilningi 2. gr. Eðlilegt þykir að sömu ákvæði gildi um börn þeirra erlendu manna sem fá íslenskt ríkisfang.

Um 16. gr.


    Eins og áður er rakið eru í 14. gr. ákvæði um niðurfellingu og upptöku ættarnafna, sem menn hafa rétt til að bera, um upptöku ættarnafns maka við hjúskap og niðurfellingu þess við hjúskaparslit o.fl. Í 1. mgr. 14. gr. er gert ráð fyrir að menn geti aðeins einu sinni breytt kenninafni með niðurfellingu eða upptöku ættarnafns sem menn hafa rétt til að bera. Dómsmálaráðuneyti er þó heimilt að leyfa undantekningu frá þessu ef sérstakar ástæður mæla með því. Í ýmsum öðrum greinum er og gert ráð fyrir breytingu kenninafns eða sérstakri ákvörðun þess. Er þá lagt til að í vafatilvikum þurfi heimild dómsmálaráðuneytis til breytinga eða ákvörðunar, en í öðrum tilvikum gert ráð fyrir að tilkynning til Þjóðskrár nægi og er það þá hlutverk hennar að ganga úr skugga um að nauðsynlegum skilyrðum sé fullnægt.
    Auk þessa getur reynst æskilegt eða nauðsynlegt að heimila breytingu á kenninafni af öðrum ástæðum en fram kemur í fyrri greinum. Hér gætu átt við svipaðar ástæður og raktar eru í athugasemd um 7. gr. þar sem kveðið er á um breytingar eiginnafns. Því er í 16. gr. lagt til að lögfest verði svipuð ákvæði um breytingu kenninafns og um breytingu eiginnafns, sbr. 3. mgr. 7. gr. Tekið skal fram að slík breyting á kenninafni getur þó ekki falist í upptöku nýs ættarnafns, sbr. 4. mgr. 9. gr.

Um 17. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um skipan mannanafnanefndar. Nauðsynlegt er að nefndarmenn séu sérfróðir um mannanöfn og íslenskt mál en auk þess er æskilegt að nefndina skipi jafnframt lögfróður maður. Hér er því um hreina sérfræðinganefnd að ræða og starfar hún eingöngu eftir lögum um mannanöfn og reglugerð sem kann að verða sett á grundvelli þeirra. Frumvarpshöfundum sýnist æskilegt að nefndin verði fámenn enda af því löng reynsla að fastar starfsnefndir eru því starfhæfari því fámennari sem þær eru. Því er lagt til að mannanafnanefnd verði skipuð þremur mönnum, tveimur eftir tilnefningu heimspekideildar Háskóla Íslands og einum eftir tilnefningu lagadeildar
Háskólans. Gert er ráð fyrir að nefndin skipti sjálf með sér verkum. Loks er kveðið á um að kostnaður af nefndinni greiðist úr ríkissjóði. Um störf nefndarinnar og kostnað er fjallað nánar í athugasemdum um 18. gr.

Um 18. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um verkefni mannanafnanefndar. Verkefnin eru hér þríþætt: 1. Að semja skrá um eiginnöfn sem heimil teljast. 2. Að vera til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr ágreiningsefnum um nöfn eins og kveðið er á um í lögum þessum. 3. Að skera úr öðrum álitamálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun o.fl. þess háttar.
    Um verkefni mannanafnanefndar hefur þegar verið rætt í almennum athugasemdum og í athugasemdum við einstakar greinar. Í því sambandi ber að leggja sérstaka áherslu á tvennt:
1.    Að störf nefndarinnar hljóta að verða umfangsmikil og sérstaklega verður að gera ráð fyrir að þau verði tímafrek fyrstu þrjú til fjögur missirin sem nefndin starfar.
2.    Að nefndin gegnir lykilhlutverki við framkvæmd laganna og eftirlit með þeim. Eigi þetta að geta gengið eftir þarf nefndin að starfa með reglubundnum og samfelldum hætti. Hún verður að hafa skrifstofu, sem er opin hluta úr degi, og starfsmann sem unnt er að leita til og getur tekið við erindum og svarað fyrirspurnum. Þá er gengið út frá að nefndin þurfi að hittast oft, enda má ekki verða dráttur á úrskurðum hennar eigi menn að fást til þess að una því að málum sé skotið til hennar eða álits hennar leitað. Loks verður að gera ráð fyrir að nefndin eða hluti hennar, t.d. formaður, vinni sérstaklega að samningu mannanafnaskrár. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að talsverður kostnaður hljótist af starfsemi nefndarinnar.

    Af þeim forsendum, sem hér hafa verið raktar, má lauslega áætla að nauðsynlegt verði að veita fé til starfsemi nefndarinnar á fyrsta heila starfsári hennar sem hér segir:

Launakostnaður ........................................
3.100 þús. kr.

