Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:24:00 (2575)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er einkum ein athugasemd hæstv. ráðherra sem mig langar aðeins að gera að umræðuefni og hún er sú að heildarviðleitni Dunkels verði studd af hálfu ríkisstjórnarinnar og það þá varið með því að í heild þurfi að styðja GATT-samningana. Mér er fullljóst að það er margt gott í þessum samningsdrögum en þar er líka, og hefur raunar komið fram í þessari umræðu þótt við höfum aðallega fjallað um landbúnaðarmál, margt óljóst og margt lítt kynnt.
    Hitt finnst mér hins vegar skipta mestu máli og vonast ég til að fá afdráttarlaust svar hæstv. ráðherra á: Er það viðunandi að ríkisstjórn Íslands styðji niðurstöðu Dunkels jafnvel þótt það geti þýtt, eins og hér hefur fram komið í dag, að við verðum að ganga á skjön við gerða samninga? Það finnst mér undir öllum kringumstæðum óverjandi og hér er ég að tala um samninga við bændur. Ég vil lýsa því sem minni skoðun að ég tel að það verði að taka fullt tillt til hagsmuna bænda sem annarra í þessum samningum öllum saman, það eru hagsmunir þjóðarinnar einnig. Ég tel að það verði fullljóst í ræðu hæstv. landbrh. á eftir hver hans afstaða er og ég trúi ekki öðru en hann taki þar skýrt til orða.