Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 77 . mál.


Nd.

79. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 25 22. maí 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Flm.: Hulda Jensdóttir.1. gr.


     Í stað 1. 13. gr. laganna komi 13 nýjar greinar með kaflafyrirsögnum, svohljóðandi:

A. I. kafli. Markmið og orðskýringar.
    a. (1. gr.)
    Markmið laga þessara er að varðveita líf, sem kviknað hefur í móðurkviði, og koma í veg fyrir ótímabæra þungun með því að fræða fólk um kynlíf og getnaðarvarnir á skipulagðan hátt. Einnig að tryggja verðandi foreldrum læknisfræðilega og félagslega ráðgjöf meðan á meðgöngu stendur og eftir fæðingu.
    Þá er markmið laga þessara að skilgreina hugtökin fóstureyðing og ófrjósemisaðgerð og mæla fyrir um hvenær þær eru heimilaðar.

    b. (2. gr.)
    Samkvæmt lögum þessum merkir fóstureyðing aðgerð sem kona gengst undir til að binda enda á kviknað líf í móðurkviði, en ófrjósemisaðger ð þegar sáðgöngum karla og eggjaleiðurum kvenna er lokað og þannig komið í veg fyrir að karl eða kona auki kyn sitt.

B. II. kafli. Ráðgjöf og fræðsla.
    c. (3. gr.)
    Gefa skal fólki kost á ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir.
    Á vegum landlæknisembættisins skal starfrækt deild, kynfræðsludeild , er hefur með höndum yfirumsjón með kynfræðslumálum í landinu. Skal verkefni þeirrar deildar felast í:
     kynningu, þar með talinni útgáfu fræðslugagna til notkunar í skólum og fyrir almenning,
     skipulagningu félagslegrar aðstoðar fyrir foreldra, bæði meðan á meðgöngu stendur og eftir barnsburð.
    Forstöðumaður þessarar deildar skal að jafnaði vera læknir. Enn fremur skal félagsráðgjafi og hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir starfa við hana.
    Nánari skipulagning og starfsemi kynfræðsludeildar skal ákveðin í reglugerð er heilbrigðisráðherra setur um kynfræðslu.

    d. (4. gr.)
    Við hverja heilsugæslustöð og sjúkrahús skal starfrækt ráðgjafarþjónusta er hefur með höndum eftirtalin verkefni:
     Fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra.
     Ráðgjöf fyrir fólk sem íhugar að fara í ófrjósemisaðgerð.
     Kynfræðslu, ráðgjöf og fræðslu um ábyrgð foreldra.
     Ráðgjöf og fræðslu varðandi þá aðstoð sem konunni stendur til boða við meðgöngu og barnsburð.
    Ráðgjafarþjónustan má vera í starfstengslum við mæðravernd, kvensjúkdómadeildir, geðvernd, fjölskylduráðgjöf og félagsráðgjafarþjónustu.
    Að ráðgjafarþjónustunni skulu starfa læknar, félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og annað starfsfólk eftir því sem þörf krefur.
    Ráðgjafarþjónustur skulu starfa í nánum tengslum við deild þá sem mælt er fyrir um í 3. gr. laga þessara.

    e. (5. gr.)
    Ráðgjöf fyrir fólk, sem íhugar fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð, tekur til þess sem hér segir:
     læknishjálpar,
     þungunarprófana,
     ráðgjafar og stuðningsviðtala,
     félagslegrar aðstoðar,
     aðstoðar við umsókn og tilvísun til sjúkrahúss.

    f. (6. gr.)
    Fræðsluyfirvöld skulu í samráði við landlæknisembættið og ráðgjafarþjónustustöðvar á hverjum stað veita fræðslu um kynlíf, siðferði kynlífsins, fóstrið og þroskaskeið þess í móðurkviði, fæðingu barns, félagslegar aðstæður og réttindi mæðra eða foreldra ungra barna. Fræðsla þessi skal fara fram á skyldunámsstigi í skólum landsins. Einnig skal veita þessa fræðslu á öðrum námsstigum.
    Kynfræðsludeild skal sjá um útgáfu námsgagna sem lögð eru til grundvallar í kennslu. Fulltrúi frá kynfræðsludeild skal heimsækja skóla landsins reglulega og veita kennurum og nemendum upplýsingar um kynlíf og barneignir.

C. III. kafli. Fóstureyðingar .
    g. (7. gr.)
    Líf, sem kviknað hefur í móðurlífi, er friðheilagt. Að öðru leyti en lög þessi heimila má ekki binda enda á kviknað líf.

    h. (8. gr.)
    Fóstureyðing er leyfileg ef ætla má að lífi eða heilsu konu sé hætta búin af áframhaldandi meðgöngu og fæðingu.

    i. (9. gr.)
    Sé skilyrði 8. gr. fyrir hendi skal fóstureyðing framkvæmd eins fljótt og auðið er, helst fyrir lok 12 viku og eigi síðar en við lok 16. viku, enda liggi fyrir skrifleg umsögn lækna um að lífi og heilsu konunnar sé stefnt í hættu með áframhaldandi meðgöngu, skv. 10. gr.

    j. (10. gr.)
    Áður en fóstureyðing fer fram skulu liggja fyrir skriflegar álitsgerðir tveggja lækna um nauðsyn aðgerðarinnar. Skal annar þessara lækna vera sérfræðingur í kvensjúkdómum eða almennum skurðlækningum við það sjúkrahús þar sem aðgerðin fer fram. Þar sem ástæða þykir skulu viðkomandi sérfræðingar styðjast við álitsgerð geðlæknis sé um geðræna sjúkdóma að ræða.

    k. (11. gr.)
    Áður en fóstureyðing er framkvæmd er skylt að upplýsa konuna um fóstrið og þroskastig þess, hugsanlega áhættu og eftirköst.

    l. (12. gr.)
    Umsókn um fóstureyðingu, greinargerð og vottorð læknis skulu rituð á þar til gerð eyðublöð sem landlæknisembættið gefur út.

    m. (13. gr.)
    Konan skal sjálf skrifa undir greinargerð og umsókn um fóstureyðingu nema heilsufari hennar sé svo háttað að hún sé ekki fær um að skilja þýðingu undirritunar sinnar. Heimilt er að veita leyfi til fóstureyðinga samkvæmt umsókn lögráðamanns.

