Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 13:36:00 (2584)

     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til breytinga á lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Eins og fram hefur komið hafa spunnist talsverðar deilur um þetta frv. og þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á Hagræðingarsjóði samkvæmt því. Hefur það áður komið fram í umræðum hér í þingsölum. Helsta ágreiningsefnið er sú fyrirhugaða breyting að selja veiðiheimildir sjóðsins og láta þær alfarið standa undir kostnaði við rannsóknir Hafrannsóknastofnunar. Virðulegi forseti, ég tel að þarna sé farið inn á mjög jákvæða braut þar sem atvinnuvegunum er í ríkari mæli en tíðkast hefur gert að standa undir kostnaði við rannsóknir sem eru í þeirra þágu. Ég tel að af þessu muni timbrast nokkur gifta í framtíðinni. Vegna þess að hlé hefur orðið á þessari umræðu, vegna jólahalds, tel ég rétt að hlaupa hér léttilega á þeim meginbreytingum sem fram koma í frv.
    Þær meginbreytingar felast í fyrsta lagi í því að sjóðurinn fær nú úthlutað fast 12.000 tonnum. Áður hafði hann til ráðstöfunar kvóta sem hann fékk annars vegar vegna veiðiheimilda þeirra skipa sem hann keypti eða átti að kaupa og hins vegar vegna álags á aflamarki vegna úthlutunar á óunnum fiski. Ég tel að þessi breyting sé mjög til bóta og ég hygg að um hana sé ekki ágreiningur. Við sjáum það t.d. að útflutningur á óunnum fiski minnkar nú ört og samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag voru einungis flutt út 29.430 tonn af ísuðum fiski árið 1991 en árið á undan voru þau 46.745. Hefði fyrra lag verið haft á að afla sjóðnum veiðiheimilda væri það miklu óvissara en er núna. Einnig er rétt að taka það fram að sjóðnum tókst aldrei í núverandi formi að kaupa skip og þar af leiðandi fékk hann aldrei neinar veiðiheimildir samkvæmt því.
    Í öðru lagi er sú breyting sem ég drap á hér áðan að öllum tekjum af sölu veiðiheimilda sjóðsins er nú varið til hafrannsókna. Rétt er að það komi fram að hafrannsóknir á að auka verulega. Það er tekið sérstaklega fram í grg. með þessu frv. að nota eigi féð til að kosta verulega auknar rannsóknir einkum á sviði fjölstofnarannsókna. Auðvitað hefði átt að vera búið að gera þetta fyrir lifandi löngu og í rauninni er mjög furðulegt að þjóð, sem byggir tilveru sína á sjávarútvegi í jafnríkum mæli og Íslendingar, skuli ekki hafa hafist handa um þetta miklu fyrr. Mér þykir rétt að geta þess að þegar ég var við nám í Bretlandi fyrir margt löngu höfðu menn þegar byrjað á þessu árið 1979 og þótti mikil bót að. Ég tel að þessar rannsóknir séu mjög nauðsynlegar til þess að finna út það samspil sem er milli tveggja mikilvægra stofna og við byggjum afkomu okkar á, þ.e. þorsksins og loðnunnar. Ég vil ítreka að hér er mikið framfaraspor stigið og meira en réttlætanlegt að nota tekjur af sölu aflaheimilda til að kosta þessa löngu tímabæru nýbreytni.
    Í þriðja lagi var upphaflega áætlað að fella alveg út heimildir, sem eru í núgildandi lögum um Hagræðingarsjóð, til að veita forkaupsrétt til þeirra byggðarlaga sem höfðu

tapað kvóta vegna sölu fiskiskipa. Nú hafa menn dregið í efa að þetta ákvæði hafi raunverulega verið þess megnugt að skila nokkru. Menn töldu ólíklegt að í þessu gæti falist umtalsverð aðstoð sem kynni að koma í veg fyrir að kvóti færi burt úr byggðarlagi með sölu skipa. Af þeim ástæðum var það svo að í upphaflega frv. sem hæstv. sjútvrh. lagði fram var ekki gert ráð fyrir neinum heimildum til að veita byggðarlögum í erfiðleikum forkaupsrétt. Sá þingmaður sem hér stendur og fleiri mæltu gegn þessu í umræðum um frv. Við töldum nauðsynlegt að hafa inni vissan forkaupsrétt. Og ég minnist þess að hv. 1. þm. Austurl. tók undir það. Sökum þessa flytur meiri hluti sjútvn. brtt. þar sem gert er ráð fyrir að fjórðungi þeirra aflaheimilda sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar megi verja með þessum hætti. Rétt er að geta þess að áður var í gildi ákvæði um að allt að helmingi veiðiheimildanna mætti nota með þessum hætti. En auðvitað er rétt að taka það fram að sjóðurinn leigir í rauninni sínar veiðiheimildir. Þær eru einungis leigðar til árs í senn þannig að hér hefði hvort sem er aldrei orðið um varanlega aðstoð að ræða. Eigi að síður tel ég jákvætt og lofsvert hversu rösklega hæstv. sjútvrh. tók undir þetta sjónarmið og gaf fylgi sitt við þessum breytingum.
