Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 19:26:00 (2559)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram utan dagskrár í dag um GATT-samninginn þó að umræðan hafi vissulega takmarkast við einn þátt samningsins sem eru landbúnaðarmálin. Ég held að þetta hafi verið mjög tímabær umræða og ég held að hún hafi skýrt mikið fyrir mörgum þingmönnum, ekki síst okkur sem erum ný hérna á þingi og höfum þar af leiðandi ekki fylgst með þessu máli undanfarin ár, en eins og allir vita hafa þessar Uruguay-viðræður nú staðið í allt að fimm ár. Reyndar er mér sagt að þessi mál hafi fengið mjög litla umfjöllun á Alþingi á undanförnum árum og ekki oft t.d. komið til kasta utanrmn. þingsins. Þessi mál höfðu aldrei komið þar til umfjöllunar frá því í vor að ég kom inn í nefndina þar til núna í dag og var það að minni beiðni sem þessi samningur fékk þar nokkra kynningu. Það er miður að mínu mati. Þessi samningur er á ábyrgð og verksviði utanrrh., þó að þarna sé ekki síst verið að fjalla um landbúnaðarmál, og þar af leiðandi ætti utanrmn. að vera með í ráðum og fjalla mjög ítarlega um þennan samning. Það held ég að hafi komið fram í máli nokkurra í utanrmn. í dag að það vantaði skýrslu um þetta mál, um gang þessara viðræðna á undnanförnum árum, hvað Íslendingar hafa lagt þar af mörkum, hvar þeir hafa skuldbundið sig, hvaða afstöðu þeir hafa tekið í því fimm ára ferli sem nú er að baki.
    En það þarf svo sem ekki að furða sig á því þó að landbúnaðarmálin séu þarna ríkur þáttur vegna þess að þessar Uruguay-viðræður hafa öðru fremur fjallað um landbúnað, en þær hafa líka fjallað um þjónustu, um vefnaðarvörur, um hugvit, um markaðsaðgang og um ýmsar reglur sem varða GATT. En markmiðið með þessum samningum var öðru fremur að draga úr ríkisstyrkjum og innflutningsvernd sem landbúnaður nýtur í flestum ríkjum og auka frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Það er núna að fást niðurstaða í þetta mál og er komið þar sögu að við Íslendingar og við alþingismenn verðum að fara að móta okkur einhverja skoðun í þessu máli, taka afstöðu til málsins. Það þarf kannski ekki að gerast á allra næstu dögum en fyrr en síðar þarf það þó að liggja fyrir.
    Það er ljóst í þessum GATT-viðræðum, Uruguay-viðræðum, að þarna hefur verið um talsverðan hráskinnaleik milli stórvelda að ræða og hafa það ekki síst verið Bandaríkin og EB sem hafa kastað þar á milli sín ýmsum málum og það hefur komið fram hjá öðrum sem hafa talað á undan mér.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er ekki nema rúmt ár síðan Evrópubandalagið hafnaði því tilboði sem þá lá fyrir í landbúnaðarmálum og hafnaði þá með öllu að fella algerlega niður ríkisstyrki á næstu árum eða fram til ársins 2000. Síðan fór af stað viðræðulota í framhaldi af því og það hafa staðið yfir langvarandi viðræður milli Bandaríkjamanna og Evrópubandalagsins í tengslum við þessa GATT-samninga. Ég held að það þurfi engum að blandast hugur um að sú niðurstaða sem nú liggur fyrir í því tilboði sem við erum með til skoðunar er nokkurs konar málamiðlun milli Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins. Þessi málamiðlun felur í sér að Bandaríkin geta haldið inni stórum hluta af þeim 26 milljörðum Bandaríkjadala í styrki sem þeir veita til landbúnaðar, ekki síst í formi greiðslna sem ekki tengjast framleiðslu heldur eru tengdar landi öðru fremur. Þeir geta haldið þessu og Evrópubandalagð getur haldið í útflutningsbætur að því marki sem Evrópubandalagið hefur óskað fram til þessa. En það fylgir þó sá böggull skammrifi að Evrópubandalagið verður að skera niður framleiðslustyrki sína og við það hafa þeir verið mjög ósáttir.
    Það eru margir innan Evrópubandalagsins sem segja að þessi samningur sé fyrst og fremst í þágu Bandaríkjanna og þeirra hagsmuna hafi öðru fremur verið gætt, tillögur Dunkels gangi þvert á landbúnaðarstefnu Evrópubandalagsins og séu í andstöðu við þær endurbætur sem nú er unnið að í landbúnaði innan Evrópubandalagsins. Þessar skoðanir hafa komið mjög skýrt fram á undanförnum dögum og það er kannski ekki að furða því að eins og hér hefur komið fram er líklegt að þær reglur sem Dunkel leggur til að gildi í styrkjum til landbúnaðar komi fyrst og fremst Bandaríkjamönnum til góða, þ.e. þeir geta haldið sínum styrkjum en aðrir ekki.