2. gr.


     17. gr. laganna falli brott.

3. gr.


     Heiti laganna verði: Lög um friðhelgi mannlegs lífs, fóstureyðingar, ófrjósemisaðgerðir og ráðstafanir til að draga úr ótímabærum þungunum með fræðslu og ráðgjöf.

4. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 25/1975 og gefa þau út svo breytt.

G r e i n a r g e r ð .


I. Formáli.

    
    Grundvöllur mannlegs lífs er rétturinn til að fá að lifa og viðurkenning á því að kviknað líf sé ekki háð eignarrétti nokkurs annars.
     Á þessum grunnforsendum er heiti laganna byggt, að mannlegt líf sé friðheilagt.

II. Lögin frá 1975.


    Með lögum nr. 25 frá 22. maí 1975 var gerð veruleg breyting á fóstureyðingarlöggjöfinni. Var þá í fyrsta skipti tekið fram í lagatextanum að eyða mætti fóstri á grundvelli félagslegra ástæðna. Undanfari þessarar lagasetningar var frumvarp sem þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagði fram á Alþingi árið 1973. Í því frumvarpi var lagt til að fóstureyðing yrði heimiluð, að ósk konu væri hún búsett hér á landi eða hún ætti íslenskt ríkisfang, væri aðgerðin framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngu og ef engar læknisfræðilegar ástæður mæltu gegn slíkri aðgerð. Var þar lagt til að frjálsar fóstureyðingar yrðu leiddar í lög hér á landi. Fumvarp þetta olli miklum deilum jafnt innan þings sem utan. Ákveðið var því að draga frumvarpið til baka og skipa nefnd til að undirbúa nýtt frumvarp er tæki tillit til þeirra athugasemda sem fram höfðu komið um frumvarpið. Niðurstaða þeirrar nefndar var að hafna bæri frjálsum fóstureyðingum en þess í stað að heimila fóstureyðingar á félagslegum grunni „þegar ætla má að tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu óbærileg vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna“. Við mat á því hvað telja skyldi óbærilegt lagði nefndin til að hafðar skyldu í huga eftirtaldar ástæður: a) að konan hafi alið mörg börn með stuttu millibili og skammt sé liðið frá síðasta barnsburði, b) að konan búi við bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu, svo og c) að konan geti ekki vegna æsku eða þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt. Bætt var við d-lið aðrar ástæður „séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar ástæður“.

III. Forvarnir og fræðsla.


    Tillögur nefndarinnar voru samþykktar á Alþingi og eru nú lög nr. 25 frá 22. maí 1975.
    Með lögunum 1975 var áréttuð nauðsyn þess að koma á fót öflugu forvarnastarfi um kynfræðslu og ráðgjöf. Sú skipan hafði verið í lögunum frá 1935 en hafði þróast úr því að vera í höndum heimilislækna, eins og lögin gerðu ráð fyrir, yfir í það að vera sérstakar deildir í sjúkrastofnunum. Með lögunum nr. 25/1975 var gerð sú breyting, fyrir utan það að ráðgjafarþjónusta í sjúkrastofnunum og heilsugæslustofnunum var viðurkennd að lögum, að landlæknisembættið átti að hafa yfirumsjón með starfi þessara ráðgjafarþjónustumiðstöðva. Þá var einnig tekin upp sú stefna með lögunum að kynlífsfræðsla skyldi tekin upp í skólum en veruleg brotalöm hefur verið á hvoru tveggja. Áttu fræðsluyfirvöld að skipuleggja þessa fræðslu um kynlíf og siðfræði þess í samráði við yfirskólalækni. Einnig þar er pottur brotinn.
     Með lögum nr. 25/1975 var að því stefnt að samfara rýmkun fóstureyðingarlöggjafarinnar skyldi gert átak í því að auka kynfræðslu til að minnka líkurnar á fóstureyðingu og að hún yrði notuð sem getnaðarvörn. Öllum má ljóst vera að á þessum vettvangi hefur lítið sem ekkert gerst á þeim liðlega 15 árum sem liðin eru sem hlýtur að vekja upp margar og margþættar spurningar.

IV. Reynsla af lögum nr. 25/1975


samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins

.