    Í fjórða lagi er rétt að taka það fram að nú er alveg fellt í burt ákvæði sem gat gert sjóðnum kleift að gefa kvóta, að láta af hendi endurgjaldslaust kvóta til byggðarlaga sem voru í erfiðleikum. Eins og ég hef þegar drepið á þá felst í þessu skammvinn stoð. En þetta ákvæði var eigi að síður inni í núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að fella þetta algerlega brott.
    Í fimmta lagi er hlutfall úreldingarstyrkja hækkað úr 10% í 30%. Það er rétt að geta þess að á gildistíma núverandi laga hefur sjóðnum aldrei borist fullgild umsókn. Sennilega vegna þess að menn telja að 10% sé alls ekki nægilega hátt hlutfall til þess að koma skipi úr notkun. Nú er það hækkað upp í 30%. Ég tel þetta mikið framfaraspor og rétt er að það komi fram að sjóðurin hefur nú 600 millj. kr. til umráða í þessu skyni. Samkvæmt lögum er gert ráð fyrir að hæsti styrkur geti aldrei orðið hærri en 50 millj. kr. Þannig gæti sjóðurinn tekið þátt í að úrelda tólf skip með því að ganga á eigið fé sjóðsins. Þar að auki hefur hann nú 80 millj. kr. tekjur árlega. Þannig að ljóst er að sjóðurinn hefur umtalsvert svigrúm til að sinna úreldingarhlutverki sínu. Þetta er mjög mikilvægt, ekki síst nú á tímum þegar umframafkastageta flotans eykst eftir því sem kvótinn og stofnarnir minnka.
    Í sjötta lagi er inni í þessum lagadrögum bráðabirgðaákvæði sem full samstaða er um. Þar er gert ráð fyrir að þeim 12.000 tonnum sem sjóðurinn hefur til umráða á þessu kvótaári verði úthlutað ókeypis núna.
    Eins og ég sagði eru menn sammála um bráðabirgðaákvæðið. Ég hygg að enginn ágreiningur sé heldur um það að aukning úreldingarstyrkja úr 10% af húftryggingarverðmæti upp í 30% er mjög jákvætt. Sömuleiðis tel ég að menn séu sammála um að breyta tilurð veiðiheimilda sjóðsins þ.e. að það sé miklu öruggara fyrir starfsemi sjóðsins að láta hann fá fastan stofn.
    Hins vegar er alveg ljóst að mjög djúpstæður ágreiningur er í nefndinni og á Alþingi um þann þátt lagafrv. sem gerir ráð fyrir að tekjur af sölu veiðiheimilda verði notaðar til að standa straum af auknum hafrannsóknum. Í framhaldi af þessu er nauðsynlegt að láta þess getið að þau ákvæði sem gert er ráð fyrir að verði í hinum nýju lögum um söluna eru að meginstofni nákvæmlega þau sömu og eru í núgildandi lögum. Hér er því ekki um nýmæli að ræða að því leyti. Nýmælið felst í því að tekjunum af veiðiheimildunum er varið til þess að standa straum af hafrannsóknum nú.
