Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:35:00 (2578)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Tvennt vil ég nefna af því sem fram kom í máli hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Í fyrsta lagi teldi ég það naumast þinglegt að setja á langa ræðu um aðra þætti GATT-samkomulagsins en þá er varða landbúnað. Hér er umræða um stöðu íslensks landbúnaðar með tilliti til þessara samninga. Þótt óhjákvæmilegt sé að nefna með almennum orðum þann heildarviðskiptaramma sem hér er verið að ræða; það er eitt mál en hitt annað að rekja í löngu máli sem vissulega væri vert og hv. 18. þm. Reykv. kom að áðan að æskilegt væri að þingheimur fengi um nánari vitneskju en hingað til hefur verið unnt að veita. Ég hef tekið að mér að koma á framfæri við hæstv. utanrrh. og það mun ég líka gera.
    Í öðru lagi er auðvelt að taka undir með hv. þm. að ef þetta samkomulag næst í meginatriðum eins og það liggur nú fyrir er það ekki neitt risaskref í átt til frjálsari viðskiptahátta með búvörur. En hægt er að segja um það að sé viðskiptakerfi landbúnaðarvöru og búvöru yfirleitt á alþjóðavettvangi komið í þróunarhæft form sem í fyllingu tímans gæti einmitt gert ríkjum þriðja heimsins gagn sem hafa verið afskipt í þessum viðskiptum til þessa. Það er einmitt þetta sem ég held að sé ástæða til að leggja áherslu á. Þetta er jákvæð breyting ekki síst af því að með henni væru viðskipti með búvörur komin í þróunarhæft form.