    Frá gildistöku laga nr. 25/1975 hefur fóstureyðingum fjölgað mikið frá því sem var í tíð eldri laga, einkum og sér í lagi hin síðustu ár. Upplýsingar þessar komu fram í heilbrigðisskýrslum, fylgiriti 1985, nr. 2, um fóstureyðingar á tímabilinu 1976 1983, sem gefið var út af landlæknisembættinu. Í þeirri skýrslu eru tekin saman á skipulagðan hátt áhrif lagabreytingarinnar 1975 og reynt með töflum og skýringarmyndum að varpa ljósi á fjölda fóstureyðinga, ástæður og helstu auðkenni þeirra kvenna er fara í slíka aðgerð.
    Hér eru ekki tök á að fara ítarlega út í þessa könnun en hjá því verður ekki komist, vegna þeirra breytinga sem frumvarp þetta boðar, að gera grein fyrir helstu niðurstöðum til að varpa ljósi á hið raunverulega vandamál.

a. Tíðni fóstureyðinga.
    Samkvæmt meðfylgjandi töflu frá landlæknisembættinu hafa fóstureyðingar aukist verulega frá árinu 1976 er lögin nr. 25/1975 tóku gildi.Tafla 1.
    Hámarki náði tíðni fóstureyðinga árið 1984 en það ár voru samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins 745 fóstureyðingar en árið 1985 voru fóstureyðingar 705 og 684 árið 1986, 695 1987 og 676 árið 1988. Þó að dregið hafi úr fóstureyðingum síðustu ár hefur sú fækkun verið óveruleg miðað við fjölda fæðinga. Nam fjöldi fóstureyðinga á 10 lifandi fædda 18,3% árið 1985 þó að dregið hafi úr fóstureyðingum um 40 frá árinu áður. b. Ástæður fóstureyðinga .
    Samkvæmt lögum nr. 25/1975 er heimilt að framkvæma fóstureyðingu á læknisfræðilegum grunni, félagslegum grunni og ef þungun er afleiðing af refsiverðum verknaði. Eigi er þess getið í könnuninni að beiðni hafi verið reist á hinni síðastgreindu ástæðu. Samkvæmt heilbrigðisskýrslum hefur hlutfall læknisfræðilegra ástæðna lækkað úr því að vera 22,8% árið 1976 í það að vera 7% árið 1985. Að sama skapi hefur hlutfall félagslegra ástæðna aukist úr 63,1% árið 1976 í 87,7% árið 1985 en hvort tveggja eða ótilgreindar ástæður eru 19% árið 1976 en 5,1% árið 1985.

c. Synjanir um fóstureyðingu .
    Í könnuninni er ekki yfirlit um synjanir um fóstureyðingar yfir landið allt. Hins vegar er vitnað til athugunar sem gerð var á kvennadeild Landspítalans í Reykjavík þar sem þrjár af hverjum fjórum fóstureyðingum hér á landi eru framkvæmdar. Í heilbrigðisskýrslum segir á bls. 110:
    „Fjöldi þeirra, sem synjað var um fóstureyðingu, var á bilinu 3 18 á ári en samtals 75 árin 1976 1983. Virðist synjunum fara heldur fækkandi því að á fyrra helmingi tímabilsins var að meðaltali 12 konum synjað um fóstureyðingu eða sem svarar 3,3% framkvæmdra aðgerða, en hins vegar 7 konum meðaltali á ári á síðari hluta þess eða 1,6% aðgerða. Ástæður synjana eru í flestum tilvikum lengd meðgöngu, þ.e. konurnar eru gengnar með meira en 12 vikur og forsendur umsóknar hafa verið af félagslegum toga . Á árinu 1983 voru synjanir 3 hjá kvennadeild Landspítalans.“
    Hér að framan hefur verið lýst þeirri breytingu sem verið hefur á tíðni fóstureyðinga og synjana um slíka aðgerð og á hvaða ástæðum umsóknir hafa verið reistar. Þá niðurstöðu má draga af þessum þremur þáttum að takmörkun á heimild til fóstureyðinga er lítil í framkvæmd þótt lesa megi úr lögum nr. 25/1975 að gera þurfi verulegar kröfur til þess að fóstureyðing sé heimil. Önnur niðurstaða verður ekki dregin af þeim tölum sem liggja fyrir en að fóstureyðingarlöggjöfin í framkvæmd sé dulbúnar frjálsar fóstureyðingar.

d. Ungar stúlkur og einstæðar mæður .
    Tveir hópar kvenna hafa í umræðu um fóstureyðingar oftast verið nefndir, en það eru ungar stúlkur og einstæðar mæður. Í könnuninni kemur fram að hlutur þeirra er ekki eins mikill og látið er í veðri vaka þó að vissulega sé hann mikill. Árin 1976 1981 voru framkvæmdar samtals 651 fóstureyðing hjá stúlkum undir 20 ára aldri, en það samsvarar 22% allra fóstureyðinga umrætt tímabil. Þess ber hins vegar að geta að tíðni fóstureyðinga hjá eldri stúlkum í þessum hópi, 18 19 ára, er meiri en þeirra sem yngri eru, sbr. töflu.


Tafla 2.

Fjöldi fóstureyðinga stúlkna 1976 1981

.

15 ára

16 17

18 19

19 ára


og yngri

ára

ára

og yngri
1976 1977
31
56 70 167
1978 1979
35
103 108 246
1980 1981
32
94 122 248

Alls 1976 1981
98
253 300 651


    Einstæðar mæður eru vissulega stór hópur. Af 2.955 fóstureyðingum, sem framkvæmdar voru árin 1975 1981, áttu einstæðar mæður hlut að máli í 628 tilvikum eða 21,1%. Ef litið er á einstök ár tímabilsins má sjá að fjöldi einstæðra mæðra hefur verið á bilinu 86 130 á ári en hlutur þeirra af heildarfjölda fóstureyðinga hefur farið fækkandi.

