Lánsfjárlög 1992

60. fundur
Mánudaginn 06. janúar 1992, kl. 14:17:00 (2515)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992, en frv. var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. alllöngu fyrir jól og er nú eitt af fáum málum sem ríkisstjórnin lagði fram alltímanlega að því er varðar fjármál ríkisins. Hitt er svo annað mál að ýmsar forsendur þess brustu fljótlega eftir að það var lagt fram, eins og t.d. forsendan um byggingu álvers við Keilisnes. Jafnframt breyttust aðrar forsendur, eins og áætlanir um peningalegan sparnað á árinu 1992, og einnig er rétt að geta þess að enn er ekki ljóst hver niðurstaða fjárlagamálsins er í reynd því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki enn sem komið er lagt fram öll frumvörp sem tengjast afgreiðslu fjárlaga.
    Mikið var um það talað hér fyrir jólin að það væri verið að tefja mál þótt það væri að vísu viðurkennt á síðari stigum að þar væri allt í skötulíki og ríkisstjórnin hefði ekki komið sér saman um ýmsa hluta fjárlagafrv. Þann 6. des. t.d., þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sagði hann m.a., með leyfi forseta:
    ,,Lög um lífeyristryggingar almannatrygginga verða endurskoðuð og er þess vænst að frv. til laga þar að lútandi verði lagt fram næstu daga. Þar verður bótakerfið einfaldað og dregið úr tekjuskerðingu bóta í þeim tilvikum þar sem hún er óhófleg. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt í þeim þrengingum sem nú steðja að ríkissjóði að draga úr greiðslum lífeyrisbóta almannatrygginga til þeirra er búa við góð kjör.``
    Þetta eru að mörgu leyti ekki óeðlileg sjónarmið hjá hæstv. forsrh. En það er óeðlilegt í málinu að forsrh. skyldi boða 6. des. sl. að frv. þessa efnis yrði lagt fram næstu daga. Það sá aldrei dagsins ljós fyrir jólaleyfi þingmanna. Það var hins vegar gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að slíkt frv. yrði lagt fram. Ríkisstjórnin lagði á það ofurkapp að frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum yrði afgreitt fyrir jól. Nú heyrum við að það standi til að flytja brtt. við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum að því er varðar þetta atriði þannig að enn er ríkisstjórnin ekki búin að undirbúa það mál sem hún krafðist að yrði afgreitt fyrir jólaleyfi þingmanna.
    Þessi mál hafa áhrif hvert á annað. Það er alveg ljóst að fjárlagafrv. hefur áhrif á lánsfjárlögin. Í 1. gr. frv. til laga um lánsfjárlög kemur fram m.a. að fjmrh. hafi heimild til að taka að láni allt að 13 milljarða kr. á árinu 1992. Ég hef miklar efasemdir um að það sé nægileg upphæð fyrir hæstv. fjmrh. ef hann eigi að geta komið saman dæminu á árinu 1992. Það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur sem störfum í efh.- og viðskn. að fá tækifæri til að setja okkur inn í hvernig þessi mál standa nú þegar fjárlagafrv. hefur verið afgreitt. Þess vegna tek ég mjög undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þessari umræðu verði fljótlega frestað og við getum tekið málið fyrir í efh.- og viðskn.
