Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 312 . mál.


Nd.

556. Frumvarp til stjórnarskipunarlagaum breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Ólafur G. Einarsson, Páll Pétursson,


Málmfríður Sigurðardóttir, Stefán Valgeirsson.1. gr.


     Í 1. og 2. málsl. 8. gr. falli brott orðið „sameinaðs“.


2. gr.


     Í 3. mgr. 11. gr. falli brott orðin „í sameinuðu þingi“.

3. gr.


     22. gr. orðist svo:
     Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi að loknum almennum kosningum. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert.

4. gr.


     Eftirtaldar breytingar verði á 24. gr.:
     Í stað orðanna „áður en 2 mánuðir séu liðnir, frá því er það var rofið“ komi: áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið.
     Í stað orðanna „8 mánuðum“ komi: tíu vikum.
     Við bætist nýr málsliður: Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.

5. gr.


     Eftirtaldar breytingar verði á 28. gr.:
     Í stað orðanna „milli þinga“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: er Alþingi er ekki að störfum.
     Í stað orðanna „fyrir næsta Alþingi á eftir“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný.
     2. mgr. greinarinnar orðist svo:
                   Nú samþykkir Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða lýkur ekki afgreiðslu þeirra innan mánaðar frá því að þau eru lögð fyrir þingið, og falla þau þá úr gildi.

6. gr.


     32. gr. orðist svo:
     Alþingi starfar í einni málstofu.

7. gr.


     35. gr. orðist svo:
     Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið.
     Samkomudegi reglulegs Alþingis má breyta með lögum.

8. gr.


     38. gr. orðist svo:
     Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.

9. gr.


     Eftirtaldar breytingar verði á 39. gr.:
     Í stað orðanna „Hvor þingdeild“ í upphafi greinarinnar komi: Alþingi.
     Í stað orðsins „innandeildarþingmönnum“ í fyrri málslið komi: alþingismanna.
     Í stað orðsins „Þingdeildin“ í upphafi síðari málsliðar komi: Alþingi.

10. gr.


     2. mgr. 42. gr. falli brott.

11. gr.


     Í upphafi fyrri málsgreinar 43. gr. falli brott orðið „Sameinað“.

12. gr.


     44. gr. orðist svo:
     Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.

13. gr.


     45. gr. falli brott.

14. gr.


     Orðin „eið eða“ í 47. gr. falli brott.

15. gr.


     2. mgr. 48. gr. falli brott.

16. gr.


     49. gr. orðist svo:
     Meðan Alþingi er að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.
     Enginn alþingismaður verður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.

17. gr.


     52. gr. orðist svo:
     Alþingi kýs sér forseta og stýrir hann störfum þess.

18. gr.


     53. gr. orðist svo:
     Eigi getur Alþingi gert samþykkt um mál nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.

19. gr.


     54. gr. orðist svo:
     Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.

20. gr.


     55. gr. orðist svo:
     Eigi má Alþingi taka við neinu málefni nema einhver þingmanna eða ráðherra flytji það.

21. gr.


    56. gr. orðist svo:
     Þyki Alþingi ekki ástæða til að gera aðra ályktun um eitthvert mál getur það vísað því til ráðherra.

22. gr.


     Í upphafi 57. gr. falli brott orðin „beggja þingdeilda og sameinaðs“.

23. gr.


     58. gr. orðist svo:
     Þingsköp Alþingis skulu sett með lögum.

24. gr.


     Í 2. málsl. 1. mgr. 79. gr. falli brott orðin „beggja þingdeilda“.
     Í stað orðanna „báðar deildir“ í 3. málsl. 1. mgr. 79. gr. komi: Alþingi.

25. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Frumvarp þetta er samið af nefnd, sem var skipuð formönnum þingflokka, að beiðni forseta Alþingis. Frumvarpið er þó vegna deildaskiptingarinnar aðeins flutt af þeim þingflokksformönnum sem sæti eiga í neðri deild en með fullu samþykki þeirra þingflokksformanna sem sæti eiga í efri deild. Í nefndinni sátu: Ólafur G. Einarsson, Sjálfstæðisflokki, Páll Pétursson, Framsóknarflokki, Eiður Guðnason, Alþýðuflokki, Margrét Frímannsdóttir, Alþýðubandalagi, Málmfríður Sigurðardóttir, Samtökum um kvennalista, Guðmundur Ágústsson, Borgaraflokki, og Stefán Valgeirsson, þingmaður Samtaka jafnréttis og félagshyggju.
    Um efni frumvarpsins hefur orðið samkomulag í nefndinni. Nefndin ræddi ýmis fleiri atriði í stjórnarskránni sem varða Alþingi og störf þess en um þau varð ekki samkomulag eða þau þess eðlis að ekki þótti ástæða til að breyta þeim að sinni.

    Þær meginbreytingar, er felast í frumvarpinu, eru fjórar:
    1.     Deildaskipting Alþingis er afnumin. Með þeirri breytingu er stefnt að því að gera alla málsmeðferð á Alþingi skilvirkari og nútímalegri.
    2.     Samkomudegi Alþingis er breytt þannig að reglulegt þing komi saman 1. október.
    3.     Starfstíma Alþingis er breytt og er gert ráð fyrir að þingið standi allt árið. Jafnframt er í frumvarpinu ákvæði sem tryggir að landið verði aldrei þingmannslaust.
    4.     Tveimur ákvæðum, er varða fresti, er breytt. Í fyrsta lagi er breyting á meðferð bráðabirgðalagafrumvarpa á Alþingi og er gert ráð fyrir að bráðabirgðalög falli úr gildi hafi Alþingi ekki samþykkt þau eða lokið afgreiðslu þeirra innan mánaðar frá því að þau voru lögð fram. Í öðru lagi eru styttir frestir er varða þingrof. Ekki má líða nema einn og hálfur mánuður frá því er gert var kunnugt um þingrof og þar til kosningar til Alþingis fara fram. Jafnframt mega ekki líða meira en tveir og hálfur mánuður frá því að þing er rofið og þar til nýtt þing kemur saman.
    Auk þessara meginbreytinga er um að ræða nokkrar minni breytingar á stjórnarskránni er varða Alþingi og alþingismenn. Þær breytingar eru eftirfarandi:
    1.     Fellt er niður ákvæði um að ekki megi taka alþingismann fastan fyrir skuldir án leyfis þingsins. Slík frelsissvipting hefur almennt verið óheimil hér á landi í rúma öld.
    2.     Fellt er brott úrelt ákvæði um eiðvinningu þingmanna.
    3.     Fellt er brott úrelt ákvæði um að embættismenn, sem á þing eru kosnir, þurfi ekki leyfi stjórnarinnar til að þiggja kosninguna. Slíkt liggur í hlutarins eðli. Jafnframt á ekki lengur við það ákvæði að embættismenn launi staðgengla sína meðan þeir sitja á þingi.
    4.     Kveðið er skýrara á um meðferð fyrirspurna og skýrslna á Alþingi.

    Það er ljóst af því sem hér hefur verið nefnt að veigamesta breytingin á stjórnarskránni felst í afnámi deildaskiptingar þingsins. Þykir því rétt að nefna stuttlega helstu rök fyrir slíkri breytingu.
    1.     Alþingi hefur síðan 1934 (er hið eldra landskjör var lagt niður) verið kosið sem ein heild, þ.e. allir þingmenn hafa verið kjörnir á sama hátt og á sama tíma. Eðlilegast verður að telja að þing, sem kosið er sem ein heild, starfi í einni málstofu. Sameinað Alþingi skipar nú þingmönnum til starfa í tveimur þingdeildum og er það einungis arfur frá þeim tíma er skipting þingsins helgaðist af því að valið var til deildanna á mismunandi hátt, fyrst með konungkjöri 1874 1915 og síðan landskjöri 1915 1934. Þar sem hinar sögulegu forsendur deildaskiptingarinnar eru nú horfnar og enginn munur hefur verið í langan tíma á kjöri til deildanna er að mörgu leyti eðlilegt að stigið verði það skref er margir vildu taka 1934 og gera Alþingi að einni málstofu.
    2.     Núverandi deildaskipting hefur oft leitt til þess að ríkisstjórnir, sem notið hafa stuðnings meiri hluta þingmanna, hafa átt erfitt með að koma málum sínum í gegnum þingið vegna þess að þær hafa ekki haft tilskilinn meiri hluta í báðum deildum. Það má færa að því rök að deildaskiptingin sé í andstöðu við þá viðurkenndu grundvallarreglu í lýðræðislegum stjórnkerfum að meiri hlutinn ráði úrslitum mála.
    Tvískiptingin hefur nokkrum sinnum orðið til að veikja ríkisstjórnir og gera þær óstarfhæfar þótt meiri hluti þingmanna hafi stutt þær. Svo var 1931 32 (ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar), 1958 59 (ríkisstjórn Emils Jónssonar), 1973 74 (ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar), 1982 83 (ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens) og 1988 89 (ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar).
    3.     Með einni málstofu er hægt að endurbæta starf nefnda Alþingis. Fastanefndum (kjörbréfanefnd ekki meðtalin) mætti þá fækka úr 23 í 12. Slíkt þýddi jafnframt að hver þingmaður þyrfti ekki að vera í nema u.þ.b. tveimur nefndum og gæti þar af leiðandi rækt mun betur nefndaskyldur sínar en nú er mögulegt. Dæmi eru um að sumir þingmenn hafi þurft að sitja í allt að sjö fastanefndum.
    4.     Þá má telja fullvíst að ein málstofa muni einfalda alla málsmeðferð á Alþingi líkt og gerðist í Danmörku 1953 og Svíþjóð 1971 þegar deildaskipting var afnumin í þjóðþingum þessara ríkja. Afgreiðsla mála verður þó ekki bara einfaldari heldur mun hún ganga öllu hraðar en áður, en jafnframt ætti að vera tryggt að málsmeðferðin verði vandaðri, sbr. það sem áður er sagt um störf nefndanna.
    5.     Í einni málstofu mun tími ráðherra nýtast betur en áður þar sem þeir þurfa þá ekki lengur að taka þátt í umræðum um sín mál í tveimur deildum.
    6.     Núverandi skipting þingsins í þrjár málstofur (efri deild, neðri deild og sameinað þing) veldur því að öll málsmeðferð á Alþingi virðist óþarflega flókin í augum almennings. Ein málstofa mun því stuðla að bættum skilningi landsmanna á störfum þingsins en slíkt er mikils virði.
    7.     Kostnaður við þinghaldið mun minnka.
    Rök þeirra, er vilja viðhalda óbreyttri deildaskiptingu, hafa einkum verið þau að núverandi kerfi tryggi betri umfjöllun um löggjöf en væri möguleg í einni málstofu. Frumvarp þurfi nú að fara í gegnum þrjár umræður og nefndaumfjöllun í tveimur deildum og fyrirbyggi það frekar en einnardeildarkerfi vanhugsaðar ákvarðanir og auðveldi þingmönnum að íhuga breytingartillögur við frumvarp vandlega. Athuganir, sem gerðar hafa verið á störfum Alþingis, benda þó ekki til þess að þessi rök séu mjög sterk. Það er að vísu hægt að benda á einstök dæmi þess að síðari deild hafi lagfært frumvarp þegar fyrri deild hefur yfirsést eitthvað sem betur mátti fara. Slík dæmi eru þó frekar undantekningar og varða oftast smávægileg atriði. Í þessu sambandi má enn fremur benda á að í þeim drögum að þingskapalögum, sem fylgja frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að frumvörp, sem breytast við 2. umr., skuli sæta athugun í nefnd á ný fyrir 3. umr. og jafnframt verði heimilt að fresta lokaafgreiðslu frumvarps við 3. umr., ef hætta er á að meinbugir séu á samþykktum breytingartillögum við þá umræðu, og gera leiðréttingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. 2. gr.