e. Fóstureyðing sem getnaðarvörn .
    Athyglisverðar eru þær upplýsingar landlæknisembættisins að 75% þeirra kvenna, sem fóru í fóstureyðingu á tímabilinu sem athugun var gerð á, notuðu alls engar getnaðarvarnir sem bendir ótvírætt til þess að fóstureyðingin var notuð sem getnaðarvörn. Það er gamall sannleikur að eftir því sem afleiðingarnar eru smávægilegri er meiri áhætta tekin. Því miður má rekja margar ótímabærar þunganir til þess að tekin er áhætta í þeirri von að ekki verði barn úr, en færi svo er sú leið opin að fara í fóstureyðingu. Slíkur hugsunarháttur er að sjálfsögðu mjög óábyrgur, bæði hjá konum og körlum, en eðlileg afleiðing þess frjálsræðis sem núverandi fóstureyðingalöggjöf býður upp á í framkvæmd. Fólk verður að horfast í augu við þá staðreynd að það getur ekki leikið sér að fjöreggi annarra með þessum hætti. Það verður að gera sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna og alvöru fóstureyðingar, þ.e. að með henni sest það í dómarasæti og kveður upp þann úrskurð að þetta kviknaða líf skuli deytt. Fræðsla kemur að verulegu gagni þegar fóstureyðingar eru takmarkaðar og það er einmitt það áhersluatriði sem frumvarpið mælir fyrir um með því að skipuleggja virka kynfræðslu.

V. Forsendur þessa frumvarps.


    Reynslan hefur leitt það í ljós að fóstureyðingum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum eins og tölur landlæknisembættisins sýna. Sú fjölgun verður ekki skýrð á þann hátt að félagslegar aðstæður hafi versnað til muna á síðustu árum því að hagtölur sýna að lífskjör hafa batnað verulega frá því að lögin frá 1975 voru sett.
    Skýringarinnar verður heldur ekki leitað í minni þekkingu fólks á kynlífi. Þó að þessir þættir hafi sín áhrif eru þeir ekki ástæðan fyrir fóstureyðingunum. Skýringarinnar verður að leita á öðrum stöðum og þá helst í breyttu viðhorfi fólks gagnvart fóstureyðingum og skorti á upplýsingum um fóstrið, þroskaskeið þess og að fóstur er mannlegt líf, einnig skorti á þeim upplýsingum sem liggja fyrir um varanleg neikvæð áhrif sem fóstureyðing getur haft á konuna.
    Fóstrið í móðurlífi er ekki hluti af líkama móðurinnar. Henni hefur verið falið það mikilvæga hlutverk að gæta þess, vernda og umvefja og síðan skila frá sér til lífs. Henni hefur ekki verið færður sá réttur frá náttúrunnar hendi að mega ráðskast með líf þess. Líf barnsins er eign þess sjálfs en hinum fullorðnu falið til umönnunar og forsjár. Víst skal það viðurkennt að á of mörgum heimilum eru efnisleg gæði af skornum skammti. Þar ber þjóðfélaginu að koma til aðstoðar. Félagsleg vandamál ber að leysa með félagslegum aðgerðum sveitarfélaga og ríkis.
     Tilgangur þessa frumvarps er: a) Að létta þeirri þungu byrði af konum sem fóstureyðing er. Frjálsar fóstureyðingar hafa sýnt sig vera fjötrar á konur. Samfélagið, barnsfeður og ýmsir aðrir hafa notfært sér möguleikann sem í frjálsri fóstureyðingu felst, konum til mikils skaða. b) Að verja börn í móðurlífi fyrir utanaðkomandi eyðingaröflum og veita þeim þau mannréttindi sem eru ofar öllu öðru, réttindi til að fá að lifa og taka þátt í lífinu, án tillits til efnahags og félagslegrar stöðu foreldra. Frumvarpið byggist á því að þjóðfélagið viðurkenni að líf hafi kviknað við getnað, enda segir svo í orðabók Menningarsjóðs um orðið fósturskeið: „Fyrsta skeið í ævi lífveru“. Það æviskeið sem hér er til umræðu er æviskeið mannveru. Frjóvgað egg í móðurlífi getur aldrei verið neitt annað en mannvera ef sú lífsframvinda er með eðlilegum hætti.

VI. Valkostir.


    Ekki leikur vafi á því að efla þarf til muna aðstoð við konur sem eru illa staddar vegna ótímabærrar þungunar. Lausnin er ekki fóstureyðing. Auk stuðningsviðtala um meðgöngutímann, sem og eftir fæðingu, þarf m.a. aðstoð við barnapössun, svo viðkomandi komist út meðal fólks, ef um einstæða móður er að ræða, að hún einangrist ekki, auk fjárhagslegrar aðstoðar þar sem þess er þörf, mun meiri en nú er völ á. Vísir að slíkri aðstoð er þegar fyrir hendi þar sem samtökin Lífsvon eru, en sú aðstoð er sem fyrst og fremst í því fólgin að veita húsaskjól og heimili konum sem tímabundið eiga í erfiðleikum.
    Ástæða er til að nefna í þessu sambandi að kirkjan er reiðubúin að ganga til samstarfs á vettvangi ráðgjafarþjónustu eða hvers þess annars sem að gagni mætti koma samkvæmt ályktun kirkjuþings árið 1987 og er það vel.
    Við hæfi hlýtur að vera í þessu samhengi að nefna þann aðila sem hér kemur við sögu ásamt konunni, karlmanninn. Hvar er hann staddur í rammanum? Er ekki kominn tími til að sú aldagamla skoðun að konan ein sé ábyrg í slíku máli víki og í framhaldi þar af sé eðlilegt að karlmaðurinn komi inn í myndina, meira en nú er, ef konan býr við erfiðar aðstæður og telur sig ekki geta framfleytt barninu, og ef konan vill ekki ganga með og ala barnið, að hann hafi þá sinn rétt? Ljóst er að mjög varlega verður að fara í öllum ákvarðanatökum varðandi þetta afar viðkvæma mál en augljóst eigi að síður að valkostir eru fleiri en talið er.
    Flutningsmaður þessa frumvarps gerir sér fulla grein fyrir að hér er um afar viðkvæmt mál að ræða, eins og áður segir, og ekki auðvelt að takast á við það án þess að einhverjum finnist að sér vegið. Ekkert er þó fjær raunveruleikanum. Frumvarpið er til orðið til þess að vernda, ef verða mætti, bæði móður og barn, til þess að bjarga lífi þeirra beggja í raunverulegri og yfirfærðri merkingu, til þess að verja þau bæði fyrir utanaðkomandi eyðandi öflum. Tillögurnar eru byggðar annars vegar á langri reynslu í starfi við fóstureyðingar á árum áður og innsýn í reynsluheim þeirra kvenna sem þar áttu hlut að máli og hins vegar áratuga starfi við barnsfæðingar, hið síðarnefnda gleði og lífsfylling öllum sem hlut eiga að máli, hið fyrra táradalur, söknuður og tóm sem enginn og ekkert getur fyllt.
    Á þessari lífsreynslu byggjast þau lög sem hér liggja fyrir, og er það að sjálfsögðu von mín að Alþingi Íslendinga uggi að sér og viti að hér þarf að taka til hendi með fyrirbyggjandi aðgerðum og hjálpandi hönd sem býður öll börn velkomin. Þetta allt auk þeirrar hliðar þessa máls sem ekki hefur verið tekin til meðferðar hér og það er sú framtíð sem blasir við íslensku efnahagslífi og íslensku mannlífi öllu, ef áfram fer sem hingað til að fleiri hundruð börn í móðurlífi eru firrt lífi hvert einasta ár. Hvert einasta þeirra er dýrmæt gjöf sem okkur ber að standa vörð um.