    Það er jafnframt ljóst að margt af því sem fram kemur í frv. hefur valdið margvíslegum ágreiningi og við þurfum að átta okkur á hvernig þau mál standa. Ég nefni sem dæmi að það er gert ráð fyrir að um það bil 20 milljörðum kr. verði varið til húsnæðismála á árinu 1992 og er alveg ljóst að sú mikla lántaka sem á sér stað vegna húsnæðismála hefur valdið ókyrrð á peningamarkaði og hefur orðið til þess að vextir eru mun hærri en þeir annars þyrftu að vera. Nú verður það áreiðanlega lagt út á þann veg að við sem erum að tala fyrir því að það sé of mikið lánað til húsnæðismála viljum draga úr því að ungt fólk geti eignast húsnæði. Það má til sanns vegar færa að það mun hafa þau áhrif að ekki verður hægt að byggja nægilega mikið. Við teljum hins vegar að það sé miklu mikilvægara að ná niður vöxtunum því það getur ekkert samfélag staðist þá okurvexti sem nú eru á markaði. Það er mikilvægasta verkefni á peningamarkaðnum að lækka vexti. Það er ekki mikilvægasta verkefnið að lána sem mest fjármagn í hitt og þetta því að það getur ekkert atvinnulíf staðist þá vexti sem nú eru á fjármagnsmarkaði. Það má segja að atvinnulífið sé þar í heljargreip hárra vaxta. Það dettur engum í hug að ráðast í ný atvinnufyrirtæki eða fitja upp á nýjungum vegna þess hve vextirnir eru háir. Það vantar allt traust á peningamarkaðnum til þess að vextir muni lækka. Núv. ríkisstjórn hefur einfaldlega ekki fullvissað lánsfjármarkaðinn um að þar sé spennan að minnka því að það er alveg sama þótt fram komi aðvaranir frá Seðlabankanum í þessu efni, t.d. að því er varðar húsnæðismálin, þá rís hæstv. félmrh. einfaldlega upp og segir að mennirnir viti ekkert hvað þeir eru að tala um.
    Það er svo með fleira hjá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. forsrh. tekur því fagnandi ef Ríkisendurskoðun gagnýnir eitthvað í fari fyrri ríkisstjórnar, telur það gott mál. En ef borgarendurskoðun gagnrýnir eitthvað í fari fyrrum borgarstjóra í Reykjavík er það allt saman bull, þá er það allt öðruvísi endurskoðun og ég tala nú ekki um ef mennirnir hafa ekki einu sinni haft fyrir því að tala við hans hágöfgi.
    Þetta tal, sem einkennir marga ráðherra í ríkisstjórn Íslands um þessar mundir, verður náttúrlega til þess að það myndast ekkert traust á því sem verið er að gera. Jafnvel þótt hæstv. félmrh. hafi áreiðanlega töluvert vit á fjármálum og peningamarkaði hef ég þá trú að samanlögð viska Seðlabankans í þeim efnum sé meiri --- ég heyri, að hæstv. fjmrh. hefur ekki trú á Seðlabankanum. Hann hefur hins vegar trú á hæstv. félmrh. ( Fjmrh.: Það voru ekki mín orð.) Jú. ( Gripið fram í: Hann hefur trú á báðum.) En ég heyri að hæstv. fjmrh. hefur trú á Seðlabankanum. ( ÓRG: Nei, hvorki Seðlabankanum né félmrh.) Nú, hvorki. Þetta fer nú að verða flókið og ég býst við því að hæstv. fjmrh. geti að einhverju leyti greitt úr þessu. En það er í sjálfu sér ekki hægt að greiða úr þessu því að þessi yfirlýsingagleði ráðherranna verður til þess að það myndast ekkert traust á fjármagnsmarkaðnum. Nú heyri ég að hæstv. fjmrh. er mér sammála. Ég bæði heyrði það og sá.
    Það er vandinn, hæstv. fjmrh., fyrir okkur að afgreiða mál sem þetta að það er alveg sama þó það komi aðvaranir, það er ekkert mark tekið á þeim. Við viljum einfaldlega fá um þetta málefnalega umræðu vegna þess að við viljum leggja nokkuð af mörkum í stjórnarandstöðunni til að ná jafnvægi á peningamarkaðnum og neitum að taka við einhverjum skilaboðum frá einstöku ráðherrum í þessu sambandi og viljum einfaldlega fá tíma til að ræða þetta enn frekar við Seðlabankann og Þjóðhagsstofnun í ljósi þess hvernig nú er komið. Það er meiri samdráttur en gert hafði verið ráð fyrir. Það þarf að meta hann og draga saman á lánsfjármarkaðnum til að ná niður vöxtunum því að ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn ætli ekki að fara út í handstýringu eins og þó einstakir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa tekið undir. Það er sem sagt sitt og hvað sem menn segja í þessum efnum.
