Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:40:00 (2581)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Þar sem andsvari eftir ræðu hæstv. viðskrh. var lokið þegar ég kaus að bæta aðeins við mitt mál nýti ég mér minn fyrri ræðutíma og ætla að koma með örfáar athugasemdir í viðbót sem eru þá að gefnu tilefni.
    Í fyrsta lagi vil ég skýra aðeins hvers vegna ég tel að það sé ástæða til að hafa sérstaklega í huga að gerðir hafa verið búvörusamningar við bændur sem ekki má breyta nema samkvæmt ákveðnum ákvæðum sem hæstv. viðskrh. gat um. Ég gat þessa sérstaklega vegna þess að ég tel að það sé alger óþarfi og í rauninni málinu til skaða ef ríkisstjórnin færi að lýsa sérstaklega yfir stuðningi við heildarniðurstöðu eða heildarviðleitni Dunkels, svo ég vitni til tvenns konar orðalags hæstv. viðskrh. Ég held nefnilega að það sé nauðsynlegt að taka upp viðræður við bændur, eins og alltaf þegar samningar eru gerðir og ákveðin ákvæði eru til endurskoðunar, og gera þetta í samráði eins og eðlilegast er án þess að trufla málið með því að vera búin að binda hendur ríkisstjórnarinnar sérstaklega. Í rauninni er þetta miklu víðara mál og varðar miklu víðtækari hagsmuni, en ég vil bara geta þessa til skýringar þar sem ég held að það sé þá fullnægjandi sem mín röksemdafærsla.
    Í annan stað held ég að sé allt í lagi að benda á að í máli hv. 18. þm. Reykv. kom nákvæmlega það fram, sem ég gerði að meginatriði í ræðu minni, að það væri nauðsynlegt að þekkja málið í heild. Ég er hjartanlega sammála því og ég tel að því hafi ekki verið fullnægt. Það kom fram í ræðu hennar í öðru lagi að það sé brýnt að nauðsynlegir fyrirvarar séu á afgreiðslu ríkisstjórnarinnar nú.
    Svo vil ég að lokum aðeins geta þess að ég vil ekki, þó ég hafi nóg um þetta mál að segja, draga umræðuna meira á langinn því að ég er nefnilega farin að hlakka mjög til að heyra í hæstv. landbrh. og ekki síst að heyra hans afstöðu til þess hver verði skilaboð ríkisstjórnarinnar þann 13. janúar.