Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 450 . mál.


Ed.

845. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi1990 91.)



1. gr.


     2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna orðist svo: Stuðullinn skal miðast við breytingu á byggingarvísitölu frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils, sbr. lög nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar, og skal miða breytingu við þann mun sem verður á byggingarvísitölu sem gildir fyrir janúarmánuð á tekjuári og byggingarvísitölu sem gildir fyrir janúarmánuð á álagningarári.

2. gr.


     4. tölul. B - liðar 1. mgr. 30. gr. laganna orðist svo:
     Fé það sem varið er til aukningar á fjárfestingu í innlendum atvinnurekstri á árinu samkvæmt lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en 86.000 kr. hjá einstaklingi og 172.000 kr. hjá hjónum.
     Fjárhæð umfram frádráttarmörk, sem lögð er í hlutafjáraukningu í hlutafélagi eða lögð til hlutafjárkaupa við stofnun hlutafélags, er heimilt að flytja milli ára og nýta á næstu fimm árum. Ónýtt frádráttarheimild tekur breytingu í samræmi við breytingar á verðbreytingarstuðli skv. 26. gr.
     Frádráttur vegna hlutabréfakaupa miðast við kaup á hlutabréfum í innlendum hlutafélögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og er háður því skilyrði að maður eigi viðkomandi hlutabréf í a.m.k. tvö ár. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Skal hann framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. frá því ári, þegar hann var dreginn frá tekjum, til söluárs. Ekki skal þó beita ákvæðum 2. og 3. málsl. um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir önnur hlutabréf í innlendu félagi staðfestu af ríkisskattstjóra í stað hinna seldu innan 15 daga frá söludegi þeirra og kaupverð keyptra hlutabréfa nemur a.m.k. sömu fjárhæð og hinna seldu. Sé kaupverðið lægra skulu ákvæði 2. og 3. málsl. eiga við um mismuninn.
     Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd frádráttar samkvæmt þessum tölulið, þar með talið um millifærslu fjárhæðar umfram frádráttarmörk milli ára og meðferð hans þegar breyting verður á hjúskaparstöðu o.fl.


3. gr.


     Í stað hundraðshlutans „15%“ í 2. málsl. 1. mgr. 54. gr. laganna komi: 10%.

4. gr.


     Í stað hundraðshlutans „50%“ í 72. gr. laganna komi: 45%.

5. gr.


     Við 92. gr. laganna bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. hennar og breytist röð annarra málsgreina sem af þessu leiðir:
     Allir aðilar, þar með taldir bankar, sparisjóðir og aðrar peningastofnanir, verðbréfamarkaðir og aðrir sem annast kaup og sölu, umboðsviðskipti og aðra umsýslu með hlutabréf, skulu ótilkvaddir afhenda skattstjóra eða umboðsmanni hans skýrslu um slík viðskipti og aðila að þeim ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

6. gr.


     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða á þessa leið:
     Við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 má fyrning samkvæmt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. nema allt að 50% af þeirri fjárhæð sem færð er til tekna samkvæmt ákvæðum 53. gr.

7. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs.
     Ákvæði 2. gr. um fjárhæð frádráttar komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1992 vegna tekna á árinu 1991.
     Ákvæði 1. gr. um breytta aðferð til útreiknings á verðbreytingarstuðli skulu koma til framkvæmda frá og með útreikningi þess verðbreytingarstuðuls sem reiknaður skal fyrir árið 1991. Um þá stuðla, sem fyrir þann tíma giltu, eiga við eldri útreikningsaðferðir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi því sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Annars vegar eru lagðar til breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Hins vegar eru lagðar til breytingar á reglum um skattafslátt vegna hlutafjárkaupa.

