Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 146 . mál.


Sþ.

152. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem gerður var í Strassborg 15. október 1985.

A t h u g a s e m d i r v i ð þ i n g s á l y k t u n a r t i l l ö g u þ e s s a .


    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem gerður var í Strassborg 15. október 1985. Sáttmálinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.

A. Tilurð sáttmálans.


    Evrópusáttmálinn um sjálfsstjórn sveitarfélaga er árangur af frumkvæði ýmissa aðila og margra ára umræðum í Evrópuráðinu.
    Það hafði lengi verið áhugamál sveitarstjórnarmanna að vernda og styrkja sjálfsstjórn sveitarfélaga í Evrópu með gerð samþykktar þar sem fram kæmu þær meginreglur sem eru í heiðri hafðar í öllum lýðræðisríkjum Evrópu.
    Evrópuráðið var kjörinn vettvangur til að gera drög að slíkri samþykkt. Þegar árið 1957 viðurkenndi ráðið mikilvægi sveitarstjórna með því að setja á stofn, í þeirra þágu, evrópskt fulltrúaráð er síðan hefur haldið reglulega fundi um málefni sveitar - og héraðsstjórna í Evrópu (CLRAE).
    Árið 1981 ákvað CLRAE að senda til ráðherranefndar Evrópuráðsins drög að Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.
    Þau drög voru rædd á 5. ráðstefnu ráðherra Evrópuríkja, sem fara með sveitarstjórnarmál, sem haldin var í Luganó í októbermánuði 1982. Í niðurstöðum ráðherranna, sem sátu ráðstefnuna, kom fram að þeir
     „telja að drögin að þessum Evrópusáttmála sé mikilvægt skref í því skyni að skilgreina meginreglur um sjálfsstjórn sveitarfélaga ... ;
     fara þess á leit við ráðherranefnd Evrópuráðsins að hún feli nefnd um málefni héraðsstjórna og borga (CDRM) að gera, í samráði við ráðstefnuna um málefni sveitar - og héraðsstjórna í Evrópu, nauðsynlegar breytingar á drögum að Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga í samræmi við þær athugasemdir um form og efni hans sem fram komu á ráðstefnunni þannig að unnt verði að leggja þau fyrir næstu ráðstefnu þeirra til samþykktar“.
    Eftir að CDRM hafði endurskoðað drögin að sáttmálanum voru þau lögð fyrir 6. ráðstefnu ráðherra Evrópuríkja sem fara með sveitarstjórnarmál, en hún kom saman í Róm í nóvembermánuði 1984. Meginreglur í drögunum voru samþykktar einróma.
    Með hliðsjón af áliti ráðherrafundarins í Róm samþykkti ráðherranefnd Evrópuráðsins Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga í júní 1985 og var hann undirritaður í Strassborg 15. október 1985 á 20. allsherjarfundi CLRAE. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd 20. nóvember 1985 með fyrirvara um fullgildingu. Sáttmálinn hefur verið undirritaður af 18 ríkjum og fullgiltur af eftirtöldum tíu ríkjum: Austurríki, Danmörku, Grikklandi, Ítalíu, Kípur, Liechtenstein, Lúxemborg, Noregi, Spáni, Svíþjóð og Sambandslýðveldinu Þýskalandi.
    Samband íslenskra sveitarfélaga hefur eindregið mælt með að sáttmálinn verði fullgiltur af Íslands hálfu.

B. Almennar athugasemdir.


    Megintilgangur sáttmálans er að vernda réttindi sveitarstjórna og þannig veita íbúum sveitarfélaga tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta næsta umhverfi þeirra.
    Meginreglur sáttmálans er að finna í fyrsta og öðrum hluta hans. Í fyrsta hluta er kveðið á um þær meginreglur sem sveitarstjórnir starfa eftir, þ.e. stjórnskipulegan og lagalegan grundvöll sjálfsstjórnar sveitarfélaga. Fjallað er um vernd staðarmarka sveitarfélaga, hvernig sveitarstjórnir geta ákveðið eigið stjórnkerfi, starfsskilyrði sveitarstjórnarmanna, eftirlit stjórnvalda með starfsemi sveitarstjórna, tekjustofna sveitarfélaga, rétt sveitarstjórna til að stofna samtök, svo og lögvernd sjálfsstjórnar sveitarfélaga.
    Í öðrum hluta eru ýmis ákvæði sem varða umfang skuldbindinga aðila að sáttmálanum.
    Í sáttmálanum er ekki gert ráð fyrir skipulegu kerfi til að fylgjast með framkvæmd hans að undanskilinni þeirri kröfu að aðilar veiti allar viðeigandi upplýsingar um lagasetningu eða aðrar ráðstafanir sem gerðar eru í því skyni að framfylgja ákvæðum hans.

C. Einstakar greinar sáttmálans.


    Almennt eru ákvæði sáttmálans í samræmi við sveitarstjórnarlög nr. 8/1986 og lög nr.. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga. Hvað varðar meginregluna í 1. gr. sáttmálans vísast til 1. og 2. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í 5. gr. sáttmálans segir að ekki megi breyta staðarmörkum sveitarfélaga án samráðs við viðkomandi sveitarfélag og vísast í því sambandi til 3. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra.
    Í 2. tölul. 6. gr. sáttmálans er kveðið á um ráðningarkjör starfsmanna sveitarfélaga. Í 73. gr. sveitarstjórnarlaga eru ákvæði um starfsmenn sveitarfélaga en þar eru ekki settar fram sömu kröfur og fram koma í sáttmálanum og heldur ekki í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem getið er í þeirri grein. Launanefnd sveitarfélaga og Reykjavíkurborg gera kjarasamninga fyrir hönd sveitarfélaga. Ráðningarkjör eru þar af leiðandi alfarið á þeirra valdi en stefnt er að samræmingu launa og starfskjara.
    Í 8. gr. sáttmálans er fjallað um eftirlit stjórnvalda. Í 2. gr. sveitarstjórnarlaga segir að félagsmálaráðuneytið fari með málefni sveitarfélaga. Í 118. gr. sömu laga er kveðið nánar á um eftirlitshlutverk ráðuneytisins.
    Í 5. tölul. 9. gr. sáttmálans er kveðið á um fyrirkomulag til að leiðrétta áhrif ójafnrar tekjuskiptingar og útgjalda. Í lögum nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga, er að finna ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem er ætlað það hlutverk að úthluta framlögum í þessu skyni.
    Samkvæmt 12. gr. sáttmálans skulu aðilar að honum staðfesta minnst 20 ákvæði sáttmálans. Íslensk stjórnvöld telja rétt að öll ákvæði hans verði staðfest þar sem telja verður að íslensk lög uppfylli allar þær kröfur sem hann kveður á um.



Fylgiskjal.


REPRÓ