Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 450 . mál.


Ed.

1058. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Þórarin V. Þórarinsson og Hannes G. Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Hauk Halldórsson frá Stéttarsambandi bænda, Gísla Karlsson frá Framleiðnisjóði, Snorra Olsen og Þórhall Arason frá fjármálaráðuneytinu og Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra.
    Nefndin fjallaði ítarlega um skattalega meðferð á greiðslum ríkissjóðs til bænda vegna sölu þeirra á fullvirðisrétti. Nefndin náði samkomulagi um breytingartillögu, sem meiri hl. flytur, varðandi þetta atriði og er lagt til að ákvæðið bætist aftan við frumvarpið sem bráðabirgðaákvæði. Allir bændur, sem selja ríkissjóði fullvirðisrétt, einnig þeir sem eiga óvirkan rétt vegna riðuveiki eða leigu á réttinum, njóta þess skattahagræðis sem fram kemur í ákvæðinu. Einnig er birt sem fylgiskjal við þetta nefndarálit bréf ríkisskattstjóra frá 6. maí 1987 um ráðstöfun söluhagnaðar þegar um sölu búmarks eða fullvirðisréttar mjólkur er að ræða með tilliti til ákvæða 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.
    Meiri hl. nefndarinnar telur rétt að sú breyting verði gerð á 2. gr. frumvarpsins að frestur til að kaupa ný hlutabréf í stað seldra verði lengdur úr 15 dögum í 30.
    Að lokum leggur meiri hl. nefndarinnar til að ný grein bætist við frumvarpið sem breyti 106. gr. tekjuskatts - og eignarskattslaganna. Greinin heimilar skattstjóra að bæta 25% álagi á þá skattstofna sem áætlaðir eru á framtalsskyldan einstakling sem ekki skilar framtali á réttum tíma. Þannig eru til að mynda hjón, sem eru samsköttuð og annað er ríkisstarfsmaður, krafin um álag af öllum tekjum ef þau skila ekki skattframtali, þrátt fyrir að annað hjónanna hafi staðið skil á öllum sínum sköttum. Breyting miðar að því að heimila skattstjóra að taka tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hefur farið fram í gegnum staðgreiðslu ef framtalsskyldur aðili skilar ekki framtali á réttum tíma.
    Talsverð umræða spannst í nefndinni um hvort það álag, sem skattstjóra er heimilt að leggja á áætlaða skattstofna, ætti að vera 25% eða lægra. Í tillögu meiri hl. nefndarinnar er lagt til að álagið verði 25% en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 18. mars 1991.



Jóhann Einvarðsson,


fundaskr.

Skúli Alexandersson,


frsm.

Guðrún J. Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Eiður Guðnason,


með fyrirvara.



Fylgiskjal.


Ríkisskattstjóri:


Bréf til allra skattstjóra.


(6. maí 1987.)


    Í framhaldi af bréfi embættisins frá 2. apríl sl. þykir ástæða til að fjalla nánar um ráðstöfun söluhagnaðar þegar um sölu búmarks eða fullvirðisréttar mjólkur er að ræða með tilliti til ákvæða 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.
    Eins og fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra til fjármálaráðuneytisins, dags. 5. nóvember 1986, telst söluverð búmarks og fullvirðisréttar mjólkur að fullu til skattskyldra tekna sem söluhagnaður.
    Samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 14. gr. er skattþegni heimilt að nota þennan söluhagnað til lækkunar stofnverðs sams konar eigna eða íbúðarhúsnæðis samkvæmt nánari reglum.
    Ríkisskattstjóri lítur svo á að, eins og fram kemur í fyrrnefndu bréfi til fjármálaráðuneytisins, beita megi lögjöfnun hvað varðar ráðstöfun söluhagnaðar vegna sölu búmarks og fullvirðisréttar mjólkur þannig að þessum bændum sé heimilt að lækka stofnverð nýrra eigna vegna upptöku nýrra búgreina á viðkomandi bújörð þó þannig að hin nýja búgrein sé rekin á bújörðinni og tengist afnotum fasteignar á henni.
    Með nýrri búgrein er átt við nánast hvaða atvinnugrein sem er sem útheimtir afnot fasteignar á bújörðum en ekki þær atvinnugreinar sem er stjórnað frá bújörðinni, svo sem rekstur vélknúinna tækja eins og bifreiða eða vinnuvéla.
    Sem dæmi um atvinnugreinar sem falla undir skilgreiningu um að tengjast fasteign á bújörðinni má nefna loðdýrarækt, fiskeldi, iðnrekstur, verslun og fiskverkun ásamt útgerð. Sé rekin útgerð, ásamt fiskverkun, verður það ekki talið andstætt túlkun þessari að útgerðin noti hafnarskilyrði sem fyrir hendi eru í nágrenni bújarðar ef afli hennar er fluttur til og unninn á bújörðinni. Hins vegar telst það ekki ný atvinnugrein á bújörð ef rekin er útgerð þaðan með aðstöðu í höfnum í nágrenninu og aflinn seldur til vinnslu hjá öðrum aðilum. Hliðstætt gildir um aðrar atvinnugreinar sem stjórnað er frá bújörð en staðsett utan hennar svo sem áður greinir.

Virðingarfyllst,


f.h. ríkisskattstjóra,



Ævar Ísberg.