    Breytingarnar stafa af afnámi deildaskiptingarinnar. Greinarnar fjalla um handhafa forsetavalds og um brottvikningu forseta.

Um 3. gr.


    Nýtt orðalag þessarar greinar leiðir af þeirri meginbreytingu á störfum Alþingis að það stendur allt árið. Forseti lýðveldisins stefnir Alþingi saman, svo sem verið hefur, að loknum almennum kosningum og mun jafnframt setja reglulegt þing ár hvert 1. október. Þessi breyting þýðir að hefðbundnar þinglausnir, þar sem forseti Íslands slítur þinginu, falla niður.

Um 4. gr.


    Styttir eru frestir er varða þingrof þannig að nú má ekki líða nema einn og hálfur mánuður frá því að forseti Íslands gerir kunnugt um þingrof og þar til kosningar til Alþingis fara fram. Þessi frestur er nú tveir mánuðir frá þingrofi. Jafnframt mega ekki líða meira en fjórir mánuðir frá því að þingrof er birt og þar til nýtt þing kemur saman. Þessi frestur er nú átta mánuðir frá þingrofi.
     Við greinina er bætt nýjum málslið, að alþingismenn haldi umboði sínu til kjördags. Með þessu ákvæði er tryggt að landið verður aldrei þingmannslaust.

Um 5. gr.


    Í fyrsta lagi eru lagðar til smávægilegar breytingar á orðalagi 1. mgr. vegna breytinga á starfstíma Alþingis. Orðin „milli þinga“ falla brott og í staðinn koma orðin „þegar Alþingi er ekki að störfum“. Með því er átt við þann tíma þegar þingi er frestað eða frá því að umboð þess fellur niður og þar til nýtt þing kemur saman. Hér er því ekki um að ræða breytingu á þeim skilyrðum sem verið hafa fyrir útgáfu bráðabirgðalaga.
     Í öðru lagi er Alþingi settur frestur í einn mánuð til að afgreiða frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum. Jafnframt hvílir sú skylda á ráðherra að leggja staðfestingarfrumvarp fram á fyrsta fundi Alþingis þegar það kemur saman að nýju eftir útgáfu laganna. Samþykki Alþingi ekki staðfestingarfrumvarpið falla lögin úr gildi og svo er einnig hafi þingið ekki lokið afgreiðslu frumvarpsins innan mánaðar frá því að það var lagt fram og því útbýtt á þingfundi. Ef starf þingsins félli niður af einhverjum ástæðum, svo sem vegna frestunar, áður en mánuður væri liðinn frá framlagningu staðfestingarfrumvarps héldu lögin gildi sínu engu síður þann mánuð sem áskilinn er í greininni.
     Mánaðarfresturinn er settur í því skyni að Alþingi taki, svo fljótt sem auðið er, afstöðu til bráðabirgðalaga sem gefin hafa verið út meðan það sat ekki að störfum svo að það réttarástand, sem bráðabirgðalög hafa skapað, standi sem styst eftir að löggjafarvaldið hefur tekið til starfa á ný.
     Þess má geta að í drögum að þingskapalögum eru ákvæði sem koma eiga í veg fyrir að staðfestingarfrumvarp falli vegna óeðlilega langra umræðna.

Um 6. gr.


    Í greininni felst ein meginbreyting frumvarpsins, þ.e. að Alþingi starfi í einni málstofu.
     Um mikilvægi þeirrar breytingar og frekari rökstuðning fyrir henni vísast til almennu athugasemdanna og til fyrri frumvarpa um þetta efni og umræðna á Alþingi á undanförnum árum.
     Rétt er að vekja athygli á því að útfærsla þessarar breytingar á störfum Alþingis kemur fram í drögum að frumvarpi um þingsköp Alþingis sem fylgir með þessu frumvarpi.

Um 7. gr.


    Lagt er til að samkomudagur Alþingis verði nú 1. október í stað 10. þess mánaðar. Samkvæmt gildandi stjórnarskrárákvæði er samkomudagurinn 15. febrúar en því var breytt með lögum nr. 3/1967 í 10. október, enda hafði sú venja skapast löngu áður (samfellt frá 1956 og að mestu frá 1945) að reglulegt Alþingi hæfi störf þann dag. Með þessari breytingu gefst Alþingi m.a. lengri tími til að fjalla um frumvarp til fjárlaga sem taka þurfa gildi fyrir áramót.
     Í greininni er jafnframt kveðið á um að Alþingi standi allt árið, þ.e. frá 1. október til jafnlengdar næsta ár, hafi umboð þess ekki áður fallið úr gildi, þ.e. hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið. Hér er um veigamikla breytingu að ræða á störfum Alþingis þar sem það mun nú standa að formi til allt árið. Ekki eru uppi áform um að lengja verulega starfstíma Alþingis frá því sem nú er og venja hefur skapast um á síðari árum, en þessi breyting þýðir þó að Alþingi getur komið saman til framhaldsfunda eftir að því hefur verið frestað að vori án þess að til þurfi að koma formleg þingsetning, kjör forseta, fastanefnda o.fl. Reglulegu þingi lýkur samkvæmt greininni sjálfkrafa 30. september en ekki með þingslitum eins og verið hefur. Jafnframt falla þá niður öll óafgreidd mál þingsins eins og nú er við þinglok.
     Rétt er að geta þess að áfram er mögulegt að kalla Alþingi til aukafunda, t.d. að loknum alþingiskosningum, áður en reglulegt Alþingi skal koma saman 1. október. Stæði slíkt þing þá (með hugsanlegri frestun) fram til 1. október er nýtt reglulegt Alþingi hæfist.
     Loks er því ákvæði greinarinnar haldið að breyta megi samkomudegi reglulegs Alþingis með lögum. Verður að telja eðlilegt vegna ýmissa aðstæðna að heimilt verði að víkja frá stjórnarskrárákvæðinu með lögum.

Um 8. gr.


    Breytinguna leiðir af afnámi deildaskiptingarinnar.

Um 9. gr.


    Breytinguna leiðir af afnámi deildaskiptingarinnar. Greinin fjallar um rannsóknarnefndir Alþingis.

Um 10. 13. gr.


    Breytingarnar eru nauðsynlegar vegna afnáms deildaskiptingarinnar. Greinarnar fjalla um framlagningu fjárlagafrumvarps í sameinuðu þingi, kosningu yfirskoðunarmanna, samþykkt mála í deildum og ágreining deildanna.

Um 14. gr.


    Lagt er til að fella brott úrelt ákvæði um eiðvinningu þingmanna.

Um 15. gr.


    Óeðlilegt þykir að halda því ákvæði í stjórnarskránni að embættismenn, sem á þing eru kosnir, þurfi ekki leyfi stjórnarinnar til að þiggja kosninguna. Slíkt liggur í hlutarins eðli. Jafnframt á ekki lengur við það ákvæði að embættismenn launi staðgengla sína meðan þeir sitja á þingi.

Um 16. gr.


    Fellt er niður ákvæði um að ekki megi taka alþingismann fastan fyrir skuldir án leyfis þingsins. Slík frelsissvipting hefur almennt verið óheimil hér á landi í rúma öld.
     Í gildandi ákvæði segir einnig að ekki megi setja neinn alþingismanna „í varðhald“ meðan Alþingi stendur yfir. Er þá átt við gæsluvarðhald sem er þáttur í rannsókn sakamáls. Rétt þykir að kveða nú skýrara að orði um þetta atriði og breyta orðalagi ákvæðisins í samræmi við viðtekinn skilning á því.
     Þá er enn fremur breytt orðalagi fyrri málsgreinar þannig að í stað orðanna „meðan Alþingi stendur yfir“ kemur: meðan Alþingi er að störfum. Er þetta annars vegar gert til að festa það orðalag að Alþingi er að störfum nema því hafi verið frestað, eða það ekki komið saman að loknum alþingiskosningum, og hins vegar til að tryggja að ekki verði nú efnisleg breyting á ákvæði fyrri málsgreinar þegar Alþingi situr allt árið. Hefur jafnan verið litið svo á að þessi sérréttindi þingmanna féllu niður við þingfrestun.

Um 17. 18. gr.


    Breytingarnar stafa af afnámi deildaskiptingarinnar. Orðalagi 53. gr. stjórnarskrárinnar er þó breytt lítillega til samræmis við langa þingskapahefð.

Um 19. gr.


    Með greininni er verið að staðfesta framkvæmd á meðferð fyrirspurna og skýrslna á Alþingi.

Um 20. 24. gr.


    Breytingarnar leiðir af afnámi deildaskiptingarinnar.

Um 25. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.DRÖG AÐ FRUMVARPI TIL LAGA


um þingsköp Alþingis.
(Í drögum þessum er texti núgildandi þingskapa prentaður í


heild en breytingar auðkenndar með skáletri. Sömuleiðis


eru nýmæli í breytingartillögum sýnd með leturbreytingu.


Sjá enn fremur Yfirlit um helstu breytingar á þingsköpum


aftast í þessu fylgiskjali.)I. ÞINGSKIPUN


1. gr.


     Þegar Alþingi kemur saman við þingsetningu skal elsti þingmaðurinn stjórna umræðunum, þangað til forseti sameinaðs þings er kosinn, og standa fyrir kosningu hans.
     Til þess að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna eftir hverjar almennar kosningar til Alþingis ganga þingmenn eftir hlutkesti í þrjár jafnar deildir meðan til vinnst. Fyrsta deild fær annarri deild, önnur deild þriðju deild og þriðja deild fyrstu deild kjörbréf þeirra þingmanna sem eru í hverri þeirra fyrir sig. Hver deild rannsakar kjörbréf þau, er hún tekur við, og kosningu þingmanna og kjörgengi, kýs sér framsögumann og gerir tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns skuli talin gild. Tillögurnar má bera upp munnlega, án nokkurs fyrirvara, og ræður afl atkvæða um gildi kosninga og kjörgengi, svo og hvort fresta skuli úrskurði þar um, sbr. 46. gr. stjskr.
     Umræður á þingsetningarfundum fara fram eftir fyrirmælum 36. og 38. gr.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
     Þegar Alþingi kemur saman við þingsetningu skal sá þingmaður, sem hefur lengsta þingsetu að baki, stjórna umræðunum þangað til forseti þingsins er kosinn og standa fyrir kosningu hans. Hafi tveir þingmenn eða fleiri setið jafnlengi á þingi skal sá teljast aldursforseti sem eldri er.
     Á fyrsta fundi þingsins eftir hverjar almennar kosningar til Alþingis skal kjósa sjö þingmenn í nefnd eftir reglum 49. gr. til þess að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna. Nefndin kýs sér formann og framsögumann og gerir tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns skuli talin gild. Tillögurnar má bera upp munnlega, án nokkurs fyrirvara, og ræður afl atkvæða um gildi kosninga og kjörgengi, svo og hvort fresta skuli úrskurði þar um, sbr. 46. gr. stjskr.
     Umræður á þingsetningarfundum fara fram eftir fyrirmælum 36. og 38. gr.

