Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 14:01:00 (2588)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) :
     Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta sjútvn. um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. En áður en ég kem að efni málsins, sem er þó efni nál., vildi ég aðeins koma inn á það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi um, hvort hér væri um auðlindaskatt að ræða eða ekki. Hefur hann einkum sótt fróðleik í það sem þingmenn hafa áður sagt um það mál og talað um að hér væru stundaðar pólitískar leikfimiæfingar og sá sem hér stendur hafi skipt um skoðun í þessu efni.
    Ég vil því upplýsa hv. 17. þm. Reykv. um að ég stend við það sem ég sagði í maí 1990 og taka skýrt fram að ég hef ekki skipt um skoðun í málinu. Þegar þær aflaheimildir Hagræðingarsjóðs sem þá var rætt um voru kallaðar auðlindaskattur sagði ég, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að kalla slíka starfsemi auðlindaskatt er svo fráleitt að það tekur vart að tala um það því auðlindaskattur gengur út á það að skattleggja greinina og taka til annarra þarfa samfélagsins.`` Við þessa skilgreiningu vil ég standa. Og það er líka alveg rétt hjá hv. þm. að ég sagði við 1. umr. málsins, eftirfarandi: ,,Ég ætla mér ekki að kalla þessa breytingu sem nú er verið að fara út í auðlindaskatt.`` Þá held ég að hv. 17. þm. hafi gripið fram í fyrir mér því hann kallaði ,,það er auðlindaskattur``, hv. þm. Og ég sagði þá: ,,Ég

ætla ekki að nota það stóra orð. Hins vegar er þetta skattur í ríkissjóð.`` Þá sagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson: ,,Hver er munurinn?`` Og ég skildi hv. þm. þá að hann teldi þetta vera auðlindaskatt. Hann teldi ekki vera neinn mun á skatti í ríkissjóð og auðlindaskatti. Ég fór nokkrum orðum um það hvort ætti að kalla þetta auðlindaskatt eða ekki og staðnæmdist við þá spurningu: Er verið að taka hér fjármagn frá sjávarútveginum til sameiginlegra verkefna samfélagsins eða eingöngu til verkefna sjávarútvegsins? Ég tel að hér sé verið að taka fjármagn til sameiginlegs verkefnis samfélagsins. Ég tel það ekki einkamál sjávarútvegsins að stunda hafrannsóknir á Íslandsmiðum. Ég tel að það þjóni samfélaginu í heild. Enda hefur ávallt verið litið á það sem samfélagslegt verkefni fram á þennan dag. Alveg frá því fjárlög íslenska ríkisins urðu til hefur fjármagni af skatttekjum ríkisins verið varið til þessa verkefnis, hv. þm. Menn geta haldið því fram núna að hér sé verið að taka skatt og verja honum sérstaklega til hagsmunamála sjávarútvegsins. En enginn vafi er á því að þetta hefur hingað til verið fjármagnað af almennum skatttekjum ríkisins. Og mér er ekki kunnugt um að það standi til hjá hæstv. núv. ríkisstjórn að hver og einn atvinnuvegur greiði allan kostnað við rannsókna- og þróunarstarf. Að undanförnu hefur mér heyrst að menn séu jafnvel að tala um að auka framlög til slíkrar starfsemi á vegum landbúnaðarins. Ekki síst vegna þeirra samninga sem nú eiga sér stað við GATT. Þar munu vera heimildir til þess að líta --- eru það ekki kallaðar grænar greiðslur --- að jafnvel sé svigrúm til að auka framlög til rannsókna og þróunarstarfs á sviði landbúnaðarins. Ég veit ekki til að uppi sé nein almenn stefnumörkun um að fara að heimta allar slíkar greiðslur af landbúnaðinum sjálfum. Enda er alveg ljóst að hann er ekki fær um það. Ekki má skilja orð mín svo að mér detti til hugar að reikna með að hann geti staðið undir því. Mér er ekki kunnugt um að það standi til að iðnaðurinn greiði allan kostnað við Iðntæknistofnun og margvíslegar rannsóknir og þróunarstarf sem á sér stað á vegum iðnaðarins. Það hefur hins vegar verið ákveðið að þetta skuli heimt af sjávarútveginum og atvinnuvegunum þar með mismunað. Því hallast ég að því að þetta geti fallið undir hugtakið auðlindaskattur og meðnefndarmenn mínir í minni hluta nefndarinnar voru mjög ákveðið þeirrar skoðunar. (Gripið fram í.) Ég vil bara vitna til þess, hv. þm., sem ég hef sagt og ég sagði hér í ræðu að ég vildi ekki nota þetta stóra orð en ég hef einmitt skilið Alþfl. þannig að hann væri mjög kappsfullur um að koma á slíkum skatti. Er það rangt, hv. þm., að Alþfl. berjist fyrir því mjög hatrammri baráttu að koma á auðlindaskatti? ( Gripið fram í: Þeir vilja kvótaleigu.) Þeir vilja kvótaleigu. ( Gripið fram í: Eins og formaður Alþfl.) Já, þá hefur það verið upplýst að Alþfl. berst fyrir kvótaleigu. En hvað er kvótaleiga? Er það ekki auðlindaskattur?
