Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 216 . mál.


Sþ.

276. Tillaga til þingsályktunar



um stofnræktun kartöfluútsæðis.

Flm.: Jón Helgason, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að koma nú þegar af stað stofnræktun kartöfluútsæðis sem fullnægt geti þörfum allra kartöfluframleiðenda.


Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur íslensk kartöfluframleiðsla reynst erfið. Það stafar m.a. af erfiðu tíðarfari sum árin, útbreiðslu sjúkdóma og skipulagsleysi við dreifingu og sölu á kartöflum. Það er grundvallaratriði fyrir íslenska kartöfluræktun að hér verði jafnan á boðstólum nægilegt magn á stofnræktuðu útsæði því að framleiðendur þurfa að skipta reglubundið um útsæði á fárra ára fresti. Alvarleg staða er nú komin upp þar sem hringrot hefur komið upp hjá nokkrum útsæðisræktendum í Eyjafirði en þaðan hefur mestur hluti stofnútsæðisins komið að undanförnu. Það er því brýnt að bregðast skjótt við og taka þessi mál föstum tökum.
    Hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur verið lagður grunnur að heilbrigðum stofnum af afbrigðunum gullauga, Helgu og rauðum íslenskum, en ekki hefur verið hægt að fjölga þeim nægilega vegna skorts á fjármagni. Samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara eiga eignir þær, sem Grænmetisverslun landbúnaðarins átti, að ganga til þess að styrkja þessa starfsemi. Vegna þess hve mikill dráttur hefur orðið á að ganga frá uppgjöri þeirra mála þá hefur það ekki orðið enn. Hins vegar hefur komið fram hugmynd um að gjald það, sem innheimt hefur verið og ætlað er að standa undir kostnaði við kartöflumat, renni í sjóð í þessu skyni. Opinbert kartöflumat fer nú ekki fram og því ekki lengur rök fyrir innheimtu á matsgjaldi. Jafnframt þessu þarf að fara fram val á ræktendum sem geta tekið að sér framhaldsstofnræktun á hinum nýju stofnum og þarf að vanda það mjög vel til þess að tryggja það eins og frekast er kostur að sjúkdómar berist ekki með hinu nýja útsæði.
    Hér er um að ræða svo brýnt hagsmunamál íslenskrar kartöfluframleiðslu að óhjákvæmilegt er að hefjast þegar handa og gæti það orðið mikilvægur þáttur til að treysta aftur grundvöll þessarar mikilvægu búgreinar.