Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 397 . mál.


Sþ.

715. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu á alþjóðasamþykkt nr. 155 um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



     Alþingi ályktar að veita ríkisstjórninni heimild til þess fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 155 um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 22. júní 1981.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Á síðust áratugum hefur skilningur á gildi heilsusamlegs umhverfis aukist til muna. Almenningur er meðvitaðri en áður um áhrif mengunar á lífkerfi jarðarinnar. Umræða um vernd náttúrunnar og gildi heilsusamlegra lifnaðarhátta hefur náð til allra sviða þjóðlífsins. Sérstaklega hefur þessa gætt á sviði öryggis og hollustuhátta á vinnustöðum. Aukin vitneskja um eðli efna og áhrif þeirra á mannslíkamann hefur kallað á meiri varfærni í meðhöndlun hvers kyns efnasambanda á vinnustöðum. Tækni, sem leiðir af sér vélvæðingu og breytingar á verklagi, skapar hættur í vinnuumhverfinu sem ekki eru alltaf augljósar. Þróunin hefur gert hvers kyns öryggiseftirlit á vinnustöðum sífellt mikilvægara. Við þessum breyttu aðstæðum er reynt að bregðast í þeirri samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi sem hér með er leitað eftir heimild Alþingis til þess að fullgilda.
     Alþjóðasamþykkt nr. 155 um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi er frá árinu 1981. Hún er ein af mörgum samþykktum sem Alþjóðavinnumálaþingið hefur afgreitt frá stofnun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1919 sem fjalla um öryggismál á vinnustöðum. Á 77. Alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var sumarið 1990, voru umhverfismál tekin til sérstakrar umfjöllunar í framhaldi af skýrslu forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til þingsins. Í skýrslunni eru aðildarríki stofnunarinnar hvött til aðgerða á þessu sviði, m.a. til að fullgilda alþjóðasamþykktir ILO sem snerta vinnuumhverfismál. Að þessu tilefni var lögð fyrir samstarfsnefnd félagsmálaráðuneytisins og heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins, sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina, skrá yfir alþjóðasamþykktir á sviði vinnuumhverfismála sem félagsmálaráðuneytið telur að komi til álita að fullgilda. Nefndin fór yfir þessa skrá og var samþykkt að senda hana Vinnueftirliti ríkisins til umsagnar. Vinnueftirlitið lagði til að byrjað yrði á því að fullgilda tvær alþjóðasamþykktir, þ.e. samþykkt nr. 139 um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini, og samþykkt þá sem með þessari þingsályktunartillögu er óskað eftir heimild til að fullgilda, þ.e. samþykkt nr. 155 um öryggi og heilbrigði við vinnu og starf, frá árinu 1981.
     Í samþykkt nr. 155 eru sett fram nokkur grundvallaratriði sem hægt er að hafa til leiðbeiningar þegar stefna er mótuð á landsvísu eða innan fyrirtækja hvað varðar kerfi til að tryggja samræmt eftirlit með öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Með framkvæmd ábendinga í samþykktinni er lagður grundvöllur að aðgerðum til verndar starfsmönnum sem snerta afmarkaða þætti vinnuumhverfisins.
     Samkvæmt 1. gr. er gert ráð fyrir því að aðildarríki sem fullgildir samþykktina geti undanskilið framkvæmd hennar að nokkru eða öllu leyti takmarkaða flokka starfsmanna vegna sérstakra annmarka varðandi þá. Sérstaklega er tekið fram að þetta geti átt við siglingar eða fiskveiðar. Í fyrstu skýrslu um framkvæmd samþykktarinnar skal tilgreina sérhvern afmarkaðan hóp starfsmanna sem kann að hafa verið undanskilinn framkvæmd hennar. Gera skal grein fyrir ástæðum slíkrar undanþágu og í síðari skýrslum skal aðildarríki skýra frá hverri þeirri framför sem orðið hefur til víðtækari framkvæmdar samþykktarinnar. Skoðun Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands er sú að takmarka beri fullgildingu við landverkafólk, sbr. lög nr. 46/1980.
     Félagsmálaráðuneytið telur með vísan til framangreinds að rétt sé að fullgilding verði fyrst í stað takmörkuð við gildissvið laga nr. 46/1980. Á síðari stigum verði kannað hvort rétt sé að láta framkvæmd samþykktarinnar taka til vinnuaðstæðna um borð í skipum og loftförum. Það verði gert í samráði við helstu samtök aðila vinnumarkaðarins og hlutaðeigandi stjórnvöld.
     Lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eru að mati Vinnueftirlits ríkisins fullnægjandi lagagrundvöllur til að framfylgja ákvæðum samþykktarinnar. Þó er nauðsynlegt hyggja að nokkrum atriðum. Í 4. gr. er rætt um gerð stefnuskrár þar sem fjallað er um nokkra þætti sem eru mikilvægir fyrir öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Nauðsynlegt er að semja slíka stefnuskrá verði fullgilding heimiluð. Fullgilding krefst þess enn fremur að framvegis verði gefin út ársskýrsla sem hafi að geyma upplýsingar um vinnuslys og atvinnusjúkdóma, sbr. f - lið 11. gr. samþykktarinnar. Bæði þessi atriði eru til þess fallin að starf stjórnvalda að vinnuverndarmálum verði markvisst og árangursríkt.
     Í þessu sambandi er rétt að geta þess að með fullgildingu samþykkta ILO er gengist við þeirri skuldbindingu að haft sé alþjóðlegt eftirlit með framkvæmd hlutaðeigandi alþjóðasamþykktar. Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal aðildarríki senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni reglulega skýrslu um aðgerðir sem það hefur gripið til í því skyni að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktarinnar. Samkvæmt gildandi reglum skal taka þessar skýrslur saman annað hvert ár og senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni. Sérfræðinganefnd á hennar vegum fer yfir skýrslur aðildarríkjanna og birtir niðurstöðu sína í árlegri skýrslu sem er til umfjöllunar í einni af fastanefndum Alþjóðavinnumálaþingsins. Samkvæmt stofnskrá ILO eiga fjórir fulltrúar rétt á að taka þátt í afgreiðslu þingsins, tveir fulltrúar ríkisstjórnar hlutaðeigandi aðildarríkis, einn fulltrúi atvinnurekenda og einn fulltrúi launafólks. Öll starfsemi stofnunarinnar byggist á samstarfi þessara þriggja aðila. Frá því Ísland gerðist aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1945 hefur félagsmálaráðuneytið borið ábyrgð á samningu skýrslna um framkvæmd samþykkta sem Ísland hefur fullgilt.
     Á því skal vakin athygli að tillaga nr. 167, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi er birt sem fskj. II með þessar þingályktunartillögu. Í tillögunni er að finna nánari útfærslu á alþjóðasamþykktinni. Ákvæði hennar eru ekki skuldbindandi.
     Umrædd samþykkt var send fimm aðilum til umsagnar, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands. Þessir aðilar mæltu með fullgildingu. Vinnumálasambandið og Vinnuveitendasambandið voru fylgjandi fullgildingu með þeim takmörkunum sem að framan greinir. Einnig var leitað álits samgönguráðuneytisins og Vinnueftirlits ríkisins.
     Hinn 1. janúar 1990 höfðu eftirtalin 12 ríki fullgilt samþykktina: Finnland, Júgóslavía, Kúba, Kípur, Noregur, Perú, Portúgal, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Úrúgvæ og Venesúela.