Athugasemdir við einstaka kafla frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Til að undirstrika tilganginn með lagasetningunni er valinn sá kostur að taka saman í I. kafla laganna þau grundvallaratriði sem ná á með lagasetningunni. Sett er á oddinn friðhelgi mannlegs lífs og að það líf sem einu sinni hefur kviknað megi ekki deyða nema fyrir liggi það veigamikil rök að þjóðfélagið sjái sig knúið til vegna annarra hagsmuna að binda enda á þetta líf. Rík áhersla er á það lögð að koma í veg fyrir ótímabæra þungun og að þjóðfélagið eigi ekki að viðurkenna fóstureyðingu sem getnaðarvörn.
    Sú skipan er tekin upp í 2. gr. frumvarpsins að skilgreina hugtökin fóstureyðing og ófrjósemisaðgerð til að leggja áherslu á í upphafi laganna hvað felst í þeim hugtökum sem koma fyrir í lögunum. Sú breyting er gerð á hugtaksskilgreiningu fóstureyðingar að gengið er út frá því að líf hafi kviknað við getnað, en ekki er miðað við ákveðið þroskastig eins og nú er gert í lögum. Er þessi skýring hugtaksins í samræmi við markmið laganna og hvernig hugtakið fóstureyðing var skilgreint samkvæmt lögum nr. 38/1935. Hugtakið ófrjósemisaðgerð er skilgreint á sama hátt og fram kemur í lögum nr. 25/1975 að því undanskildu að í stað orðsins „eggjavegur“ er sett eggjaleiðari. Mun það vera í betra samræmi við orðanotkun.

Um II. kafla.


    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kynfræðsla verði til muna aukin frá því sem verið hefur undanfarin ár, aðallega í skólakerfinu. Þá verði tekin upp sú skipan við landlæknisembættið að sérstök deild hafi yfirumsjón með kynfræðslumálum í landinu. Verði aðalverkefni þeirrar deildar útgáfa fræðslugagna og félagsleg aðstoð við foreldra. Eigi er gert ráð fyrir að sú skipan sem verið hefur á sjúkrahúsum og í heilsugæslustöðvum minnki, heldur taki þær stofnanir að sér aukið hlutverk í þessum málum og tengist meira skólakerfinu en hingað til.
    Ein aðalbreytingin, sem komið er á með frumvarpi þessu, er að kynfræðsla verði skyldunámsgrein í grunnskólum landsins þar sem tekin verði upp kennsla í fósturfræðum og veittar ráðleggingar um kynlíf og þroska fósturs.

Um III. kafla.


    Gengið er út frá þeirri skipan að fóstureyðingar séu óæskilegar og að til slíkra óyndisúrræða skuli ekki grípa ef fyrir hendi eru aðrir kostir til varnar fóstrinu. Í upphafsgrein þessa kafla laganna er sá skilningur áréttaður að fóstur er líf sem ekki má binda enda á. Ef vafi leikur á því hvort fóstureyðing má fara fram þá skuli frekar hafna henni en leyfa.

Sjúk eða vansköpuð börn.


