Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:15:00 (2570)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Ef ég svara hæstv. viðskrh. í sama dúr yrði það auðvitað að ég sæi ekki ástæðu til að fjalla mikið um svar ráðherrans eins og hæstv. viðskrh. kýs að ávarpa mig sem þingmanninn og þingmannsins. En ég ætla að segja að það var kannað, hæstv. viðskrh. Ég held ég geti 100% fullyrt að það sem menn höfðu í huga á árinu 1990 áður en okkar tilboð var sett fram var ósköp einföld mæling á brúttóstuðningi við landbúnaðinn flokkað í gult og grænt með þeim hætti sem þá var áformað. Þess vegna vissum við að það skipti ekki máli hvort meira eða minna af því sem rynni úr ríkissjóði til stuðnings

innlendu landbúnaðarframleiðslunni væri merkt endurgreiðslu á söluskatti eða einhverjum öðrum slíkum hlutum, geymslugjaldi, vaxta- og birgðakostnaði og öðru slíku. Það væri ósköp einfaldlega brúttóstuðningurinn sem þarna væri á ferðum. Það var í huga manna á þeim tíma innan GATT að skilgreina þetta þannig, hæstv. viðskrh. Það er það sem ég er að segja. Þetta hefði þýtt að við hefðum þarna fengið hærri viðmiðun, hærri grunn til þess að lækka síðan en ella hefði orðið og ég held að hæstv. viðskrh. hljóti að geta skilið þetta.
    Síðan vil ég segja að hversu ágætir sem ýmsir kaflar þessa væntanlega, ef af verður, GATT-samnings eru, þá á það ekki að mínu mati að draga úr því að menn reyni að ná fram lagfæringum á þeim hlutum hans sem bersýnilega eru óréttlátir eins og sá landbúnaðarþáttur sem hér er til umræðu. Hann yrði bersýnilega mjög óréttlátur gagnvart Íslandi. Og það yrðu ekki fátækar þriðja heims þjóðir sem mundu nýta sér þann aðstöðumun sem þannig skapaðist heldur yrðu það einmitt risarnir sem setja leikreglurnar. Væntanlega yrði það hollenskt og danskt svínakjöt og að einhverju leyti bandarískt korn eða annað því um líkt sem mundi yfirtaka það markaðspláss sem skapast á Íslandi við þessa óréttlátu niðurstöðu. Það er ekki einu sinni hægt að réttlæta það sem við yrðum að taka á okkur í fórnarkostnað með því að það kæmi einhverjum fátækum matvælaútflytjendum þriðja heimsins til góða, því miður.