Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 442 . mál.


Sþ.

881. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Inga Björns Albertssonar um störf Rannsóknarlögreglu ríkisins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
1.    Hversu margar kærur bárust Rannsóknarlögreglunni árin 1985–1989, sundurliðað eftir eðli brota?
2.    Hve mörg þessara mála upplýstust?
3.    Hversu mörg mál voru rannsökuð og hve mörg ekki?

    Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir því við Rannsóknarlögreglu ríkisins að hún tæki saman svör við spurningum þessum. Fylgir svar Rannsóknarlögreglu ríkisins, dags. 28. mars sl., hér með.
    Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 14. ágúst 1981, var lagt fyrir sýslumenn og bæjarfógeta að taka upp samræmda innfærslu brota í kæruskrá frá 1. janúar 1982 og var í því sambandi tekinn upp þriggja stafa kódi, sbr. fylgiskjal I. Rannsóknarlögregla ríkisins hefur hagað brotaskráningu í samræmi við þessi fyrirmæli allt til ársins 1989 er dómsmálaráðuneytið samþykkti 1. febrúar 1989 að upp yrði tekin ný skráning á brotaflokkum í samræmi við tillögur rannsóknarlögreglustjóra. Þess var jafnframt óskað að kerfið yrði þannig að hægt yrði að nota það á öllu landinu og að samdar yrðu leiðbeiningar um notkun á því. Þá var hafist handa við að breyta skráningu ársins 1988 í samræmi við núgildandi skráningarkerfi, en 1988 hafði skráningu verið breytt þannig að þriggja stafa kódanum var breytt í fjögurra stafa kóda þó að „kerfinu“ væri haldið óbreyttu. Þegar nokkur reynsla var fengin af hinni nýju brotaflokkaskráningu, sem nú gildir, var ákveðið að yfirfæra hana á mál ársins 1988 og er það verk nú u.þ.b. hálfnað. Við útprentun úr málaskrá árið 1988 sér þess glögg merki við hvað er átt. Er nú unnið að því að ljúka því verki en enn er eftir að umskrá liðlega 1.300 mál.
    Til þess að öðlast sem gleggsta mynd af þeirri starfsemi, sem Rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum og umfangi hennar, var brugðið á það ráð við hönnun hins nýja skráningarkerfis að telja brot, en ekki einungis
fjölda mála eins og víðast hefur tíðkast. Af þessu tilefni voru settar þær meginreglur að fjöldi brota ákvarðast yfirleitt af:
1.    Fjölda tilvika.
2.    Fjölda brotaþola.
3.    Fjölda fremjenda/brotamanna.
4.    Fjölda brotastaða/vettvanga.
    Reglur þessar eru svo skýrðar nánar í skriflegum texta sem hafður er til hliðsjónar er skráning fer fram.
    Er þá rétt að víkja að spurningum sem beint hefur verið til Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    1. Samkvæmt gögnum RLR var málafjöldi á árunum 1985–1989 sem hér segir:
     Árið 1985: 4.350 mál
     Árið 1986: 4.274 mál
     Árið 1987: 4.385 mál
     Árið 1988: 4.915 mál
     Árið 1989: 5.201 mál
    Til frekari skýringar vísast til fylgiskjala II–VI.
    2. Þegar málaskrá áranna 1985, 1986 og 1987 er skoðuð sést að tæplega 50% mála eru skráð upplýst. Þetta segir þó ekki alla söguna þar sem þetta hlutfall er í raun nokkru hærra og stafar það af því að samantektir slíkra upplýsinga eru gerðar skömmu eftir áramót hverju sinni. Þá eru enn í rannsókn nokkur hundruð málanúmer frá fyrra ári. Samantektir frá þessum árum voru unnar að meira og minna leyti í höndum, ef svo má segja, og því var ekki talið unnt að halda slíkri vinnu út allt árið að óbreyttum aðbúnaði. Að því er varðar árin 1988 og 1989 er það að segja að hið nýja tölvukerfi RLR skráir jafnharðan afgreiðslur mála eins og þær eru á hverjum tíma, þ.e. við lok máls. Þannig eru mál ekki skráð upplýst fyrr en við lok rannsóknar, en þá eru brot talin, brotaflokkar skráðir, brotamenn og/eða þolendur taldir o.s.frv. Eins og fyrr eru um hver áramót nokkur hundruð mál í rannsókn og því vantar nokkuð upp á að skráin gefi nákvæmlega rétta mynd af ástandinu á hverjum tíma. Þetta verður hins vegar að hafa í huga við lestur þessara upplýsinga. Til að skýra nákvæmlega hvað við er átt þegar mál ársins 1989 eru skoðuð kemur strax í ljós að málafjöldi ársins er 5.201 mál. Við skráningu hvers málanúmers ber að skrá a.m.k. einn brotaflokk, en þeir geta þó verið fleiri (concursus idealis eða c. realis), þó ekki fleiri en þrjú talsins. Af þessari ástæðu er samtala í FjBrFl (fjöldi brotaflokka) 5.573 fyrir árið 1989. Með sama hætti ber að skoða samtölu FjBr (fjöldi brota, fjöldi tilvika) 9.755 sem raunverulegan brotafjölda í heildarmálafjöldanum sem er 5.201 mál eins og áður sagði. Sú tala er safntala sem stöðugt hleður utan á sig eftir því sem á líður í rannsókn mála. Þannig hefur t.d. maður, sem brýst inn í skrifstofuhúsnæði og stelur tékkhefti með 25 eyðublöðum í og tekst að selja þau öll með falsaðri nafnritun á mismunandi stöðum, framið 26 brot, þ.e. eitt innbrot (244. gr.) og 25 skjalafalsbrot (155. gr.).
    Eins og staðan er nú samkvæmt málaskráningu eru upplýst mál árið 1989 samtals 2.124, en 266 mál eru enn í vinnslu. Óupplýst eru enn 2.811 mál, en allmörg þeirra munu upplýsast með tímanum eins og venjulegast gerist. Að lokum skal þess getið að 2.600 menn og 493 konur eiga hlut að þeim brotum sem upplýst eru, þ.e. sami maður eða sama konan eru talin í hvert sinn er þau koma við sögu. Hins vegar teljast þau aðeins einu sinni ef ætlunin er að skoða aldursdreifingu brotamanna.
    3. Ekki verður gefið algilt svar við þessari spurningu. Öll mál, sem berast Rannsóknarlögreglu ríkisins, sæta einhverri skoðun. Það ber að hafa í huga að skráning máls hjá rannsóknarlögreglu er í sjálfu sér rannsókn þar sem upplýsingar, sem málið ber með sér, eru varðveittar með kerfisbundnum hætti og það eitt sér er fyrsta skrefið í átt að uppljóstran þess. Því miður er það svo að allur almenningur er hirðulaus um að halda til haga tegundarheitum muna, skráningarnúmerum þeirra og hvers konar öðrum upplýsingum sem að gagni mega koma. Þetta girðir þó ekki fyrir að reynt er eftir því sem kostur er að þoka málum áleiðis. Ekki má heldur alveg gleyma því að mörg þeirra mála sem berast rannsóknarlögreglu eru mjög lítilvæg. Líkt og annars staðar gerist verður að raða verkefnum í forgangsröð og eru þá þau mál lögð til hliðar sem litlar sem engar upplýsingar er að hafa um eða hagsmunir óverulegir.



