Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:36:00 (2548)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Að sumu leyti verður mitt andsvar endurtekning á því sem kom fram áðan. Þó vil ég byrja með því að benda hæstv. utanrrh. á mjög fróðlega greinargerð frá amerískum hagfræðingi, Paul Krugman, sem hann gerði fyrir Seðlabanka Íslands. Þar gerir hann samanburð á innflutningi og útflutningi landa og kemur fram að við Íslendingar erum langt frá því að vera mest háðir slíkum viðskiptum. Hollendingar eru það t.d. miklu meir og fjölmargar aðrar þjóðir.
    En aðallega vildi ég ræða um þann samanburð sem hæstv. ráðherra gerði á fyrra tilboði á þessu. Liðir 1 og 2 voru vitanlega auðveldir því að við vorum að semja við bændur um að lækka útflutningsbætur og beina styrki og fara í beinar greiðslur til bænda, en svo er það hvernig hann túlkar 3. lið og 4. því að eins og hann las sjálfur var þar eingöngu um að ræða unnar kjöt- og mjólkurvörur. Eins og segir í yfirliti bændasamtakanna á að fella niður allar magntakmarkanir á landbúnaðarafurðum. Í staðinn koma tollígildi sem falla niður á ákveðnum tíma. Þetta er slíkur reginmunur. Ég veit að hæstv. ráðherra man að þegar við vorum að tala um þetta takmarkaða magn af unnum kjöt- og mjólkurvörum voru menn að tala um 2%. Það skiptir engu máli hvort það eru 3% eða 5%. Hitt er aðalmálið að það á að fella niður allar magntakmarkanir á innfluttum landbúnaðarafurðum og aðeins veitt nokkurra ára vernd í staðinn.
    Svo er hitt líka stóra atriðið að við áskildum okkur undir fjórða atriðinu heimild til

að takmarka innflutning af heilbrigðisástæðum. Mér segir hæstv. landbrh. frammi á gangi að yfirdýralæknir segi honum að okkur muni ekki reynast kleift jafnvel að stöðva innflutning á fersku kjöti, sem landbúnaðarsamtökin héldu þó að við gætum gert, enda er, þegar maður les þetta betur, sönnunarskyldan öll hjá okkur, öll hjá þeirri þjóð sem flytur inn.
    Ég mótmæli því að ég hafi hætt mér út á hálan ís. Ég sný því við og tel að hæstv. utanrrh. sé viljandi eða óviljandi að tala um hluti sem eru alls ekki réttir, því miður.