Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 13:57:00 (2585)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að málflutningur hv. frsm. meiri hlutans í þessu máli sem og auðvitað ríkisstjórnarinnar er einhver sá allra aumkunarverðasti sem ég hef nokkurn tímann heyrt í nokkru máli. Ég held að ég verði að segja það. Tilburðir til að réttlæta þetta mál eru svo aumkunarverðir að engu tali tekur. Þeir ganga í stórum dráttum út á það að framan af ræðum eyða hv. þm. eða hæstv. ráðherra

orku sinni í að segja: Þetta er ekki auðlindaskattur, þetta er ekki hinn illræmdi auðlindaskattur á sjávarútveginn. En síðari hluti ræðunnar gengur síðan ævinlega út á að segja: En ef þetta er auðlindaskattur þá er það fyrri ríkisstjórn að kenna, hún er a.m.k. jafnsek í málinu, endir minnar ræðu. Þannig er það hjá þeim hverjum á fætur öðrum. Þessi háreisti metnaðarfulli málflutningur hv. talsmanna stjórnarliðsins hér. Þvílíkt og annað eins.
    Í þessu andsvari, herra forseti, vil ég jafnframt vekja athygli á að þetta var einhver kostulegasta framsöguræða fyrir nál. sem ég hef heyrt í minni þingsögu hér á Alþingi. Stappar hún í níu ár bráðum. Þetta var ekki lýsing á afstöðu meiri hlutans. Það var fátt um hana fjallað. Ekki fór mikið fyrir ítarlegri útlistun á hinni vönduðu og gagngeru skoðun málsins í hv. sjútvn. Þetta voru pólitískar leikfimiæfingar, stílæfingar og upplestur úr gömlum ræðum hv. 1. þm. Austurl. Og ég er alveg viss um að þessi framsöguræða starfandi formanns sjútvn. verður lengi í minnum höfð.