Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 176 . mál.


Sþ.

977. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Inga Björns Albertssonar um áætlaðan risnu- og ferðakostnað ráðuneyta og ríkisfyrirtækja árið 1990.

    Vakin er athygli á því að í fylgiriti með ríkisreikningi hverju sinni eru m.a. upplýsingar um sundurliðaðan risnu- og ferðakostnað einstakra ráðuneyta og ríkisstofnana i A- og B-hluta ríkissjóðs.
1.      Hver er áætlaður risnukostnaður ráðuneyta annars vegar og ríkisfyrirtækja hins vegar á árinu 1990?
    Við vinnslu fjárlagafrumvarps hverju sinni skiptir Fjárlaga- og hagsýslustofnun ekki áætluðum rekstrarútgjöldum niður á einstaka liði, nema sérstök ástæða gefi tilefni til slíks. Upplýsingar um áætlaðan risnukostnað ráðuneyta og stofnana ríkisins er því ekki að finna í gögnum sem liggja að baki frumvarpi til fjárlaga. Samkvæmt upplýsingum ráðuneyta taka áætlanir um risnukostnað að mestu mið af hliðstæðum kostnaði árið áður. Meðfylgjandi eru upplýsingar frá Ríkisbókhaldi um risnukostnað á árinu 1989 hjá aðalskrifstofu ráðuneyta annars vegar og þeim ríkisstofnunum sem eru í bókhaldsþjónustu Ríkisbókhalds. Þess ber þó að gæta að risnukostnað rúmlega 80 stofnana í A-hluta ríkissjóðs, sem skila ársreikningi fyrir árið 1989 til ríkisbókhalds, er ekki að finna í þessum gögnum.

2.      Hver er áætlaður ferðakostnaður ráðuneyta annars vegar og fyrirtækja í ríkiseign hins vegar á árinu 1990? Hvernig skiptist áætlunin milli ferðakostnaðar innan lands og kostnaðar við utanlandsferðir? Hvað er gert ráð fyrir mörgum utanlandsferðum?
    Hið sama gildir um áætlaðan ferðakostnað og um áætlaðan risnukostnað að yfirleitt er hann ekki sérgreindur í gögnum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar við fjárlagagerð hverju sinni. Fjármálaráðuneytið gaf út á árinu 1973 reglur um greiðslu kostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra reglna kemur fram að „Áður en ferð til útlanda hefst, ber að afla skriflegrar heimildar viðkomandi ráðuneytis. Í heimildinni sé tilgreindur fjöldi ferðadaga.“ Í dreifibréfi Ríkisendurskoðunar frá október sl. sem fjallar um frágang risnu- og ferðareikninga er þetta ákvæði áréttað. Hins vegar er óalgengt að stofnanir sendi ráðuneyti í upphafi árs upplýsingar um áætlaðar utanferðir. Hér á því hið sama við og í svari við fyrstu spurningu að upplýsingar um áætlaðan ferðakostnað ráðuneyta og ríkisstofnana á árinu 1990 verður að byggja á gögnum Ríkisbókhalds um ferðakostnað á árinu 1989. Meðfylgjandi eru upplýsingar frá Ríkisbókhaldi um ferðakostnað á árinu 1989 hjá aðalskrifstofum ráðuneyta annars vegar og þeim ríkisstofnunum sem eru í bókhaldsþjónustu Ríkisbókhalds eftir þeirri skiptingu sem um er beðið. Þess ber þó að gæta að ferðakostnaður rúmlega 80 stofnana í A-hluta ríkissjóðs, sem skila ársreikningi fyrir árið 1989 til ríkisbókhalds, er ekki að finna í þessum gögnum.


(Texti er ekki til tölvutækur.)