Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 339 . mál.


Sþ.

978. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Þórhildar Þorleifsdóttur um kostnað við upptöku virðisaukaskatts.

1.    Hver var kostnaður fjármálaráðuneytisins árið 1989 af kynningu, fræðslu og auglýsingum við upptöku virðisaukaskatts:
    a.     sundurgreint eftir fjölmiðlum,
    b.     bæklingar, veggspjöld o.fl.,
    c.     annað?

    Kynning skattkerfisbreytingarinnar meðal gjaldenda og almennings var eitt meginviðfangsefnanna við undirbúning þess að virðisaukaskatturinn leysti söluskatt af hólmi um síðustu áramót. Kynningin síðari hluta árs fór fram í sérstöku samstarfi fjármálaráðuneytisins og embættis ríkisskattstjóra. Kynningarstarfið var afar margvíslegt og verður ekki allt saman metið nákvæmlega í fjárhæðum, m.a. vegna þess að það blandaðist óhjákvæmilega daglegum störfum í fjármálaráðuneyti, hjá ríkisskattstjóra og á skattstofum í umdæmunum.
    Um er að ræða kerfisbreytingar á einum veigamesta tekjustofni ríkisins sem samkvæmt fjárlögum er ætlað að skila í ríkissjóð 38.650.000.000 kr. árið 1990, eða 40,6% áætlaðra tekna.
    Kostnaður við kynningar-, fræðslu- og auglýsingastarf við skattkerfisbreytinguna á árinu 1989 nam samtals 27.055.037 kr. á árinu 1989. Þar er talinn kostnaður við auglýsingar í dagblöðum og sjónvarpi, við útgáfu og dreifingu tveggja upplýsingarita í samtals 64 þúsund eintaka upplagi og við fundarferðir og námskeið starfsmanna embættis ríkisskattstjóra, en á hans vegum voru haldnir um 90 fundir með samtals 4.500 fundarmönnum.
a. Auglýsingar í fjölmiðlum.
    Kynningu og fræðslu um virðisaukaskattsbreytinguna var m.a. komið á framfæri með auglýsingum í sjónvarpi, dagblöðum og héraðsfréttablöðum.
     Auglýsingar í sjónvarpi voru þrenns konar:
    Í fyrsta lagi var leikin sjónvarpsauglýsing, 46 sekúndna, birt í lok september og byrjun október, og var megininntak hennar að minna á skattkerfisbreytinguna fram undan og hvetja gjaldendur og aðra til að kynna sér inntak hennar.
    Í öðru lagi voru birtar fimm stuttar teiknaðar auglýsingar, hver u.þ.b. 15 sekúndna, í nóvember og í byrjun desember. Þessum auglýsingum var ætlað að skýra út eðli nýja skattkerfisins og kosti þess fyrir íslenskt viðskipta- og efnahagslíf. Þær byggðu mjög á blaðaauglýsingum um svipað leyti.
    Í þriðja lagi voru birtar skjáauglýsingar í lok október um tilkynningarskyldu virðisaukaskattskyldra aðila.
     Auglýsingar í blöðum voru ýmiss konar og samtals fimmtán, flestar heilsíðuauglýsingar.
    Fyrstu auglýsingarnar miðuðust eins og leikna sjónvarpsauglýsingin við að vekja athygli á skattkerfisbreytingunni, skýra í stuttu máli gangverk virðisaukaskattsins og virkni, kynna hugtök á borð við innskatt og útskatt og gera grein fyrir helstu breytingum frá söluskattskerfinu. Þessar auglýsingar voru birtar í fyrri hluta október. Þær voru þrjár og höfðu fyrirsagnirnar: Hvað? Hvernig? Hvers vegna virðisaukaskattur?, Hvað breytist?, Hvernig er frádráttarheimildin í virðisaukaskatti?
    Næstu auglýsingar fólust í hvatningu og áminningu til gjaldenda um að tilkynna starfsemi sína. Tvær auglýsingar, Tilkynna þarf skattskylda starfsemi fyrir 31. október og Fresturinn er runninn út, voru birtar síðari hluta október og í byrjun nóvember.
    Á þessum tíma og fram í desember voru birtar auglýsingar sem samsvöruðu stuttu teiknuðu sjónvarpsauglýsingunum. Markmið þeirra var að kynna eðlismun virðisaukaskatts og söluskatts, skýra þær ástæður sem lágu að baki skattkerfisbreytingunum og hvetja gjaldendur og almenning til að leita sér frekari fræðslu um virðisaukaskattinn. Fyrirsagnir þessara sex auglýsinga voru: Bætt staða íslenskrar framleiðslu á erlendum mörkuðum, Íslensk framleiðsla styrkist á heimamarkaði, Betri skattskil koma öllum til góða, Jafnari staða íslenskra atvinnugreina, Ný aðferð sem kemur í veg fyrir uppsöfnun skatts í vöruverði, Aðferð sem hefur gefist vel í helstu viðskiptalöndum okkar.
    Síðari hluta nóvember og í desember var vakin athygli á bókhaldsreglum og frágangi reikninga með tveimur auglýsingum: Bókhaldsskylda í virðisaukaskatti og Löglegur reikningur er skilyrði fyrir frádrætti. Þá var á sama tíma vakin almenn athygli á breytingunni og einstökum þáttum hennar með auglýsingunum: Virðisaukaskattur 1. janúar, Hefur þú kynnt þér breytinguna? og Virðisaukaskattur frá 1. janúar. Þessar auglýsingar birtust einnig nokkrum
sinnum í byrjun janúar og er kostnaður við þær talinn með kostnaði 1989 hér að neðan.
    Í langflestum auglýsinganna var vakin athygli á upplýsingasíma sem sérstaklega var settur upp hjá embætti ríkisskattstjóra og helgaður spurningum og svörum um virðisaukaskattinn. Þessi upplýsingasími var geysimikið nýttur af gjaldendum og almenningi.
    Kostnaður vegna auglýsinga í fjölmiðlum var samtals 20.265.770 kr. Þar af er kostnaður við birtingu auglýsinga 15.716.624 kr., en kostnaður við hönnun og gerð samtals 4.549.146 kr. Í þeirri tölu er einnig talinn kostnaður við ýmsa smávægilegri hönnun og framleiðslu, svo sem við gerð „vsk.-merkis“.
    Skipting birtingarkostnaðar milli einstakra fjölmiðla er þessi (í krónum):

