Framhald umræðna um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 13:50:00 (2525)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
     Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða sem hafa fallið hér um vinnuna sem á sér stað í efh.- og viðskn. skal ég staðfesta að þangað hafa borist brtt. við ráðstafanir í ríkisfjármálum sem eru til skoðunar í nefndinni og við höfum setið þar á rúmlega tveggja stunda fundi í morgun og munum væntanlega hefja fund klukkan níu í fyrramálið. Nú er það svo að þau þrjú mál sem við komum saman til þings til að fjalla um eru ráðstafanirnar, Hagræðingarsjóður og lánsfjárlög. Tvö af þessum málum heyra undir efh.- og viðskn. Ég hef auðvitað miklar vonir um að við komumst vel áfram í vinnunni í fyrramálið um breytingar á lánsfjárlögum og breytingar á ráðstöfunum í ríkisfjármálum, en mér sýnist samt nokkuð ljóst að það geti rekist á þörf nefndarmanna fyrir fund. Þá vil ég upplýsa að nefndarmenn í efh.- og viðskn. hafa verið ákaflega liprir að sækja fundi, t.d. fyrir jól, á þeim tímum sem við höfum getað fundið lausa. En ég óska eftir því að geta rætt það við forseta í framhaldi af þessari umræðu hvort hugsanlegt sé að hnika til dagskrá þingfunda svo að meira rúm gefist fyrir fundi í efh.- og viðskn. þannig að við lendum ekki í árekstrum eins og hér koma greinilega upp.