Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:27:00 (2544)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég kem hér til að mótmæla endurteknum tilraunum hæstv. utanrrh. og furðulegum tilraunum hæstv. utanrrh. til að leggja að jöfnu annars vegar tilboð fyrri ríkisstjórnar frá 1990 og hins vegar samningsgrundvöll Dunkels. Það getur aðeins annað tveggja verið á ferðinni, að hæstv. utanrrh. kæri sig kollóttan þó að hann opinberi algert þekkingarleysi á þessum málum, gersamlega, algert og fáheyrt þekkingarleysi á þessum málum. Það hefur svo rækilega og ítrekað með rökstuddum hætti verið farið yfir það í dag hver grundvallarmunur er á þessu tvennu að við hljótum að taka það þá þannig að utanrrh. sé þá alveg sama í stráksskap sínum þó að hann verði á Alþingi ber að fullkomnu þekkingarleysi á þessum hlutum eða hitt að hann sé enn að rembast við að fara fram með vísvitandi blekkingum sem væri auðvitað sýnu verra, að hann sé þrátt fyrir betri vitund, ef hún er fyrir hendi, eftir sem áður að reyna að blekkja menn. Það er að vísu svo að hæstv. utanrrh. varð snemma ber að því í þessu máli að fara frjálslega fram með túlkanir, samanber það þegar hann í fjölmiðlum nokkrum dögum eftir að tilboð fyrri ríkisstjórnar var

sent fullyrti, og sumir hans flokksbræðra, að í því fælist m.a. tilboð um að leyfa innflutning á tilteknum vörutegundum eins og jógúrt. Síðan kom á daginn að þetta var fleipur. Þannig varð hæstv. utanrrh. snemma ber að vanþekkingu eða blekkingum, annað tveggja nema hvort tveggja sé, í þessu máli og er það ekki gott.
    Ég mun óska eftir því, hæstv. forseti, að vera settur á mælendaskrá þannig að ég geti í síðari ræðutíma mínum farið rækilega yfir muninn á þessu tvennu sem er að vísu þegar búið að gera en það er rétt að reyna að gera eina tilraun enn fyrir hæstv. utanrrh., ef hann má þá vera að því að sitja áfram undir umræðum, til að útskýra fyrir honum þennan grundvallarmun sem öllum þingheimi er auðvitað orðinn ljós, bændasamtökunum og öðrum sem sett hafa sig inn í þessi mál er ljós og vonandi flestöllum Íslendingum nema hæstv. utanrrh.