Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:02:00 (2567)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. furðaði sig á fjarveru utanrrh. á síðustu stundum þessarar umræðu. Ég vil gjarnan láta koma fram að skýringin á fjarveru hans er sú að hann þarf að sinna mjög mikilvægum embættisskyldum á öðrum vettvangi sem búið var að festa í tíma sem ekki var unnt að breyta. Ég vil líka láta koma fram að ég mun að sjálfsögðu koma á framfæri við hann óskum um frekari upplýsingar um landbúnaðarþátt GATT-samkomulagsins sem unnið er að og um aðra þætti þessa mikla máls sem, eins og hv. 18. þm. Reykv. réttilega vék að, er margslungið og alls ekki eingöngu bundið við landbúnaðarmál. Með sama hætti mun ég koma á framfæri við utanrrh. óskum um skýrslu og upplýsingar um þá afstöðu sem ríkisstjórnin mun taka í þessu máli.
    Mig langar, virðulegi forseti, til að taka undir með hv. 18. þm. Reykv. þegar hún sagði að það þyrfti að skoða þennan samning í heild og þegar hún lét í ljós það álit að samtök bænda hefðu dregið upp allt of dökka mynd af því hvað gerast mundi yrði Dunkel-tillagan að veruleika. Við verðum að horfast í augu við að þarna er verið að móta viðskiptareglur sem við munum þurfa að laga okkur að. Og eins og ég nefndi áðan snýst þetta um miklu fleira en landbúnað. Í dag höfum við eingöngu rætt stöðu landbúnaðarins gagnvart þessum samningsdrögum, en mig langaði, áður en ég kem að því hvernig ríkisstjórnin mun móta sína afstöðu til þessara samninga, að taka á einu máli sem hv. 2. þm. Suðurl. nefndi hér. Hann taldi að utanrrh. hefði ekki farið rétt með þá reikninga eða mat á þeim tölum um innanlandsstuðning við landbúnað sem annars vegar hefðu verið í tilboði ríkisstjórnarinnar í nóvember 1990 og nú lægju fyrir í hugmyndum Arthurs Dunkels. Mig langar til að benda hv. 2. þm. Suðurl. á að þegar hann tekur þessar tölur frá árunum 1986--1988 alveg beint veit hann vel að á því tímabili varð mikil breyting á skattakerfi landsins og þeirri breytingu fylgdu sérstakar breytingar á niðurgreiðslum. Það hafa líka orðið almennar verðbreytingar á þessum tíma og hvort tveggja yrði tekið með í reikninginn. Ég ætla mér ekki þá dul að fara nánar í talnaspeki landbúnaðarins í einstökum greinum, en mér segir hugur um að þá mundi bilið verða brúað milli talnanna sem hv. þm. nefndi. Þetta ber ekki að skilja sem nákvæmlega útreiknaða niðurstöðu, ég vildi bara benda þingmanninum á að á þessu máli eru fleiri hliðar en þær sem birtust í því sem hann rakti.
    Virðulegi forseti. Það er e.t.v. mikilvægara en nokkru sinni fyrr fyrir fámenna þjóð sem á því sem næst allt sitt lífsviðurværi undir viðskiptum við önnur lönd að það gildi

skýrar alþjóðlegar reglur í viðskiptum. Nú stendur svo á að við getum alls ekki skákað í því skjóli að við fáum áfram notið þeirra kjara sem núgildandi GATT-samkomulag tryggir án þess að takast á herðar skuldbindingar hins nýja samkomulags. Við verðum, einfaldlega vegna þess hvernig heimurinn er vaxinn, að líta á það og meta það að það er yfirlýst stefna allra helstu þátttakenda í GATT-viðræðunum að gamla GATT-samkomulagið muni falla niður þegar hið nýja tekur gildi. Þetta gerist ekki strax, en þetta er sú framtíð sem við verðum að skoða. Með þessu er ég alls ekki að halda því fram að við hljótum að fallast á allt og hvert einstakt atriði sem fram hefur verið lagt í lokatillögum Arthurs Dunkels, en mig langar til að benda á að mánudaginn næsta, þann 13. janúar, verða tillögurnar lagðar fyrir GATT-aðildarríkin 108 sem tekið hafa þátt í þessum viðræðum til umsagnar. Það eru ekki taldar horfur á að unnt verði að ganga frá texta á þeim fundi, enda eiga aðildarríkin einnig eftir að skila inn endurskoðuðum tilboðum sínum. Hins vegar er alveg vafalaust að framtíð GATT-viðræðnanna, sem staðið hafa við sleitur í fimm ár eða meira, mun fara eftir þeim viðtökum sem tillögur Dunkels fá á þessum fundi. Það er margsinnis búið að reyna að ná samkomulagi í þessu erfiða máli.
    Hvað afstöðu Íslands varðar mun ríkisstjórnin á næstu dögum fjalla um þetta mál, m.a. í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur orðið í dag. Ég vil líka benda á að sérstakur samráðsfundur Norðurlanda um þessi mál verður haldinn í Ósló 10. og 11. janúar. Það er of snemmt að lýsa því í einstökum atriðum hverjar munu verða hugmyndir þær sem Íslendingar tala fyrir þegar lokatillögur Dunkels verða ræddar, en mér virðist alveg ljóst að þar verði a.m.k. þrennt sem hægt er að lýsa yfir þegar.
    Það er í fyrsta lagi, sem er e.t.v. einna mikilvægast, að af Íslands hálfu verði viðleitni Dunkels til þess að ná fram heildarlausn studd og látinn í ljós vilji til þess að leiða þessar mikilvægu viðræður farsællega til lykta.
    Í öðru lagi verði tekið mjög skýrt fram að Íslendingar hyggist halda áfram ströngu heilbrigðiseftirliti með innflutningi landbúnaðarafurða. Við göngum út frá því að skilningur sé á sérstökum íslenskum aðstæðum hvað varðar einangrun bústofna og hættu á farsóttum þess vegna.
    Ég vil, með leyfi forseta, vísa til þess sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykn. í ræðu hans fyrr í umræðunni um þetta mál.
    Þá vil ég í þriðja lagi nefna að það verði að sjálfsögðu áréttað af okkar hálfu að það komi ekki til greina að sveiflur í gengi og verðlagi geti valdið því að skuldbindingum einstakra ríkja hvað varðar aðgang að markaði verði breytt vegna slíkra aðstæðna.
    Loks langar mig til að benda á að samkvæmt gamla GATT-samkomulaginu eru ákvæði um heimildir til að setja á magntakmarkanir sem verða ekki formlega úr gildi numdar með því viðbótarsamkomulagi sem nú er verið að reyna að ná niðurstöðu um. Hins vegar er jafnsjálfsagt að benda á að slíkar magntakmarkanir eru ekki samrýmanlegar kröfunni um fulla tollaígildun slíkra innflutningstálma. Þetta nefni ég hér af því að þetta er hin formlega staðreynd málsins. Þetta er einmitt einn af þeim lykilpunktum í málinu sem ég dreg ekki í efa að fundurinn þann 13. muni að verulegu leyti snúast um. Þangað til eru enn nokkrir dagar, þangað til eru enn nokkrir samráðsfundir, m.a. þeir sem ég hef nefnt að framan.