Framhald umræðna um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 13:48:00 (2524)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég get mjög vel skilið að forseti vilji halda áfram umræðum um 1. dagskrármálið. Hitt er svo annað mál að okkur var engan veginn ljóst að svo viðamiklar brtt. yrðu lagðar fram í þessu máli og kemur í ljós að málið hefur verið nokkuð unnið meðan þing hefur ekki starfað. En mér finnst með öllu óeðlilegt að ræða málið fyrr en efh.- og viðskn. hefur fengið ráðrúm til að ræða við ýmsa aðila um það og ég sé ekki betur, virðulegi forseti, en það muni taka nokkurn tíma og má í reynd segja að þing hafi verið kallað heldur fljótt saman miðað við þann undirbúning sem ríkisstjórnin hefur haft í frammi.
    Að því er varðar Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins hafði ég ekki gert ráð fyrir að það mál yrði til umræðu í dag. Okkur er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að fara í það mál ef okkur vinnst einhver tími til að sækja skjöl okkar, en ég vissi ekki betur en hér stæði til að fara í utandagskrárumræðu og vildi því spyrja hverju það sætir að ekki er hægt að byrja á þeirri utandagskrárumræðu því mér skilst að þar muni allmargir þingmenn ætla að tala, en að lokinni þeirri umræðu fyndist mér eðlilegt að taka Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins fyrir. En mér finnst nokkuð óþægilegt að byrja á því nú þegar miðað við að við höfum ekki fengið beint viðvörun um það.