Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 16:38:00 (2536)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Ég óska eftir að hæstv. utanrrh. verði gert viðvart um að ég mundi gjarnan vilja hafa hann viðstaddan á meðan ég flyt mál mitt. Þó ég sé ekki að lasta nærveru hv. þm. Árna Johnsen kemur hann ekki í staðinn fyrir hæstv. utanrrh.
    Það er svo, herra forseti, að sú tilraun til alþjóðlegra samninga á vettvangi GATT, alþjóðabandalagsins um tolla og viðskipti, sem hófst í Punta del Este í Uruguay 1986, er mjög merk og víðtæk. Það er satt best að segja furðulegt hversu lengi þessi tilraun vakti næsta litla athygli hér uppi á Íslandsströndum. Það er að mínu mati svo að það er ekki fyrr en málefni landbúnaðarins dragast inn í þær viðræður af miklum þunga og fara að verða ágreiningsmál og áhuga- og hagsmunagæslumenn landbúnaðar á Íslandi fara að taka þau mál upp sem áhugi íslenskra stjórnvalda vaknar yfirleitt. Þannig bar þetta a.m.k. að mér þann tíma sem ég fór með landbrn. og tók til við að sinna þessum viðræðum vegna þeirra augljósu hagsmuna sem landbúnaðurinn gat átt þarna undir.
    Þannig er og að viðskipti með landbúnaðarvörur og reyndar matvörur flestar þar með hafa yfirleitt verið undanþegin alþjóðafríverslunarákvæðum um vörur sem og þjónustuviðskipti og fleiri svið sem hér er ætlunin að taka undir. Þetta kemur ekki til eingöngu af þeim ástæðum sem mér fannst gæta í málflutingi hv. talsmanns Kvennalistans --- ég tók það svo að hv. 18. þm. Reykv. talaði fyrir Kvennalistann, ef svo er ekki heldur hafi hv. þm. talað um sínar persónulegu skoðanir verður það leiðrétt --- að það hafi verið eingöngu sökum íhaldssemi þeirra sem með landbúnaðarmál fara í heiminum að þessu er svo háttað. Hér á einnig í hlut sú staðreynd að matvælaframleiðsla er mjög sérstaks eðlis og viðkvæm. Um hana gegnir að mörgu leyti allt öðru máli í viðskiptum, bæði tæknilega en líka af öryggisástæðum.
    Það er löngu þekkt að þjóðir vilja halda í framleiðslugetu matvæla eins og kostur er af öryggis- og sjálfsnægtasjónarmiðum. Það er sömuleiðis ljóst að þessi vara er viðkvæm og erfiðara að koma við greiðum milliríkjaviðskiptum með hana af tveimur ástæðum kannski fyrst og fremst. Annars vegar af því að hún er mjög viðkvæm og þolir oft og tíðum ekki geymslu með sama hætti og ýmis önnur vara, en einnig vegna þess að umtalsverð sjúkdómahætta getur verið samfara viðskiptum með þessar vörur. Í þriðja lagi er svo rétt að vekja athygli á þeirri staðreynd, sem ærið oft virðist gleymast, að heimsviðskipti með landbúnaðarvörur eru hverfandi hluti þeirrar framleiðslu matvæla sem landbúnaður í heiminum stendur fyrir, að talið er um 3%--5%. Um 95%--97% matvælaframleiðslu í landbúnaði í heiminum fer aldrei á heimsmarkað, er ekki hluti af milliríkjaverslun. Þetta er rétt að menn geri sér ljóst þegar þessir hlutir eru ræddir. Ég get ekki annað, herra forseti, en lýst nokkurri undrun á málflutningi hv. 18. þm. Reykv. áðan sem mér fannst nokkuð sérkennilegur miðað við það sem ég hefði getað vænst af einum af talsmönnum Kvennalistans.
