Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 17:22:00 (2539)

     Páll Pétursson :
     Herra forseti. Hér er nokkurt skarð fyrir skildi því að engir ráðherrar eru í salnum. Ég fer fram á að forseti beiti sér fyrir því að hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. komi inn og hlýði á mál mitt. Ég hef líka tekið eftir því að hæstv. utanrrh. telur sig ekki varða um hvað hér fer fram. Þar sem málið er nú að hluta til á forræði hans teldi ég eðlilegt að hann væri viðstaddur. Hér er nefnilega um grafalvarlegt mál að ræða.
    Alþfl. hefur á undanförnum árum barist fyrir hömlulausum innflutningi búvara og því að ganga á milli bols og höfuðs á íslenskum landbúnaði. Hann hefur sem betur fer ekki náð fullkomnum árangri fram að þessu, en ég tel hættu á að þeim sé að takast núna að ná árangri utan frá. Utanrrh. og hans nánustu samstarfsmenn hafa haldið á þessu máli nákvæmlega í samræmi við stefnu Alþfl., ekki með hagsmuni Íslendinga fyrir augum. Með samningagerð af þessu tagi, ef af yrði, væri ekki bara ráðist á íslenska bændur. Það væri líka ráðist á íslenska neytendur. Íslenskir neytendur vilja fá næga, holla, góða og ódýra búvöru. Hagsmunir íslenskra neytenda eru þeir að búa við öryggi í framboði á búvörum og það yrði ekki ef tilboð Dunkels yrði samþykkt.
    Hagsmunir íslenskra neytenda eru að fá ómengaðar búvörur og geta treyst því að þær séu ómengaðar. Sú trygging mundi ekki verða fyrir hendi með innflutningi. Búvara

víða um heim er stórlega menguð. Hormónakjöt varð að átakamáli milli Evrópubandalagsins og Bandaríkjanna fyrir nokkrum mánuðum. Fólk á meginlandi Evrópu er hætt að þora að leggja sér til munns ýmsar búvörur sem okkur þykir sjálfsagt að neyta og gerum með fullri hollustu. Hagsmunir neytenda eru að eiga aðgang að góðri og ljúffengri búvöru og hana fáum við nú ekki fremur með innflutningi. Hagsmunir íslenskra neytenda eru að fá þessa góðu, hollu og öruggu búvöru á sem lægstu verði og það munu þeir ekki fá með innflutningi.
    Ef íslenskur landbúnaður hrynur hækkar að sjálfsögðu í verði það sem framleitt er hér innan lands, þ.e. það sem eftir væri af íslenskri búvöruframleiðslu, og síðast en ekki síst hafa íslenskir neytendur sýnt það í nýlega gerðri skoðanakönnun að þeir vilja fremur íslenska búvöru en gefa innflutning á henni frjálsan. Ef tillaga Dunkels yrði bindandi niðurstaða fyrir Íslendinga mundi hún þýða stærra áfall fyrir íslenskan landbúnað en hann hefur orðið fyrir á síðari áratugum. Ég leyfi mér að vísa til bréfs bændasamtakanna um það mál. Og búvörusamningurinn væri hruninn. Hann er ósamrýmanlegur þeirri tillögu sem Dunkel gerði. Íslenskir bændur yrðu miklu harðar úti en bændur annarra þjóða þar sem þeir eru búnir að taka á sig mikinn skell vegna framleiðslutakmarkana undangenginna ára og útflutningsbætur tilheyra liðinni tíð. Útflutningsbætur tíðkast hins vegar víðast hvar annars staðar og mjög háar sums staðar.
    Með því að gerast aðilar að tillögum Dunkels, þ.e. ef ríkisstjórn setur ekki fram fullnægjandi fyrirvara, er verið að fórna íslenskum landbúnaði, um það þarf ekki að deila. Það er að vísu pólitískt markmið Alþfl. og samræmist ágætlega þeirri þróun. Alþfl. hefur hins vegar viljað telja sig vinsamlegan neytendum, a.m.k. á kjördegi, en nú fer þó svo í því kappi sem hann leggur á þetta mál að ekki sér hann sína menn svo að hann ber þá líka eins og segir í vísunni.
    Ég ætla ekki að rekja í smáatriðum áhrif þessa tilboðs ef af samningi verður og vísa til ágætra ræðna sem fluttar hafa verið í þessum umræðum og, eins og ég gat um áðan, úttektar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Ég vil þó nefna örfá atriði í símskeytastíl.
