Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:26:00 (2576)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 9. þm. Reykn. um almenna afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa samkomulags og þeirra orða sem ég lét um það mál falla langar mig til að beina því til hv. þm. að bera sig saman við hv. 18. þm. Reykv. sem mér virtist tala mjög í þá veru sem ég gerði hér áðan. Þetta er mjög auðvelt að framkvæma því að þær eru hér báðar staddar og hittast oft.
    Þá langar mig líka að segja að auðvitað erum við hér að tala um mikilvæga hagsmuni þjóðarheildarinnar en líka landbúnaðarins. Mig langar að rifja upp vegna þess að hér var búvörusamningurinn nefndur að í honum er einmitt grein þar sem gert er ráð fyrir breytingum hvað varðar reglur um innflutning á búvörum eða vörum unnum úr þeim vegna alþjóðlegra viðskiptaskuldbindinga Íslands. Það var alveg greinilegt að þegar samningurinn var gerður bjuggust menn við því að þetta kynni að bera upp á.