    Reiknað er með nefndarlaunum og miðað við fastan starfsmann í hálfu starfi en að annar launakostnaður svari til eins stöðugildis sérfræðings.

Annar rekstrarkostnaður ...........................
900 þús. kr.

Húsaleiga, ljós, hiti, sími, ljósritun, ræsting og ýmsar rekstrarvörur.

Rekstrarkostnaður á ári samtals ..............
4.000 þús. kr.


Stofnkostnaður ..........................................
1.700 þús. kr.

Tvær einmenningstölvur, ljósritunarvél, húsgögn, stofngjald síma og bókakostur.

Fjárþörf alls fyrsta heila starfsárið ...........
5.700 þús. kr.


    Í sambandi við þessa áætlun skal ítrekað að óhjákvæmilegt er að umsvif mannanafnanefndar verði áþekk þeim sem hér er reiknað með. Að öðrum kosti yrði stofnun nefndarinnar tilgangslítil. Á hinn bóginn skal það haft hugfast að stofnkostnaður fellur aðallega til á fyrsta starfsári nefndarinnar og ætla má að úr rekstrarkostnaði dragi þegar fram í sækir.
    Í síðari málsgrein 18. gr. er kveðið á um að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir. Í því felst að þeim verði ekki skotið til æðra stjórnvalds. Hins vegar eiga dómstólar úrlausn um lögmæti forsendna þeirra, sbr. 60. gr. stjórnarskrár. Loks eru fyrirmæli um að nefndin skuli ár hvert birta niðurstöður úrskurða sinna en ætla má að í þeim felist mikil leiðbeining til almennings og þeirra sem falin er framkvæmd laganna.

Um 19. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að breyting á eiginnafni eða kenninafni taki ekki gildi fyrr en við skráningu á þjóðskrá. Gildir þetta jafnt um þær breytingar, sem kveðið er á um að dómsmálaráðuneyti heimili sérstaklega, og um aðrar ákvarðanir um eiginnöfn og kenninöfn og breytingar þeirra sem ekki þarf sérstakt leyfi til og tilkynntar skulu Þjóðskrá. Er slíkar tilkynningar berast Þjóðskrá, hvort sem um er að ræða nafngjafir eða breytingar eiginnafna og kenninafna, er þar kannað hvort nöfn eða nafnbreytingar fullnægi ákvæðum laganna. Skráning fer þá fyrst fram er gengið hefur verið úr skugga um þetta. Nauðsynlegt þykir að skýrt sé kveðið á um gildistöku nafnbreytinga. Annars vegar þarf að vera unnt að beita með virkum hætti því eftirliti sem lögin gera ráð fyrir að Þjóðskráin hafi með höndum. Hins vegar verður að koma í veg fyrir ósamræmi í nafnnotkun og skráningu, t.d. vegna þess að menn byrja að nota nöfn sem ekki hafa verið skráð og vafi leikur á að megi skrá. Ýmis dæmi eru um rugling og jafnvel brot af ásetningi í þessu efni og þykir rétt að stemma stigu við því.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við skráningu á kenninafni barns skuli barnið kennt til föður eða móður skv. 1. mgr. 9. gr., nema tekið sé fram í tilkynningu að barnið skuli bera ættarnafn sem það hefur rétt til. Í 3. mgr. eru hliðstæð ákvæði um upptöku ættarnafns við stofnun hjúskapar. Þessi ákvæði eru sett til að taka af vafa og til ábendingar um að menn verði að koma óskum sínum á framfæri við Þjóðskrá til þess að nöfn verði rétt skráð.

Um 20. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um ritun og notkun nafna. Í 1. mgr. er skilgreint hvað átt er við með fullu nafni manns.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru tekin eftir frumvarpinu frá 1971. Hér er kveðið á um að nöfn manna skuli rituð á opinberum skrám og öðrum gögnum eins og þau eru rituð á þjóðskrá á hverjum tíma og að menn skuli sjálfir í skiptum við opinbera aðila og í lögskiptum rita og tjá nafn sitt eins og það er ritað á þjóðskrá. Þessum ákvæðum er ætlað að stuðla að því að festa komist á nafnritun og tjáningu á nafni auk þess sem þetta ætti að hvetja til þess að nafnritun á þjóðskrá sé í samræmi við nafnnotkun manna og óskir í því efni.

Um 21. gr.


    Ákvæði 21. gr. lúta að nafnritun á þjóðskrá en gert er ráð fyrir að henni megi breyta án þess að um nafnbreytingu sé að ræða. Er þetta í samræmi við gildandi framkvæmd. Algengt er að menn, sem heita tveimur nöfnum, óski eftir að annað nafnið sé ekki ritað ellegar að það sé skammstafað á þjóðskrá þar sem þeir noti það ekki. Í öðrum tilvikum þegar annað tveggja nafna er ekki ritað á þjóðskrá eða það skammstafað þar, er og algengt að þess sé óskað að bæði nöfnin séu rituð þar fullum stöfum.

