Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:30:00 (2545)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil í lengstu lög halda í þá barnatrú mína að enginn verði með orðum veginn. Ég vek athygli hv. þingheims á þeim orðum sem fram komu frá hv. þm. sem voru í þeim dúr að sá sem hér stendur hefði opinberað fullkomlega þekkingarleysi sitt, hann hefði farið með vísvitandi blekkingar, hann hefði opinberað fáfræði sína. En það sem á skorti var að hv. þm. færði nokkur rök fyrir --- hvað eigum við að kalla þetta --- þessum áburði eða þessum gífuryrðum.
    Það sem ég gerði, hv. þm., er að fara með staðreyndir úr hinu íslenska tilboði lið fyrir lið, tölu fyrir tölu. Það eina sem ég hef gert er að skýra frá því eins og ég hef áður gert í ríkisstjórn og mun vafalaust gera á vettvangi utanrmn. og víðar, að fara með staðreyndir um hvert tilboðið var. Síðan getur okkur hv. þm. greint á, við getum haft ólíkar skoðanir á þessum hlutum, en ég bið hv. þm. að athuga að hvergi hefði ég látið mér um munn fara yfirlýsingar um að hæstv. fyrrv. landbrh. opinberi þekkingarleysi, fari vísvitndi með blekkingar eða opinberi fáfræði þrátt fyrir að okkur kunni að greina lítils háttar á.