Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1241, 112. löggjafarþing 402. mál: innflutningur dýra (heildarlög).
Lög nr. 54 16. maí 1990.

Lög um innflutning dýra.


1. gr.

     Merking orða er í lögum þessum sem hér segir:
      Búfé: Hvers konar dýr sem haldin eru og alin í þeim tilgangi að hafa af þeim gagn og nytjar.
      Búfjárræktarnefnd: Nefnd skv. 5. gr. laga um búfjárrækt, nr. 84 30. maí 1989.
      Dýr: Öll lifandi landdýr, bæði hryggdýr, hryggleysingjar og lagardýr sem lifa að hluta eða öllu leyti í fersku vatni.
      Einangrunarstöð: Sóttvarnaraðstaða fyrir loðdýr, fugla og fiska.
      Erfðaefni: Hvers kyns efni sem geymir erfðaeiginleika dýra, svo sem fósturvísir (frjóvgað egg eða fóstur á frumstigi), egg eða sæði.
      Sóttvarnardýralæknir: Yfirmaður sóttvarnastöðvar þar sem dýr hafa verið flutt inn samkvæmt lögum þessum.
      Sóttvarnastöð: Staður þar sem dýr og erfðaefni eru geymd meðan rannsakað er hvort þau eru haldin smitsjúkdómi.
      Umsjónardýralæknir: Hver sá dýralæknir sem hefur verið skipaður til eftirlits vegna innflutnings samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

     Óheimilt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra.
     Landbúnaðarráðherra getur, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, vikið frá banni því sem um getur í 1. mgr. og leyft innflutning dýra og erfðaefnis, enda sé stranglega fylgt þeim fyrirmælum, sem felast í lögum þessum, og reglugerðum er settar verða samkvæmt þeim.
     Dýrum, sem flutt eru inn án heimildar, skal tafarlaust lógað og skrokkum eytt svo að eigi stafi hætta af. Eggjum, sæði eða fósturvísum skal á sama hátt eytt, svo og dýrum, sem sædd kunna að hafa verið eða notuð sem fósturmæður, og afkvæmum sem kunna að hafa fæðst eftir slíkan ólöglegan innflutning.

3. gr.

     Þegar yfirdýralæknir mælir með innflutningi dýra eða erfðaefnis skal hann skila rökstuddu áliti um heilbrigðisástand í viðkomandi landi eða landsvæði og meðmælum skulu fylgja vottorð frá viðkomandi heilbrigðisyfirvöldum um að þar hafi ekki orðið vart sjúkdóma í dýrum sem sérstaklega þarf að óttast hér á landi.
     Þegar óskað er heimildar til innflutnings á búfé skal ráðherra skipa nefnd þriggja dýralækna yfirdýralækni til ráðuneytis. Skal einn þeirra tilnefndur af Tilraunastöð Háskólans í meinafræði, annar af yfirdýralækni og sá þriðji skipaður án tilnefningar.

4. gr.

     Áður en leyfi til innflutnings á búfé eða erfðaefni þess er veitt skal ráðherra leita álits búfjárræktarnefndar í viðkomandi búgrein og skal hún meta þörf eða hugsanlegan ábata fyrir íslenska búfjárrækt af slíkum innflutningi. Skal nefndin gera tillögur um hvaða kyn og tegund skuli flytja inn, með hvaða hætti og frá hvaða landi.
     Nefndin getur lagt til annað form á innflutningi en umsækjandi gerir ráð fyrir telji hún það tryggara og forsendur fyrir meðmælum með umsókninni.

5. gr.

     Áður en leyfi er veitt til innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem hér eru fyrir skal landbúnaðarráðherra afla umsagnar Náttúruverndarráðs.

6. gr.

     Landbúnaðarráðuneytið skal annast og bera ábyrgð á innflutningi búfjár sem heimilaður kann að verða samkvæmt lögum þessum. Á sama hátt annast það framræktun kynja sem inn verða flutt, en landbúnaðarráðherra er þó heimilt að fela hana einstökum búgreinasamtökum eða ræktunarfélögum, enda mæli yfirdýralæknir og viðkomandi búfjárræktarnefnd með því. Viðkomandi aðili skal þá sýna fram á að hann geti fullnægt öllum skilyrðum um sóttvarnir og aðbúnað og kostað framræktunina að öllu leyti. Slíkt framsal skal ávallt bundið við eitt innflutningsleyfi með ákveðnum tímamörkum.