Athugasemdir við einstaka kafla alþjóðasamþykktarinnar.


Um I. kafla.


     Í kaflanum er kveðið á um gildissvið samþykktarinnar og merkingu orða eða hugtaka. Þar segir að hún taki til allra atvinnugreina. Þó er með vissum skilyrðum heimilt að undanskilja að nokkru eða öllu leyti einstakar atvinnugreinar, svo sem siglingar og fiskveiðar. Einnig er mögulegt að undanskilja framkvæmd samþykktarinnar takmarkaða hópa starfsmanna vegna sérstakra vandkvæða varðandi þá.
     Á vinnumálaþingunum árin 1980 og 1981 voru uppi deilur um skilgreiningu á hugtakinu vinnustaður og komu fram margar tillögur um orðalag. Atvinnurekendur lögðu ríka áherslu á það atriði að hugtakið vinnustaður taki til þeirra staða sem eru undir beinni eða óbeinni stjórn atvinnurekanda. Á þetta var fallist, sbr. c - lið 3. gr.

Um II. kafla.


     Þessi kafli hefur að geyma meginreglur varðandi stefnumörkun einstakra ríkja, en hverju ríki ber í samráði við aðalsamtök vinnumarkaðarins að semja og framkvæma stefnuskrá varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi. Tilgreindir eru þeir aðalþættir sem taka ber tillit til í slíkri stefnuskrá. Í henni skal tilgreina hlutverk og ábyrgð stjórnvalda, atvinnurekenda, starfsmanna og annarra varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu. Stefnuskrána ber að endurskoða reglulega.

Um III. kafla.


     Í þriðja kaflanum ræðir um aðgerðir sem varða landið allt. Þar er kveðið á um skyldu ríkisvaldsins til þess að tryggja framkvæmd þeirrar stefnuskrár sem að framan getur með lagasetningu eða öðrum viðeigandi hætti í samráði við hlutaðeigandi félagasamtök. Þá er og mælt fyrir um eftirlit og viðurlög. Mælt er fyrir um kröfur í sambandi við hönnun vinnustaða, vinnuslys og atvinnusjúkdóma, rannsóknir, skýrslugerðir o.fl. Lögð er áhersla á fræðslu um þau atriði sem varða öryggi og heilbrigði vinnandi fólks, svo og á samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins og samræmi í störfum hinna ýmsu stjórnvalda.

Um IV. kafla.


     Kaflinn fjallar um aðgerðir innan fyrirtækja. Þar er fyrst og fremst kveðið á um skyldur atvinnurekandans til þess að tryggja, svo sem við verður komið, varnir gegn slysum og heilsutjóni starfsfólks síns með öryggisráðstöfunum og fræðslu. Starfsmönnum ber og að vinna með atvinnurekanda að því að uppfylla þessar skyldur og skýrt er kveðið á um það að samstarf milli stjórnenda og starfsmanna fyrirtækis skuli vera höfuðatriði í skipulagslegum og öðrum aðgerðum sem gerðar eru í samræmi við ákvæði þessa kafla.

Um V. kafla.


     Síðasti kafli samþykktarinnar hefur að geyma venjuleg ákvæði um gildistöku, uppsögn, endurskoðun o.fl.


REPRÓ af fylgiskjölum, 17 bls.