Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 18:47:00 (2553)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það fer að verða nokkuð tafsamt að hrekja áburð manna um vanþekkingu, fáfræði og annað slíkt eftir því sem þeir hrekjast hver af öðrum frá þessum gífuryrðum sínum. Ég hef einfaldlega verið að lýsa staðreyndum sem standa óhraktar um hvert var hið íslenska tilboð um meginatriði málsins á sínum tíma, árið 1990, og hver er munurinn á því í þessum meginatriðum og þeim samkomulagsdrögum sem nú liggja fyrir. Þær staðreyndir standa allar óhaggaðar. Nú kemur hv. þm. og segir: Já, en það er orðin sú breyting á að í samkomulagsdrögunum núna liggur fyrir að það er ekki gert ráð fyrir að aðrir lækki sínar útflutningsbætur um meira en 36% --- og gefur í skyn að ég sé að halda þessum staðreyndum leyndum eða eitthvað þess háttar. Auðvitað er það hin mesta fjarstæða. Auðvitað liggur þetta fyrir og allir sem kynnt hafa sér málið þekkja þetta. Það sem ég var að gera að umtalsefni var munurinn á hinu íslenska tilboði fyrrv. ríkisstjórnar og því sem nú liggur fyrir að því er varðar samkomulagsdrögin.
    Hitt er rétt, vegna þess að það er staðreynd sem menn deila ekkert um, menn eiga ekkert að deila hér um staðreyndir, að í samkomulagsgrundvellinum er ráð fyrir því gert að það megi halda uppi útflutningsbótum allt að 64%. Enginn neitar þeirri staðreynd. Það er líka staðreynd að íslensku bændasamtökin hafa samið m.a. við fyrrv. hæstv. landbrh. og fyrrv. hæstv. fjmrh. um að fella þessar útflutningsbætur niður. Hitt er svo annað mál hvaða ályktanir menn ætla að draga af þessum staðreyndum. Er það okkur Íslendingum og íslenskum landbúnaði svo óskaplega óhagkvæmt ef aðrir halda slíkum útflutningsbótum uppi ef við getum varið okkur með tollaígildun, þ.e. með því að taka upp jöfnunargjöld, burt séð frá því hvort aðrar ríkisstjórnir leggja þar fram fé í formi útflutningsbóta? Það er auðvitað álitamál. Það hef ég ekkert sagt um, hv. þm., og frábið mér þess vegna að sitja undir einhverjum glósum um fáfræði, skilningsleysi eða annað slíkt. Það er ekki tími í stuttum orðaskiptum af þessu tagi til annars en þess að gefnu tilefni að biðja menn um að fara rétt með staðreyndir í þessu máli.