    En meginrökin hjá Evrópubandalaginu eru sem sagt þau að þessar tillögur Dunkels gangi þvert á landbúnaðarstefnu Evrópubandalagsins og séu í andstöðu við þær endurbætur sem nú er unnið að innan bandalagsins á landbúnaðarstefnunni. Þessi rök gilda í raun fyrir okkur Íslendinga líka, þau gilda í raun hér á landi líka og auðvitað ættum við að tjá þetta mjög skýrt eins og Evrópubandalagið ætlar að gera.
    Núna nýverið hefur verið reynt að taka á offramleiðslu í landbúnaði hér á landi og það var gert í samvinnu við bændur. Það var gerður búvörusamningur af fyrrv. ríkisstjórn. Sá samningur hefur verið framkvæmdur af núv. ríkisstjórn, þó ekki án brotalama frekar en annað sem sú stjórn snertir á. Alþingi hefur blessað þennan búvörusamning í raun með fjárframlögum á fjárlögum og það hefur ekki verið barist gegn þessum samningi hér á Alþingi. Það hafa sem sagt verið, eins og Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. kallaði það, föðurlandsvinir hér á Alþingi úr öllum flokkum sem hafa staðið að þessum búvörusamningi.
    Um þennan búvörusamning má segja að hafi verið víðtæk þjóðarsátt. Henni er nú hampað mjög hér á þingi og eins af stjórn þegar það þykir henta. Það hefur verið víðtæk þjóðarsátt um búvörusamninginn vegna þess að í raun komu verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur að þessu máli líka þegar verið var að undirbúa jarðveginn fyrir búvörusamninginn. Það liggur því í augum uppi að Íslendingar hljóta að gera fyrirvara við þann þátt tilboðsins sem kveður á um greiðslur til bænda. Íslendingar hafa náð þjóðarsátt um búvörusamninginn, komið sér niður á beinar greiðslur með ákveðnum hætti til bænda og í því tilboði sem nú liggur fyrir er ljóst að þeir geta ekki haldið sig við þessa stefnu. Mér finnst því liggja í augum uppi að það er ekki hægt að fallast á tilboðið eins og það liggur núna fyrir. Það er ekki hægt að fallast á að beinar greiðslur til bænda sem við tíðkum verði óheimilar ef þetta tilboð nær fram að ganga og ég get ekki séð að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi nokkurt umboð til þess að fallast á slíkt. Það liggur fyrir stefna, við getum sagt þings og þjóðar, í þessum málum. Þeirri stefnu hefur ekki verið breytt og meðan svo er ekki get ég ekki skilið að ríkisstjórnin geti gert annað en að tjá fyrirvara sinn í þessu máli þann 13. janúar nk. Ef skilningur hæstv. utanrrh. eða landbrh., sem mest hafa fjallað um þetta mál, er annar vildi ég gjarnan fá hann fram hérna. Þannig lít ég á þessi mál.
    Hvað varðar dagsetninguna 13. janúar, þá vitum við að hún er ekkert endanleg en það er gert ráð fyrir að menn tjái sig þá um inntak þessa tilboðs og að þeir sem ekki geri þar sína fyrirvara hljóti að teljast samþykkir tilboðinu því þögn er sama og samþykki. Auðvitað er það ekki skuldbindandi á þann hátt að menn geti ekki síðar meir komið með einhverjar athugasemdir. En það hlýtur óneitanlega að vera sérkennilegt að koma seinna með athugasemdir sem ekki eru gerðar 13. janúar nk.
    En ég legg áherslu á að við erum með ákveðna stefnu sem birtist í búvörusamningnum og meðan þeirri stefnu hefur ekki verið breytt með formlegum hætti hér á Alþingi hljóti ríkisstjórnin að tjá fyrirvara um tilboðið. Mín skoðun er sú að hún hljóti líka að tjá fyrirvara hvað varðar sjúkdómavarnirnar og við hljótum að krefjast meiri réttar til að tilgreina sjálf okkar sjúkdómavarnir en er gert ráð fyrir í tilboðinu og getum tæplega átt það undir nefnd eða stofnun á vegum GATT hvernig þeim málum verður háttað hér eftir.