2. gr.


    Sérhver nýr þingmaður skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni undir eins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild skv. 47. gr. stjskr.

Breytingartillaga:
    Skáletruðu orðin falli brott.

3. gr.


    Þá skal kjósa forseta sameinaðs þings og gengst hann fyrir kosningu tveggja varaforseta, fyrsta og annars, og tveggja skrifara.
     Rétt kjörinn forseti er sá er hefur meira en helming greiddra atkvæða þeirra er á fundi eru. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju óbundnum kosningum. Fái þá heldur enginn nógu mörg atkvæði skal kjósa um þá tvo þingmenn er flest fengu atkvæði við síðari óbundnu kosninguna; hafi við þá kosningu fleiri fengið jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir fá báðir jafnmörg atkvæði við bundnu kosninguna ræður hlutkesti hvor þeirra verði forseti.
     Sömu reglu skal fylgt við kosningu varaforseta.
     Skrifarar skulu kosnir hlutbundinni kosningu, sbr. 49. gr.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
     Þá skal kjósa forseta Alþingis og gengst hann fyrir kosningu fjögurra varaforseta.
     Rétt kjörinn forseti er sá er hefur meira en helming greiddra atkvæða. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju óbundnum kosningum. Fái þá heldur enginn nógu mörg atkvæði skal kjósa um þá tvo þingmenn er flest fengu atkvæði við síðari óbundnu kosninguna; hafi við þá kosningu fleiri fengið jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir fá báðir jafnmörg atkvæði við bundnu kosninguna ræður hlutkesti hvor þeirra verður forseti.
     Sömu reglu skal fylgt við kosningu varaforseta.
     Þegar þessum kosningum er lokið skal hluta um sæti þingmanna. [Áður síðari málsgrein 7. gr.]

4. gr.


     Þá skal kjósa nefnd til þess að prófa kjörbréf er síðar koma fram en svo að þau verði prófuð eftir 1. gr. svo og til þess að rannsaka kosningar og kjörgengi, er þingið hefur frestað að taka gild, og kærur yfir kosningum eða kjörgengi er þegar eru tekin gild. Í þessa nefnd kýs þingið sjö menn eftir reglum um nefndakosningar skv. 16. og 49. gr.
     Ef nefnd þessi lætur uppi skriflega tillögu eða ef hún leggur til að kosning skuli teljast ógild skulu tillögur hennar ræddar eftir reglunum um 2. umr. lagafrumvarpa skv. 21. gr. Ella fer um tillögur hennar eftir því sem ákveðið er um tillögur kjördeildanna í 1. gr.
     Kosning nefndarinnar er fyrir allt kjörtímabilið.


Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
     Kjörbréfanefnd skv. 1. gr. skal einnig prófa kjörbréf er síðar koma fram, svo og til þess að rannsaka kosningar og kjörgengi, er þingið hefur frestað að taka gild, og kærur yfir kosningum eða kjörgengi er þegar eru tekin gild.
     Ef nefnd þessi lætur uppi skriflega tillögu eða ef hún leggur til að kosning skuli teljast ógild skulu tillögur hennar ræddar eftir reglunum um 2. umr. lagafrumvarpa skv. 21. gr. Ella fer um tillögur nefndarinnar eftir því sem ákveðið er um tillögur hennar í 1. gr.
     Kosning nefndarinnar er fyrir allt kjörtímabilið.

5. gr.


    Þingið getur við rannsókn þá, er ræðir um í 1. gr., úrskurðað kosningu ógilda þótt eigi hafi hún kærð verið og einnig frestað að taka kosningu gilda til þess að fá skýrslur. Svo er og um kosningu þingmanns er eigi er kominn, eða kjörbréf hans, þá er þing er sett.
     Sama er um kjörgengi.
     Að öðru leyti tekur þingið eigi upp hjá sjálfu sér að rannsaka kosningar eða kjörgengi en gerir það því aðeins að kært sé yfir þeim.
     Kæru yfir kosningu þingmanns eða kjörgengi skal því aðeins taka til greina að hún sé komin til Alþingis í byrjun þings næst á eftir kosningu eða áður en kosning þingmanns er tekin gild á Alþingi.
     Við prófun kosninga og kjörgengis hefur sérhver þingmaður fullan þingmannsrétt. En fresti þingið úrskurði um það þá tekur hann engan þátt í störfum þingsins uns það mál er útkljáð og kosning hans og kjörgengi viðurkennd.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

6. gr.


    Eftir kosningar þær, sem um ræðir í 3. og 4. gr., skal velja til efri deildar þá tölu þingmanna er þar skulu eiga sæti. Skal hverjum þingflokki skylt að tilnefna á lista þá tölu þingmanna sinna er honum ber í hlutfalli við atkvæðamagn hans í sameinuðu þingi. Ef tveir eða fleiri þingflokkar hafa með sér bandalag um kjör til efri deildar, eða þingflokkur (eða flokkar) og menn utan flokka, skal tala á listanum miðuð við samanlagt atkvæðamagn bandalagsins.
     Ef atkvæðamagn tveggja eða fleiri kjöraðila er jafnt við kosningu síðasta manns til efri deildar skal hvor (hver) þeirra tilnefna mann í vafasætið en hlutkesti ráða úrslitum.
     Nú skýtur einhver kjöraðili sér undan skyldu um tilnefningu til efri deildar og tilnefnir forseti þá þingmann eða þingmenn úr þeim flokki eða bandalagi í réttu hlutfalli við atkvæðamagn. Ef þá er vafi um eitt sæti skal hlutkesti ráða. Forseti tilkynnir síðan hverjir þingmenn hafa þannig verið tilnefndir og teljast þeir rétt kjörnir eða skipaðir til efri deildar, sbr. 32. gr. stjskr.

Breytingartillaga:
    Greinin falli brott.


7. gr.


    Síðan setjast þingdeildirnar niður, efri og neðri. Í hvorri deild gengst elsti þingmaðurinn fyrir kosningu forseta deildarinnar en forseti síðan fyrir kosningu tveggja varaforseta, fyrsta og annars, og tveggja skrifara. Um þessar kosningar fer eftir ákvæðum 3. gr. um sams konar kosningu í sameinuðu þingi.
     Þegar þessum kosningum er lokið skal hluta um sæti þingmanna, annarra en forseta, skrifara og ráðherra, nema þingflokkar hafi komið sér saman um að skipa sér í sæti eftir flokkum.

Breytingartillaga:
    Greinin falli brott.

8. gr.


    Kosning forseta, varaforseta og skrifara, í sameinuðu þingi og báðum deildum, er fyrir allt það þing. Kosning til efri deildar er fyrir allt kjörtímabilið. Svo er og um kosningu kjörbréfanefndar skv. 4. gr.
     Þó er hverjum embættismanni þingsins heimilt að leggja niður starf sitt, ef meiri hluti leyfir, í þingdeild eða sameinuðu þingi ; svo getur og þingdeild eða sameinað Alþingi vikið hverjum embættismanni sínum frá en þó þarf til þess samatkvæði 2 / 3 þingmanna eða deildarmanna.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
     Kosning forseta og varaforseta gildir þangað til nýtt þing er sett. Kosning kjörbréfanefndar er fyrir allt kjörtímabilið.
     Þó er hverjum forseta þingsins heimilt að leggja niður starf sitt ef meiri hluti leyfir; svo getur Alþingi vikið forseta frá en þó þarf til þess samatkvæði 2 / 3 þingmanna. Skal þá þegar kjósa nýjan forseta í sæti það er losnaði.

9. gr.


    Nú losnar sæti þingmanns og skal þá varamaður, er í hans stað kemur, taka sæti í þeirri deild er hann var í.

Breytingartillaga:
    Greinin falli brott.

10. gr.


    Aldursforseti, bæði í sameinuðu þingi, sbr. 1. gr., og í þingdeild, sbr. 7. gr., hefur, meðan hann skipar forsetasæti, allan sama rétt og skyldur sem forseti.

Breytingartillaga:
    Skáletruðu orðin falli brott.

11. gr.


     Forsetar stjórna umræðum og sjá um að allt fari fram með góðri reglu. Forsetar sameinaðs þings og hvorrar deildar fyrir sig taka við öllum erindum til sameinaðs þings og deilda og annast um afgreiðslu þeirra mála er frá sameinuðu þingi og deildum eiga að fara. Forsetar skýra á fundi frá erindum sem send eru sameinuðu þingi og þingdeildum og því sem útbýtt er í þeim. Nú vill forseti, hvort heldur sameinaðs þings eða deildar, taka þátt í umræðum frekar en forsetastaða hans krefur og víki þá á þingmannabekk en varaforseti tekur forsetasæti á meðan.
     Forsetar hafa sameiginlega umsjón með starfi þingnefnda. Þeir skipa fyrir um fasta fundatíma nefndanna þannig að fundir rekist ekki á. Þeir halda skrá um þingmál, sem til nefndanna hefur verið vísað, og fylgjast með gangi mála svo sem nauðsynlegt kann að vera til þess að geta skipað málum niður á dagskrá þingfunda í hagkvæmri tímaröð.
     Forsetar fara sameiginlega með framkvæmdastjórn Alþingis. Þeir hafa umsjón með eignum þess og fjárreiðum.
     Forsetar skipa í sameiningu skrifstofustjóra þingsins. Skrifstofustjóri hefur á hendi daglegan rekstur þingsins og er forsetum til aðstoðar í öllu er varðar framkvæmdastjórn þingsins. Forsetar skulu setja skrifstofustjóra erindisbréf.
     Forsetar skipa eða ráða aðra starfsmenn þingsins.

Breytingartillögur:

(11. gr. A.)


     Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Forseti tekur við öllum erindum til Alþingis og annast um afgreiðslu þeirra mála er frá þinginu eiga að fara. Forseti skýrir á fundi frá erindum sem send eru þinginu og því sem útbýtt er á þingfundi.
     Nú vill forseti taka þátt í umræðum frekar en forsetastaða hans krefur og víkur hann þá á þingmannabekk en varaforseti tekur forsetasæti á meðan.
     Forseti hefur umsjón með starfi þingnefnda, sbr. 15. gr.
     Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í hans stað.

(11. gr. B.)


     Forseti og varaforsetar mynda forsætisnefnd. Hún hefur umsjón með helstu framkvæmdum Alþingis, fjárreiðum þess og eignum. Forseti stjórnar fundum hennar.
     Forsætisnefnd skal gera starfsáætlun fyrir hvert þing og leitast við að skipuleggja nánar störf þess í samráði við formenn þingflokka.

(11. gr. C.)


     Forsætisnefnd ræður skrifstofustjóra til sex ára í senn. Hann stjórnar skrifstofu Alþingis og hefur á hendi daglegan rekstur þingsins.
     Skrifstofustjóri situr fundi forsætisnefndar og er forseta og nefndinni til aðstoðar í öllu er varðar stjórn þingsins.
     Skrifstofustjóri gerir tillögur til forseta um ráðningu annarra starfsmanna þingsins.

12. gr.


    Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í þeirra stað.

Athugasemd:
    Þessi ákvæði hafa verið felld inn í breytta 11. gr.

13. gr.