Fylgiskjal I.


Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins


til allra sýslumanna og bæjarfógeta.


    Fyrirhuguð er tölvuúrvinnsla á lögreglukærum, fjölda þeirra og hvers eðlis þær eru. Til að slíkt geti orðið þarf að gera nokkrar breytingar á innfærslum í kæruskrá.
1.    Frá og með 1. janúar 1982 á að tilgreina það brot sem kært er nákvæmlega. Við þessa tilgreiningu á að nota sérstakan númeralykil (sjá meðfylgjandi blað). Sé t.d. kærð líkamsárás, sem á undir 217. gr. hgl., á að skrá töluna 122 í dálk merktan „Hegningarlagabrot“ í kæruskrá. Þegar hinn kærði er grunaður um ölvun við akstur er skráð talan 200 í dálk merktan „Áfengis- og/eða umferðarlagabrot“.
2.    Brot á sérrefsilögum, öðrum en áfengis- eða umferðarlögum, á að skrá í dálk merktan „Annað“.
3.    Í dálk merktan „Annað“ á einnig að skrá eftir sem áður þær lögregluskýrslur sem ekki eru beinlínis kærur um afbrot, t.d. skýrslur um líkfund, um dansleiki o.s.frv.
4.    Sé um það að ræða að líkamsárás, sem hefur verið skráð að eigi undir 218. gr., árás (nr. 123), en síðar kemur í ljós að um 217. gr. hefur verið að ræða, á að breyta færslunni í kæruskránni.
5.    Sérstök athygli skal vakin á því að þegar um brot á 244. gr. alm. hgl. er að ræða er gerður greinarmunur á innbrotsþjófnaði (nr. 130) og öðrum þjófnaði.