    Þessi tillaga Dunkels er sambræðsla af hagsmunum Bandaríkjamanna annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar. Innflutningur á erlendri búvöru yrði gefinn frjáls nema með lítils háttar takmörkunum sem sáralítið hald er í. Útflutningsbætur erlendis mega haldast eða 64% þeirra. Það er ekki hald í takmörkunum á banni við innflutningi á fersku eða frystu kjöti. Þar er sönnunarbyrðin okkar megin að sanna að það kjöt sem hingað er flutt sé af sjúkum svæðum eða af því stafi smithætta. Íslenskar heilbrigðisreglur gilda sem sagt ekki heldur úrskurður nefndar hjá GATT. Ef ekki koma athugasemdir fram teljast þeir samþykkir sem ekki gera þær. Það er meira að segja ekki hægt að banna alfarið innflutning lifandi dýra. Búvörusamningsgreiðslur til bænda eru ekki grænar og því verða þær að hverfa og það verður strax að draga úr niðurgreiðslum um 25% og e.t.v. 65% síðar. Beinar greiðslur þarf þá þegar af þeirri ástæðu að afnema að ef færi eftir GATT-hugmyndinni mundu um 30% þeirra fara til bænda sem búnir eru nú þegar að selja kvóta sinn.
    Samkvæmt mati bændasamtakanna mundi leggjast hér niður framleiðsla á svínakjöti, kjúklingum og að verulegu leyti framleiðsla á grænmeti. Mjólkurframleiðslan mundi dragast saman um allt að helming og sauðfjárframleiðsla verulega, kannski um þriðjung, kannski um helming.
    Meginatriði málsins er að ríkisstjórnin verður að setja fram fullnægjandi og stranga fyrirvara og gera það á fundinum 13. janúar. Annað er gersamlega óverjandi með hagsmuni íslenskra neytenda fyrir augum, gersamlega óverjandi með hagsmuni þjónustuaðila íslensks landbúnaðar fyrir augum og gersamlega óverjandi með hagsmuni bændastéttarinnar fyrir augum. Ríkisstjórnin verður því vegna þjóðarhags, og ég legg áherslu á vegna þjóðarhags, að setja fram fullnægjandi fyrirvara.
    Það verður líka í framhaldinu að breyta meðferð GATT-samninganna og það verður að taka þetta mál úr pólitískri einkaumsjá Alþfl. Fagráðherrar Sjálfstfl. verða að komast að málinu. Áhættan við að setja fram fyrirvara er engin. Það er alger mistúlkun hjá hæstv. utanrrh. að svo sé. Við fyrirgerum ekki rétti okkar til hagræðis af GATT-samningum þó að við mótmælum þessu atriði. Frjáls viðskipti eru í sjálfu sér góðra gjalda verð, þó ekki einhliða af hinu góða. Ég minni á að t.d. fyrir 1970 höfðum við blómlega húsgagnagerð á Íslandi og nú er búið að drepa hana. Sama mundi að sjálfsögðu gilda um landbúnaðinn. Það var stórt skref aftur á bak þegar húsgagnaiðnaðurinn var afskrifaður og það yrði stórt skref aftur á bak að drepa íslenskan landbúnað. Stærra skref þar sem því mundi fylgja byggðaröskun og hrun heilla byggðarlaga og það er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi.
    Ég þakka hæstv. landbrh. þá ræðu sem hann flutti áðan. Hún var laus við auglýsingamennsku og skrum sem hæstv. utanrrh. gerir sig gjarnan sekan um þegar hann kemur í ræðustól og segir frá afrekum sínum og hún var raunhæf og rakti að mínum dómi staðreyndir málsins. En niðurstöðuna vantaði í ræðuna, þ.e. svar við þeirri spurningu málshefjanda hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera í málinu. Nú kann að vera að ríkisstjórnin sé ekki búin að ákveða það, ekki búin að koma sér saman um það enn þá hvað hún ætlar að gera og gerir það væntanlega á föstudaginn. Ég geri hér og nú kröfu til þess að hæstv. forsrh. í umboði ríkisstjórnarinnar geri Alþingi formlega grein fyrir þeirri ákvörðun sem kann að verða tekin á föstudaginn strax að henni tekinni, þ.e. þegar fundur hefst hér á föstudag. Hver svo sem niðurstaða ríkisstjórnarinnar kann að verða á Alþingi heimtingu á að því sé greint undanbragðalaust og strax frá því hver ákvörðun ríkisstjórnarinnar er. Nú vill svo vel til að Alþingi situr þessa daga og þetta er einfalt og brotalaust fyrir hæstv. forsrh. Ég kem þessari beiðni hér með á framfæri.
    Það er reyndar mín skoðun að ákvörðunin geti ekki orðið önnur en sú að setja fram fyrirvara og það verði að vera fullnægjandi fyrirvarar og því ber hæstv. ríkisstjórn að greina Alþingi frá.