Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 19:10:00 (2558)

     Tómas Ingi Olrich :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þau orð hæstv. utanrrh. að GATT-samkomulagið hefur haft mikið gildi fyrir Íslendinga. Þeir hafa með tilstuðlan þessa víðtæka samkomulags notið mikilsverðra fríðinda sem þeir mega að sjálfsögðu ekki tefla í neina tvísýnu, hvorki í þessum viðræðum né öðrum viðræðum á sviði GATT-samkomulagsins. Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta almennt í því að alþjóðleg viðskipti séu sem frjálsust og í samræmi við þá hagsmuni eigum við sífellt að móta okkar stefnu í utanríkismálum og þá ekki síst í viðskiptamálum. Að hve miklu leyti þessir almennu hagsmunir okkar eiga við í landbúnaðarmálum er mun erfiðara að segja til um, enda hefur margri þjóðinni orðið það erfitt að marka landbúnaðinum bás þegar um alþjóðleg viðskipti er að ræða.
    Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem á í erfiðleikum með að fella hagsmuni sína í landbúnaðarmálum að þeim almennu hugmyndum sem liggja til grundvallar samkomulaginu um viðskipti og tolla. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að mjög margar þjóðir sjá í landbúnaði mun meira en viðskiptahagsmuni. Í landbúnaðinum eru í augum mjög margra þjóða fólgnir verulega miklir menningarhagsmunir og öryggishagsmunir. Þetta hefur leitt til þess að það er ekki fyrr en nú að landbúnaður hefur komið inn í þessar umræður af fullum þunga. Hann hefur verið þar utanveltu lengi og þó að þessi lota, sem hefur verið kennd við Uruguay, ætti beinlínis að fjalla um landbúnaðinn m.a., hefur gengið erfiðlega að koma þeim umræðum af stað.
    Þegar Uruguay-umræðurnar voru teknar upp haustið 1986 eftir að einangrunar- og verndarstefna hafði í raun og veru dregið úr þeim árangri á 8. áratugnum sem GATT-viðræðurnar höfðu komið á og höfðu stefnt að voru þessar umræður teknar upp í ljósi þriggja meginmála. Til grundvallar þessum umræðum lá skjal sem lagði áherslu á þrjú meginatriði:
    1. Aukið frelsi í viðskiptum.
    2. Átti að færa umræðurnar inn á ný svið og þar á meðal að sjálfsögðu inn á það svið sem hér er til umræðu í dag, þ.e. landbúnaðinn.
    3. Þá átti megináherslan í þessum Uruguay-viðræðum líka að vera lögð á hlut þróunarþjóðanna eða þjóða þriðja heimsins sem svo eru oft kallaðar.
    Það var hins vegar öllum ljóst frá upphafi að sá þátturinn sem átti að fjalla um landbúnaðarmálin yrði erfiður viðfangs og þær skoðanir komu snemma upp að það yrði ekki fyrr en á lokasprettinum sem þau mál yrðu tekin fyrir í fullri alvöru. En ég kemst ekki hjá því að taka sérstaklega fram að margir hafa talið óæskilegt að fella landbúnaðarafurðir inn í samkomulag um GATT, óæskilegt vegna þess að menn telja að einmitt að það hvernig landbúnaðurinn er byggður upp með víðtæku styrkjakerfi geti dregið úr möguleikum á því að menn mundu ná niðurstöðu í þessum GATT-viðræðum og það væri hægt

að halda eðlilega braut í GATT-viðræðunum ef landbúnaðarmálunum væri blandað saman við það.
