Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:31:00 (2546)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég tók fram að ég vonaði að þetta væri vegna þekkingarleysis hæstv. utanrrh. því að þá ættu ekki við hin síðari orðin sem lutu að öðrum og þá verri ástæðum fyrir því að hann talar með þeim hætti sem hann gerir.
    Ég mun í síðari ræðu minni flytja enn þau rök sem var rækilega farið yfir í umræðunum fyrr í dag og ég vísaði til, hæstv. utanrrh., m.a. af hv. þm. Ragnari Arnalds sem gerði í 15 mínútna langri ræðu mjög skilmerkilega grein fyrir þeim grundvallarmun sem er á þessu tvennu, annars vegar tilboði fyrri ríkisstjórnar og hins vegar samningsgrundvelli Dunkels.
    Ég tel, úr því að ég hef ekki nema eina mínútu til umráða í þeim efnum, að best sé að fara yfir það hvernig hæstv. utanrrh. vitnaði í tilboð fyrri ríkisstjórnar áðan, hverju hann sleppti að lesa til að sýna fram á málflutning hans. Hann las upp úr tilboðinu þessa setningu, með leyfi forseta: ,,Ísland er reiðubúið til að rýmka innflutningsheimildir og draga úr magntakmörkunum á unnum mjólkur- og kjötafurðum``, en hætti þar því að í næstu setningu tilboðsins stóð: ,,Hins vegar verða áfram í gildi innflutningstakmarkanir á þessum vörum vegna legu landsins og til að tryggja öruggt framboð á matvælum.``
    Í næstu setningu í tilboðinu var tekið fram að Ísland mundi áfram krefjast þess að magntakmarkanir yrðu í gildi. Þetta er horfið út úr tilboði Dunkels núna og er einn mesti grundvallarmunurinn sem þar er á, annars vegar tilboði Íslands og hins vegar þeim samningsgrundvelli. Svo er um fjölmörg fleiri atriði eins og önnur viðmiðunarár, eins og verðbætur, eins og öðruvísi skilgreiningar á stuðningsaðgerðum, eins og fob í staðinn fyrir cif sem þarna er komið inn, en stærstur er þó munurinn hvað varðar rýmkun á innflutningsreglum því það var ljóst að á bak við orðalag tilboðsins frá 1990 lá samstaða þeirra þjóða sem þannig tilboð settu fram um að þar væri um 1--2% markaðsaðgang að ræða.