    Menn hafa látið svo um mælt að með þessu sé verið að brjóta í blað og verið að taka upp auðlindaskatt. Þetta kemur t.d. fram í nál. hv. minni hluta sjútvn. þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Hér er því stigið fyrsta skrefið til að afla tekna í ríkissjóð af sölu veiðiheimilda og að koma á auðlindaskatti.`` Ég hlýt að mótmæla þessu vegna þess að ef verið er að stíga skref til auðlindaskatts með því að selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs, þá er það vitaskuld ekki fyrsta skrefið. Það skref var þá stigið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar sem setti lögin og markaði þá braut sem við erum nú að feta fram, þ.e. að selja veiðiheimildir sjóðsins á gangverði. Þannig að það er fráleitt að fallast á að verið sé að koma á einhverjum nýjum auðlindaskatti. Sé um auðlindaskatt að ræða þá er það ekkert annað en framhald á fyrri auðlindaskatti sem fyrrv. ríkisstjórn kom á. Ég tel einnig rétt að í þessari umræðu komi fram að þeir menn sem skrifa undir þetta minnihlutaálit og telja að hér sé um auðlindaskatt að ræða töldu ekki allir svo þegar verið var að ræða þetta mál við 1. umr. né heldur árið 1990. Frsm. minni hlutans, sem væntanlega mun lesa nál. minni hluta nefndarinnar á eftir, þar sem segir að hér sé um auðlindaskatt að ræða, hafði mýmörg tækifæri til þess í 1. umr. að láta þessa skoðun sína koma fram. Hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, gerði það ekki. Hann sagði hins vegar, ef ég man rétt, að með þessu væri verið að stíga nær skatti. En hann hefur sem sagt breytt um skoðun. Þegar hann ræddi þetta mál við 1. umr. þá kom sú skoðun ekki fram hjá honum að hér væri um auðlindaskatt að ræða. En í minnihlutaálitinu, sem hann á aðild að, kemur skýrt fram að hann hefur skipt um skoðun. Og ég tel að hinn mæti þingmaður, hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, skuldi eiginlega þinginu skýringu á þessum sinnaskiptum sínum.
    Það er jafnframt athyglisvert að skoða ummæli hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Í ummælum sínum hefur hann komið fram þeirri skoðun að hér sé alfarið um auðlindaskatt að ræða, þ.e. sala veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs sé ekkert annað en auðlindaskattur. Þess vegna er fróðlegt að kanna viðhorf þessa ágæta þingmanns sem fram kom í umræðum um Hagræðingarsjóð í efri deild 2. maí 1990. En þá sagði hv. þm. Stefán Guðmundsson, með leyfi forseta, þegar hann mælti fyrir áliti 1. minni hluta sjútvn.: ,,1. minni hl. leggur áherslu á að með þessu fyrirkomulagi er ekki verið að stíga skref í átt að auðlindaskatti. Sjóðnum er fyrst og fremst ætlað að stuðla að fækkun fiskiskipa og bæta þannig rekstrargrundvöll þeirra skipa sem eftir verða í flotanum. Öllum tekjum sjóðsins verði varið til að stuðla að fækkun fiskiskipa og engu af þeim er ætlað að renna til samneyslunnar í þjóðfélaginu. Því er hér um lokaðan sjóð að ræða sem fyrst og fremst mun vinna fyrir sjávarútveginn í heild. 1. minni hl. hafnar með þessu alfarið þeirri skoðun að með stofnun sjóðsins sé verið að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn.``
    Þetta er furðulegt að lesa í ljósi þeirra ummæla sem hv. þm. hefur síðan haft. Rétt er að vekja athygli á því að í frv. sem liggur frammi til laga um Hagræðingarsjóð segir í 4. gr., með leyfi forseta: ,,Sjóðurinn [þ.e. Hagræðingarsjóður] skal standa stofnuninni [þ.e. Hafrannsóknastofnun] jafnharðan skil á innheimtum tekjum.`` Með öðrum orðum, það má jafna þessu við að hér sé verið að setja innheimtar tekjur í lokaðan sjóð sem Hafrannsóknastofnum hefur til þeirrar ráðstöfunar sem hún vill. Það skilyrði að hér sé um lokaðan sjóð að ræða er því áfram uppfyllt. Og það er líka alveg ljóst að með því að taka afgjaldið, sem kemur inn fyrir leigu veiðiheimildanna, og láta það renna til eflingar hafrannsókna þá hljóta menn að vera að stuðla bættum rekstrarskilyrðum sjávarútvegsins. Þannig að þau rök sem þingmaðurinn hafði árið 1990 fyrir því að hér væri ekki um auðlindaskatt að ræða hljóta að gilda núna nema þingmaðurinn hafi af einhverjum hvötum, sem ég ekki skil --- og ég hefði gjarnan viljað fá hann til að upplýsa hér --- skipt um skoðun.
