Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 175 . mál.


Nd.

768. Breytingartillögur



við frv. til l. um Slysavarnaskóla sjómanna.

Frá samgöngunefnd.



     Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                   Slysavarnafélag Íslands skal starfrækja Slysavarnaskóla sjómanna og fer Slysavarnafélagið með yfirstjórn skólans er starfar á vegum þess og ábyrgð.
                   Markmið skólans er að auka öryggi sjómanna með fræðslu og þjálfun í meðferð björgunar- og öryggisbúnaðar og almennri fræðslu um slysavarnir á sjó.
     Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                   Slysavarnaskóli sjómanna skal halda námskeið fyrir starfandi og verðandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins og annast öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi.
                   Aðalkennslugreinar skólans eru: Fræðsla um öryggismál, slysavarnir, björgunaraðferðir, skyndihjálp, flutningur sjúkra og slasaðra, meðferð björgunarbúnaðar, slökkvibúnaðar og reykköfunartækja.
     Við 3. gr. Greinin fellur brott.
     Við 4. gr. Greinin orðist svo:
                   Samgönguráðherra skipar fimm manna skólanefnd Slysavarnaskóla sjómanna til fjögurra ára í senn. Einn skal tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands, einn af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og þrír tilnefndir af Slysavarnafélagi Íslands. Ráðherra skipar einn fulltrúa Slysavarnafélags Íslands formann skólanefndar.
                   Meginhlutverk skólanefndar er að fjalla um málefni Slysavarnaskólans, einkum varðandi tækjakaup og búnað hans, viðhald, framkvæmdir og áframhaldandi uppbyggingu. Skólanefnd gerir, að fenginni umsögn öryggisfræðslunefndar sjómanna, tillögur til stjórnar Slysavarnafélags Íslands um námskeiðahald, námsskrá og lengd námskeiða á vegum skólans.
     Við 7. gr. Greinin orðist svo:
                   Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Við bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
                   Samgönguráðherra skal eigi síðar en 1. febrúar 1993 leggja fram frumvarp til laga um breyting á lögum um lögskráningu sjómanna sem m.a. kveði á um skyldu sjómanna, sem lögskráðir eru, til að hafa hlotið grundvallarfræðslu um öryggismál í Slysavarnaskóla sjómanna þegar lögskráning fer fram.