    Síðan kemur aðalspurningin: Hvar á að taka þessa peninga að láni? Nú hefur því verið lýst yfir að það er kominn ágreiningur upp milli lífeyrissjóðanna og ríkisstjórnarinnar. Lífeyrissjóðirnir vilja ekki kaupa skuldabréf vegna húsnæðismála eftir því sem mér hefur skilist nema fá svör við tilteknum atriðum. Og það er ekki nóg að fá heimildir til að taka lán í hitt og þetta ef enginn vill lána og með þá forsendu í huga að ekki standi til að

auka erlendar lántökur, en það er ein af forsendum í frv. sem er til umræðu. Það er því mjög mikilvægt áður en frv. verður afgreitt að það liggi fyrir meiri vissa um hvað lífeyrissjóðirnir í landinu ætlast fyrir. Langmestur hluti peningalegs sparnaðar er kominn frá lífeyrissjóðunum. Það er ekki hægt að framkvæma nein lánsfjárlög nema ríki bærilegur friður milli ríkisstjórnar og lífeyrissjóðanna. En það er kannski svo með lífeyrissjóðina eins og marga aðra í þjóðfélaginu um þessar mundir að það ríkir ófriður þar í milli, enda hefur ríkisstjórnin verið einstaklega lagin við að koma upp ósætti við ýmsa aðila í landinu og er frægast hve ríkisstjórninni tókst stórkostlega til að því er varðaði Vinnuveitendasamband Íslands, enda fullyrti Vinnuveitendasambandið að það gæti ekkert staðist hugmyndir og löggjöf ríkisstjórnarinnar að því er varðaði atvinnurekstur nema þá helst eiturlyfjasalar. Þetta var dramatísk yfirlýsing hjá framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands. Hún var ekki komin frá stjórnarandstöðunni, ekki aldeilis. Hún var komin úr höfuðvígi atvinnurekstrarins í landinu. Menn sem hafa slíka trú á ríkisstjórn Íslands hafa e.t.v. ekki mikla trú á lánsfjármarkaðnum, enda gengur ekkert að ná vöxtunum þar niður.
    Eitt af því sem ég vildi líka fá betri upplýsingar um frá hæstv. fjmrh. er hvernig hann hyggst standa að eignasölu á árinu 1992. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að selja eigi allmikið af eignum, á annan milljarð kr. ef ég man rétt. Þessi eignasala er færð til tekna í fjárlagafrv., en það er hins vegar alveg ljóst að hún mun hafa nokkur áhrif á lánsfjármarkaðinn. Þessir peningar verða ekki sóttir undir kodda landsmanna. Þeir verða sóttir inn á lánsfjármarkaðinn ef einhver er þá tilbúinn að kaupa þær eignir sem ríkisstjórnin hyggst selja. Hún hefur að vísu lýst því yfir að það eigi eingöngu að selja eignir þar sem ekki er um einokunaraðstöðu að ræða á markaði. Hins vegar hefur komið fram að fyrirtæki eins og Bifreiðaskoðun og Endurvinnsla eru þar efst á blaði, en það eru fyrirtæki sem hafa allmikla einokun á markaði hér á landi. Þá eru þekktar yfirlýsingar um Búnaðarbanka Íslands sem að vísu átti að selja fyrir mjög lítið, hálfvirði eins og hæstv. fjmrh. hefur orðað það, en sagt að það væri mikill munur á því að selja bankann á hálfvirði til allra landsmanna en til sumra, en þannig hefur hann lagt út orð sín síðar meir. En það er mikilvægt í sambandi við þessi lánsfjárlög að vita hvernig að þessu skuli staðið.