     Skrifarar halda gjörðabók, undir umsjón forsetans, og geta í henni mála þeirra, er rædd eru á fundum, og úrslita þeirra.
     Í byrjun fundar skal gjörðabók frá síðasta fundi samþykkt og undirskrifuð af forseta og öðrum skrifaranum. Þingmenn skulu eiga kost á að kynna sér gjörðabók í skrifstofunni að minnsta kosti tveim tímum áður en næsti fundur byrjar.
     Skrifararnir telja saman atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar. Sömuleiðis sjá þeir með forseta um að ályktanir séu skrásettar og ritar forsetinn og annar skrifarinn undir þær. Störfum skipta skrifarar milli sín eftir samkomulagi við forseta.

Breytingartillaga:
     Greinin orðist svo:
     Skrifstofustjóri, eða fulltrúi hans, skal vera forseta til aðstoðar við fundarstjórn. Hann heldur
gjörðabók, undir umsjón forsetans, og getur í henni mála þeirra, er rædd eru á fundum, og úrslita þeirra.
     Í byrjun fundar skal gjörðabók frá síðasta fundi samþykkt og undirskrifuð af forseta. Þingmenn skulu eiga kost á að kynna sér gjörðabók í skrifstofunni að minnsta kosti tveim tímum áður en næsti fundur byrjar.
     Forseta er heimilt að kveðja til tvo þingmenn á fundi til að telja saman atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar.
     Skrifstofustjóri skal ásamt forseta sjá um að samþykktir þingsins séu skrásettar og rita forsetinn og skrifstofustjórinn undir þær.

Ný grein á eftir 13. gr.


     Skipi þingmenn sér í þingflokka skulu þeir velja sér formann er komi fram fyrir þeirra hönd gagnvart forseta og öðrum þingflokkum og þingmönnum.
     Í þingflokki skulu vera a.m.k. tveir þingmenn.


14. gr.


    Ákvæði 12. og 13. gr. eiga jafnt við um forseta, varaforseta og skrifara í sameinuðu þingi sem í deildum.

Breytingartillaga:
    Greinin falli brott.

II. NEFNDIR


15. gr.


    Á 2. fundi sameinaðs Alþingis skulu kosnar þessar fastanefndir:
 1. fjárveitinganefnd, skipuð níu mönnum,
 2. utanríkismálanefnd, skipuð sjö mönnum og sjö til vara,
 3. atvinnumálanefnd, skipuð sjö mönnum,
 4. allsherjarnefnd, skipuð sjö mönnum,
 5. félagsmálanefnd, skipuð sjö mönnum.

    Fjárveitinganefnd fjallar um frumvörp til fjárlaga og fjáraukalaga og þingsályktunartillögur sem til hennar kann að vera vísað og fara fram á útgjöld úr ríkissjóði. Til utanríkismálanefndar skal vísa utanríkismálum. Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt milli þinga sem á þingtíma. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á. Til atvinnumálanefndar skal vísa þeim málum sem landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarnefndir í deildum mundu fjalla um ef borin væru fram í frumvarpsformi. Til félagsmálanefndar skal vísa þeim málum sem félagsmála-, heilbrigðis- og trygginga- og menntamálanefndir í deildum mundu fjalla um ef borin væru fram í frumvarpsformi. Til allsherjarnefndar skal vísa þeim málum sem þingið ákveður.
     Fjárveitinganefnd getur ákveðið að skipa úr sínum hópi undirnefnd til að starfa milli þinga að sérstökum verkefnum.
     Hvor þingdeild skal og kjósa fastanefndir til að fjalla um ákveðnar tegundir mála og skal það gert á öðrum þingfundi hvorrar deildar. Fastanefndir skulu í hvorri deild vera sem hér segir, skipaðar allt að sjö mönnum hver nefnd:
 1. fjárhags- og viðskiptanefnd,
 2. samgöngunefnd,
 3. landbúnaðarnefnd,
 4. sjávarútvegsnefnd,
 5. iðnaðarnefnd,
 6. félagsmálanefnd,
 7. heilbrigðis- og trygginganefnd,
 8. menntamálanefnd,
 9. allsherjarnefnd.

    Hver fastanefnd þingsins kýs sér formann, varaformann og fundaskrifara.
    Fastanefndir þingsins skulu leitast við að skipa afgreiðslu þingmála í tímaröð svo að verkefni þingfunda í sameinuðu þingi og þingdeildum megi, eftir því sem við verður komið, dreifast sem jafnast á þingtímann.
    Nú þykir nauðsyn til bera vegna vinnubragða að hafa mannaskipti í nefndum, lengur eða skemur, og skulu forsetar þá hlutast til um að mannaskiptin komist á, þó svo að viðkomandi fastanefndir samþykki. Náist ekki samkomulag mega forsetar skjóta ágreiningnum undir úrskurð sameinaðs þings eða þingdeildar.
     Til fastanefndanna getur sameinað þing og hvor þingdeild vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Að jafnaði skal vísa hverju máli til sömu fastanefndar í báðum deildum. Það er samvinnunefnd ef samkynja fastanefndir beggja deilda vinna saman að athugun mála sem vísað hefur verið til annarrar nefndarinnar.
    Heimilt er þó sameinuðu þingi eða hvorri deild að kjósa sérnefndir til að íhuga einstök mál. Hver slík nefnd kýs sér formann, varaformann og fundaskrifara. Einnig er sameinuðu þingi eða hvorri deild heimilt að ákveða að fastanefnd vinni að athugun máls milli þinga.
    Nefndir kjósa sér framsögumann fyrir hvert mál sem þær fjalla um.
    Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Á 2. fundi Alþingis skulu kosnar þessar fastanefndir:
 1. fjárveitinganefnd,
 2. utanríkismálanefnd,
 3. fjárhags- og viðskiptanefnd,
 4. samgöngunefnd,
 5. landbúnaðarnefnd,
 6. sjávarútvegsnefnd,
 7. iðnaðarnefnd,
 8. félagsmálanefnd,
 9. heilbrigðis- og trygginganefnd,
10. menntamálanefnd,
11. allsherjarnefnd,
12. umhverfisnefnd.
     Til hverrar fastanefndar skulu kosnir níu þingmenn. Fastanefndir kjósa sér formann og varaformann.
    Fjárveitinganefnd fjallar um frumvörp til fjárlaga, fjáraukalaga og samþykkt á ríkisreikningi og þingsályktunartillögur sem til hennar kann að vera vísað og fara fram á útgjöld úr ríkissjóði.
     Fjárveitinganefnd getur falið öðrum fastanefndum eða sérnefndum að fjalla um einstaka þætti frumvarps til fjárlaga eða fjáraukalaga.
    Til utanríkismálanefndar skal vísa utanríkismálum. Nefndin er ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum . Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.
     Til annarra nefnda skal vísa frumvörpum og þingsályktunartillögum eftir efni þeirra og hafa hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu. Til allsherjarnefndar skal, auk dóms- og kirkjumála, vísa þeim málum sem þingið ákveður.
     Forseti skal kveðja saman til funda formenn þingnefnda og leggja fyrir þá tillögu um fasta fundatíma nefndanna þannig að fundir rekist ekki á. Forseti og nefndaformenn skulu semja áætlun um afgreiðslu mála úr nefndum þannig að unnt sé að skipa þeim niður á dagskrá þingfunda í hagkvæmri tímaröð og dreifa þeim sem jafnast á þingtímann. Skrifstofa þingsins heldur skrá um þingmál, sem til nefndanna hefur verið vísað, og veitir þingnefndum nauðsynlega aðstoð við athugun þeirra .
    Nú þykir nauðsyn til bera vegna vinnubragða að hafa mannaskipti í nefndum, og skal forseti þá hlutast til um að mannaskiptin komist á. Náist ekki samkomulag má forseti skjóta ágreiningnum undir úrskurð þingfundar. Varaþingmenn taka sæti aðalmanna í nefndum meðan þeir sitja á þingi. Forfallist þingmaður um stundarsakir getur hann kvatt í sinn stað annan þingmann til þess að sinna nefndarstörfum, þó að tilskildu samþykki nefndarinnar.
    Heimilt er að kjósa sérnefndir til að íhuga einstök mál. Hver slík nefnd kýs sér formann og varaformann.
    Nefndir kjósa sér framsögumann fyrir hvert mál sem þær skila áliti um eða flytja.
     Nefnd getur, með einróma samþykki nefndarmanna, skilað áliti á sama skjali um tvö eða fleiri mál sem til hennar hefur verið vísað ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum.
    Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað.

16. gr.

    Nefndir skulu kosnar hlutbundnum kosningum, sbr. 49. gr. Kosning fastanefnda gildir til upphafs næsta þings.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

17. gr.

    Sá kveður þingnefnd saman í fyrsta sinn er fyrst var kosinn og lætur kjósa formann, varaformann og skrifara nefndarinnar.
    Nefndin lætur uppi álit sitt og skal prenta það og útbýta því meðal þingmanna á fundi. Eigi má taka málið að nýju til umræðu fyrr en að minnsta kosti einni nóttu síðar en nefndarálitinu var útbýtt.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Sá kveður þingnefnd saman í fyrsta sinn er fyrst var kosinn og lætur kjósa formann og varaformann.
    Nefndin lætur uppi álit sitt og skal prenta það og útbýta því meðal þingmanna á fundi. Eigi má taka málið að nýju til umræðu fyrr en að minnsta kosti einni nóttu síðar en nefndarálitinu var útbýtt.

Ný grein á eftir 17. gr.


     Kjósa skal nefndir alþingismanna til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi sem Alþingi er aðili að. Þó er þingflokkum heimilt að tilnefna þingmenn í alþjóðanefndir ef samkomulag er um slíkt milli þeirra. Tilnefningu skal þá lýst á þingfundi.
     Forsætisnefnd setur nánari reglur um störf alþjóðanefnda þingmanna.

Nýr kafli: STEFNURÆÐA FORSÆTISRÁÐHERRA


     Á 3. fundi Alþingis skal forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum sem trúnaðarmál eigi síðar en viku áður en hún er flutt. Umræður fara fram skv. 53. gr.

III. ÞINGMÁL


18. gr.

    Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði og skal prenta þau og útbýta þeim meðal þingmanna á fundi. Hverju frumvarpi skal fylgja stutt greinargerð fyrir tilgangi þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum. Eigi má taka frumvarp til umræðu fyrr en liðin er að minnsta kosti ein nótt frá því er því var útbýtt.
    Lagafrumvörp, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins tekin til meðferðar að meiri hluti þingmanna í þeirri deild, sem frumvarpið er borið upp í, samþykki það.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði og skal prenta þau og útbýta þeim meðal þingmanna á fundi. Hverju frumvarpi skal fylgja stutt greinargerð fyrir tilgangi þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum. Eigi má nema með samþykki þingsins taka frumvarp til umræðu fyrr en liðin er að minnsta kosti ein nótt frá því er því var útbýtt.
    Lagafrumvörp, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins tekin til meðferðar að meiri hluti þingmanna samþykki það.

19. gr.

    Ekki er lagafrumvarp samþykkt til fullnaðar fyrr en það hefur verið rætt þrisvar sinnum í hvorri þingdeild eða þrisvar sinnum í sameinuðu þingi þegar um er að ræða frumvarp til fjárlaga og fjáraukalaga, sbr. 44. og 45. gr. stjskr.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Ekki er lagafrumvarp samþykkt til fullnaðar fyrr það hefur verið rætt við þrjár umræður.

