Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 114 . mál.


Nd.

118. Frumvarp til laga



um breytingu á vegalögum nr. 6/1977, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur G. Þórarinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Guðni Ágústsson,


Alexander Stefánsson.



1. gr.


     40. gr. laganna, sbr. 72. gr. laga nr. 87/1989, orðist svo:
     Vegagerð ríkisins skal aðstoða nýbýlastjórn við lagningu nýbýlavega, enda sé kostnaður greiddur af sérstakri fjárveitingu í fjárlögum, samkvæmt vegáætlun eða á annan hátt.
     Vegagerð ríkisins skal sjá um gerð og viðhald reiðvega samkvæmt sérstakri reiðvegaáætlun sem samgönguráðherra lætur gera í samráði við samtök hestamanna og sveitarfélaga til fjögurra ára í senn. Kostnaður við gerð reiðvega skal greiddur af hóffjaðragjaldi skv. 2. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, og sérstökum fjárveitingum á fjárlögum, samkvæmt vegáætlun eða á annan hátt.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.


G r e i n a r g e r ð .


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar og þingsályktunartillögu um gerð reiðvegaáætlunar.
    Hestamennska nýtur sívaxandi vinsælda. Umferð ríðandi manna er víða orðin mjög mikil, einkum í nágrenni þéttbýlisstaða. Sambýli umferðar ríðandi manna og aukinnar umferðar bifreiða getur verið örðugt. Nauðsynlegt er að taka tillit til hestamennsku í umferðinni umfram það sem gert hefur verið.
    Óhjákvæmilegt er að gera sérstaka reiðvegaáætlun þar sem forgangsröð framkvæmda kemur fram. Gerð reiðvega er yfirleitt ekki dýr, en framkvæmd þarf að vera með skipulegum hætti.
    Í vegalögum er einungis fjallað um reiðvegi í 46. gr. en þar segir:
    „Vegagerð ríkisins skal aðstoða nýbýlastjórn við lagningu nýbýlavega og samtök hestamanna við gerð reiðvega, enda sé kostnaður greiddur af sérstakri fjárveitingu í fjárlögum, samkvæmt vegáætlun eða á annan hátt.“
    Með flutningi þessa frumvarps eru tekin af öll tvímæli um að Vegagerð ríkisins skuli annast gerð reiðvega, enda er hún sá aðili í þjóðfélaginu sem best er búin til að taka að sér slíka framkvæmd. Jafnframt er með sérstöku frumvarpi gert ráð fyrir að fjár sé aflað til gerðar reiðvega umfram fé á fjárlögum til reiðvegagerðar. Gerir það frumvarp ráð fyrir sérstöku „hóffjaðragjaldi“.
    Samhliða þessum frumvörpum tveimur flytur flutningsmaður þingsályktunartillögu um að samgönguráðherra verði falið að láta gera sérstaka reiðvegaáætlun í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga til fjögurra ára í senn. Í reiðvegaáætlun skal koma fram forgangsröð framkvæmda.
    Árlega hafa verið takmarkaðar fjárveitingar á fjárlögum ákveðnar af Alþingi í þingsályktun um vegáætlun.
    Landssamband hestamanna ákveður skiptingu þessarar fjárveitingar milli hestamannafélaga og umdæmisverkfræðingar Vegagerðar ríkisins fylgjast með því að áætlaðar framkvæmdir séu inntar af hendi og greiða féð út. Einnig eru dæmi um að Vegagerðin annist framkvæmdir fyrir hestamannafélögin. Undirritað var 7. maí 1982 samkomulag milli Landssambands hestamannafélaga og Vegagerðar ríkisins um gerð reiðvega. Samkomulag þetta er fylgiskjal með þessu frumvarpi. Ágreiningur varð fljótlega um túlkun þessa samkomulags.
    Vandkvæði hafa þannig verið ýmis við gerð reiðvega og ástæða er einnig til að leggja áherslu á hlut sveitarfélaga og þátt reiðvega í skipulagi, en sveitarfélög eru öll skipulagsskyld samkvæmt skipulagslögum frá 1978.

Fylgiskjal.

Samkomulag milli Landssambands hestamannafélaga og


Vegagerðar ríkisins um gerð reiðvega.


(7. maí 1982.)



1. gr.


     Þegar stofnbrautir eða þjóðbrautir með bundnu slitlagi eru lagðar út frá þéttbýlissvæðum eða annars staðar, þar sem búast má við mikilli umferð, skal þess gætt að haga framkvæmdum á þann veg að umferð ríðandi manna megi verða sem greiðust, t.d. með gerð reiðvega á vegsvæði meðfram vegum ef þess er kostur, enda hafi komið um það tillaga frá samstarfsnefnd, sbr. 2. og 3. gr.

2. gr.


     Í hverju umdæmi skal starfa samstarfsnefnd skipuð fulltrúa Vegagerðar ríkisins og tveimur fulltrúum frá Landssambandi hestamannafélaga.

3. gr.


     Samstarfsnefndir skulu fylgjast með áætlunum um gerð þjóðvega með bundnu slitlagi og semja álitsgerðir um lausn á umferðarmálum ríðandi manna sem lagðar skulu fyrir hönnunaraðila til athugunar og eftirbreytni með hæfilegum fyrirvara.
    Samstarfsnefnd skal jafnan eiga aðgang að upplýsingum hjá hönnunaraðila um reiðvegi sem áformað er að gera.
    Samstarfsnefndir skulu jafnframt, þar sem þörf krefur, gera tillögur um gerð reiðleiða meðfram stofnbrautum og þjóðbrautum sem þegar hafa verið byggðar.
    Þá skal samstarfsnefnd fylgjast með reiðleiðum sem gerðar verða samkvæmt framanskráðu og gera tillögur um viðhald þeirra eftir því sem þörf krefur.

4. gr.


     Ágreiningi, sem upp kann að koma innan samstarfsnefndar, er heimilt að vísa til vegamálastjóra eða fulltrúa hans og stjórnar Landssambands hestamannafélaga sem ber að fjalla sameiginlega um ágreiningsmál og leita lausnar á þeim.