Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:23:00 (2574)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mig langar að taka skýrt fram að ég fullyrti ekki um leiðréttingarnar sem ég nefndi vegna verðbreytinga og breytinga í skattakerfinu. Það er hins vegar á að líta að í þeim drögum sem fyrir liggja er hreyft möguleikum til slíkra leiðréttinga og er alls ekki loku fyrir það skotið að það megi t.d. miða í útreikningunum við aðra mynt en mynt landsins sem í hlut á. Þá er líka enn opin leið að því er virðist, miðað við þann texta sem fyrir liggur, að tollígildin verði hlutfallsleg en ekki í beinum tölum, þ.e. í prósentum, og tryggja þannig verðgildi þeirra fram á við. Ef þetta verður niðurstaðan, og ég tel að þessu sé ekki fullsvarað enn í undirbúningi þessa samnings, er hægt að koma við leiðréttingum af því tagi sem ég nefndi hér.
    En að endingu, virðulegi forseti, vil ég taka vara fyrir því að umræðan fari að snúast allt of mikið og nákvæmlega um þennan reikning. Málið í heild er miklu stærra en það og varðar í reynd viðskiptatengsl okkar við umheiminn í heild.