20. gr.

    Við fyrstu umræðu skal ræða frumvarpið í heild sinni. Þá er þeirri umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort það eigi að ganga til annarrar umræðu og nefndar.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

21. gr.

    Önnur umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrstu umræðu og skal þá ræða greinar frumvarpsins hverja fyrir sig og breytingartillögur við þær. Síðan skal greiða atkvæði um hverja grein og breytingartillögur við hana, ef fram hafa komið, og loks um það hvort frumvarpið eigi að ganga til þriðju umræðu.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Önnur umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrstu umræðu eða útbýtingu nefndarálits og skal þá ræða greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær. Síðan skal greiða atkvæði um hverja grein og breytingartillögur við hana, ef fram hafa komið, og loks um það hvort frumvarpið eigi að ganga til þriðju umræðu.
     Breytist frumvarp við aðra umræðu skal nefnd fjalla um það áður en þriðja umræða hefst ef einhver þingmaður eða ráðherra krefst þess.

22. gr.

    Þriðja umræða má eigi fara fram fyrr en einni nóttu eftir aðra umræðu. Þá skal ræða breytingartillögur og greinar er þær eiga við svo og frumvarpið allt í heild. Þá er umræðum er lokið skal leita atkvæða um breytingartillögur nar og síðan um frumvarpið í heild sinni eins og það þá er orðið.
    
Breytingartillaga :
    Greinin orðist svo:
    Þriðja umræða má eigi fara fram fyrr en einni nóttu eftir aðra umræðu. Þá skal ræða breytingartillögur og greinar er þær eiga við svo og frumvarpið allt í heild. Þá er umræðum er lokið skal leita atkvæða um breytingartillögur og síðan um frumvarpið í heild sinni eins og það þá er orðið.
     Sé þriðju umræðu frestað eftir atkvæðagreiðslu um breytingartillögur við frumvarpið og því vísað á ný til nefndar er ráðherra, þingnefnd, sem haft hefur málið til athugunar, eða einstökum nefndarmönnum heimilt að leggja fram nýjar breytingartillögur við frumvarpið. Við framhald umræðunnar skal fyrst greiða atkvæði um breytingartillögur, ef fram hafa komið, og síðan um frumvarpið í heild eins og það þá er orðið.

23. gr.

    Þá er frumvarp hefur þannig verið samþykkt við þrjár umræður í deild sendir forseti hennar það forseta hinnar deildarinnar með tilmælum um að hann leggi það fyrir þá deild, sbr. 45. gr. stjskr., og sætir það síðan sömu meðferð þar sem í deild þeirri er það kom frá.
     Ef frumvarpið er samþykkt óbreytt í þessari deild sendir forseti hennar ríkisstjórninni það.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
     Þá er frumvarp hefur þannig verið samþykkt við þrjár umræður sendir forseti það ríkisstjórninni sem lög frá Alþingi .

24. gr.

    Ef deildin breytir aftur á móti frumvarpinu í smáu eða stóru sendir forseti hennar það til baka forseta hinnar deildarinnar, sbr. 45. gr. stjskr. Hafi nefnd fjallað um það þar sendir forseti henni það þegar. Hún lætur uppi álit sitt um það. Þá er liðin er að minnsta kosti ein nótt frá því er frumvarpinu, eins og það kom frá hinni deildinni, var útbýtt meðal þingmanna á fundi, eða, ef um nefndarálit um það er að ræða, þá frá því er því var útbýtt, skal frumvarpið tekið til umræðu í deildinni á sama hátt og áður við þriðju umræðu skv. 22. gr.
    Ef deildin samþykkir frumvarpið óbreytt eins og það kom frá hinni deildinni sendir forseti ríkisstjórn það. En sé því breytt sendir forseti það, eins og það þá er orðið, hinni deildinni, sbr. 45. gr. stjskr., og skal þar enn fara með það eftir ákvæðum 22. gr. Fallist deildin á frumvarpið óbreytt sendir forseti ríkisstjórn það. Nú breytir deildin því og sendir þá forseti það forseta sameinaðs þings og mælist til að það verði lagt fyrir sameinað þing.

Breytingartillaga:
    Greinin falli brott.

25. gr.

    Frumvarpinu, í þeirri mynd sem það hafði síðast fengið, er nú útbýtt meðal allra þingmanna og skal lagt fyrir sameinað Alþingi til einnar umræðu minnst einni nóttu síðar. Við umræðurnar skal fara eftir því sem fyrir er mælt í 22. gr. og er þeim lýkur skal greiða atkvæði um breytingartillögurnar og síðan um frumvarpið í heild sinni.
    Þá er Alþingi, sem nú segir, skipar eina málstofu þarf, til þess að gerð verði fullnaðarályktun um mál, meira en helmingur þingmanna úr hvorri deild að vera á fundi og eiga þátt í atkvæðagreiðslu, sbr. 45. gr. Ræður þá afl atkvæða um einstök málsatriði. En til þess að lagafrumvarp, að undanskildum frumvörpum til fjárlaga og fjáraukalaga, verði samþykkt í heild sinni verða aftur á móti að minnsta kosti tveir þriðjungar atkvæða, sem greidd eru, að vera með frumvarpinu, sbr. 45. gr. stjskr.
    Ef frumvarp er samþykkt í sameinuðu þingi sendir forseti það ríkisstjórninni. Ella fellur það niður.

Breytingartillaga:
    Greinin falli brott.

26. gr.

    Lagafrumvarp, er felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, skal í fyrirsögninni nefnt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn vísar forseti því frá.
    Breytingartillögu, sem felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, má aðeins gera við frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Sé hún gerð við annað frumvarp vísar forseti henni frá.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

27. gr.

    Lagafrumvarp, er önnur deildin hefur fellt, má eigi bera upp aftur á sama þingi.

Breytingartillaga:
    Í stað skáletruðu orðanna komi: hefur verið.

28. gr.

    Tillögur til þingsályktunar skal bera upp í sameinuðu þingi og skulu þær vera í ályktunarformi. Skal prenta þær og útbýta þeim meðal þingmanna á þingfundi. Umræða má eigi fara fram fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir.
    Ekki er þingsályktunartillaga samþykkt til fullnaðar fyrr en hún hefur verið rædd tvisvar.
    Við fyrri umræðu hefur flutningsmaður allt að fimmtán mínútum til framsögu fyrir tillögunni og aðrir þingmenn og ráðherrar allt að átta mínútum. Hver ræðumaður má tala tvisvar. Þá er þessari umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort tillagan eigi að ganga til annarrar umræðu og nefndar. Forseti getur ákveðið frávik frá þessari málsmeðferð ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Hver þingflokkur hefur rétt til að bera slíka beiðni fram við forseta einu sinni á hverju þingi.
    Síðari umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrri umræðu eða útbýtingu nefndarálits. Skal þá ræða tillögugreinar og breytingartillögur við þær. Þá er umræðu er lokið skal greiða atkvæði um hverja tillögugrein og breytingartillögur við þær og loks tillöguna í heild sinni. Við umræðuna gilda ákvæði 36. gr.
    Um þingsályktunartillögur, er fjalla um stjórnskipun, utanríkis- eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga gilda ákvæði 36. gr. við báðar umræður.
    Þingsályktunartillögur, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins teknar til meðferðar að meiri hluti sameinaðs þings samþykki það.
     Ályktunartillögur, sem bornar eru upp í þingdeild, lúta í öllu sömu reglum um málsmeðferð sem þingsályktunartillögur.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Tillögur til þingsályktunar skulu vera í ályktunarformi. Skal prenta þær og útbýta þeim meðal þingmanna á þingfundi. Stutt greinargerð má fylgja tillögu til þingsályktunar. Umræða má eigi fara fram fyrr en í fyrsta lagi einni nóttu eftir að tillögunni var útbýtt.
    Ekki er þingsályktunartillaga samþykkt til fullnaðar fyrr en hún hefur verið rædd við tvær umræður. Tillögur um vantraust og um frestun á fundum Alþingis skulu þó afgreiddar við eina umræðu .
    Við fyrri umræðu má hver ræðumaður tala tvisvar, flutningsmaður í allt að fimmtán mínútum og aðrir þingmenn og ráðherrar allt að átta mínútum í senn. Þá er þessari umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort tillagan eigi að ganga til síðari umræðu og nefndar. Forseti getur ákveðið frávik frá þessari málsmeðferð ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Hver þingflokkur hefur rétt til að bera slíka beiðni fram við forseta einu sinni á hverju þingi.
    Síðari umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrri umræðu eða útbýtingu nefndarálits. Skal þá ræða tillögugreinar og breytingartillögur við þær. Þá er umræðu er lokið skal greiða atkvæði um hverja tillögugrein og breytingartillögur við þær og loks tillöguna í heild sinni. Við umræðuna gilda ákvæði 36. gr.
     Forseta er heimilt að láta ákvæði 36. gr. gilda við fyrri umræðu um þingsályktunartillögur, er fjalla um stjórnskipun, utanríkis- eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga liggi fyrir ósk um það frá flutningsmanni.
    Þingsályktunartillögur, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins teknar til meðferðar að meiri hluti þings samþykki það.

29. gr.

    Ef ráðherra óskar að gera grein fyrir opinberu málefni gerir hann það með skýrslu til Alþingis er skal prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.
    Ef ráðherra óskar skal skýrslan tekin til umræðu. Sama gildir ef níu þingmenn óska þess. Ráðherrann gerir grein fyrir skýrslunni og er þingmönnum þá rétt að taka þátt í umræðunni. Þingmenn, aðrir en ráðherrar, mega þó ekki tala oftar en tvisvar.
    Ef ekki verður komið við að prenta og útbýta skýrslu skv. 1. mgr. eða ekki þykir ástæða til getur ráðherra gert grein fyrir opinberu málefni með munnlegri skýrslu til Alþingis. Fer þá um umræðu sem um skriflega skýrslu.
     Við umræðu um skýrslu má engar ályktanir gera.


Breytingartillaga:
    Síðasta málsgreinin falli brott.

30. gr.

    Níu þingmenn geta óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni. Skal beiðnin vera skrifleg og beint til forseta og má fylgja henni stutt greinargerð. Skal beiðnin prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Á næsta fundi í sameinuðu þingi ber forseti það undir atkvæði umræðulaust hvort beiðnin skuli leyfð eða ekki. Forseti tilkynnir hlutaðeigandi ráðherra um beiðni um skýrslu sem leyfð hefur verið.
    Er ráðherra hefur lokið skýrslugerðinni skal skýrslan prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.
    Ef ráðherra eða skýrslubeiðendur, einn eða fleiri, óska þess skal skýrslan tekin til umræðu. Ráðherra gerir grein fyrir henni. Þingmenn mega taka þátt í umræðunni en aðrir en ráðherra mega þó ekki tala oftar en tvisvar.
     Við umræðu um skýrslu má engar ályktanir gera.
     Rétt er alþingismönnum einnig að nota sér heimild 54. gr. stjskr. um að beiðast skýrslu ráðherra í þingdeildum.

Breytingartillaga:
     Í stað skáletruðu orðanna í 1. mgr. komi: þingfundi.
     Síðustu tvær málsgreinarnar falli brott.

Ný grein.


