Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 19:57:00 (2561)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hér hafa flestar ræður til þessa snúist um það efni sem hér hefur verið á dagskrá. Þó verður að segjast eins og er að hv. 3. þm. Vestf. flutti ræðu þar sem e.t.v. hefði mátt líta svo á að þessar umræður snerust um GATT-samkomulagið sem heild. Ég held að vegna þess sem þá var sagt sé vonlaust annað en taka undir það með hæstv. utanrrh. að þessar umræður snúast ekki um GATT-samkomulagið sem heild og fullyrðingar um að það sé eitthvert hik á Íslendingum að ganga uppréttir til þeirra samninga held ég að fái ekki staðist.
    Sem einn af þeim sem að sjálfsögðu hafa gert sér grein fyrir því að GATT-tollasamkomulagið hefur orðið Íslendingum til góðs á umliðnum árum vil ég taka fram að ég tel einmitt að það sé ekkert undanfæri. Við verðum að ná viðunandi árangri í GATT-samningum, m.a. til að þurfa ekki að sæta neinum afarkostum af hendi Efnahagsbandalags Evrópu. Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir þessu. Ég tel þess vegna að þær viðræður sem hafa staðið frá 1986 hafi verið liður í því að ná þar framþróun en við vissum að þær viðræður mundu snúast um rýmkun á ýmsum atriðum varðandi landbúnaðarvörur.
    Nú er það svo að Íslendingar flytja inn mikið af landbúnaðarvörum, mjög mikið, vegna þess að við framleiðum ekki nema vissar tegundir hér á landi. Af þeirri ástæðu einni að við flytjum inn okkar korn t.d. fyndist manni að það mætti horfa á það í fyrirvara að þá ættum við meiri rétt en aðrir til þess að segja: Við treystum okkur ekki til að leyfa jafnmikið og leyft verður varðandi kjöt- og mjólkurvörur. Ég tel að það hljóti að verða að skoðast í samhengi hvaða heildarmagn menn eru að tala um.
    Hins vegar verð ég að segja eins og er að þeir sem gagnrýna það eða láta svo sem þeir gagnrýni að fyrri ríkisstjórn gaf út stefnumarkandi tilboð, ef svo mætti komast að orði, hljóti þá að verða að svara þeirri spurningu hér í þingsölum: Voru þeir andvígir því að það væri gert? Litu þeir svo á að við ættum að draga okkur út úr þessum samningum og taka ekki þátt í þeim? Mér sýnist þess vegna að allar ádeilur á fyrrv. ríkisstjórn fyrir að hafa gefið út þessa yfirlýsingu á sínum tíma hljóti að kalla á að þeir aðilar verði að gera grein fyrir því: Vildu þeir að við drægjum okkur út úr GATT-viðræðunum? Ég er ekki búinn að trúa því að svo hafi verið heldur finnst mér að þar sé um heldur ómerkilegar aðdróttanir að ræða, aðdróttanir sem byggja á því að menn vilja helst ekki þurfa gefa yfirlýsingar um hvað þeir vilji.
    Nú liggur aftur á móti fyrir að það er komið sáttatilboð og menn þurfa að svara fyrir 13. þ.m. hvort þeir treysta sér til að ganga að því tilboði eða hvort þeir þurfa að setja þar fram fyrirvara. Ég verð að segja eins og er að mér hefur fundist sem núv. ríkisstjórn væri nokkuð seinbúin að búa sig undir hvernig hún vildi standa að því að setja fram slíkan fyrirvara. Æskilegt hefði verið að hæstv. landbrh. hefði getað gert grein fyrir því í sínu svari hvað það væri sem Íslendingar mundu setja fram sem fyrirvara þann 13. því að það er stutt til þess tíma. Hins vegar hlýt ég að fagna því að það kom fram hjá honum að þetta sáttatilboð er algerlega óásættanlegt eins og það er og það hefur komið fram hjá hverjum sjálfstæðisþingmanninum eftir annan að Einari Kristni, hv. 3. þm. Vestf., undanskildum að menn hafa litið svo á að fyrirvari yrði að koma af Íslands hendi í þessum efnum. Að mínu viti er það stærsta málið að það verði magnfyrirvari, það verði takmarkað magn sem við treystum okkur til að taka á móti í þessum efnum. Og skýringin er ákaflega einföld.
    Þegar við tókum þá ákvörðun að stöðva útflutningsbætur á sama tíma og aðrar þjóðir hafa verið að nota útflutningsbætur í stórum stíl fórum við að reyna að aðlaga okkar landbúnað innanlandsmarkaði. Komi núna nýtt högg í stöðunni hafa það verið stórkostleg

mistök að afnema útflutningsbæturnar því að þar er ég algerlega ósammála hæstv. utanrrh. þegar hann telur að það sé sú vitlausasta stefna sem til er. Ef þetta væri rétt væri það slæmur dómur um fyrrv. formann Alþfl., Gylfa Þ. Gíslason, það væri slæmur dómur um Ingólf Jónsson á Hellu og það sem verra er, það væri yfirlýsing um að flestir utanríkisráðherrar og viðskiptaráðherrar vestrænna landa væru meira og minna vitlausir því að þeir hafa stutt þessa stefnu. Auðvitað hefur verið skynsamlegra að koma offramleiðslunni í verð en búa við mikinn óróa á innlendum markaði í matvælaframleiðslu. Þetta hefur þessum aðilum verið ljóst.