F.h.r.


e.u.


HZ (sign.).



Brot gegn alm. hgl. nr. 19/1940.


    101 Brot gegn X. og XI. kafla.
    102 Brot gegn 106. og 107. gr. hgl.
    103 Brot gegn 112. gr. hgl.
    104 Brot gegn 118. gr. hgl.
    105 Önnur brot gegn XII. og XIII. kafla.
    106 Brot í opinberu starfi.
    107 Rangur framburður, 142.–144. gr. hgl.
    108 Önnur brot gegn XV. kafla.
    109 Brot gegn XVI. kafla.
    110 Skjalafals, 155. og 156. gr. hgl.
    111 Önnur brot gegn XVII. kafla.
    112 Brenna, 164. gr. hgl.
    113 Brot gegn 173. gr. a.
    114 Önnur brot gegn XVIII. kafla
    115 Brot gegn 193. gr. hgl.
    116 Nauðgun, 194. gr. hgl.
    117 Brot gegn 209. gr. hgl.
    118 Brot gegn 210. gr. hgl.
    119 Önnur brot gegn XXII. kafla.
    120 Manndráp af ásetningi, 211. gr. hgl.
    121 Manndráp af gáleysi, 215. gr. hgl.
    122 Brot gegn 217. gr. hgl.
    123 Brot gegn 218. gr. hgl.
    124 Brot gegn 219. gr. hgl.
    125 Önnur brot gegn XXIII. kafla.
    126 Brot gegn XXIV. kafla.
    127 Brot gegn friðhelgi einkalífs, 228.–232. gr. hgl.
    128 Ærumeiðingar, 234.–237. gr. hgl.
    129 Önnur brot gegn XXV. kafla.
    130 Þjófnaður, innbrot, 244. gr. hgl.
    131 Annar þjófnaður, 244. gr. hgl.
    132 Gripdeild, 245. gr. hgl.
    133 Ólögmæt meðferð fundins fjár, 246. gr. hgl.
    134 Fjárdráttur, 247. gr. hgl.
    135 Fjársvik, 248. gr. hgl.
    136 Umboðssvik, 249. gr. hgl.
    137 Skilasvik, 250. gr. hgl.
    138 Fjárkúgun, 251. gr. hgl.
    139 Rán, 252. gr. hgl.
    140 Misneyting, 253. gr. hgl.
    141 Hilming, 254. gr. hgl.
    142 Eignaspjöll, 257. gr. hgl.
    143 Nytjastuldur á bifreiðum, 1. mgr. 259. gr. hgl.
    144 Annar nytjastuldur, 1.–3. mgr. 259. gr. hgl.
    145 Önnur brot gegn XXVII. kafla.
    146 Brot gegn XIX. kafla.
    147 Brot gegn XX. kafla.
    148 Brot gegn XXI. kafla.

Sérrefsilagabrot.


    200 Ölvunarakstur, áfengis- og umferðarlagabrot.
    201 Önnur áfengislagabrot.
    202 Önnur umferðarlagabrot.
    203 Fíkniefnabrot.
    204 Brot gegn lögreglusamþykktum.
    205 Brot gegn lax- og silungsveiðilögum.
    206 Fiskveiðibrot.
    207 Brot gegn lögum um tollheimtu- og tolleftirlit.
    208 Skattalagabrot.
    209 Verðlagsbrot.
    210 Brot gegn bókhaldslögum.
    211 Brot gegn öðrum sérrefsilögum.



Fylgiskjal II.


(Texti ekki til tölvutækur.)








Fylgiskjal III.


REPRÓ Í GUTENBERG









Fylgiskjal IV.


REPRÓ Í GUTENBERG









Fylgiskjal V.


REPRÓ









Fylgiskjal VI.


REPRÓ