     Skattlagning fyrirtækja. Í áfangaskýrslu fyrirtækjaskattanefndar, sem lögð var fram um miðjan nóvembermánuð 1990, voru gerðar tillögur um tvenns konar breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Annars vegar um samræmingu launatengdra gjalda hins vegar um lækkun tekjuskattshlutfalls félaga úr 50% í 45%, en á móti félli niður heimild til þess að leggja 15% af skattskyldum hagnaði í fjárfestingarsjóð.
     Jafnframt lýsti nefndin þeirri skoðun sinni að hún teldi æskilegt að lækka skatthlutfallið enn frekar í áföngum á næstu árum þannig að það yrði svipað og í helstu viðskipta - og samkeppnislöndum okkar. Enn fremur yrði unnið að því að fækka frádráttarliðum og breikka skattstofninn. Þá voru boðaðar ýmsar frekari breytingar á skattlagningu fyrirtækja, m.a. til að jafna áhrif afkomusveiflna milli ára í skattlagningu.
     Fyrri tillagan, þ.e. um tryggingagjald, var lögð fram í frumvarpsformi í desemberbyrjun og afgreidd með nokkrum breytingum þó sem lög fyrir áramót. Síðari tillagan var ekki lögð fram fyrir áramót, en í athugasemdum með frumvarpi, sem lagt var fram á Alþingi í desember, um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, kom fram að unnið yrði að tillögugerð um það mál á næstu vikum og frumvarp lagt fram á vorþingi. Þetta frumvarp liggur nú fyrir.
     Í frumvarpi þessu eru kynntar ýmsar breytingar á tekjuskattlagningu lögaðila við álagningu á árinu 1991. Breytingarnar eru tvíþættar. Annars vegar eru breytingar sem taldar eru nauðsynlegar vegna þeirrar miklu hjöðnunar verðbólgu sem fyrirsjáanleg er á þessu ári. Þessar breytingar miða að því að halda raungildi skatthlutfalls óbreyttu milli ára. Hins vegar eru gerðar tillögur um breytingar í takt við þróunina erlendis um að fækka frádráttarliðum og undanþágum frá skatti og breikka skattstofninn.
     Þannig er gert ráð fyrir að skatthlutfallið lækki úr 50% í 45%. Vegna mikillar hjöðnunar verðbólgu milli ára fæli óbreytt skatthlutfall í sér raunaukningu skattbyrði milli áranna 1990 og 1991. Jafnframt má benda á að með að hjöðnun verðbólgunnar verður einnig verulegur munur á skatthlutfalli einstaklinga í atvinnurekstri sem er tæplega 40% og skatthlutfalls lögaðila. Með þessari breytingu er stigið mikilvægt skref í átt til samræmingar á skattlagningu innlendra fyrirtækja við það sem tíðkast í helstu viðskipta - og samkeppnislöndum okkar Íslendinga.
     Þá er gerð tillaga um breytingu á ákvæði núgildandi laga um verðbreytingarfærslu, en óbreytt lög fælu í sér talsverða íþyngingu skattgreiðslna við álagningu 1991 vegna misræmis milli verðlagsbreytinga og verðbreytingarstuðuls skattalaga á árinu 1990. Þetta misræmi kemur einkum illa við skuldsett fyrirtæki. Í fyrstu grein frumvarpsins er gerð tillaga um breytingu á þessu ákvæði. Þessi breyting getur þó ekki verið afturvirk og kemur því ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu 1992. Þess vegna er í bráðabirgðaákvæði með þessu frumvarpi gert ráð fyrir að leiðrétta þetta misræmi við álagningu 1991 með því að hækka hlutfall sérstakrar afskriftar af reiknuðum tekjum vegna verðlagsbreytinga úr 40% í 50%. Að óbreyttum lögum yrðu skuldsett fyrirtæki að reikna sér óeðlilega háar skattskyldar tekjur vegna þessa misræmis. Skattaleg afkoma þeirra yrði þannig betri en raunveruleg afkoma. Með því að hækka afskriftarhlutfallið úr 40% í 50% er þetta misræmi leiðrétt.
     Loks er gerð tillaga um að lækka heimild til þess að leggja hluta af hagnaði í sérstaka fjárfestingarsjóði úr 15% í 10%. Þetta er liður í því að fækka frádráttarliðum og breikka skattstofninn, en það er í samræmi við þróunina erlendis.
     Að öllu samanlögðu er talið að með þessum breytingum verði raungildi skatthlutfalls fyrirtækja óbreytt milli áranna 1990 og 1991. Óbreytt lög hefðu hins vegar haft í för með sér umtalsverða þyngingu skattbyrði, sem má meta á bilinu 300 500 m.kr. Með þessum breytingum er komið í veg fyrir þessa þynginu. Þannig er talið að hækkun afskriftahlutfallsins bæti stöðu fyrirtækja um 100 200 m.kr., jafnframt þýðir lækkun skatthlutfallsins um 300 400 m.kr. lægri skatta. Á móti vegur lækkun fjárfestingarsjóðstillagsins. Þrátt fyrir þessar breytingar er áfram gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna álagningar tekjuskatta á fyrirtæki hækki meira en sem nemur verðbreytingum milli ára. Það stafar fyrst og fremst af betri afkomu fyrirtækja í fyrra en árið áður, sem aftur skilar sér í hærri skattgreiðslum. Hið gagnstæða gerist þegar afkoma fyrirtækja versnar milli ára, en þá rýrna skatttekjur ríkissjóðs að sama skapi. Þetta má rekja til eðlis tekjuskattskerfisins sem slíks þar sem það skilar meiri tekjum í góðæri en í samdrætti.

