Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 465 . mál.


Sþ.

1165. Nefndarálit



um till. til þál. um breyt. á þál. um vegáætlun fyrir árin 1989–1992.

Frá meiri hl. fjárveitinganefndar.



    Nefndin hefur haft tillöguna til meðferðar en hún var rædd í sameinuðu þingi 2. apríl sl. og var að þeirri umræðu lokinni vísað til fjárveitinganefndar. Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og fengið m.a. til liðs við sig vegamálastjóra og starfsmenn hans eins og venja er til þegar vegáætlun er til meðferðar. Þá hefur eins og ætíð áður verið haft samráð við þingmannahópa kjördæmanna um skiptingu framkvæmdafjár milli einstakra viðfangsefna.
    Regluleg endurskoðun vegáætlunar fór fram á síðasta þingi þannig að sú endurskoðun, sem nú hefur farið fram á þessu þingi, nær þess vegna aðeins til tekjuspár og framkvæmdaáforma fyrir árið 1990. Regluleg endurskoðun vegáætlunar á samkvæmt vegalögum ekki að fara fram næst fyrr en á Alþingi 1990–91.
    Í kjölfar nýgerðra kjarasamninga og aðgerða stjórnvalda í tengslum við þá hafa verðlagsforsendur vegáætlunar tekið breytingum, bæði á tekna- og gjaldahlið vegáætlunar, og var því nauðsynlegt að óska eftir endurskoðun á áætluninni. Þá lá ekki fyrir hvernig fara skyldi með kostnaðarauka vegna virðisaukaskatts af snjómokstri hjá Vegagerð ríkisins. Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 1990 er heimild handa fjármálaráðherra til þess að lækka rekstrargjöld um 2% vegna breyttra verðlagsforsendna í kjölfar kjarasamninga í febrúarmánuði sl. Lækkun á útgjöldum til vegamála af þessum sökum nemur um 90 milljónum króna. Að lokum taldi nefndin nauðsynlegt að fá upplýsingar um stöðu óinnheimtra markaðra tekjustofna til vegamála í árslok 1989, svo og óafgreidd framlög til girðinga og ristarhliða. Nefndin óskaði eftir upplýsingum um framangreint atriði.
    Nefndinni bárust upplýsingar frá stjórnvöldum er varða þau atriði sem nefnd voru hér að framan. Í tillögunni er gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnar til vegamála á árinu 1990 nemi alls 4.496 milljónum króna. Ný tekjuspá gerði hins vegar ráð fyrir að markaðir tekjustofnar næmu 4.396 milljónum króna sem er 100 milljónum króna lægri fjárhæð en fram kemur í þingsályktunartillögunni. Til að mæta þeim tekjumissi er gert ráð fyrir að innheimta eftirstöðva markaðra tekjustofna til vegamála hækki um 100 milljónir króna á árinu 1990. Fjármálaráðuneytið hefur að undanförnu gert sérstakt innheimtuátak sem áætlað er að skili auknum tekjum af mörkuðum tekjustofnum til vegamála í ríkissjóð að fjárhæð 100 milljónir króna og að þær fari óskertar til vegamála. Þannig er tryggt að ráðstöfunarfé verði óbreytt til vegamála á árinu 1990 frá því sem þingsályktunartillagan gerði ráð fyrir. Fyrirhugað er af hálfu fjármálaráðuneytis að gefa út reglugerð um niðurfellingu virðisaukaskatts af snjómokstri. Með þessari ákvörðun má áætla að tilkostnaður Vegagerðar ríkisins við snjómokstur geti lækkað um 80 milljónir króna á árinu 1990 sem er svo til sama fjárhæð og fyrirhuguð lækkun útgjalda um 2% vegna breyttra verðlagsforsendna gerir ráð fyrir. Þannig er tryggt að framkvæmdafé á árinu 1990 til vegamála verði í samræmi við áætlun um skil markaðra tekjustofna á þessu ári. Á fylgiskjali er yfirlit frá Vegagerð ríkisins um óafgreiddar kröfur vegna girðinga og ristarhliða, en þar kemur fram að heildarfjárþörf til þessara viðfangsefna um sl. áramót nemur um 264 milljónum króna allt frá árinu 1978.
    Til afgreiðslu á Alþingi er tillaga til þingsályktnar um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum. Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að framkvæmdir við jarðgangagerð á Vestfjörðum geti hafist á árinu 1991. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að hraða öllum undirbúningi verksins á árinu 1990 og til þess þarf að verja allt að 47 milljónum króna sem teknar yrðu að láni og heimildar leitað fyrir lántöku við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1990 á komandi hausti. Í breytingartillögum meiri hl. nefndarinnar á þingskjali 1176 er gert ráð fyrir fjármögnun þess kostnaðar sem til fellur á árinu 1990 við undirbúning jarðgangagerðar á Vestfjörðum.
    Við endanlega ákvörðun um framlög til einstakra verkefna hafa þingmenn kjördæma unnið í samráði við Vegagerð ríkisins og hefur nefndin fallist á allar tilfærslur milli verkefna, enda hafa þær ekki breytt heildarframlögum til vegamála á árinu 1990.
    Nánari grein verður gerð fyrir breytingartillögum meiri hl. nefndarinnar í framsögu, en meiri hl. leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 1176.

Alþingi, 2. maí 1990.



Sighvatur Björgvinsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir,


fundarsk.


Ólafur Þ. Þórðarson,


með fyrirvara.


Alexander Stefánsson.


Ásgeir Hannes Eiríksson.





Fylgiskjal.


MINNISBLAÐ


frá Vegagerð ríkisins.



    Þann 1. janúar 1990 voru óafgreiddar kröfur um 633 km í girðingum og 36 ristarhlið. Hver km í girðingu kostar um 400 þús. kr. og 4 metra ristarhlið 260 þús. kr. hvert. Heildarfjárþörf um sl. áramót nam því u.þ.b. 264 m.kr. en rétt er að geta þess að reynsla sýnir að ekki reynast allar kröfur réttmætar þegar að afgreiðslu þeirra kemur og er því framangreind tala vafalaust talsvert of há. Nánar skiptast kröfurnar á umdæmi svo sem hér á eftir greinir:

              Girðingar    Ristarhlið    Kröfur
             km    stk.    m.kr.

    Suðurland ..........     75    4    31,3
    Reykjanes ..........     7    0    2,9
    Vesturland .........     160    7    66,2
    Vestfirðir .........     18    4    8,3
    Norðurl. vestra ....     108    5    44,7
    Norðurl. eystra ....     198    13    83,0
    Austurland .........     67    3    27,8
              —     —     —
     Samtals     633    36    264,2

    Fjárveiting til girðinga og landgræðslu í vegáætlun fyrir árið 1990 er 22 m.kr. Af þeirri fjárhæð er fyrirhugað að 10 m.kr. verði varið til landgræðslu og 12 m.kr. til girðinga.
    Elstu kröfur eru frá árinu 1978 og verður sennilega unnt að afgreiða kröfur frá 1978 og 1979 með fyrrnefndri fjárhæð.