Ferill 268. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 268 . mál.


Sþ.

1155. Nefndarálit



um till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1990–1993.

Frá fjárveitinganefnd.



    Nefndin hefur haft tillöguna til meðferðar síðan 22. janúar er fyrri umræða fór fram um hana í sameinuðu þingi. Hér er um að ræða endurskoðaða flugmálaáætlun fyrir árin 1990–1993 skv. 1. gr. laga nr. 31/1987. Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og kvaddi til fundar við sig fulltrúa samgönguráðuneytis, flugmálastjóra og starfsmenn hans. Þá var haft samráð við þingmannahópa kjördæmanna um meðferð málsins.
    Í kjölfar nýgerðra kjarasamninga frá því í febrúarmánuði sl. hafa verðlagsforsendur þær, sem fram koma í tillögunni, breyst. Af þeim sökum var nauðsynlegt að kalla eftir endurreikningi bæði tekna og gjaldaáætlunar flugmálaáætlunar. Því til viðbótar er gert ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga vegna kjarasamninga í febrúar 1990 að til komi lækkun útgjalda við rekstur Flugmálastjórnar um tæpar 20 milljónir króna.
    Við afgreiðslu fjáraukalaga, nr. 111/1989, sem var til afgreiðslu á Alþingi í desembermánuði sl. kom fram að rekstrarafkoma Flugmálastjórnar var verulega slæm og fjárvöntun umtalsverð. Í framhaldi af þeim viðræðum, sem fjárveitinganefnd átti við samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn um þetta mál, var ákveðið að ráðuneytið, Fjárlaga- og hagsýslustofnun, ásamt starfsmönnum Flugmálastjórnar mynduðu vinnuhóp til að gera tillögu um lausn á þeim rekstrarvanda sem er hjá Flugmálastjórn. Fjárveitinganefnd kallaði eftir niðurstöðu vinnuhópsins, en starf hans hefur orðið nokkuð tímafrekara en gert var ráð fyrir og liggja ekki fyrir niðurstöður af þeirri vinnu nú. Hins vegar er gert ráð fyrir að vinnuhópurinn skili tillögum sínum um lausn á rekstrarvanda Flugmálastjórnar á næstunni. Af þeim sökum er ekki hægt að taka afstöðu til þeirra mála nú við afgreiðslu flugmálaáætlunar. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að ekki væri óeðlilegt að af framkvæmdafé Flugmálastjórnar væri gert ráð fyrir kostnaði Flugmálastjórnar við yfirstjórn og undirbúningsframkvæmdir. Þannig er nú gert ráð fyrir að af framkvæmdafé gangi 14 milljónir króna til að mæta rekstrargjöldum Flugmálastjórnar á árinu 1990 til verklegra framkvæmda.
    Nefndinni barst endurskoðuð flugmálaáætlun frá stjórnvöldum með breyttum verðlagsforsendum, en endurskoðunin hefur í för með sér að tekjur Flugmálastjórnar lækka um 82 milljónir króna á árinu 1990. Að teknu tilliti til lækkunar tekna var útgjaldaáætlun breytt í samræmi við það. Tillögur þessar voru sendar þingmannahópum kjördæmanna og tók fjárveitinganefnd tillit til óska þingmanna kjördæmanna um skiptingu framkvæmdafjár til einstakra verkefna að því gefnu að þær hefðu ekki áhrif á heildarframlög til einstakra kjördæma.
    Auk þeirra breytinga, sem nefndin samþykkti frá þingmannahópum um skiptingu framkvæmdafjár innan kjördæma, bárust nefndinni eftirtaldar beiðnir frá einstökum þingmannahópum.
1.     Frá þingmönnum Vesturlands um að ráðstafa nokkurri fjárhæð af óskiptu fé á árinu 1991 til framlengingar flugbrautar á Rifi á Snæfellsnesi.
2.     Frá þingmönnum Norðurlands vestra um lagningu malbiks á Sauðárkróksflugvöll á árinu 1992 (sjá fylgiskjal I).
3.     Frá þingmönnum Austurlands um byggingu þverbrautar við flugvöllinn á Hornafirði (sjá fylgiskjal II).
    Nefndin samþykkti að vísa þessum málum til flugráðs og Flugmálastjórnar til umsagnar og meðferðar, m.a. við næstu endurskoðun flugmálaáætlunar þar sem það á við. Þá komu fram óskir í fjárveitinganefnd um að flugráð gerði áætlun um að unnið yrði að klæðningu flugbrautar á innanlansflugvöllum þar sem áætlunarflug er með Fokker-flugvélum og tekið yrði tillit til þeirra óska við næstu endurskoðun flugmálaáætlunar.
    Nánari grein verði gerð fyrir breytingartillögum fjárveitinganefndar í framsögu, en nefndin leggur til að tillögurnar verði samþykktar með þeim breytingum sem fram koma á þingskjali 1175.

Alþingi, 2. maí 1990.



Sighvatur Björgvinsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir,


fundaskr.


Alexander Stefánsson.


Pálmi Jónsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Ásgeir Hannes Eiríksson.


Egill Jónsson.


Friðjón Þórðarson.


Málmfríður Sigurðardóttir.





Fylgiskjal I.


Til fjárveitinganefndar frá alþingismönnum í Norðurlandskjördæmi vestra.


(26. apríl 1990.)



    Við undirritaðir alþingismenn í Norðurlandskjördæmi vestra höfum ákveðið að beita okkur fyrir því að lagning malbiks á Sauðárkróksflugvöll verði framkvæmd á árinu 1992.
    Við minnum á að komið hefur fram að unnt mun vera að semja við Króksverk hf. um að framkvæma verkið og að lána hluta af kostnaðinum. Við teljum eðlilegt að verja til verkefnisins hluta af þeirri upphæð sem er óskipt á flugmálaáætlun ásamt með sérstöku framlagi úr ríkissjóði.
    Þetta viljum við kunngjöra háttvirtri fjárveitinganefnd.


Virðingarfyllst,


Páll Pétursson,


Pálmi Jónsson,


Stefán Guðmundsson,


Ragnar Arnalds,


Jón Sæmundur Sigurjónsson.






Fylgiskjal II.


Til flugráðs frá alþingismönnum Austurlandskjördæmis.


(30. apríl 1990.)



Efni: Bygging þverbrautar við Árnanesflugvöll, Hornafirði.
    Samkvæmt flugmálaáætlun fyrir árin 1990–1993 er gert ráð fyrir að bygging þverbrautar við flugvöllinn í Hornafirði hefjist árið 1991.
    Alþingismenn Austurlandskjördæmis leggja á það áherslu að þessum framkvæmdum verði lokið sem fyrst og munu beita sér fyrir nauðsynlegum fjárveitingum til þessa verkefnis við endurskoðun flugmálaáætlunar 1992 með það í huga að framkvæmdum ljúki það ár.
    Jafnframt munu alþingismenn Austurlandskjördæmis beita sér fyrir því að á árinu 1992 verði lokið við tækjageymslu og tækjakaup sem fresta varð vegna byrjunarframkvæmda við flugbrautina.

Virðingarfyllst,


Halldór Ásgrímsson,


Egill Jónsson,


Kristinn Pétursson,


Jón Kristjánsson,


Hjörleifur Guttormsson.