    Alþýðublaðið/Pressan .............         1.649.438
    Dagur ............................         1.299.395
    DV ...............................         2.174.769
    Morgunblaðið .....................         4.592.753
    Sjónvarpið .......................         1.252.884
    Stöð 2 ...........................         852.556
    Tíminn ...........................         1.508.457
    Þjóðviljinn ......................         1.456.946
    Héraðsfréttablöð og tímarit ......         929.426

    Þau héraðsfréttablöð og tímarit sem hér um ræðir eru Austri Egilsstöðum, Austurland Neskaupstað, Borgfirðingur Borgarnesi, Bæjarblaðið Keflavík, Bæjarins besta Ísafirði, Bæjarpósturinn Dalvík, Dagskrá Selfossi, Dagskrá Vestmannaeyjum, Eystrahorn Höfn, Feykir Sauðárkróki, Fjarðarpósturinn Hafnarfirði, Fréttir Vestmannaeyjum, Hafnfirska fréttablaðið, Kópavogsblaðið, Reykjanes Keflavík, Skagablaðið Akranesi, Vestfirska fréttablaðið Ísafirði, Víkurblaðið Húsavík, Víkurfréttir Keflavík, Þjóðólfur Selfossi, Bændablaðið, Landsbyggðin og Neytendablaðið.
    Þess skal getið að fræðsla og kynning fór að sjálfsögðu fram í fjölmiðlum með venjulegum fréttaflutningi, sem m.a. byggðist á upplýsingaöflun í fjármálaráðuneyti og embætti ríkisskattstjóra. Víðtæk umræða í fjölmiðlum og í samfélaginu hjálpaði hér einnig til, en hún átti sér m.a. forsendu í ofannefndri auglýsingakynningu.

b. Bæklingar og veggspjöld.
    Árið 1989 voru gefin út tvö upplýsingarit um virðisaukaskattinn og skattkerfisbreytinguna.
    Hið fyrra bar nafnið Virðisaukaskattur — í stuttu máli!, 24 síður litprentaðar í A4-broti. Það kom út í lok september í um 37 þúsund eintökum. Þar er fjallað á einfaldan og auðskiljanlegan hátt um skattkerfisbreytinguna og helstu þætti virðisaukaskattskerfisins.
    Í desember kom síðan út bæklingurinn Virðisaukaskattur — leiðbeiningar, um 50 síður í bókarbroti. Upplag var 27 þúsund eintök. Það geymir leiðbeiningar um alla almenna þætti virðisaukaskattskerfisins fyrir gjaldendur og áhugamenn.
    Báðum upplýsingaritunum var dreift til um 25 þúsund væntanlegra gjaldenda í pósti. Þeir fengu einnig sérstaka orðsendingu með útkomnum reglugerðum og er sá dreifingarkostnaður talinn með að neðan.
    Kostnaður við prentun og hönnun þessara bæklinga er 3.875.880 kr. og dreifingarkostnaður er 2.616.927 kr., samtals 6.492.807 kr.

c. Annað.
    Kostnaður vegna funda, námskeiða og kynnisferða starfsmanna embættis ríkisskattstjóra á árinu 1989 er 296.469 kr.
    Verulegur hluti kynningar og fræðslu um skattkerfisbreytingarnar fór fram með fundahöldum þar sem starfsmenn ríkisskattstjóra, einstakra skattstofa og fjármálaráðuneytisins héldu fyrirlestra, svöruðu fyrirspurnum og dreifðu kynningarefni. Starfsmenn ríkisskattstjóra komu frá lokum september og út árið á yfir 90 slíka kynningarfundi og voru fundarmenn samtals hátt á fimmta þúsund. Þar við bætast fundir skattstofumanna og starfsmanna fjármálaráðuneytisins.

2.     Hver er áætlaður kostnaður við kynningu og fræðslu um virðisaukaskatt árið 1990?
    Beinni kynningu vegna skattkerfisbreytingarinnar er að mestu lokið. Þó á eftir að gefa út kynningar- og leiðbeiningarrit fyrir ýmsa hópa og endurútgáfa annarra er einnig nauðsynleg. Þá er fræðsla og kynning nauðsynlegur þáttur í sjálfum rekstri skattkerfisins og nær til allra þátta þess.
    Í fjárlögum fyrir 1990 er gert ráð fyrir kostnaði vegna þessa í 4. gr., á liðum 09-212, 1 01 og 1 02, en áætlun liggur ekki fyrir um það hver hlutur kynningar og fræðslu af þessum liðum verður.



Fylgiskjal.


Fundir starfsmanna RSK vegna kynningar á virðisaukaskatti.


(Haustið 1989.)



(TAFLA –ekki til tölvutæk.)