    Á eftir 30. gr. komi ný grein er orðist svo:
     Þegar alþjóðanefnd leggur skýrslu fyrir þingið til umræðu skal framsögumaður nefndarinnar gera grein fyrir henni. Þingmenn mega taka þátt í umræðunni en mega ekki tala oftar en tvisvar. Framsögumaður má tala þrisvar.

31. gr.

    Vilji alþingismaður óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn í sameinuðu þingi er afhent sé forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli. Alþingismaður segir til um það hvort hann óskar skriflegs eða munnlegs svars. Stutt greinargerð má fylgja fyrirspurn ef óskað er skriflegs svars.
    Forseti ákveður samdægurs hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki. Ef vafi er getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkvæði á næsta fundi í sameinuðu þingi. Skal það einnig gert ef fyrirspyrjandi óskar þess er forseti synjar fyrirspurn.
    Fyrirspurn skal prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Fyrirspurn, sem leyfð hefur verið, skal send hlutaðeigandi ráðherra eða ráðherrum.
    Á sérstökum fundi í sameinuðu þingi skal forseti taka á dagskrá munnlegar fyrirspurnir er leyfðar hafa verið í síðasta lagi fjórum virkum dögum fyrir fundinn. Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að hún var leyfð.
    Fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjenda mælir fyrir fyrirspurn. Ráðherra, er hlut á að máli, svarar síðan fyrirspurn. Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en tvær mínútur og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í senn. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera stutta athugasemd.
     Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en sex virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið. Skal prenta fyrirspurn og svar í Alþingistíðindum.
    Við umræður um fyrirspurnir má engar ályktanir gera.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Vilji alþingismaður óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn er afhent sé forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.
    Forseti ákveður hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki. Ef vafi er getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkvæði á þingfundi. Skal það einnig gert ef fyrirspyrjandi óskar þess er forseti synjar fyrirspurn.
    Fyrirspurn skal prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Fyrirspurn, sem leyfð hefur verið, skal send hlutaðeigandi ráðherra eða ráðherrum.
    Á sérstökum þingfundi skal forseti taka á dagskrá fyrirspurnir er útbýtt hefur verið í síðasta lagi fjórum virkum dögum fyrir fundinn. Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að henni var útbýtt.
    Fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjenda mælir fyrir fyrirspurn. Ráðherra, er hlut á að máli, svarar síðan fyrirspurn. Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en tvær mínútur og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í senn. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera einu sinni stutta athugasemd, eina mínútu hverjum.
    Við umræður um fyrirspurnir má engar ályktanir gera.

32. gr.

    Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma í sameinuðu þingi geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveim klukkustundum áður en þingfundur hefst. Í upphafi þingfundar skal forseti tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár. Málshefjandi hvers máls má eigi tala lengur en þrjár mínútur og aðrir eigi lengur en tvær mínútur í senn. Enginn má tala oftar en tvisvar.
    Forseti getur leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar skv. 31. gr. eða annarra formlegra þingmála. Fer þá um umræðu málsins skv. 36. gr. eftir því sem við á.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveim klukkustundum áður en þingfundur hefst. Í upphafi þingfundar skal forseti tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár. Málshefjandi hvers máls má eigi tala lengur en þrjár mínútur og aðrir eigi lengur en tvær mínútur í senn. Enginn má tala oftar en tvisvar.
    Forseti getur leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar formlegra þingmála. Málshefjandi og ráðherrar mega eigi tala lengur en tíu mínútur og aðrir þingmenn eigi lengur en fimm mínútur í senn. Enginn má tala oftar en tvisvar.

33. gr.

    Breytingartillögur við lagafrumvörp og þingsályktunartillögur skulu vera prentaðar og þeim útbýtt ekki síðar en daginn áður en þær koma til umræðu. Ráðherra og hver þingmaður má koma fram með breytingartillögur við hverja umræðu sem er.
    Breytingartillögu við breytingartillögu má þingmaður bera upp við byrjun þess fundar er hún skal tekin til umræðu. Þó skal þá vera búið að útbýta henni. Nefnd getur einnig borið upp breytingartillögu með jafnstuttum fresti en aðrir því aðeins að deildin samþykki það.
    Breytingartillögu um atriði, sem búið er að fella í deild, má eigi bera upp aftur í sömu deild á sama þingi , en heimilt er að bera hana upp í hinni deildinni og sameinuðu þingi ef tækifæri er til þess eftir þingsköpum. Forseti úrskurðar hvort það er sama atriði, sem liggur fyrir, og atriði er áður hefur verið fellt í sömu þingdeild og er þing deildarmönnum skylt að hlíta þeim úrskurði. Þegar lagafrumvörp koma í sameinað þing frá annarri hvorri þingdeildinni má þó eigi gera breytingartillögur um önnur atriði en þau er sú deildin, er síðast hafði frumvarpið til meðferðar, breytti við þá umræðu. Forseti sameinaðs þings sker til fullnustu úr ágreiningi í þessu efni.

Breytingartilllaga:
    Greinin orðist svo:
    Breytingartillögur við lagafrumvörp og þingsályktunartillögur skulu vera prentaðar og þeim útbýtt ekki síðar en einni nóttu áður en þær koma til umræðu. Breytingartillögu má fylgja stutt greinargerð. Ráðherra og hver þingmaður má koma fram með breytingartillögur við hverja umræðu sem er.
    Breytingartillögu við breytingartillögu má þingmaður bera upp við upphaf þess fundar er hún skal tekin til umræðu. Þó skal þá vera búið að útbýta henni. Nefnd getur einnig borið upp breytingartillögu við frumvarp eða þingsályktunartillögu með jafnstuttum fresti.
    Breytingartillögu um atriði, sem búið er að fella, má eigi bera upp aftur á sama þingi. Forseti úrskurðar hvort það er sama atriði, sem liggur fyrir, og atriði er áður hefur verið fellt og er þingmönnum skylt að hlíta þeim úrskurði.

Ný grein.


     Þingmál, sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við þinglok, falla niður.

IV. FUNDARSKÖP


34. gr.

    Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.
    Ef þingmaður forfallast svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti hans á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir bréfið viðkomandi þingdeild eða sameinuðu þingi. Þingmaður nýtur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.
    Þegar fundur er settur skal samþykkja gjörðabók frá síðasta fundi, sbr. 13. gr. Þar næst skýrir forseti frá erindum þeim sem honum hafa borist eða útbýtt hefur verið. Þá er gengið til dagskrár.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.
    Ef þingmaður forfallast svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti hans á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir þinginu bréfið. Þegar varamaður tekur sæti í forföllum þingmanns skal hann ekki sitja skemur en tvær vikur nema þingið hafi áður verið rofið eða því frestað. Þingmaður nýtur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.
    Þegar fundur er settur skal samþykkja gjörðabók frá síðasta fundi, sbr. ... gr. Þar næst skýrir forseti frá erindum þeim sem honum hafa borist eða þingskjölum sem útbýtt hefur verið. Þá er gengið til dagskrár.

35. gr.

    Þingmaður, sem hefur óskað að taka til máls og fengið leyfi til þess, skal ávallt mæla úr ræðustól. Sama gildir um ráðherra. Ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins. Eigi má hann annars ávarpa nokkurn einstakan þingmann og kenna skal þingmann við kjördæmi hans eða kosningu. Við útvarpsumræður skulu þó þingmenn jafnan nefndir fullu nafni.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

36. gr.

    Framsögumaður meiri og minni hluta nefndar, svo og flutningsmaður máls, en eigi nema einn þótt fleiri flytji, mega við hverja umræðu um mál tala þrisvar. Ef tveir eða fleiri eru flutningsmenn skal sá, er fyrstur stendur á skjalinu, teljast framsögumaður nema annar sé tilnefndur. Aðrir mega ekki tala oftar en tvisvar. Þó er jafnan heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, um gæslu þingskapa og til þess að bera af sér sakir.
    Ráðherrar mega tala svo oft sem þeim þykir þurfa, sbr. þó næstu málsgr. hér á eftir og niðurlagsákvæði 38. gr.
    Þegar útvarpað er umræðum um þingmál skal farið eftir reglum V. kafla.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Framsögumaður meiri og minni hluta nefndar, svo og flutningsmaður máls, en eigi nema einn þótt fleiri flytji, mega við hverja umræðu um mál tala þrisvar. Ef tveir eða fleiri eru flutningsmenn skal sá, er fyrstur stendur á skjalinu, teljast framsögumaður nema annar sé tilnefndur. Aðrir mega ekki tala oftar en tvisvar. Ráðherrar mega tala svo oft sem þeim þykir þurfa, sbr. þó síðari málsgreinar þessarar greinar og 3. mgr. 28. gr.
    Jafnan er heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, um gæslu þingskapa og til þess að bera af sér sakir. Enginn má þó tala lengur en tvær mínútur í senn og hver þingskapaumræða má ekki taka lengri tíma en tíu mínútur.
    Ráðherrar mega tala svo oft sem þeim þykir þurfa, sbr. þó síðari málsgreinar þessarar greinar og 3. mgr. 28. gr.
     Þegar brýna nauðsyn ber til getur forsætisráðherra gert tillögu um að ræðutími þingmanna og annarra ráðherra en þess, sem mælir fyrir stjórnarfrumvarpi, sé takmarkaður við átta mínútur og ræðutími framsögumanna meiri og minni hluta nefnda við fimmtán mínútur. Hverjum þingmanni skal þá einungis heimilt að tala einu sinni við hverja umræðu og framsögumanni tvisvar, en eigi fleiri en tveimur þingmönnum, að framsögumanni meðtöldum, frá hverjum þingflokki. Slík tillaga forsætisráðherra skal borin undir atkvæði umræðulaust.
    Þegar útvarpað er umræðum um þingmál skal farið eftir reglum V. kafla.

37. gr.


    Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra og framsögumann svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á eða til þess að þingmaður geti gert stutta leiðrétting eða athugasemd er snertir sjálfan hann.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess þá er dagskrármálið er tekið fyrir. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra og framsögumann, svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á, eða til þess að þingmaður geti gert stutta leiðrétting eða athugasemd er snertir sjálfan hann.
     Forseti getur leyft þingmönnum að gera stuttar athugasemdir við einstakar ræður strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill gera athugasemd bera fram ósk um það við forseta. Athugasemd má einungis gera við ræðu en ekki við athugasemd. Hver athugasemd má ekki taka lengri tíma en tvær mínútur og skal ræðumanni heimilt að svara henni á tveimur mínútum. Heimilt er forseta að stytta ræðutíma hvers ræðumanns. Enginn má gera athugasemdir oftar en tvisvar sinnum hverju sinni. Orðaskipti í athugasemdum mega ekki standa lengur en í fimmtán mínútur í einu.

38. gr.

    Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.
    Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls, sbr. þó 4. mgr. 36. gr. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði í þingdeild þeirri sem hlut á að máli, eða sameinuðu þingi, og ræður afl atkvæða úrslitum.
    Sömuleiðis geta þrír þingmenn í efri deild, sex í neðri deild og níu í sameinuðu þingi krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður. Nöfn þeirra þingmanna skulu lesin upp og rituð í gjörðabókina.
    Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess, sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.
    Ákvæði þessarar greinar ná einnig til ræðutíma ráðherra.

Breytingartillaga:
     Skáletruðu orðin í 2. málsl. 2. mgr. eru tilvísun í sérstaka takmörkun umræðna.
     Skáletruðu orðin í lokamálslið 2. mgr. falli brott.
     Í stað skáletruðu orðanna í 3. mgr. komi: níu þingmenn.