    Þannig var það eins og ég segi, herra forseti, að mér fannst lengi vel allt of lítill áhugi á þessum merku viðræðum t.d. í utanrrn. Ég fullyrði að utanrrn. dróst inn í þessar viðræður meira vegna þess að hagsmunagæslumenn landbúnaðar voru farnir að hafa áhyggjur af því sem þarna var á ferðinni og gerðu um það kröfur. Þess vegna tel ég að hæstv. utanrrh. ætti að tala mjög gætilega og forðast stóryrtar fullyrðingar um þessi efni m.a. af þeim sökum að ég leyfi mér að halda því fram að hugur hæstv. utanrrh. hafi ærið oft á undanförnum missirum þegar umræður hafa staðið á vettvangi GATT verið nokkuð bundinn við aðra hluti. Ég er þá að hugsa ekki síst um Evrópusamningana og Evrópuviðræðurnar. Það er a.m.k. alveg ljóst að hæstv. utanrrh. sat ekki lokafund lotunnar í lok desembermánaðar 1990 þegar upp úr viðræðunum slitnaði þá. Það gerði ég hins vegar og m.a. sat ég lokaða fundinn þegar upp úr viðræðunum slitnaði og get þess vegna fullyrt að fleira er hér á spýtunni en oft og tíðum kemur upp á yfirborðið.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á að hér er tekist á um víðtæka hagsmuni stórveldanna og landbúnaðurinn hefur á köflum í þeim slag verið ákveðið skálkaskjól þar sem togast er á um ýmislegt fleira á bak við tjöldin en eingöngu viðskipti með landbúnaðarvörur. Það eru heildarhagsmunir stórveldanna í þessum víðtæku viðræðum sem koma til með að ráða afstöðu þeirra en ekki eingöngu spurningin um viðskipti með landbúnað. Þau hafa hins vegar gjarnan verið notuð sem taflmenn í þessum slag.
    Það er annað sem nauðsynlegt er að menn hafi í huga. Það er að fjölmörg ríki, að ég held einnig Ísland þar með talið, hafa notað andstöðu Evrópubandalagsins sem skjöld fyrir framan sig í þessu máli þó þeirra afstaða hafi í mörgum tilvikum síst verið jákvæðari í garð breytinganna en Evrópubandalagsins. Svo er um Kanada, svo er um Japan, svo er um Austurríki og Sviss, svo er um Suður-Kóreu og svo er um Norðurlöndin, að ég hélt að Íslandi meðtöldu, en að undanskildum að sjálfsögðu Dönum sem taka þátt í þessum viðræðum í gegnum Evrópubandalagið.
    Ég leyfi mér að fullyrða, vegna þess að ég hef setið fleiri en einn og fleiri en tvo samráðsfundi landbúnaðarráðherra Norðurlanda um þessi mál, að í þeim hópi var samstaða um að fara mjög varlega í tilslökunarátt. Það varð að vísu á árinu 1990 nokkur breyting í afstöðu Svía, m.a. af persónulegum metnaðarástæðum þáv. landbúnaðarráðherra þeirra sem ætlaði sér alþjóðlega frægð út á forustu í undirnefnd GATT-viðræðnanna um landbúnaðarmál, en fór nú heldur á rassinn með það, og líka var ljóst að þegar Svíar settu stefnuna á inngöngu í Evrópubandalagið breyttist nokkuð þeirra tónn. Þeir vissu sem var að þar með yrðu þeir að sjálfsögðu undir sömu sök seldir og Evrópubandalagið hver sem hún yrði. Eftir stóðu þá Norðmenn, Finnar og Íslendingar. Til marks um þetta tek ég þá óánægju sem fram kom af hálfu allra talsmanna landbúnaðar þessara þriggja Norðurlandaþjóða, sem staddir voru í Brussel í byrjun desember 1990, í garð þess málamiðlunartilboðs sem formaður landbúnaðarhópsins, landbúnaðarráðherra Svía, setti þá fram og gekk að sjálfsögðu mikið skemur en samkomulagstilboð Dunkels.