    
Það fer að sjálfsögðu ekki fram hjá neinum að þessi þáttur sem heimild til fóstureyðingar er ekki inni í ramma þessa frumvarps, enda að mati flutningsmanns þvílík hneisa að nokkrum skuli detta slík fjarstæða í hug að orð eru varla til yfir slíka vansæmd. Hver erum við, sem öll höfum okkar vankanta og takmarkanir þótt ekki flokkist það undir vanskapnað, að dæma um það hver á að lifa og hver á að deyja? Okkar er miklu fremur, vegna þess heilbrigðis sem okkur hlotnaðist, að styðja sterklega við þá sem minna mega sín, enda er viðurkennd staðreynd að það er einn þáttur í mannlegum þroskaferli þótt enginn óski neinum þess að mega sín minna. Þetta er því miður þáttur sem er fyrir hendi og skylda þeirra sem meira mega sín að takast á við. Við megum ekki missa neitt barn, nema í beinni sjálfsvörn, til þess að bjarga öðru lífi. Allt annað er gróft siðferðisbrot. Staðreyndin er sú að íslensk þjóð hefur bæði fyrr og nú hlotið og mun um ókomin ár hljóta margfalda blessun frá þeim sem að mati einhverra eru á einhvern hátt fatlaðir. Um það eru dæmin fjölmörg og óþarft að fjölyrða frekar þar um. Auk þessa eru þær skelfilegu staðreyndir og til um þær skýrslur að börn hafi verið tekin af lífi í móðurkviði á þeim forsendum að um fötlun væri að ræða en við rannsóknir hafi sannast að um alheilbrigð fóstur var að ræða. Þessi hroðalegu mistök gerast þrátt fyrir alla þá tækni sem við búum við. Hitt fer ekki milli mála að þeir foreldrar, sem eignast fötluð börn, þurfa á mikilli samfélagshjálp að halda og betur má ef duga skal. Ástæða er þó til að fagna því góða sem gert er í þeim málum.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


a. (1. gr.)


    Í 1. gr. kemur fram stefnuyfirlýsing og það skilgreint í lagatextanum hvert sé markmið laganna. Þetta er talið nauðsynlegt svo að ekki fari á milli mála hvaða tilgangi lögin eigi svo breytt að þjóna og hverja þau eigi fyrst og fremst að vernda. Hið mannlega líf er samkvæmt lögum þessum frá getnaði til grafar. Þetta er og í samræmi við eiðstaf lækna þar sem segir m.a.: „Ég heiti því að virða mannslíf öllu framar, allt frá getnaði þess.“ Lögð er áhersla á það í 1. gr. að vandamál, sem kunni að skapast vegna þungunar, eigi að leysa með öðrum hætti en fóstureyðingu. Það líf eins og annað mannlegt líf á að vera friðheilagt. Litið er sérstaklega til fyrirbyggjandi starfs með ráðgjöf og fræðslu og þess að aukin verði félagsleg þjónusta við þá foreldra sem átt hafa barn.

b. (2. gr.

)
    Það þykir hentugra, með tilliti til þeirrar skipunar laganna, að mæla fyrir um markmið þeirra í 1. gr., að skýra út í næstu grein hvað felist í þeim grunnhugtökum sem rætt er um í lögum þessum. Þá þykir það horfa til skýrleika þar sem skilgreining hugtakanna er breytt frá því sem var í fyrri löggjöf.
    Fóstureyðing er samkvæmt lögum nr. 25/1975 „læknisaðgerð, sem kona gengst undir í því skyni að binda enda á þungun, áður en fóstrið hefur náð lífvænlegum þroska“ en samkvæmt frumvarpi þessu „læknisaðgerð sem kona gengst undir til að binda enda á kviknað líf í móðurkviði“. Í þessari breytingu felst viðurkenning á því að líf hafi kviknað við getnað og ekki tekið með í skýringu hugtaksins þroskastig fóstursins. Er þessi skilgreining hugtaksins í samræmi við aðrar greinar laga þessara og heiti þeirra, „Um friðhelgi mannlegs lífs“. Skilgreining hugtaksins ófrjósemisaðgerð er óbreytt frá lögum nr. 25/1975 að öðru leyti en því að í stað orðsins „eggjavegur“ kemur eggjaleiðari.

c. (3. gr.

)
    Þar sem dregið er verulega úr heimildum til fóstureyðinga ber brýna nauðsyn til að upplýsa fólk um kynlíf og veita því ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og annarra fyrirbyggjandi ráðstafana til að koma í veg fyrir þungun. Þá er ekki síður mikilvægt að upplýsa fólk um lög þessi og á hvaða meginsjónarmiðum þau eru byggð.
    Lagt er því til í 3. gr. að starfrækt verði á vegum landlæknisembættisins sérstök deild er hafi það eitt verkefni að sjá um kynfræðslumál í landinu. Hefði þessi deild yfirumsjón með fræðslu og ráðgjöf á þessu sviði og starfaði í nánum tengslum við ráðgjafarþjónustu og fræðsluyfirvöld úti um allt land. Aðalstarfsemi deildarinnar er þó ætlað að vera að annast útgáfu á fræðslugögnum til notkunar í skólum og fyrir almenning og einnig að vera ráðgefandi fyrir mæður eða foreldra eftir barnsburð. Gert er ráð fyrir að þessi deild starfi í nánum tengslum við sveitarfélög og Tryggingastofnun og aðstoði fólk sjálft eða með stuðningi þessara aðila til að ala önn fyrir því og barninu. Meðal annars starfsfólks skulu læknir, hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir og félagsráðgjafi starfa við þessa deild.
     Að jafnaði skal læknir eða ljósmóðir vera forstöðumaður deildarinnar.

d. (4. gr.)


    Samkvæmt 2. 6. gr. laga nr. 25/1975 er mælt fyrir um að á hverju sjúkrahúsi og heilsugæslustöð skuli starfrækt ráðgjafarþjónusta er veiti fræðslu og ráðgjöf varðandi getnaðarvarnir, fóstureyðingar, ófrjósemisaðgerðir o.fl. er tengist kynlífi og barneignum. Ekki er ætlunin að breyta þeirri skipan mála. Í 1. mgr. 4. gr. er mælt fyrir um starfrækslu slíkra ráðgjafarstöðva og hvaða þjónustu þær skuli hafa með höndum og er samsvarandi 2. gr. laga nr. 25/1975. Bætt er þó inn í 4. lið, að konunni skuli veitt ráðgjöf og fræðsla varðandi þá aðstoð sem henni stendur til boða við meðgöngu og fæðingu.
    2. mgr. greinarinnar er sama efnis og 3. gr. núgildandi laga.
    3. mgr. greinarinnar er að stofni til sama efnis og 4. gr. núgildandi laga en í stað hjúkrunarfólks og kennara er mælt fyrir um að hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir starfi við ráðgjafarstöðvarnar. Ástæða þessa er að þær stéttir hafa í meira mæli en flestar aðrar hjúkrunarstéttir haft með höndum kynfræðslumál og ráðgjöf á sviði kynlífs.

e. (5. gr.)