39. gr.

    Eigi má, nema með leyfi forseta, lesa upp prentað mál.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

40. gr.

    Skylt er þingmanni að lúta valdi forseta í hvívetna er að því lýtur að gætt sé góðrar reglu. Skyldi almenn óregla koma upp er það skylda forseta að gera hlé á fundinum um stundarsakir eða, ef nauðsyn er til, slíta fundinum.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

41. gr.

    Frumvörp, hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill. En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi. Fyrirspurn má og afturkalla.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Frumvörp, hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill. En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi, sbr. þó 2. mgr. Fyrirspurn má og afturkalla.
     Breytingartillögu, sem er á dagskrá við 2. umræðu um lagafrumvarp, má flutningsmaður kalla aftur, að hluta eða í heild, til 3. umræðu og kemur hún þá til afgreiðslu við þá umræðu.

42. gr.

    Þyki eigi ástæða til að gera ályktun um eitthvert málefni sem á dagskrá er getur sameinað þing eða viðkomandi deild vísað því til ríkisstjórnarinnar eða einstakra ráðherra, sbr. 56. gr. stjskr.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Þyki eigi ástæða til að gera ályktun um eitthvert málefni sem á dagskrá er getur þingið vísað því til ríkisstjórnarinnar.

43. gr.

    Heimilt er þingmanni að krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál umræðulaust, en það skal því aðeins gert að 2 / 3 fundarmanna séu því samþykkir.
    Meðan á umræðum stendur má gera rökstudda tillögu um að taka skuli fyrir næsta mál á dagskránni og skal þá afhenda forseta tillöguna um það skrifaða. Slíka tillögu má og gera í prentuðu þingskjali.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

44. gr.

    Forseti ákveður dagskrá hvers fundar. Þó má ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun sameinaðs þings og þingdeildar eftir því sem við á .
    Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá. Mál, sem eigi er á dagskrá, verður því aðeins tekið fyrir að til þess fáist samþykki 3 / 4 þeirra sem á fundi eru, sbr. 69. gr.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Forseti ákveður dagskrá hvers fundar. Þó má ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun þingsins.
    Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá.
     Forseti getur heimilað, ef ósk berst um það frá flutningsmanni eða flutningsmönnum og enginn þingmaður andmælir því, að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum.

45. gr.

    Eigi má gera neina ályktun nema meira en helmingur þingmanna í sameinuðu þingi eða viðkomandi deild sé á fundi og greiði þar atkvæði, sbr. 53. gr. stjskr. Þingmaður, sem er á fundi en greiðir ekki atkvæði við nafnakall, án lögmætra ástæðna , telst taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
    Engin ályktun er lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæðisbærir eru, greiði atkvæði með henni.
    Skylt er þingmanni , hvort heldur í deild eða sameinuðu þingi, að vera viðstaddur og greiða atkvæði nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.
    Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Eigi má gera neina ályktun nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslunni, sbr. 53. gr. stjskr. Þingmaður, sem er á fundi en greiðir ekki atkvæði við nafnakall, telst taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
    Engin ályktun er lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæði greiða, greiði atkvæði með henni.
    Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.
    Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.

46. gr.

    Forseti ræður því hvernig atkvæðagreiðslu er skipt og hvernig hún fer fram. Þó getur þingdeild eða sameinað þing, ef þrír í efri deild, sex í neðri deild og níu í sameinuðu þingi krefjast þess, breytt ákvörðun forseta.

Breytingartillaga:
    Í stað skáletruðu orðanna komi: þingið, ef níu þingmenn.

47. gr.

    Þá er forseti hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli má hann lýsa því yfir að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn krefst þess að hún fari fram og skal þá sú yfirlýsing forseta koma í stað atkvæðagreiðslu. Um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur verður hann þó jafnan að hafa atkvæðagreiðslu við allar umræður, sbr. 20. 25. og 28. gr.
    Atkvæðagreiðslan fer fram á þann hátt að hver þingmaður réttir upp hægri hönd sína hvort sem hann greiðir atkvæði með eða móti máli. Skrifarar telja atkvæðin en forseti skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar eftir að atkvæða hefur verið leitað með og móti. Hafi atkvæðagreiðslan fallið þannig að málið sé hvorki samþykkt né fellt lætur forseti nafnakall fara fram. Sömuleiðis er forseta heimilt að láta atkvæðagreiðslu fara fram með nafnakalli annaðhvort þegar í stað eða ef atkvæðagreiðsla hefur áður farið fram en verið óglögg. Komi fram ósk um nafnakall skal við henni orðið.
     Þegar komið hefur verið upp rafeindabúnaði fyrir atkvæðagreiðslur skal hverfa frá þeim reglum sem settar eru um atkvæðagreiðslur í 2. mgr.
    Við nafnakall skal farið eftir tölusettri nafnaskrá í stafrófsröð og hluta um í hvert sinn á hverri raðtölunni skuli byrja nafnakallið.
    Forseti skal jafnan greiða atkvæði síðastur.

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Þá er forseti hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli og hefur gengið úr skugga um að meiri hluti þingmanna sé á fundi má hann lýsa yfir því að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður krefst þess að hún fari fram og skal þá sú yfirlýsing forseta koma í stað atkvæðagreiðslu. Um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur verður forseti þó jafnan að hafa atkvæðagreiðslu við allar umræður, sbr. 20. 25. og 28. gr.
    Atkvæðagreiðslan fer fram á þann hátt að hver þingmaður réttir upp hægri hönd sína hvort sem hann greiðir atkvæði með eða móti máli. Teljarar telja atkvæðin en forseti skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar eftir að atkvæða hefur verið leitað með og móti. Hafi atkvæðagreiðslan fallið þannig að málið sé hvorki samþykkt né fellt lætur forseti nafnakall fara fram. Sömuleiðis er forseta heimilt að láta atkvæðagreiðslu fara fram með nafnakalli annaðhvort þegar í stað eða ef atkvæðagreiðsla hefur áður farið fram en verið óglögg. Komi fram ósk um nafnakall skal við henni orðið.
    Við nafnakall skal farið eftir tölusettri nafnaskrá í stafrófsröð og hluta um í hvert sinn á hverri raðtölunni skuli byrja nafnakallið.
    Forseti skal jafnan greiða atkvæði síðastur.
     Atkvæðagreiðsla með rafeindabúnaði, þar sem skráð er hvernig hver þingmaður, sem þátt tekur í atkvæðagreiðslunni, greiðir atkvæði, jafngildir nafnakalli. Þó skal því aðeins birta atkvæði hvers þingmanns í þingtíðindunum að einhver þingmaður óski þess.

48. gr.

    Afl atkvæða ræður um úrslit mála og málsatriða nema öðruvísi sé ákveðið í stjórnarskránni eða þingsköpum, sbr. 25. gr.

Breytingartillaga:
    Skáletruðu orðin falli brott.

49. gr.

    Um kosningar fer eftir því sem fyrir er mælt í 3. gr. að því viðbættu að þegar kjósa á um tvo menn eða fleiri í sameinuðu þingi eða þingdeild, hvort heldur er til starfa innan þings eða utan, skal forseti beita hlutfallskosningu með aðferð þeirri er kennd er við de Hondt (listakosning). Aðferðin er þessi:
    Þeir þingmenn, er komið hafa sér saman um að kjósa allir sömu menn í sömu röð, afhenda forseta, þegar til kosninga kemur, lista yfir þá í þeirri röð. Þegar hann hefur tekið við listunum merkir hann hvern þeirra bókstaf, A, B, C o.s.frv., eftir því sem sjálfur hann ákveður eða ákveðið hefur verið með samkomulagi eitt skipti fyrir öll þann þingtíma. Síðan les forseti upphátt stafnafn hvers lista og nöfn þau er á honum standa. Þá kjósa þingmenn þannig að hver ritar á kjörmiða aðeins stafnafn (A, B o.s.frv.) þess lista er hann vill kjósa eftir. Kjörmiðarnir eru afhentir forseta og nefnir hann upphátt bókstaf hvers miða en skrifararnir rita jafnóðum og telja saman hve mörg atkvæði hafa fallið á hvern lista, hve mörg á A, hve mörg á B o.s.frv. Tölu þeirri, sem hver listi fær þannig, er svo skipt, fyrst með 1, síðan 2, síðan með 3 o.s.frv. eftir því sem með þarf. Hlutatölur hvers lista eru ritaðar í röð hver niður undan annarri og yfir dálkinum er ritaður bókstafur þess lista.
    Kosning fer eftir hlutatölunum þannig að sá listi fær fyrsta mann er hæsta á hlutatöluna, sá listi næsta mann er á næsthæsta hlutatölu o.s.frv. þar til fullskipað er. Ef jafnháar hlutatölur koma á tvo eða fleiri lista skal varpa hlutkesti um hvor eða hver listanna skuli koma að manni.
    Af hverjum lista skulu menn hljóta kosningu í þeirri röð sem þeir standa á listanum.
    Ef kjósa skal einnig varamenn skal listi, sem hlotið hefur mann eða menn, eiga rétt til jafnmargra varamanna í þeirri röð sem þeir standa á listanum.

Breytingartillaga:
     Skáletruðu orðin í 1. mgr. falli brott.
     Í stað undirstrikaða orðsins í 2. mgr. komi: teljarar.

50. gr.

     Fundir, bæði sameinaðs þings og þingdeilda, skulu haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti lagt til eða þingmaður óskað þess að öllum utanþingsmönnum sé vísað á braut og sker þá þingið úr því hvort svo skuli gert og umræður fara fram í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum, sbr. 57. gr. stjskr.

Breytingartillaga:
    Í stað skáletruðu upphafsorðanna komi: Þingfundir.

51. gr.

    Forseti skipar fyrir um hvernig mönnum skuli gefinn kostur á að vera við fundi þá er haldnir eru í heyranda hljóði. Áheyrendur eru skyldir til að vera kyrrir og hljóðir. Brjóti nokkur móti því getur forseti látið vísa honum á braut og, ef þörf er á, öllum áheyrendum.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

V. ÚTVARP UMRÆÐU


52. gr.

    Útvarpa skal þingsetningu og þinglausnum .

Breytingartillaga:
    Greinin orðist svo:
    Útvarpa skal frá þingsetningu.

53. gr.

    Útvarpa skal innan tveggja vikna frá þingsetningu stefnuræðu forsætisráðherra og umræðu um hana en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum sem trúnaðarmál eigi síðar en viku áður en hún er flutt. Umferðir skulu vera tvær. Í fyrri umferð hefur forsætisráðherra til umráða allt að hálfri klukkustund og fulltrúar annarra þingflokka en forsætisráðherrans 20 mínútur hver. Í annarri umferð hefur hver flokkur 10 mínútur til umráða.

Breytingartillaga:
    Skáletruðu orðin falla brott (en efni þeirra fært í nýja grein á undan 18. gr.).

54. gr.

    Á síðari hluta þings skal útvarpa almennri stjórnmálaumræðu. Fer um þessa umræðu eins og þegar útvarpað er umræðu um þingmál, sbr. 59. gr.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

55. gr.

    Útvarpa skal umræðu um vantraust ef níu þingmenn krefjast þess.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

56. gr.

