Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:41:00 (2550)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér þykir gott að heyra að hæstv. utanrrh. viðurkennir að magntakmarkanir á innflutningi verða felldar niður og það á við allar landbúnaðarafurðir, ekki bara unnar vörur eins og segir á bls. 3 í fyrstu setningu í skýrslu bændasamtakanna. Það er það rétta. Það munar ekkert um að lækka tollaígildun um 36%. Það munar svo sannarlega gífurlega mikið um það og ekki síst af því að samkvæmt þessum nýja samningi fær Evrópubandalagið að halda 64% af útflutningsbótum.
    Ég bendi einnig hæstv. ráðherra á að það er yfirlýst markmið með þessum samningi að haldið verði áfram á þessari braut. Það er sagt í yfirliti bænda að ári áður en þessu samningstímabili lýkur skuli hefjast ný samningalota með það að yfirlýstu markmiði að lækka þessi 36% o.s.frv. Við erum því komnir inn í feril sem ég sé ekki hvernig við ráðum með nokkru móti við og hlýtur að leiða til þess að hér endar á því, þá eftir aldamótin ef það er einhver friðþæging í því fyrir suma, að hér verður frjáls innflutningur landbúnaðarafurða án heimilda til að leggja á jöfnunargjald.