Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 402 . mál.


Nd.

1125. Nefndarálit



um frv. til l. um innflutning dýra.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra. Einnig bárust nefndinni athugasemdir frá Brynjólfi Sandholt yfirdýralækni og Árna M. Mathiesen, dýralækni fisksjúkdóma, varðandi frumvarpið og hefur verið tekið tillit til flestra þeirra.
    Nefndin er sammála um að leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Sumar lúta að orðalagi og áherslum en aðrar eru efnislegar. Efnislegar breytingar varða í fyrsta lagi einangrunarstöð, sbr. 13. gr. frumvarpsins. Lagt er til að innflutningur í einangrunarstöð verði undir eftirliti umsjónardýralæknis. Er þetta gert til að leggja áherslu á að ströngustu reglum sé líka fylgt við innflutning í einangrunarstöð, sem og sóttvarnastöð. Gæti slíkur innflutningur valdið stórskaða ef ekki er að gáð og því eðlilegt að ströngustu reglur gildi um hann.
    Í öðru lagi er lagt til að 1. gr. verði breytt þannig að yfirmaður sóttvarna- eða einangrunarstöðvar nefnist sóttvarnardýralæknir, en ekki umsjónarmaður, og breytast nokkrar greinar til samræmis við það.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 3. gr. þar sem nefndin telur óþarft ef yfirdýralæknir mælir ekki með innflutningi dýrs að honum sé gert að skila rökstuddu áliti um heilbrigðisástand í því landi sem flytja á dýrið frá.
    Þá er lagt til að ákvæði 1. málsl. síðari málsgreinar 4. gr. um mat búfjárræktarnefndar á innflutningi falli brott þar sem ráðherra er skyldaður í fyrri málsgreinar sömu greinar til að leita álits nefndarinnar áður en innflutingur er leyfður. Ákvæðið er því óþarft.
    Í fimmta lagi leggur nefndin til að embættisdýralæknir annist heilbrigðisskoðun á dýrum sem flytja á inn og dýrum sem gefa erfðaefni sem flutt er inn, en ekki sé látið nægja að viðurkenndur dýralæknir framkvæmi slíka skoðun. Jafnframt er lagt til að upplýsingar um slíkan innflutning liggi fyrir áður en hann fer fram.
    Að lokum er lagt til að það sé búfjárræktarnefnd í viðkomandi grein, en ekki landsráðunautur, sem viðurkenni bú sem fá að flytja dýr úr einangrunarstöð á búið.
    Kristín Einarsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 27. apríl 1990.



Alexander Stefánsson,


form., frsm.


Guðni Ágústsson,


fundaskr.


Ingi Björn Albertsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Pálmi Jónsson.


Eggert Haukdal.


Ragnar Arnalds.