    Nú óskar þingflokkur að umræðu um þingmál verði útvarpað og snýr þá formaður þingflokksins tilmælum sínum til forseta. Skal forseti þegar tilkynna það formönnum annarra þingflokka en þeir leita samþykkis flokks síns svo fljótt sem auðið er. Útvarpa skal umræðu þegar samþykki allra flokka kemur til. Sama gildir ef þingflokkur óskar að útvarpað verði umræðum á þingfundi eða hluta af þingfundi.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

57. gr.

    Nú næst ekki samkomulag milli þingflokka um útvarp umræðu og skal forseti þá tilkynna það þeim sem kröfuna átti. Ef þingflokkur ítrekar kröfu sína skal umræðunni útvarpað. Réttur til útvarps án samþykkis annarra þingflokka gildir þó aðeins um tvær umræður umfram þann flokk sem sjaldnast hefur neytt þess réttar.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

58. gr.

    Þegar útvarpað er umræðu um þingmál skulu þingflokkar hafa rétt til jafnlangs ræðutíma og forsetar gefa þingmönnum færi á að taka til máls þannig að flokkarnir skiptist á. Við útvarpsumræðu gilda ekki ákvæði 36. gr. um málfrelsi ráðherra. Rétt skal þingmönnum utan flokka að eiga þátt í útvarpsumræðum, þó þannig að enginn þeirra fái lengri tíma en helming þess er hver þingflokkur hefur til umráða og ekki skulu þingmenn utan flokka, ef fleiri eru en tveir, fá lengri tíma samanlagt við útvarpsumræðu en hver einstakur þingflokkur.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

59. gr.

    Þegar útvarpað er umræðu um þingmál fær hver þingflokkur til umráða þrjátíu mínútur. Forseti getur, með samþykki allra þingflokka, ákveðið að ræðutími skuli vera annar.
    Þegar útvarpi umræðu um þingmál er lokið getur umræða haldið áfram eftir venjulegum reglum.
    Forseti ákveður í samráði við þingflokka tölu umferða og ræðutíma í einstökum umferðum. Það er umferð þegar fulltrúar allra þingflokka hafa tekið til máls og þeir þingmenn utan flokka sem þátt taka í umræðum.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

60. gr.

    Nú óskar Ríkisútvarpið að útvarpa umræðu um þingmál, þá beinir það tilmælum sínum til hlutaðeigandi forseta. Ef um er að ræða umræðu skv. 59. gr. ákveður forseti í samráði við þingflokkana hvort orðið skuli við tilmælunum.
    Ef Ríkisútvarpið óskar hins vegar að útvarpa venjubundinni umræðu eða hluta af umræðu tekur forseti þau tilmæli á dagskrá og ákveður þingið eða þingdeild án umræðu hvort leyfð skuli. Þegar útvarpað er umræðu á þennan hátt skal þess gætt að ræðutími skiptist sem jafnast milli flokka eða mismunandi sjónarmiða.

Breytingartillaga:
     Í stað orðsins „Ríkisútvarpið“ komi: útvarps- eða sjónvarpsstöð.
     Orðið „hlutaðeigandi“ falli brott.
     Orðin „eða þingdeild“ falli brott.

61. gr.

    Dag og stund útvarpsumræðu skal tilkynna í útvarpi og á þingfundi svo fljótt sem unnt er.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

62. gr.

    Umræðum skal útvarpa í sömu röð og kröfur um útvarp bárust forseta enda sé að öðru leyti fullnægt ákvæðum þingskapa. Forseti getur þó vikið frá þessari röð ef sérstakar ástæður liggja til.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

63. gr.

    Formenn þingflokka eru réttir aðilar gagnvart forseta og þingmönnum flokksins um allt það er að útvarpi umræðu lýtur.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

64. gr.

    Forseti sker úr ágreiningi sem verður um skilning á reglum þessum eða framkvæmd þeirra.

Breytingartillaga:
    Á eftir orðunum „reglum þessum“ komi: um útvarp umræðu.

65. gr.

    Í þessum kafla er orðið útvarp notað um hljóðvarp og enn fremur um sjónvarp eftir því sem við á.
    Þar sem segir að útvarpa skuli, sbr. 52. gr., 53. gr., 54. gr. og 55. gr., er skyldan bundin við hljóðvarp.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt nema hvað tilvísanir til greina munu breytast.

VI. ÝMISLEG ÁKVÆÐI


66. gr.

     Hvorki sameinað þing né þingdeild má taka við nokkru málefni nema einhver þingmanna eða ráðherra taki það að sér til flutnings, sbr. 55. gr. stjskr.

Breytingartillaga:
    Í stað undirstrikuðu orðanna komi: Alþingi má ekki taka við neinu málefni.

67. gr.

    Umræður sameinaðs Alþingis og þingdeildanna, ásamt þingskjölum og atkvæðagreiðslum, skal prenta í Alþingistíðindum.
    Í Alþingistíðindunum má ekkert undan fella, það er þar á að standa og fram hefur komið í þinginu og gjörðabækur þingsins og handrit af umræðum í þinginu bera með sér. Engar breytingar má gera á hvorugu þessu nema leiðrétta þurfi auðsæjar og sannanlegar villur. Engu má bæta inn í Alþingistíðindin, hvort sem það varðar menn eða málefni, nema þess sé óhjákvæmilega þörf eða í því felist sjálfsögð leiðrétting.

Athugasemd:
     Í stað skáletruðu orðanna komi: á Alþingi.
     Við greinina bætist: Forsætisnefnd getur sett nánari reglur um útgáfu Alþingistíðinda, frágang þingskjala o.fl.

68. gr.

    Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu þá skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi.

Athugasemd:
    Greinin haldist óbreytt.

69. gr.

    Eftir uppástungu forseta eða skriflegri uppástungu frá þrem þingmönnum í efri deild, sex þingmönnum í neðri deild og níu í sameinuðu þingi má bregða út af þingsköpum þessum ef 3 / 4 þeirra þingmanna, er um það greiða atkvæði, samþykkja. Um stjórnarfrumvörp eða frumvörp, sem flutt eru fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, ræður þó einfaldur meiri hluti.

Breytingartillaga:
    Í stað skáletruðu orðanna komi: formanns þingflokks.

Ný grein:


     Lög þessi öðlast gildi 1. október 1991.YFIRLIT


UM HELSTU BREYTINGAR Á ÞINGSKAPALÖGUM
Inngangur.

    Samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu verða (auk afnáms deildaskiptingar) tvær meginbreytingar á störfum Alþingis:
         
    
     Samkomudagur reglulegs Alþingis verður 1. október.
         
    
     Þingið situr að formi til allt árið. Samkvæmt því mun umboð forseta og nefnda standa til upphafs næsta þings.

Stjórn þingsins.
         
    
     Varaforsetar verða fjórir og mynda ásamt aðalforseta forsætisnefnd þingsins.
         
    
     Kveðið er á um samráð forseta og þingflokksformanna um skipulag þingstarfa.
         
    
     Skýrara orðalag er um verkefni skrifstofustjóra og skrifstofunnar.
         
    
     Tekin er upp ákvæði um þingflokka og skilgreiningu þeirra (að í þeim séu a.m.k. tveir þingmenn).

Nefndir.
         
    
     Í öllum nefndum þingsins munu sitja níu menn.
         
    
     Verkefnaskipting nefndanna er í megindráttum hin sama og í Stjórnarráði (stofnuð verður sérstök umhverfisnefnd).
         
    
     Fjárveitinganefnd. (1) Ekki er gert ráð fyrir breytingum á meðferð fjárlagafrumvarps að svo stöddu en fjárveitinganefnd veitt heimild til að vísa einstökum þáttum fjárlagafrumvarpsins til fagnefnda líkt og er í mörgum nágrannalöndum (og er nú hér um heiðurslaun listamanna og flóabáta). (2) Ekki er gert ráð fyrir að nefndin fjalli um skattamál eða lánsfjárlög heldur munu þau mál áfram vera hjá fjárhags - og viðskiptanefnd.
         
    
     Skýrari reglur eru settar um mannaskipti í nefndum.
         
    
     Sérstakt ákvæði er um alþjóðanefndir þingmanna.

Umræður.
         
    
     Ekki er gert ráð fyrir breytingum á meginreglum um umræður.
         
    
     Heimilt verður að gera stuttar athugasemdir við ræður (replikkur). Heildarræðutími verður þá 15 mínútur, athugasemd hvers þingmanns allt að tveimur mínútum.
         
    
     Þingskapaumræður verða takmarkaðar við 10 mínútur í senn. Hver ræðumaður má tala í allt að tveimur mínútum.
         
    
     Umræður utan dagskrár án tímamarka verða nú takmarkaðar við 10 mínútna ræðu málshefjanda, 10 mínútur fyrir ráðherra og 5 mínútur fyrir aðra þingmenn.
         
    
     Þátttaka annarra en fyrirspyrjanda og ráðherra í umræðum á fyrirspurnafundum verður nú leyfð formlega, ein mínúta einu sinni fyrir hvern þingmann.
         
    
     Sérstök takmörkun umræðna (eftir tillögu forsætisráðherra) er leyfð þegar brýna nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu þingmáls. Þetta er einkum hugsað í tengslum við afgreiðslu frumvarpa til staðfestingar bráðabirgðalaga.
         
    
     Stefnuræðu forsætisráðherra verður flýtt þannig að hún verði þegar í upphafi þings.
         
    
     Skýrari reglur eru um skráningu á mælendaskrá.
         
    
     Heimild verður til þess að ræða tvö skyld þingmál í einu.

Meðferð þingmála.
         
    
     Skylt verður að vísa máli til nefndar ef það hefur breyst við 2. umræðu.
         
    
     Sérstakt ákvæði er um breytingartillögur á síðasta stigi við 3. umræðu lagafrumvarpa.
         
    
     Skýrari ákvæði eru um afturköllun breytingartillagna.
         
    
     Atkvæðagreiðslur: (1) Orðalagi er breytt til að unnt sé að láta yfirlýsingu koma oftar í stað atkvæðagreiðslu en nú er. (2) Settar eru reglur um atkvæðagreiðslur með rafeindabúnaði sem munu að mestu koma í staðinn fyrir nafnaköll.
         
    
     Skýrari reglur eru um ályktunarbæran fund.
         
    
     Heimild er sett handa nefndum til að afgreiða í senn tvö eða fleiri skyld mál á sama skjali.
         
    
     Sérstakt ákvæði um að óafgreidd mál falli niður við þinglok.

Fyrirspurnir og skýrslur.
         
    
     Skriflegar fyrirspurnir felldar niður (verða framvegis sem beiðni um skýrslu ráðherra).
         
    
     Tekin eru inn ákvæði um skýrslur alþjóðanefnda.
         
    
     Heimilt verður að álykta um skýrslur.

Fundarsókn og varaþingmenn.
         
    
     Skylda til fundarsóknar á fyrirspurnatímum afnumin.
         
    
     Regla um lágmarkssetu varamanna (tvær vikur) tekin í þingskapalög (er nú einvörðungu í kosningalögum).

Þingsetning, skrifarar og gerðabók.
         
    
     Aldursforseti telst sá þingmaður sem lengsta þingsetu hefur að baki.
         
    
     Rannsókn kjörbréfa á þingsetningarfundi verður einfölduð.
         
    
     Eiðvinning fellur brott.
         
    
     Embætti skrifara fellur niður. Í þeirra stað koma starfsmenn þingsins.