     Frádráttur vegna hlutabréfaviðskipta. Á undanförnum árum hefur verið beitt ýmsum skattalegum hvatningum til að örva hlutabréfaviðskipti og ýta þannig undir eiginfjármyndun í fyrirtækjum. Með lögum nr. 9/1984 var heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Heimild þessi var hvað fjárfestingu í hlutabréfum varðar bundin ákveðnum skilyrðum um hlutafé og fjölda hluthafa. Jafnframt er gerð sú krafa að engar hömlur séu lagðar á viðskipti með hlutabréf félagsins og að ársreikningar þess séu öllum aðgengilegir. Þessi skilyrði hafa verið rýmkuð síðan auk þess sem heildarfjárhæð frádráttar, sem hver einstaklingur getur fengið í frádrátt, hefur verið hækkuð. Í upphafi uppfylltu tiltölulega fá fyrirtæki skilyrði þessi, en á síðasta ári voru þau 77. Til að uppfylla skilyrði verður hutafélag að hafa hlutafé sem nemur a.m.k. rétt tæplega 17,5 m.kr. á síðasta ári og að fjöldi hluthafa sé a.m.k. 25. Á árinu 1990, þ.e. í skattframtali 1991, er hámark frádráttar 125.925 kr. hjá einstaklingi en 251.850 kr. hjá hjónum. Meðfylgjandi tafla gefur upplýsingar um umfang þessa frádráttar á undanförnum árum og hversu margir hafa notið hans.





REPRÓ, tafla.