    Ég fer þess á leit, hæstv. forseti, að þessari umræðu verði frestað að loknu því að fjmrh. hafi gert grein fyrir því, og hann verður að gera grein fyrir því, hvernig þessi mál standa. Ég tel nauðsynlegt að við fáum að fara ofan í ýmsa hluti þessa máls í nefnd til að draga úr umræðum í þinginu. Það er miklu heppilegra að taka málin fyrir með þeim hætti í nefndum þingsins en fá svör við öllum spurningum sem við höfum fram að færa í þessu máli í umræðum í þinginu. Ég vænti þess að fjmrh. geti tekið undir það. Ég er ekki að halda því fram að það þurfi að taka mjög langan tíma að fjalla um þetta mál í nefnd og á svo sem ekki neina sérstaka von á að við fáum skýringar á öllu því að svo virðist vera að hæstv. ríkisstjórn sé enn ekki tilbúin með þetta mál. Hún var ekki tilbúin með það í desember og það virðist vera að hún sé ekki enn tilbúin með það. Við erum t.d. að heyra um það, hæstv. fjmrh., í fjölmiðlum, og það er nú það helsta sem maður heyrir um mál sem þessi, að mikill ágreiningur sé í ríkisstjórninni um lífeyristryggingarnar og er tiltekinn þar ágreiningur milli ákveðinna ráðherra. Þetta er mál sem hefur áhrif á fjárlögin og þar með á lánsfjárlögin.
    Það er lágmark að þeir hæstv. ráðherrar sem hafa með þessi mál að gera sýni þinginu þá virðingu að vera viðstaddir umræður um þetta mál. En það virðist ekki vera að þeir fagráðherrar sem þetta mál heyrir undir með einum eða öðrum hætti sjái ástæðu til að vera viðstaddir. Ég sé t.d. að hæstv. félmrh. er farinn af fundi. Hún er e.t.v. í hliðarherbergi. En það er alveg nauðsynlegt að hæstv. félmrh. geri grein fyrir samskiptunum við lífeyrissjóðina, hvernig þeim sé háttað. --- Ég veit ekki hvort ég mætti biðja um, hæstv. forseti, að hæstv. félmrh. sé sóttur. En ég ætlaði að koma því til hæstv. félmrh. að hún verður að gera þinginu grein fyrir því hvernig samskiptum við lífeyrissjóðina er háttað, hvers megi vænta í sambandi við kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum húsnæðiskerfisins miðað við þann ágreining sem þarna er kominn upp, hvers sé að vænta að því er varðar hlutabréfakaup lífeyrissjóðanna í atvinnurekstri landsmanna sem fór allt í uppnám fyrir jólin. Hefur e.t.v. eitthvað verið lagfært með nýjum yfirlýsingum? Mér er ekki kunnugt um það. Það er líka nauðsynlegt að fá upplýst hvernig lyktaði umræðum milli bankastjórnar Seðlabankans og félmrh. í sambandi við húsnæðismálin. Ég skildi það svo að til stæði að kalla bankastjórana fyrir og lesa þeim pistilinn og upplýsa þá um hvernig ætti að skilja þessi mál. Ég vildi gjarnan fá að vita hvernig gekk með þann fund, hvort bankastjórarnir hafi tekið sönsum að því er þessi mál verðar eða hvort hæstv. félmrh. hefur komist að raun um að bankastjórn Seðlabankans vissi meira um málið en hún hafði áður haldið.
    Nú má vel vera að hæstv. fjmrh. geti upplýst þetta allt saman því að ég heyri að það er náið samstarf milli hans og félmrh. og hann hefur mikla trú á því sem hún segir. Ég vænti þess að hann geti svarað fyrir hana og tek það alveg gilt. En ég vildi fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann upplýsi um stöðu málsins að því er varðar þau atriði sem ég hef komið inn á og hann lýsi því jafnframt yfir að hann geti sætt sig við það og leggi það þá til að málið verði á ný tekið fyrir í nefnd og umræðu frestað svo við þurfum ekki að fara þess á leit að fá allar þær upplýsingar sem við þurfum á að halda í umræðum í þinginu.