Um 22. gr.


    Ákvæði þessarar greinar lúta að því að hindra að maður misnoti nafn annars manns. Sams konar ákvæði hafa lengi verið í annarri norrænni nafnalöggjöf og voru einnig í frumvarpinu frá 1971.

Um 23. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. getur dómsmálaráðherra beitt forsjármann dagsektum ef barni hefur ekki verið gefið nafn innan sex mánaða frá fæðingu, sbr. 2. mgr. 4. gr. Í núgildandi lögum er ekki slíkt ákvæði og því engum úrræðum hægt að beita gegn foreldrum sem vilja af einhverjum ástæðum ekki gefa börnum sínum
nafn. Reynslan sýnir að jafnan eru nokkur börn nafnlaus um langa hríð og í einstaka tilvikum svo árum skiptir. Talið er æskilegt að allir þegnar þjóðfélagsins beri nafn til auðkennis og er þetta úrræði því nauðsynlegt.
    Um tvær leiðir er að velja varðandi þvingunarúrræði. Annars vegar dagsektir sem stjórnvald ákveður hins vegar sektir sem dómstóll dæmir.
    Í Noregi og Danmörku er sami tímafrestur og hér er ráðgerður og má hafa nokkra hliðsjón af því. Brot á norska ákvæðinu varðar sektum samkvæmt almennum hegningarlögum. Í Danmörku eru sektir ákvarðaðar af dómstólum en jafnframt er þeim heimilt samkvæmt réttarfarslögum að beita foreldra dagsektum er falla á þar til barni er gefið nafn. Fram til 1981 var einungis beitt dagsektum í Danmörku og voru þær ákvarðaðar af stjórnvaldi. Í þessu frumvarpi er lagt til að sami háttur verði hafður á og áður var í Danmörku. Gert er ráð fyrir að málsmeðferð verði einfaldari ef beitt er dagsektum samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra fremur en sekt samkvæmt dómi.
    Samkvæmt 2. mgr. verður dagsektum ekki beitt gagnvart öðrum brotum en þeim sem um getur í 1. mgr. Öll önnur brot á lögunum varða sektum nema þyngri viðurlög liggi við eftir öðrum lögum.

Um 24. gr.


    Rétt þykir að gera ráð fyrir að heimilt verði að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Er þá einkum haft í huga að reynslan kunni að leiða í ljós að ýmis ákvæði þarfnist nánari fyllingar og skýringar en lagatextinn sjálfur leyfir.
    Tekið skal fram að það felst í ákvæði þessarar greinar og í ákvæði um skipan mannanafnanefndar í 17. gr. að gert er ráð fyrir að dómsmálaráðuneyti fari framvegis með mál sem snerta mannanöfn, en ekki menntamálaráðuneyti, eins og nú háttar. Í frumvarpinu er víða gert ráð fyrir að dómsmálaráðuneyti fari með framkvæmd einstakra atriða, svo sem leyfi til nafnbreytinga, m.a. í tengslum við ættleiðingu eða veitingu ríkisfangs. Leiðir þetta af eðlilegum valdmörkum ráðuneytanna og verkefnum þeirra að öðru leyti. Því þykir rökrétt að dómsmálaráðherra hafi framvegis forræði á mannanafnamálum. Þetta er og í samræmi við löggjöf á öðrum Norðurlöndum.

Um 25. gr.


    Hér er kveðið á um gildistöku og niðurfellingu núgildandi laga. Lagt er til að sex mánuðir líði frá birtingu til gildistöku laganna. Þá er gert ráð fyrir að sá tími verði nýttur til að kynna almenningi efni þeirra. Miklu
hlýtur að skipta um framkvæmd laganna að almenningur þekki þau og geri sér fulla grein fyrir að ætlast sé til að þeim verði framfylgt í hvívetna.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Enda þótt gert sé ráð fyrir að hálft ár líði frá birtingu til gildistöku laganna er nauðsynlegt að ekki dragist að mannanafnanefnd taki til starfa. Er sérstaklega haft í huga að nefndin geti hafið strax störf við að semja mannanafnaskrá og skipuleggja og undirbúa skrifstofuhald sitt. Því er hér lagt til að ekki verði beðið með að skipa í nefndina þar til lögin taka gildi heldur verði það gert þegar eftir útgáfu þeirra.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Hér er kveðið á um hvernig fara skuli með álitamál um nafngjafir þar til mannanafnaskrá hefur verið gefin út. Að öðru leyti vísast um þetta til þeirra skýringa sem þegar eru fram komnar við þriðja málslið 6. gr.