Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:43:00 (2551)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Við höfum verið að skiptast á orðum um hverjar væru staðreyndir mála. Og eftir stendur sú staðreynd að það var rangt, sem hv. þm. hélt fram, að það ætti að fella niður samkvæmt núverandi umræðugrundvelli það sem kæmi í staðinn fyrir magntakmarkanir, þ.e. tollaígildunina. Hún lækkar á sex árum samkvæmt þessum grundvelli um 36%. Það er ekki að fella hana niður.
    Síðan segir hv. þm.: Það er yfirlýst markmið þessara samninga að halda síðan

áfram. Já, undir aldamót verður væntanlega ný lota. Við erum væntanlega ekki í stöðu til að fullyrða neitt með vísan til staðreynda um hvað þar kann að gerast, en þeir sem þekkja forsögu þessa máls og vita hvernig í pottinn er búið verða þó að telja mjög líklegt að í þeim áfanga verði mjög stífar kröfur uppi um að útflutningsstyrkir aðila eins og Efnahagsbandalagsins verði það sem verði að skera niður í þeim áfanga. Það er að vísu ekki eitthvað sem hægt er að fjalla um á grundvelli staðreynda. En við höfum hér verið að deila um hvað væru staðreyndir mála. Það stendur sem ég hér hef sagt. Ég hef hins vegar ekki verið að fjalla um spurningu um að hve miklu leyti hafi orðið aðrar breytingar í núverandi umræðugrundvelli frá því sem hann var þegar hann lá fyrir þegar við gerðum þetta tilboð.