7. gr.

     Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögum þessum skal vera til staðar eða byggð sóttvarnastöð á hentugum stað. Öll aðstaða til einangrunar og sóttvarna skal fullnægja þeim kröfum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar og nánar skal kveðið á um í reglugerð.

8. gr.

     Þegar dýr eða erfðaefni er valið til innflutnings skal hvert einstakt dýr, sem flytja skal inn, karldýr, sem eru fyrirhugaðir sæðisgjafar, og foreldrar, sem gefið hafa frjóvguð egg, heilbrigðisskoðuð af embættisdýralækni og skulu vottorð og aðrar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir áður en innflutningur fer fram. Fósturvísa, egg eða sæði má aðeins flytja frá viðurkenndum kynbótastöðvum þar sem fylgst hefur verið með heilbrigði foreldra eða foreldris nægilega lengi að mati yfirdýralæknis. Landbúnaðarráðherra skal setja reglur samkvæmt tillögum yfirdýralæknis um kröfur til hvers kyns upplýsinga og vottorða sem þurfa að liggja fyrir áður en slíkur innflutningur er leyfður.

9. gr.

     Einangra skal öll innflutt dýr og erfðaefni á sóttvarnastöð svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á undir stöðugu eftirliti sóttvarnardýralæknis stöðvarinnar.
     Sóttvarnardýralæknir sóttvarnastöðvar skal ráðinn af landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, og skal hann fá sérstakt erindisbréf. Sóttvarnardýralæknir skal vera dýralæknir er hafi sérstaka þekkingu og þjálfun í eggjaflutningi og sæðingum búfjár. Sóttvarnardýralækni er óheimilt að stunda lækningar dýra utan sóttvarnastöðvar.
     Landbúnaðarráðherra setur, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, reglugerð um allt er veit að rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva og öryggi gagnvart hugsanlegri sýkingarhættu frá þeim, þar á meðal ströng ákvæði um mannaferðir, meðferð áburðar, hvers konar úrgangs og afurða frá stöðvunum. Starfsmenn við slíkar stöðvar skulu fá sérstök erindisbréf og skal sóttvarnardýralæknir ábyrgur fyrir því að öryggisreglum sé fylgt.

10. gr.

     Innflutt dýr eða dýr, sem hafa vaxið af innfluttu erfðaefni, má aldrei flytja út af sóttvarnastöð.
     Þegar tryggt þykir að við innflutning hafi ekki borist neinir erfðagallar eða smitsjúkdómar hættulegir íslenskum dýrum og liðinn er ákveðinn tími, sem nánar skal kveðið á um í reglugerð, frá síðasta innflutningi dýra eða erfðaefnis getur yfirdýralæknir heimilað að dýr eða erfðaefni, annað en getið er í 1. mgr., séu flutt úr sóttvarnastöð.

11. gr.

     Hreinræktun innfluttra kynja og blöndun þeirra við innlent búfé skal vera undir stjórn viðkomandi búfjárræktarnefnda sem starfa eftir lögum um búfjárrækt.

12. gr.

     Íslensk dýr, sem tekin eru til blöndunar við innflutt búfjárkyn eða til að vera fósturmæður við innflutning á fósturvísum, skulu valin af ráðunautum Búnaðarfélags Íslands í viðkomandi búgrein og skal yfirdýralæknir eða fulltrúi hans ganga úr skugga um að þau séu eigi grunuð um eða haldin smitsjúkdómum. Ekki má hefja ræktun á íslensku búfjárkyni með innfluttu kyni fyrr en gengið hefur verið úr skugga um hvernig kynin blandast og að einblendingsrækt með íslenska kyninu fylgi ekki alvarlegir burðarerfiðleikar eða skapgerðargallar.
     Gæta skal þess að verðmætir eiginleikar í íslenskum búfjárkynjum tapist ekki við blöndun við innflutt kyn. Heimilt er að setja í reglugerð ákvæði sem kveða svo á um að aðeins megi nota hið innflutta kyn til einblendingsræktar telji ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og/eða viðkomandi búfjárræktarnefnd ástæðu til.

13. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. þessara laga er landbúnaðarráðherra heimilt að leyfa innflutning loðdýra, sem haldin eru í búrum, frjóvgaðra alifuglaeggja frá viðurkenndum kynbótabúum og fiska og erfðaefnis þeirra á einangrunarstöð undir eftirliti umsjónardýralæknis. Slíkt leyfi skal þó aðeins veita ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis. Aðeins skal leyft að flytja dýr úr einangrunarstöð á bú sem fullnægja þeim ákvæðum sem yfirdýralæknir setur til að hindra smithættu frá þeim og fá viðurkenningu búfjárræktarnefndar í greininni. Dýr má ekki flytja úr einangrunarstöð fyrr en þau hafa dvalið svo lengi í einangrun að tryggt þyki að mati yfirdýralæknis að þau séu ekki haldin neinum smitsjúkdómi.

14. gr.

     Landbúnaðarráðherra er heimilt, ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis, að víkja frá ákvæðum 10. gr. þessara laga og veita leyfi til þess að heimilisdýr, sem ekki eru af ætt hóf- og klaufdýra, séu flutt úr sóttvarnastöð. Slíkur flutningur skal ekki fara fram fyrr en dýrin hafa verið svo lengi í einangrun að tryggt þyki að mati yfirdýralæknis að dýrin séu ekki haldin neinum smitsjúkdómum. Slíku leyfi mega fylgja ákvæði um að dýralæknir fylgist reglulega með heilsufari dýranna á kostnað eigenda svo lengi sem yfirdýralæknir telur slíkt nauðsynlegt.

15. gr.

     Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur í sóttvarna- eða einangrunarstöð skal gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að hefta útbreiðslu hans, m.a. fella dýr, ef nauðsyn krefur, og stöðva dreifingu erfðaefnis þaðan. Rekstraraðili ber allan kostnað af slíkum aðgerðum og er skyldur að hlíta fyrirmælum yfirdýralæknis í einu og öllu.
     Eigendum er skylt að hlíta fyrirmælum yfirdýralæknis um eyðingu dýra í stöðvunum og eiga þeir ekki rétt á bótum fyrir dýr sem eyða þarf vegna slíkra aðgerða.

16. gr.

     Heimilt er að geyma djúpfryst sæði eða fósturvísa utan sóttvarnastöðvar að fengnu leyfi og eftir fyrirsögn yfirdýralæknis. Sóttvarnardýralæknir skal halda nákvæma skrá um alla gripi sem koma í stöðina eða fæðast þar, svo og um sæði og fósturvísa sem þar eru tekin eða þaðan flutt og notkun þeirra. Við mælingar á gripum og skýrsluhald skal sóttvarnardýralæknir fara eftir fyrirmælum viðkomandi búfjárræktarnefndar.

17. gr.

     Nú telur yfirdýralæknir að tryggt sé orðið að með innflutningi Galloway-kyns til Hríseyjar hafi engir hættulegir sjúkdómar borist og getur hann þá heimilað að erfðaefnið verði flutt til lands. Ræktun kynsins í landi skal lúta ákvæðum laga um búfjárrækt.

18. gr.

     Nú er ákveðið að leggja niður sóttvarnastöð sem starfrækt hefur verið og ekki þykir rétt að mati viðkomandi búfjárræktarnefndar að nota frekar það erfðaefni sem þar er geymt og skal þá eyða því svo að ekki stafi hætta af eða gera aðrar ráðstafanir sem tryggja að frá því stafi ekki sýkingarhætta. Gripi slíkrar stöðvar skal fella hafi ekki verið heimilað samkvæmt lögum þessum að flytja þá úr einangrun.

19. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum til ríkissjóðs. Berist sjúkdómur í stöðina vegna vanrækslu varðar það þann sem vanrækslu hefur sýnt starfs- og stöðumissi eða fangelsi ef miklar sakir eru.
     Ef lifandi dýr, fósturvísar, egg eða annað erfðaefni dýra er flutt til landsins án heimildar, sbr. 2. gr., varðar það sektum fyrir eiganda, svo og fyrir skipstjóra eða flugstjóra á farartæki því sem dýrin eða erfðaefnið flutti ef ætla má að það sé flutt með hans vitund.

20. gr.

     Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, að fengnum tillögum yfirdýralæknis og Búnaðarfélags Íslands.
     Um starfsemi sóttvarnastöðvar ríkisins í Hrísey fer samkvæmt lögum þessum.

21. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felld lög um innflutning búfjár, nr. 74 28. apríl 1962, lög nr. 49 11. maí 1989, um breytingu á þeim lögum, 48.– 52. gr. búfjárræktarlaga, nr. 31 24. apríl 1973, svo og 3. gr. laga um loðdýrarækt, nr. 53 29. maí 1981.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 1990.