Staða íslensks landbúnaðar með tilliti til þróunar viðræðna um nýjan GATT-samning o.fl.

61. fundur
Þriðjudaginn 07. janúar 1992, kl. 21:49:00 (2583)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Herra forseti. Þessi umræða hefur verið löng og ítarleg og ég vil segja gagnleg og ég þakka hv. 2. þm. Suðurl. fyrir að efna til hennar. Þó svo það sé rétt, sem fram kom hjá hv. 18. þm. Reykv., að hér hefði einungis verið farið inn á þá þætti í samningsdrögum Dunkels sem varðar landbúnað er það af þeim eðlilegu ástæðum að til þess var stofnað með þessari umræðu að draga fram með hvaða hætti ég mæti þá stöðu sem landbúnaðurinn er í miðað við það hvernig umræður hafa þróast innan GATT og út frá þeim tillögum sem Dunkel hefur nú lagt fram.
    Hér hefur verið drepið á ótal atriði, bæði söguleg atriði og efnisatriði, sem ég skal ekki orðlengja. Flestum þeim atriðum sem ég hefði kosið að koma inn á hef ég gert skil í frumræðu minni og sé ekki ástæðu til að lengja þennan fund af þeim sökum. Ég vil einungis taka það skýrt fram vegna þeirra fyrirspurna sem hér hafa komið um þá fyrirvara eða athugasemdir sem við Íslendingar gerðum varðandi samningsdrögin að þessi mál eru nú í athugun og umræðu innan ríkisstjórnarinnar. Það liggur nú fyrir að hún taki afstöðu til einstakra efnisþátta og er brýnt af þeim sökum að á föstudaginn munu Norðurlandaþjóðir hittast til að bera saman bækur sínar og láta á reyna hvort ekki náist sameiginleg afstaða, en eins og hv. þm. er kunnugt höfum við einkum haft náið samráð við Norðmenn og Finna í þessum efnum. Og raunar hefur komið fram að við höfum gert sömu fyrirvara og haft sömu afstöðu og þeir, sérstaklega Finnar, á þeim fundum sem haldnir hafa verið innan GATT.
    Ég vil taka undir með viðskrh. um þau þrjú efnisatriði sem hann vék að áðan. Í fyrsta lagi legg ég áherslu á sérstöðu okkar Íslendinga. Það er nauðsynlegt að fá það skýrar og helst ótvírætt að við getum staðið gegn innflutningi á hráum sláturafurðum. Í öðru lagi tek ég undir með viðskrh. þau orð sem hann sagði um verðbólgu og gengisleiðréttingu og sömuleiðis um magntakmarkanir á innflutningi landbúnaðarvara. Ég vil á hinn bóginn bæta fjórða atriðinu við sem er rýmkun á grænum greiðslum. Þessi atriði munu nú verða rædd innan ríkisstjórnarinnar og það er ákveðið að fulltrúar okkar muni hitta aðrar

Norðurlandaþjóðirnar á föstudaginn og freista þess þar að ná sameiginlegri niðurstöðu sem hægt yrði að kynna innan GATT.
    Ég þakka svo fyrir þessar umræður.