    Skattalegur frádráttur vegna kaupa á hlutabréfum kemur til viðbótar við ýmiss konar aðrar skattalegar hvatningar til fjárfestingar í hlutabréfum. Má þar nefna að 15% arður af hlutafé er nú skattfrjáls upp að 125.925 kr. hjá einstaklingi og 251.850 kr. hjá hjónum. Einnig var samþykkt á þingi vorið 1990 að söluhagnaður af hlutabréfum í tilteknum fyrirtækjum væri skattfrjáls ef hann er undir 300.000 kr. á fjögurra ára eignarhaldstíma. Auk þess var lagaákvæðum um eignarskattsmat hlutafjár breytt á sama tíma til að greiða fyrir skráningu þeirra á opinberu kaupþingi.
     Hlutabréfamarkaður þróaðist ört á síðasta ári. Velta á markaðnum varð samtals 5,7 milljarðar króna. Þar af seldu verðbréfafyrirtæki hlutafé fyrir 4,1 milljarð króna, eða fimm sinnum meira en árið áður. Sala á nýju hlutafé nam 3,6 milljörðum króna eða um 63% af veltu. Framboð á nýju hlutafé var mikið á árinu miðað við fyrri ár en eftirspurn jókst enn meira. Hlutabréfavísitala HMARKS hækkaði því um 78% á árinu eða um 66% að raungildi. Raunávöxtun hlutabréfa var því verulega góð á árinu og ýtti það enn undir eftirspurnina. Frádráttarákvæði skattalaga léku hér greinilega töluvert hlutverk þar sem nærri þriðjungur af veltu verðbréfafyrirtækjanna átti sér stað í desember og þar af mest milli jóla og nýárs.
     Ljóst er að það markmið að örva hlutabréfamarkað með skattalegum hvatningum hefur náðst. Þróun markaðarins hefur fremur strandað á framboði hæfra hlutabréfa en á eftirspurn. Mikil umframeftirspurn á markaðnum á síðasta ári og verðhækkun hlutabréfa bendir til að skattalegar ívilnanir séu nú orðnar ríflegri en nauðsynlegt er til að örva eftirspurn eftir hlutabréfum. Það er ekki heilbrigt til lengdar fyrir neins konar starfsemi að hún byggi á niðurgreiðslu frá ríkinu, en skattaívilnun er ekkert annað en ákveðið form á niðurgreiðslu. Niðurgreiðsla hlutafjár um hríð gegndi þó jákvæðu hlutverki við að koma innlendum hlutabréfamarkaði á legg. Þar sem aldrei var ætlast til að niðurgreiðslan væri varanleg er eðlilegt að nú verði hafist handa um að lækka frádrátt vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Jafnframt þarf að búa svo um hnútana að skattafrádráttur nýtist fyrst og fremst vegna aukningar á fjárfestingu í atvinnurekstri en verði ekki veittur þeim sem aðeins kaupa hlutafé í nokkra daga til að öðlast skattafrádrátt. Jafnframt þarf að skoða hvort herða beri þau skilyrði sem sett eru fyrir því að skattafslátturinn sé veittur, t.d. varðandi upplýsingaskyldu fyrirtækja. Einnig kemur til greina að binda frádráttinn því skilyrði í framtíðinni að viðkomandi hlutabréf hafi hlotið skráningu hjá verðbréfafyrirtækjum. Engin tillaga er þó gerð um það nú.
     Flest bendir til að skattalegur frádráttur vegna hlutafjárkaupa muni ekki samrýmast aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Einnig er talið að hann stangist á við reglur OECD um jafnræði fyrirtækja. Skattaívilnanir að ýmsu tagi til fyrirtækja teljast til ríkisstyrkja samkvæmt reglum Efnahagsbandalagsins og því óleyfilegar nema að hægt sé að sýna fram á að þær skekki ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja. Sú almenna regla gildir einnig að bannað er að mismuna á grundvelli þjóðernis. Skattafsláttur vegna hlutafjárkaupa nær aðeins til fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði. Til að skattaívilnunin geti uppfyllt það skilyrði að skekkja ekki samkeppnisstöðu yrði hún að ná til allrar fjárfestingar óháð þjóðerni, þ.e. einnig til erlendra fyrirtækja, hvort sem þau eru starfrækt hér á landi eða í öðrum löndum sem aðild munu eiga að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þar sem það verður dýrt fyrir ríkissjóð að veita þegnunum þau fríðindi að geta keypt fyrirtæki um alla Evrópu með 40% styrk frá íslenska ríkinu er því líklegt að skattfrádráttur vegna hlutafjárkaupa verði að hverfa í framtíðinni ef Ísland gerist aðili að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Það er því eðlilegt að þessi skattafsláttur verði afnuminn í áföngum á næstu árum og lagt er til að nú verði stigin fyrstu skrefin.
     Í samræmi við ofangreint eru hér gerðar tvær tillögur. Í fyrsta lagi er lagt til að frádráttur vegna aukningar á fjárfestingu í atvinnurekstri verði lækkaður um fjórðung. Í öðru lagi er frádráttur vegna hlutabréfakaupa bundinn því skilyrði að viðkomandi eigi hlutabréfin í a.m.k. tvö ár. Til að þetta ákvæði valdi ekki óeðlilegri tregðu í hlutabréfaviðskiptum er gert ráð fyrir að frádrátturinn haldist þótt viðkomandi selji hlutabréfin ef hann kaupir ný innan 15 daga. Ofangreindar breytingar koma fyrst til framkvæmda vegna hlutabréfakaupa á árinu 1991 og síðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin hefur að geyma ákvæði um árlegan útreikning verðbreytingarstuðuls.
     Samkvæmt núgildandi lögum, sbr. síðari málslið 1. mgr. 26. gr., er útreikningur verðbreytingarstuðuls þannig gerður að miðað er við þá breytingu sem verður á meðaltalsbyggingarvísitölu milli ára.
     Nú er gert ráð fyrir að útreikningur verðbreytingarstuðuls miðist við þá breytingu sem verður á byggingarvísitölu frá upphafi til loka tekjuársins.

