Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:17:00 (2571)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég hef greinilega ekki talað nógu skýrt. Ég var alls ekki að andmæla þeim skilningi hv. 4. þm. Norðurl. e. sem hann var að lýsa á tilboðinu sem gert var í nóvember 1990. Þvert á móti var ég að segja að þegar til þess kæmi, ef til þess kemur að meta hvernig innlendur stuðningur yrði metinn sem meðaltal þriggja ára, þyrfti að leiðrétta fyrir kerfisbreytingunni í því dæmi, þ.e. að bæta við tölurnar frá fyrri árunum. ( EgJ: Draga frá.) Það fer eftir því hvernig á málið er litið. ( EgJ: Draga frá.) Nei, alls ekki. Þetta er málið sem þarf að hugleiða og alls ekki að fullyrða fyrir fram, enda tel ég það ekki góða hagsmunagæslu út frá íslenskum sjónarhóli. Þetta vil ég segja alveg skýrt. Það sama gildir um verðlagsbreytingar og gengi að við hljótum að sjálfsögðu að áskilja okkur rétt til að ræða hvernig það yrði metið. Þetta vil ég segja nú en alls ekki vegna þess að ég hafi verið að andmæla eða afflytja skilning hv. 4. þm. Norðurl. e. á því hvernig tilboðið í nóvember 1990 var vaxið.
    En að lokum þetta. Beri hv. þm., sá 4. frá Norðurl. e., hagsmuni þriðja heims ríkja svo mjög fyrir brjósti sem hann vill oft vera láta ætti hann að vera einlægur stuðningsmaður þeirrar meginstefnu sem Arthur Dunkel er að reyna að framfylgja með sinni tillögu. Þótt á henni séu ýmsir annmarkar frá okkar sjónarhóli er hún í þessa átt.