    Grein þessi er samhljóða 6. gr. laga nr. 25/1975.

f. (6. gr.

)
    Sú breyting er gerð frá núgildandi skipan kynfræðslumála að gert er ráð fyrir að kynfræðsludeild, sem mælt er fyrir um í 3. gr. frumvarps þessa, sjái um skipulagningu náms og þau kennslugögn sem lögð verða til grundvallar í kennslu, í stað skólayfirlæknis eins og nú er háttað. Er þetta í samræmi við það hlutverk sem fræðsludeildinni er ætlað að þjóna með lögum þessum, að koma á samræmdri fræðslu og vera til ráðuneytis um kynfræðslumál. Þá er gert ráð fyrir að kynfræðsla verði skyldunámsgrein í skólum á grunnstigi og kennslunni verði háttað þannig að hún nái til fleiri þátta en kynlífsins eingöngu.
    Gert er ráð fyrir að starfsfók ráðgjafarstöðvanna og fræðslunefndar heimsæki skóla landsins og geri grein fyrir starfsemi sinni.

g. (7. gr.)


    Með þessari grein er skilgreining hugtaksins fóstureyðing áréttuð, að kviknað líf í móðurkviði er friðheilagt og að þau tilgreindu ákvæði laganna, sem heimila eyðingu þess, séu undantekningar og skuli túlkuð þröng.

h. (8. gr.)


    Þar eð ljóst er að frumvarpi þessu fylgir aðeins eitt ákvæði sem heimilar fóstureyðingu mun það orsaka óánægju og aðfinnslu þeirra sem ekki hugsa djúpt um þetta afdrifaríka og vandasama mál sem hér um ræðir. Er rétt að taka fram eftirfarandi:
    Sú staðreynd liggur fyrir að frumvarp þetta veðjar á lífið en ekki dauðann. Sú staðreynd liggur einnig ljós fyrir að frumvarp þetta kallar til Alþingis Íslendinga að veðja á lífið og vernda það svo sem kostur er. Sú staðreynd er hins vegar einnig ljós að upp getur komið sú staða að velja þurfi milli þess lífs sem er fullþroska og ber með sér hið innra nýtt líf. Hér er veðjað á lífið og þá staðreynd að það er frumatriði allra mannréttinda. Að sú undantekning að heimila fóstureyðingu er gerð hér skýrir sig sjálft. Sjálfsvörn, til að verja líf sitt, er viðurkennd auk þess sem réttarvitund okkar segir okkur að líf barnsins á fósturstigi sé réttminna en líf móður. Lagaákvæðið skýrir sig því sjálft. Hins vegar mun það einnig vekja athygli að í þessu frumvarpi er ekki fjallað sérstaklega um aldur kvenna sem sækja eftir fóstureyðingu, né fjallað sérstaklega um þær konur sem hafa orðið fyrir sannanlegri nauðgun. Flutningsmaður þessa frumvarps telur liggja í augum uppi að þessum þáttum mannlegs harmleiks þarf að ráða fram úr nákvæmlega á sama hátt og lagaákvæðið segir til um, þ.e. „ef líf og heilsa móður er í hættu“. Aldur stúlkunnar, sem verður barnshafandi fyrr en hún óskaði eftir vegna vöntunar á forvörnum, er ekki höfuðmálið. Þar eru margir og ólíkir þættir sem koma inn, m.a. þroski og aðstæður. Málið er hvort viðkomandi hefur heilsu til þess að ganga óskemmd gegnum meðgöngu og fæðingu. Um leið ber að gæta þess vandlega að aðrir taki ekki ákvörðun um það, að konu óspurðri, hvort hún hefur heilsu til að ganga gegnum áðurnefnt ferli. Flutningsmaður þekkir dæmi um að slíkt hefur verið gert en slíkt er alvarlegur skaðvaldur gegnum allt lífið fyrir viðkomandi.
    Hroðaathöfnin nauðgun, sem er kafli út af fyrir sig og enn sem komið er illa á haldið af íslensku réttarkerfi, því til mikils vansa, leiðir þó mjög sjaldan til frjóvgunar. Þess vegna er sú sama meðhöndlun hér viðhöfð sem 8. gr. III. kafla bendir til „ef líf og heilsa móður er í hættu“. Að sjálfsögðu er sú skylda frumskilyrði að viðkomandi kona hafi tilkynnt verknaðinn nauðgun samstundis eða eins fljótt og auðið var og nútímalæknisfræðilegar aðgerðir verið framkvæmdar til þess að fyrirbyggja að raunveruleg frjóvgun geti átt sér stað, auk þess að sannað sé að nauðgun hafi átt sér stað og hinn seki fundinn. Að þessu sögðu hlýtur að vera ljóst að um leið og þessi lög höfða til lífsins að fullu og öllu höfða þau einnig til mannúðar og mildi og þess að öllum, ungum sem öldnum, sé gerð grein fyrir hvað lífið er í raun og veru, að lífið er ekki eitthvað sem má leika sér með samkvæmt geðþóttatilfinningum heldur sé skylda hvers og eins að fara um það höndum ábyrgðar þar sem virðingin fyrir því helgasta sem lífið gefur er í fyrirrúmi. Ef þessa er gætt og það dregið fram í uppeldishlutverkum heimila og skóla er það og verður getnaðarvörnin hin allra besta til viðbótar þeirri sjálfsögðu fræðslu sem frumvarp þetta leggur megináherslu á að verði að veruleika í skólakerfi landsins.

i. (9. gr.)