    Ég held aftur á móti, miðað við þær yfirlýsingar sem hér hafa komið, að verulegri óvissu hafi nú verið ýtt til hliðar varðandi viðhorf stjórnarsinna. Mér er ljóst að hvaða hugmyndir sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft í þessum efnum eða meiri hluti þar, þá er ekki meiri hluti á Alþingi Íslendinga fyrir því að samþykkja það sáttaboð sem nú liggur fyrir. Það blasir við. Það verður að segja eins og er að sú óvissa er úr sögunni.
    Hins vegar tel ég að það hljóti að vera ærið umhugsunarefni að sú stefna sem hefur orðið ofan á tryggir í reynd voldugustu ríkjum heimsins eins og t.d. Bandaríkjunum mjög góða aðstöðu til að halda áfram að styðja við útflutning á landbúnaði með útflutningsbótum. Að því leyti hefur það ekki tekist, sem margir væntu að mundi gerast, að hinar fátækustu þjóðir heimsins ættu samkeppnismöguleika með framleiðslu á landbúnaðarvörum. Það er náttúrlega gallinn við það samkomulag sem blasir við að það leiðir ekki til þess jöfnuðar í viðskiptum á milli iðnríkja heimsins og þróunarríkjanna sem æskilegt hefði verið. Ég er sannfærður um að ef svo fer sem horfir, að þróunarríkin halda áfram að verða skuldugri og skuldugri á sama tíma og hin safna auði, stafar af því veruleg ófriðarhætta fyrir mannkyn fyrir utan að það er mjög andfélagsleg hugsun að viðhalda slíkri þróun.
    Ég vil aftur á móti undirstrika að sé farið aftur til aldamóta stóð íslensk kjötframleiðsla svo sterk í þessu landi að við gátum keppt við kjötframleiðendur í Evrópu. Við höfðum ekki styrk til að keppa við þá sem framleiddu kjöt í Nýja-Sjálandi, Argentínu eða Ástralíu vegna þeirrar aðstöðu sem þeir höfðu. En við gátum keppt við kjötframleiðslu í Bretlandi og Noregi og öðrum Evrópulöndum sem við vildum selja kjöt til.
    Ég held líka að það fari ekkert á milli mála að fram undan er veruleg hækkun á landbúnaðarvörum í heiminum. Það þýðir ekkert að segja að hægt sé að bæta við þeirri framleiðslu sem Sovétríkin þurfa í dag án þess að birgðirnar minnki. Það er verið að sópa burtu offramleiðslu Evrópubandalagsins inn á þessi svæði á þessum vetri til að forða borgarastyrjöld í fyrrverandi ríkjum Sovétríkjanna. Og verði það ekki gert fara kjarnorkusprengjurnar á útsölu þannig að það er ekki af góðsemi sem vestrænu löndin eru í dag að moka matnum inn þarna. Þeim er alveg ljóst hvað gerist. Það verður boðið í kjarnorkusérfræðingana og það verða engir smáaurar sem boðið verður upp á. Það gengur náttúrlega ekki hjá vestrænum þjóðum að segja að það eigi að vera ferðafrelsi og frelsi einstaklingsins og segja svo líka að þeir sem kunna að búa til kjarnorkusprengjur eigi ekki að hafa sömu mannréttindi og hinir, það gengur einfaldlega ekki upp.
    Ég ætla að minna á annað sem snertir öryggismál. Eitt kjarnorkuslys, eitt stórt kjarnorkuslys í Evrópu, hvað getur það gert? Það getur gert að verkum að landbúnaðarframleiðsla á stórum svæðum verði ekki hæf til manneldis. Þess vegna er alveg fráleitt að nokkur þjóð sem vill halda sjálfstæði sínu geti búið við að eiga það undir erlendum aðilum í mjög ríkum mæli hvort hún fær mat. Það er ein af frumþörfunum sem verður að tryggja. Það þarf ekki annað en horfa til hins forna veldis Inkanna til að átta sig á því að þeir héldu velli sem glæsilegasta samfélag indíánanna á sínum tíma vegna þess að það var yfirstjórn sem geymdi sjö ára birgðir af korni. Og hvar eru birgðir heimsins í dag, hvar eru þær til? Þær hafa verið að minnka ár eftir ár.

    Mér er þess vegna, þegar ég horfi á þessa stöðu og þá staðreynd að Íslendingar eru matvælaframleiðsluþjóð, ekki dimmt fyrir augum. Ég held að það sé rétt sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv. Auður þessarar þjóðar er með ólíkindum mikill. Hagvöxtur á Íslandi á seinasta áratug var jafnmikill og í Vestur-Þýskalandi. Hitt er rétt að innan Evrópubandalagsins sem heildar var hagvöxturinn meiri vegna þess að þar sem lífskjörin voru lélegust batnaði eitthvað frá því sem áður var og skyldi engan undra þó að í þessu samfélagi hafi einhvers staðar orðið framfarir. En ég trúi því ekki að svo verði að okkur saumað að komi íslensk ríkisstjórn fram með sína fyrirvara og verji þá með þeim rökum sem við höfum oft orðið að beita áður vilji menn ekki hlusta og við eigum ekki möguleika á að ná ásættanlegum samningum. Ég vil ekki trúa öðru en að það takist.
    Ég bæti við um leið og ég segi þetta að þó að ég geti vissulega tekið undir það að hæstv. utanrrh. las rétt upp, þann texta sem hann flutti, og skyldi engan undra þó að hann læsi rétt íslenskt mál, þótti mér miður að hann skyldi ekki hafa einurð til að gera grein fyrir hinum mikla mun sem var á því tilboði sem fyrri ríkisstjórn gerði og þeirri málamiðlun sem nú liggur fyrir.