    Þegar þessar viðræður hófust styrktist sú tilfinning manna fyrir miklum hagsmunaárekstrum í GATT-viðræðunum. Þær byggðust annars vegar á því að það var grundvallarmunur á afstöðu fjölmargra landbúnaðarútflutningsþjóða sem dreifast raunverulega um allan heiminn eftir ákveðnu belti þar sem eru framarlega í sveit Argentína og Brasilía og fjölmargar aðrar þjóðir Suður-Ameríku, þar á meðal sú þjóð sem umræðurnar hafa nú verið kenndar við, Uruguay, en einnig Kanada, Ungverjaland svo að ég nefni nokkur lönd og lönd í Asíu fjær sem höfðu fyrst og fremst hagsmuni af því að viðskipti með landbúnaðarafurðir væru sem frjálsust. Gegn þessum sjónarmiðum stóð svo hópur tólf þjóða, Evrópubandalagið, sem hefur litið svo á að landbúnaður þeirra og þar með taldar fiskveiðar séu hluti af þeirra byggðastefnu, hluti af þeirra menningu og þar sé ekki hægt að ganga harkalega fram gagnvart landbúnaðinum vegna þess að hann sé það samofinn því þjóðfélagi sem þeir vilja standa vörð um. Landbúnaðarstefna Evrópubandalagsins er hluti af þeirra heildarstefnu og þeir hafa litið svo á að þær hugmyndir að fella niður styrki í landbúnaðinum grafi undan heildarstefnu Evrópubandalagsins.
    Bandaríkjamennirnir voru með nokkra sérstöðu. Þeir hafa stundað gífurlegar niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum og styrkjastefnu þó hún sé hlutfallslega sennilega minni og talsvert minni en í Evrópubandalaginu, en engu að síður hafa þeir stundað mikla styrkjastefnu sem er metin árið 1987 á um 26 milljarða Bandaríkjadala ef mér sýnist rétt, en þeir höfðu sett fram hugmyndir um að draga úr styrkjum eftir svokallaðri núlláætlun sem átti að komast að fullu til framkvæmda árið 2000.
    Ég ætla ekki að rekja nánar hvernig þessar umræður hafa gengið en niðurstöður í tillögum framkvæmdastjóra GATT, sem hér hefur mikið verið til umræðu í dag, eru nánast þær að Bandaríkjamenn og þessi hópur landbúnaðarútflutningsþjóða sem ég nefndi áðan og hafa stundum verið kallaður Keynes-hópurinn, náðu því fram að fella niður takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða. Þetta er það meginmarkmið sem þær höfðu sett sér og þær náðu því fram.
    Að því er varðar Evrópubandalagið nær það líka fram mjög mikilvægum ákvæðum í þessu samkomulagi, þ.e. mikilvæg ákvæði í þessum hugmyndum framkvæmdastjórans eru til þess að friða Evrópubandalagið. Það er fyrst og fremst takmörkuð lækkun á styrkjum til landbúnaðarins, útflutningsbóta. Engu að síður liggur alveg ljóst fyrir að Evrópubandalagið metur það svo að þetta sé langt frá því að vera fullnægjandi.
    Í ljósi þessara hugmynda langar mig til að taka fram að ef við lítum á hugmyndirnar, ég ætla ekki að telja þær upp eins og þær hafa verið sagðar fram hér í máli margra manna, það hefur raunar hver þingmaðurinn á fætur öðrum lýst nákvæmlega þeim hugmyndum sem koma fram í skjali framkvæmdastjórans, en ég ætla hins vegar að reyna að gera grein fyrir því á hvern hátt þessar tillögur samræmast almennum markmiðum GATT-samkomulagsins. Þær bera að sjálfsögðu mjög keim af því hvaða hagsmuni er verið að verja í þessum tillögum og til móts við hverja er gengið. Tillögurnar taka ekki tillit til þess hve mikið aðildarþjóðirnar hafa nálgast eða fjarlægst meginmarkmið GATT um að draga úr viðskiptahömlum og afnema mismunun í alþjóðlegum viðskiptum með búvörur. Að þessu leyti virðast tillögurnar vera hagstæðar þeim þjóðum sem stundað hafa milliríkjaviðskipti með búvörur með tilstyrk styrkja og niðurgreiðslna. Hér er um að ræða mjög alvarlegan meinbug á þessum hugmyndum þegar við það bætist að tillögur framkvæmdastjórans um cif-viðmiðun í útreikningi svokallaðs tollígildis eða tollgrunns fela í sér eins konar leið sem opnast til að létta flutningskostnaði af þeim þjóðum sem stunda milliríkjaviðskipti með búvörur og á sama tíma stunda mikla styrkjastefnu. Tillögurnar draga með

þessum hætti úr fjarlægðarvernd, en það er að sjálfsögðu ekki tilgangurinn með GATT-samkomulaginu sjálfu. Fjarlægð er bara hluti af viðskiptastaðreyndum sem GATT-samkomulagið á alls ekki að draga úr, en með þessum hugmyndum er þarna verið að draga úr þeim raunveruleikum viðskiptalífsins sem fjarlægðirnar eru.