    Það hefur komið fram á undanförnum dögum að það eru margir ósáttir við það tilboð sem Dunkel lagði fram. Innan Evrópubandalagsins er óánægja og það er líka óánægja meðal ýmissa Asíuríkja og má t.d. nefna Japan í því sambandi. Þeir eru afskaplega ósáttir við þetta, enda þýðir þetta tilboð, verði það að veruleika, alveg gífurlega breytingu fyrir Japani. Þeir hafa haft þá stefnu þar til núna að flytja ekki inn eitt einasta hrísgrjón. Þeir hafa lagt mikið upp úr því að geta brauðfætt þjóðina og flytja ekki inn eitt einasta hrísgrjón. Það liggur fyrir að þeir eru ekki tilbúnir að draga úr öllum magntakmörkunum á innflutningi eins og þetta tilboð gerir ráð fyrir. Það má geta þess að líklega liggur ástæðan fyrir því hversu mismunandi afstaða ríkja er til tilboðsins að hluta til í því að í sumum álfum, t.d. í Evrópu og í Asíu, er jarðnæði víða mjög lítið á þann mælikvarða sem t.d. Bandaríkjamenn hafa. Ef við tökum nú Japanina eru þar um 3 millj. bænda og hver um sig ræktar þar land sem nemur að meðaltali þremur ekrum. Landsvæði hvers bónda í Bandaríkjunum er 150 sinnum stærra. Þess vegna er kannski mun erfiðara að ná tökum á þessum málum í ríkjum þar sem fjöldi bænda er tiltölulega mikill, en jarðnæði er ekki mjög stórt. Þetta er kannski ekki síst spurningin um þjóðmenningu og rætur eins og vel kom fram í ræðu Tómasar Inga Olrich áðan sem ég ætla að þakka sérstaklega fyrir vegna þess hvað mér fannst hún skýra afskaplega vel marga hluti.
    Af því að ég var að tala um Japani má líka geta þess að styrkir hjá Japönum við hrísgrjónarækt eru afskaplega miklir. Á ári hverju greiða þeir sem nemur 7,4 milljörðum Bandaríkjadala í ríkisstyrki bara vegna hrísgrjónaræktar. Auk þess verða japanskir neytendur að greiða í hærra verði á heimaræktuðum hrísgrjónum um 37 millj. Bandaríkjadala. Þannig eru það gífurlegar upphæðir sem um er að ræða hjá Japönum. En það sem er hins vegar við blasandi þar eins og í EB er að þetta er afskaplega dýr atvinnugrein og mjög hæpið að hún fái staðist til frambúðar. Það er kannski skýrast í Japan vegna þess að árið 1960 var helmingur þess fólks sem bjó í sveitum í Japan undir 42 ára aldri. En 1990 var meðalaldurinn kominn nálægt 60 árum í sveitum í Japan. Það segir sig sjálft að þetta er deyjandi stétt. Landbúnaðurinn hefur ratað í slíkar ógöngur um allan heim að hjá því verður ekki komist að taka á þeim málum. Það hygg ég að öllum sé ljóst og kannski engum betur en bændum sjálfum.
    Ef við tökum landbúnaðinn í Evrópubandalaginu má segja að hann taki til sín um 70% af útgjöldum bandalagsins, þ.e. landbúnaðurinn einn og sér, og styrkirnir þar samsvari nánast verðmæti framleiðslunnar. Það er ótrúlegt að þetta fáist staðist til frambúðar. Á þessu hljóta menn að þurfa að taka.
    Það hefur oft verið tekið dæmi um sykur, hvernig bandalagið ræktar talsvert af sykri þó það sé kannski ekki sérlega vel til þess fallið. En það niðurgreiðir svo þá ræktun að þróunarlönd sem eru góð sykurframleiðslulönd geta ekki keppt við sykurframleiðslu Evrópubandalagsins vegna niðurgreiðslu og styrkja. Þetta þýðir aftur að þessum þróunarlöndum er haldið í fjötrum. Það sem þau geta þó framleitt best geta þau ekki selt vegna niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum í iðnríkjunum. Þannig er alveg ljóst að heimurinn allur verður að taka á þessum málum og er að reyna að taka á þeim.
    Ég er alveg að ljúka máli mínu, forseti. En það er öllum ljóst hér á Alþingi að ekki er hægt að hafna auknum alþjóðaviðskiptum með landbúnaðarvörur. Ég held að tilboðið sem hér hefur verið lýst frá því í nóvember 1990 beri mjög með sér að allir eru þessarar skoðunar og bændur eru sjálfir þeirrar skoðunar að því verði ekki hafnað. En spurningin er um útfærslu. Og ég verð að segja að ég harma mjög framkomu hæstv. utanrrh. í pontunni áðan vegna þess að mér fannst hún bera þess merki að ráðherrann vildi ekki eiga neinar samræður við þingið um þetta mál. Ráðherra sagði hér að það væri eðlilegt, óumflýjanlegt og nauðsynlegt að markaðstengja landbúnaðarframleiðsluna, en ég vil þá segja við hæstv. utanrrh. þó að hann sé víðs fjarri að það er eðlilegt, óumflýjanlegt og nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. eigi samræður við þingmenn, hlusti á þau rök sem hér koma fram og veiti okkur einhver rök en komi ekki sífellt í pontu eins og trúboði.