    Hér hefur svo rækilega verið rakinn sá grundvallarmunur sem er á málamiðlunartillögu Dunkels annars vegar og tilboði Íslands frá því á árinu 1990 hins vegar að ég þarf ekki að fjölyrða um það. En ég lýsi furðu minni á málflutningi hæstv. utanrrh. sem hefur reynt að gera því skóna að þarna sé meira og minna sami hluturinn á ferðinni og ekki fælust í því neinar viðbótarhættur fyrir Ísland umfram það sem falist hefði í tilboðinu frá 1990. Það er að sjálfsögðu alrangt. Heldur þá áfram sá leikur hæstv. utanrrh. sem hófst reyndar þegar þetta tilboð var sett fram með furðulegum túlkunum hæstv. utanrrh. þáv. og núv. á því hinu sama tilboði Íslands. Það var nefnilega ljóst að það varfærna orðalag sem er á tilboðinu hvað snertir vilja Íslands til að ræða rýmkun á innflutningstakmörkunum varðandi landbúnaðarvörur var sett fram í ákveðnu ljósi. Það var sett fram með þá vitneskju að leiðarljósi að höfðu samráði við þjóðir eins og Norðmenn og Austurríkismenn að menn væru þar að tala um sáralitla markaðshlutdeild, 1--2% hafði verið nefnt, og innflutningstakmarkanir eða innflutningsbönn að öðru leyti. Það var í því ljósi sem þetta orðalag er sett fram, var a.m.k. því ljósi sem það var stutt af mér og mínum flokki í þáv. ríkisstjórn.
    Það vill svo til að ég var staddur í Genf þann dag sem tilboð Íslands var lagt fram og hafði þá m.a. fengið upplýsingar frá austurrísku sendinefndinni um að það sem í þeirra huga væri hvað þetta snerti væri stærðargráðan 1--2%. Sama átti við um Kanadamenn. Það er óþarft að taka fram að tilboð Íslands var sett fram að höfðu nánu samráði við þær Norðurlandaþjóðir sem þarna áttu mesta samleið, þ.e. Noreg og Finnland fyrir utan okkur.
    Þannig hrekur þetta allt málflutning utanrrh. sem hefur verið harla sérkennilegur í þessu máli og ber keim af því að hann hafi ætlað sér þessa framgöngu í málinu í tilteknum pólitískum tilgangi hér innan lands. En það hefur lengi verið ætlun Alþfl. að rústa þær varnir og þann stuðning sem íslenskur landbúnaður býr við og mér býður svo í grun, og ég leyfi mér að segja það hér, það er best að það komi fram hreinlega hvað ég er stundum að hugsa um hæstv. utanrrh., að honum hafi dottið í hug að þarna sæi hann nokkur færi til að koma þessu hugsjónamáli sínu og Alþfl. í framkvæmd án þess að það þyrfti endilega að tengjast því sem gerðist í þessum GATT-viðræðum. Ég á a.m.k. erfitt með að finna aðrar skýringar á framgöngu og túlkunum hæstv. utanrrh. oft og tíðum í þessum efnum. Ég held að hæstv. utanrrh. hefði átt að hafa þarna færri stóryrði en kannski sinna þessum viðræðum betur og mæta á fleiri fundi sem þarna hafa verið. Hann hefði haft mjög gott af að vera á hinum stórmerka fundi í Brussel desemberdagana 1990. Hann hefði þá verið betur um það fær að dæma eða túlka þessi mál.
    Það er engum blöðum um að fletta að það tilboð sem nú liggur fyrir, ef samningsniðurstaða yrði, væri Íslandi afar óhagstætt og gjörsamlega óásættanlegt, m.a. vegna þess að það er svo óréttlátt. Það kæmi svo óréttlátlega niður gagnvart Íslendingum sem eru búnir að ákveða að hverfa frá útflutningsuppbótum og þar með truflandi áhrifum í gegnum slíkt á heimsmarkaðsviðskipti með landbúnaðarvörur, en fengju eftir sem áður ekki að vera í friði með sína eigin framleiðslu og sínar sjálfsþurftir í þessum efnum. Þjóðin flytur nú þegar inn um helming af sinni orkuþörf og það er óásættanleg niðurstaða að mínu mati fyrir okkur sem eyþjóð úti í miðju hafi að geta ekki tryggt betur matvælaframleiðslu okkar en verða mundi ef þessi niðurstaða yrði, gjörsamlega óásættanleg.
    Það er líka ljóst að sá hráskinnsleikur sem stórveldin eru hér að leika, ekki síst Bandaríkjamenn, sem gerðir hafa verið að heilögum mönnum í þessu sambandi, er óþolandi. Hvað ætla Bandaríkjamenn að gera? Þeir ætla að halda áfram innflutningstakmörkunum á ýmsum vörum eins og fram hefur komið, jarðhnetum og baðmull og ýmsum fleiri, og þeir ætla að halda áfram bullandi útflutningsuppbótum. Eða hvað kom fram í hinni merku heimsókn Bush til Ástralíu og hvað olli mótmælum ástralskra bænda annað en það

að Bandaríkjamenn ætla að kæra sig kollótta um þau áhrif sem þeirra niðurgreiddi útflutningur hefur á ástralskan landbúnað? Þeir ætla hvergi að slaka á þar sem þeirra hagsmunir eru ríkastir en keyra af fullri hörku gagnvart öðrum.