Um 2. gr.


     Með ákvæðum þessarar greinar er verið að gera fenginn frádrátt skv. 4. tölul. B - liðar 30. gr. skattalaga skilyrtan. Þannig ber mönnum að færa til tekna fenginn frádrátt vegna hlutafjárkaupa ef þeir eiga hlutabréfin í skemur en tvö ár. Færa ber frádráttinn til tekna á söluári bréfanna að viðbættri hækkun samkvæmt ákvæðum 26. gr.
     Auk þessarar reglu er hér sett fram tillaga um að heimilt sé að setja reglugerð um ýmsa þætti viðkomandi frádrættinum almennt. Ýmis vandamál er varða skattalega framkvæmd kunna að koma upp þegar breytingar verða á högum manna frá frádráttarári til söluárs. Meðal annars breytingar á hjúskaparstöðu, andlát, heimilisfesti o.s.frv. Er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra geti sett reglugerð um nánari framkvæmd á þessu ákvæði.
     Sérstaklega er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra geti sett nánari ákvæði um framkvæmd varðandi yfirfærslu fjárhæðar umfram frádráttarmörk, sbr. 10. gr. laga nr. 9/1984, með síðari breytingum.

Um 3. gr.


     Samkvæmt núgildandi lögum er rekstraraðilum heimilt að lækka skattskyldar tekjur sínar með því að draga frá þeim framlög í fjárfestingarsjóð er nema mega allt að 15% skattstofns. Er í frumvarpi þessu lagt til að heimildin verði lækkuð í 7,5%.

Um 4. gr.


     Um þessa grein vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 5. gr.


     Með þessari grein er gerð tillaga um að lögð verði almenn skylda á herðar þeirra aðila sem viðskipti eiga með hlutabréf til að veita skattyfirvöldum upplýsingar um slík viðskipti. Er hér um svipað fyrirkomulag að ræða og nú gildir varðandi ýmsa upplýsingagjöf um laun, arð, stofnsjóði, afurðainnlegg o.fl. Á síðustu missirum hafa orðið verulegar breytingar á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Viðskipti með hlutabréf hafa stóraukist og fjöldi þeirra aðila, sem þau stunda, hefur margfaldast. Skattfríðindi fylgja kaupum á ýmsum hlutabréfum. Þessu ákvæði er ætlað að koma til móts við þarfir hins opinbera um upplýsingar um þennan þátt fjármálalífsins. Upplýsingaskyldan hvílir á þeim sem annast um viðskiptin, t.d. hlutabréfasölum. Verður að ætla að skráning á viðskiptum, sem hjá þeim á sér stað, geri upplýsingagjöf auðvelda fyrir þessa aðila.

Um 6. gr.


     Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. núgildandi laga er heimilt að fyrna verðbreytingartekjufærslu skv. 53. gr. um 40%. Hér er lagt til að þessi fyrningarheimild verði hækkuð úr 40% í 45%. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um. 7. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.