    Greinin er efnislega samhljóða 10. gr. núgildandi laga með þeim takmörkunum sem felast í frumvarpi þessu varðandi ástæður fóstureyðingar.

j. (10. gr.)


    Gerð er krafa um læknisfræðilegt mat liggi fyrir á áframhaldi meðgöngu áður en fóstureyðing er framkvæmd. Gerð er krafa um að a.m.k. tveir læknar fjalli um málið.
    Ákvæðið skýrir sig sjálft en lögð er áhersla á að móðir sé þátttakandi í ákvörðun um fóstureyðingu.

k. (11. gr.)


    Ákvæðið skýrir sig sjálft.

    

l. (12. gr.)


    Ákvæðið skýrir sig sjálft.

m. (13. gr.)


    Ákvæðið skýrir sig sjálft.

Um 2. 3. gr.


    Í þeim breytingum, sem þar er mælt fyrir um er ekki um, efnisbreytingar að ræða heldur breytingar til samræmis við fyrri greinar frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Heiti laganna er breytt og áhersla lögð á friðhelgi mannlegs lífs og ráðgjöf til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir. Má í þessu sambandi benda á ályktun kirkjuþings 1987, en þar segir m.a.:
    „Rétturinn til lífs er frumatriði allra mannréttinda. Þá kröfu verður að gera til ríkisvaldsins að það verndi mannlegt líf og efli meðal almennings vitundina um mannhelgi.“
    Vísað er til greinargerðar að öðru leyti til skýringar á þessari grundvallarbreytingu.


Fylgiskjal I.


Halldór Finnsson,
sr. Þorbergur Kristjánsson,
Margrét K. Jónsdóttir:

Tillaga varðandi lög um fóstureyðingar og almannatryggingar.


(18. kirkjuþing 1987.)    Kirkjuþing beinir því til Alþingis Íslendinga að taka til endurskoðunar lög nr. 25/1975, um fóstureyðingar, ófrjósemisaðgerðir o.fl., í þeim tilgangi að þrengja þessi lög sérstaklega varðandi fóstureyðingar af félagslegum orsökum.
    Enn fremur vill kirkjuþing beina því til Alþingis að allt verði gert sem hægt er, t.d. í gegnum almannatryggingar, til þess að létta undir með konum sem svo stendur á fyrir og þær finni í raun að þjóðfélagið býður nýtt líf velkomið í heiminn.
    Kirkjan bjóði upp á ráðgjafarþjónustu, e.t.v. í samvinnu við Lífsvon, þar sem fyrir liggi allar upplýsingar um hvert það ráð sem má til hjálpar vera fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga.

Greinargerð .
    Nú eru 12 ár síðan samþykkt voru lög nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Lög þessi þýddu stórkostlega rýmkun á fóstureyðingum af félagslegum ástæðum.
    Fóstureyðingum hefur líka fjölgað úr 224 árið 1974 í 687 árið 1983 samkvæmt Heilbrigðisskýrslu 198 5, fylgiriti 1.
    Þegar þessi skýrsla er skoðuð nánar kemur í ljós að árið 1981 eru 83% fóstureyðinga taldar af félagslegum ástæðum, og af þeim eru 55% „nánast ótilgreindar félagslegar ástæður“ eins og stendur í skýrslunni.
    Annað í skýrslu þessari er mjög athyglisvert, þ.e. skrá yfir störf þau er þær konur sem fara í fóstureyðingu stunda og er skipt í þessa flokka: stjórnun, þjónusta, framleiðsla, nemar, húsmæður, annað.
    Þarna kemur í ljós að nemum, sem fá fóstureyðingar, hefur fjölgað meira en öðrum stéttum. Þetta styður það að þjóðfélagið geti hjálpað móður og barni meira en gert er í dag.
    Nú þegar Alþingi kemur saman í fyrsta sinn eftir kosningar er von okkar að nýir menn, sem þar koma til starfa, sýni þessu máli áhuga og alvöru, ásamt þeim sem fyrir eru á Alþingi og vitað er að styðja endurskoðun á lögum nr. 25/1975.

    Málinu var vísað til löggjafarnefndar (frsm. Halldóra Jónsdóttir).
    Nefndin leggur til að tillagan og greinargerð hljóði svo:
    Rétturinn til lífs er frumatriði allra mannréttinda. Þá kröfu verður að gera til ríkisvaldsins að það verndi mannlegt líf og efli meðal almennings vitundina um mannhelgi.
    Löggjöf, sem í raun gerir hið ófædda líf réttlaust, brýtur gegn því grundvallarsjónarmiði kristindómsins að sérhver einstaklingur eigi rétt til lífs, allt frá upphafi og þangað til dauðinn ber að dyrum með eðlilegum eða óviðráðanlegum hætti.
    Kirkjuþing skírskotar til frumvarpa um breytingu á lögum nr. 25 frá 22. maí 1975 og lögum nr. 67/1971, með áorðnum breytingum, sem flutt hafa verið, og frumvarps sem boðað er.
     Vill kirkjuþing skora á Alþingi að breyta umræddum lögum í þá veru að friðhelgi mannlegs lífs sé viðurkennd.

Fylgiskjal II.