    Það hefur líka komið fram að hér sé um auknar álögur á sjávarútveginn að ræða og ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon muni koma upp á eftir og lesa langan lista um það sem hann kallar auknar álögur á sjávarútveginn sem núv. ríkisstjórn hefur komið á. ( SJS: Rétt.) Já, þarna sést hve hugur minn er í nánum tengslum við hug hans eða kannski er bara svona auðvelt að lesa hug alþýðubandalagsmanna. Kannski hef ég meiri reynslu af því en aðrir í þessum sal. En ég vildi einungis að það kæmi fram að við erum sammála um þetta. Ég held að það sé ekkert hægt að segja annað en að hér sé um auknar álögur að ræða. Það er ekki hægt að segja annað. En lítum nú á það hvernig menn fóru að því að réttlæta þær álögur sem einnig hefðu verið lagðar á sjávarútveginn samkvæmt núgildandi lögum sem hv. þm. Steingrímur Jóhann átti þátt í að

setja og er afskaplega ánægður með. Það kemur nefnilega fram í minnihlutaálitinu. Þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Því er haldið fram að hér sé ekki um nýjar álögur á sjávarútveginn að ræða. Það er ekki rétt og er engan veginn sambærilegt við ráðstöfun fjárins til úreldingar fiskiskipa. Sú ráðstöfun hefði komið fljótt fram í auknum tekjum flotans vegna hagkvæmari reksturs.`` Það hlýtur að liggja í augum uppi að ef menn taka fé fyrir veiðiheimildir og nota til að kanna betur ástand stofna, nýja stofna og möguleika á að fá meiri tekjur úr sjónum þá hljóta menn líka að vera sammála um að það skili sér í auknum tekjum vegna hagkvæmari rekstrar. Þetta liggur í augum uppi þannig að þessi rök falla um sjálf sig. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Steingrímur Jóhann tali hér á eftir og ég hlakka satt að segja til að hlusta á ræðu hans. ( KHG: Hvað á að ráða marga nýja fiskifræðinga?) Hér er spurt: Hvað á að ráða marga nýja fiskifræðinga? Það er nú svo að skortur er á fiskifræðingum þannig að það fellur um sjálft sig. Það vantar fiskifræðinga vegna þess að fáir þeirra hafa komið heim eða hafa lokið námi. Ég gæti farið í langt mál um af hverju það stafar en ég ætla ekki að gera það núna, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.
    Virðulegur forseti. Eins og ég hef samviskusamlega tíundað hér þá ríkir verulegur ágreiningur um ýmis grundvallaratriði í þessu frv. Fjölmörgum aðilum var stefnt á fund sjútvn. og það er rétt að fram komi að hjá þessum aðilum, ég hygg nær öllum hagsmunaaðilum sem komu til fundar við nefndina, hafi mikil andstaða komið fram við sölu veiðiheimilda. Hins vegar voru menn líka jákvæðir gagnvart þeirri breytingu sem felst í að hækka styrkinn til úreldingar úr 10% upp í 30%. Ég vil að lokum, virðulegur forseti, lesa stafrétt nál. það sem gert var fyrir jól með svo vasklegum hætti. Það er stutt enda tók ekki langan tíma að semja það. Það er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið um það umsagnir frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Nefndinni barst jafnframt greinargerð frá sjávarútvegsráðuneytinu. Þá fékk nefndin á sinn fund Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þorstein Gíslason frá Fiskifélagi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Svein Hjört Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Árna Benediktsson frá Íslenskum sjávarafurðum hf., Sturlaug Sturlaugsson og Kristin Pétursson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Bjarka Bragason og Guðmund Malmquist frá Byggðastofnun, Snæ Karlsson frá Verkamannasambandi Íslands, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Magnús Gunnarsson og Þröst Ólafsson frá nefnd um stefnumótun í sjávarútvegi.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Meginbreytingin felst í því að Hagræðingarsjóði er heimilt að verja allt að fjórðungi þeirra aflaheimilda, sem honum hefur verið úthlutað, til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum er standa höllum fæti.
    Undir þetta skrifa ég, Össur Skarphéðinsson, Árni R. Árnason, Guðmundur Hallvarðsson og Vilhjálmur Egilsson og jafnframt Guðjón Á. Kristjánsson með fyrirvara.