    Ég vil einnig taka fram að skilgreining í þessum hugmyndum á markaðstruflandi stuðningi annars vegar og stuðningi sem er ekki talinn valda markaðstruflunum hins vegar orkar mjög tvímælis og dregur að vissu leyti úr trúverðugleika tillögunnar og beinir raunar afleiðingum hennar af þeirri braut sem meginmarkmið GATT-samkomulagsins á að vera. Í ljósi þessara atriða verð ég að telja mjög óæskilegt að nýtt GATT-samkomulag sem nær til milliríkjaverslunar með búvörur komi í stað eldra samkomulags. Er raunar nauðsynlegt að fá úr því skorið sem fyrst hvort svo er því að hér er gengið svo langt út af þeim hugmyndum og viðmiðunum sem GATT-samkomulagið er byggt á að það er til efs að þessi búvöruþáttur geti myndað grunn að nýju samkomulagi sem komi í stað hins fyrra.
    Ég tel reyndar að hugsanlegt sé að það skref sem tillaga framkvæmdastjóra GATT felur í sér geti þegar til lengri tíma er litið verið stigið í átt til aukinnar fríverslunar, en hins vegar tel ég að tillagan skapi óvissuástand sem vissulega verður tímabundið en þó nokkuð langt og innan þessa tímabils muni íslenskur landbúnaður geta orðið fyrir varanlegum skaða vegna þess að hann verður ekki á þeim tíma verndaður með eðlilegum hætti fyrir erlendum styrkjum í landbúnaði og niðurgreiðslum.
    Ég tel að meginsjónarmið Íslendinga í viðræðum um GATT og ekki síst þá um þátt landbúnaðarins í þessum viðræðum eigi að vera að vinna að aukinni fríverslun í heiminum. Sjónarmiðið á líka að vera að ýta sem mest undir samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar í markaðsbúskap, en grundvallarsjónarmiðið á einnig að vera að verja íslenskan landbúnað fyrir óeðlilegum viðskiptaháttum og þar með taldar eru að sjálfsögðu niðurgreiddar samkeppnisvörur. Með þessum hætti þarf að tryggja það hlutverk landbúnaðarins í íslensku samfélagi sem ég hygg nú að flestir séu nokkuð sammála um, en það er í fyrsta lagi að íslenskur landbúnaður sé arðsöm framleiðslugrein sem er mikilvægur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar. Annað atriðið er að íslenskur landbúnaður er og á að vera einn af grundvallarþáttum í öryggismálum þjóðarinnar. Og síðast en ekki síst, ég mundi jafnvel telja að það ætti að vera fremst í þessum þremur þáttum, þá er íslenskur landbúnaður einn af grundvallarþáttum í þjóðmenningu Íslendinga og sjálfsmynd þeirra og svo ég nefni nú hliðarafleiðingu af þessu, þá er íslenskur landbúnaður mikilvægur þáttur í þeirri atvinnustarfsemi sem byggist á þjónustu við ferðamenn. En í þeirri atvinnustarfsemi er einna mestur vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi í dag.
    Að lokum ætla ég að geta þess að það ríkir nokkur óvissa um hver framgangur málsins verður, en hitt er alveg ljóst að í augum ákveðinna aðila sem standa að þessum viðræðum er 13. janúar í Genf ekki lokadagur þó að hann sé vissulega mikilsverður áfangi í þessum umræðum. Evrópubandalagið býst við að þar verði lögð fram viðhorf aðildarþjóðanna, en Evrópubandalagið hefur einnig tekið fram að það eru ekki í þeirra augum endanleg viðbrögð. Það er sagt skýrum stöfum í þeirra mati á stöðu mála. Ég tel að það sé nauðsynlegt að við komum fram með sjónarmið Íslendinga þar sem við leggjum áherslu á að við erum fylgjendur frjálsrar verslunar en við viljum ekki taka þátt í því að grafa undan íslenskum landbúnaði með styrkjastefnu sem er vernduð undir merkjum GATT.