    Að sjálfsögðu á Ísland þar með að blanda sér í hóp þeirra þjóða sem vilja reyna að spyrna fótum við ofríki Bandaríkjamanna og fleiri slíkra í þessu sambandi. Ég tel það til mikils vansa að það skuli ekki hafa verið haldið þannig á málefnum Íslands í þessum viðræðum síðustu mánuðina að við höfum stutt og verið í fylgd með þjóðum eins og Kanadamönnum, Austurríkismönnum, Norðmönnum og öðrum slíkum sem þarna hafa verið að reyna að mynda nokkra samstöðu gegn þessari óhagstæðu niðurstöðu svo ekki sé nú talað um ef það er umhyggja fyrir þriðjaheimsþjóðunum sem þarna er á ferðinni. En ég fullyrði að það er ekki hún sem ræður gerðum Bandaríkjanna eða Evrópubandalagsins eða annarra þarna sem eru fyrst og fremst að reyna að setja niðurstöðuna.
    Herra forseti. Tíma mínum er nú senn lokið og er það nokkur skaði því að ég hefði getað hugsað mér að segja um þetta þó nokkuð mikið í viðbót, en ég á þó færi á því að koma aftur síðar upp í umræðunni ef hæstv. utanrrh. skyldi t.d. tjá sig eitthvað. Ef hann hins vegar gerir það sem honum væri sæmst, að koma upp og draga til baka ummæli sín frá undanförnum dögum, sem hér hafa verið svo rækilega hrakin, skal ég sannarlega unna honum þess að bæta ráð sitt. En það er algerlega óþolandi að hans túlkun á þessum hlutum standi ómótmælt, enda tel ég að bæði málflutningur fjölmargra þingmanna hér og reyndar það sem kom fram hjá hæstv. landbrh. veki nokkrar vonir okkar um að haldið verði á málstað Íslands með sæmilega myndugum hætti þrátt fyrir hæstv. utanrrh., verð ég eiginlega að segja, og hans frammistöðu í þessu máli.
    Ég tel sem sagt, herra forseti, og undirstrika það að ekki hafi verið haldið nógu vel að öllu leyti á málstað Íslands í þessum efnum. Ég tek það skýrt fram að ég á þar ekki við fastanefnd Íslands í EFTA og sendiherra okkar í Genf. Ég tel að hann hafi af veikum mætti, fáliðaður og undirmannaður, reynt að halda sæmilega á þátttöku okkar í þessum efnum, en mér finnst til að mynda utanrrn. hér heima hafa sinnt þessu heldur slælega, enda sennilega verið upptekið talsvert af öðrum hlutum sem það hefur metið merkara þó að niðurstaðan þar sé harla rýr enn sem komið er.
    Herra forseti. Ég skal þá senn ljúka máli mínu. Ég tel óhjákvæmilegt að allt verði reynt sem mögulegt er af Íslands hálfu til að ná fram hagstæðari niðurstöðu með því að setja fram fyrirvara og hefði reyndar átt að gera það strax í sumar þegar umræður hófust á nýjan leik, m.a. vegna og á grundvelli hins nýgerða búvörusamnings sem hefði gefið Íslandi fullnægjandi málsástæður til að setja fram slíkan fyrirvara. Ég tel að það eigi að styðja Kanadamenn og aðra sem eru að reyna að ná fram lagfæringum m.a. á skilgreiningaratriðum. Ég tel að það eigi að reyna að fá skipt á meiri samdrætti í útflutningsuppbótum og minni samdrætti í innlendum stuðningi ef svo ber undir ef þess væri kostur þannig að framlag Íslands inn í þetta samhengi yrði fyrst og fremst í því formi að draga meira saman útflutningsuppbætur sem við höfum þegar ákveðið að gera en halda til staðar okkar innlenda stuðningi, þar með talið beinum greiðslum til bænda. Náist ekki lagfæringar af þessu tagi fram er ekki um annað að ræða að mínu mati en hafna landbúnaðarþætti samningsins.