    Ég held að það sé nú orðið nauðsynlegt að Alþfl. fari vel yfir þessa hugmyndafræði sína í sjávarútvegsmálum og reyni að gera hana upp við sig en sé ekki alltaf að vitna í gamlar þingræður annarra í því sambandi. Það er mjög mikilvægt að það sé ljóst í íslenskum stjórnmálum fyrir hverju Alþfl. berst. Ég man ekki betur en Alþfl. hafi verið með mjög háværar kröfur í síðustu ríkisstjórn um að auka álögur á sjávarútveginn. Og ég skal alveg játa að stundum var einum of mikið látið eftir þeim flokki í þeim málum. En mér sýnist að nú sé gengið miklu lengra í því að láta undan þessum kröfum. Ég er ekki grunlaus um að þetta afkvæmi sem hér er komið sé m.a. vegna þess að formenn stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., hafi komið sér saman um þetta sem lendingu í málinu. Og Alþfl. hefur státað mjög af því að hafa komið þessu fram hinum megin við Viðeyjarsund. Þess vegna þykir mér nokkuð merkilegt að formaður sjútvn. skuli koma hálfskömmustulegur upp í ræðustól og vitna í það sem aðrir hafa sagt í þessu máli. Ég hélt að hann kæmi hér til að fagna sigri og lýsa því hvað hér hefði náðst fram mikilvægt skref í stefnumáli Alþfl. ( ÖS: Ég vildi bara fá að vita hvort þú telur þetta auðlindaskatt eða ekki.) Ég tel þetta auðlindaskatt að því leyti að hér er um skatt að ræða sem fer til sameiginlegra viðfangsefna samfélagsins. En ég heyri á hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hann telur þetta ekki sameiginlegt viðfangsefni samfélagsins og ég hef jafnframt heyrt hæstv.

sjútvrh. halda því fram að hann telji þetta ekki vera auðlindaskatt vegna þess að um verkefni á vegum sjávarútvegsins sé að ræða. Hins vegar er líka ljóst hvað hæstv. núv. sjútvrh. sagði þegar Hagræðingarsjóðurinn var settur á stofn og sú skoðun heyrðist að hér væri um fyrsta skrefið í auðlindaskatti að ræða. Hæstv. landbrh. sagði enn þá meira í þessu sambandi. Ég mótmælti því vegna þess að því gjaldi átti eingöngu að verja til úreldingar fiskiskipa og aflaheimildir sjóðsins áttu síðan að ganga til handhafa kvótanna þegar fram liðu stundir. Ég vek líka athygli á því, hv. þm., að þá var gert ráð fyrir að hámark aflaheimildanna yrðu sem næmi skerðingu vegna ísfisksútflutnings en þó aldrei meiri en 12 þús. tonn. Það er jafnframt ljóst að vegna þeirrar ágætu þróunar sem þar hefur orðið þá hefði þetta orðið minna. En nú er gert ráð fyrir því að aflaheimildir skipanna séu beinlínis skertar í þessu sambandi en ekki sé eingöngu byggt á þeim skerðingum sem verða vegna útflutnings á fiski.
    Þetta er sannleikurinn í málinu. En aðalatriðið er að sjálfsögðu það að verið er að selja aflaheimildir fyrir verð og þetta fjármagn á að ganga til þess að kosta útgjöld Hafrannsóknastofnunar. Menn geta kallað þetta hvað sem er. Það fer eftir því hvernig menn skilgreina orðin og hvað liggur að baki hvort þeir vilja kalla það kvótaleigu eða auðlindaskatt. Engu að síður er aðalatriðið að þetta á að renna til Hafrannsóknastofnunar. Spurningin hlýtur að vera: Er sjávarútvegurinn þannig staddur að ástæða sé til að leggja slíkar álögur á hann í dag? Ég held að það sé alveg ljóst að hann er ekki þannig staddur. Ég minni t.d. á að í efh.- og viðskn. er verið að fjalla um framlengingu lána í Atvinnutryggingasjóð og þar hefur komið fram að sjávarútvegurinn er í verulegum vanskilum með lán sín. En á sama tíma sér núv. ríkisstjórn ástæðu til þess --- að kröfu Alþfl. eftir því sem mér skilst --- að stórauka álögur á sjávarútveginn, sem hlýtur að gera hann óhæfari til að standa í skilum með lán sín og þar með að gera það líklegra að ábyrgðir sem ríkissjóður er óneitanlega í að því er varðar útlán ýmissa sjóða og ábyrgð ríkisins, falli á ríkissjóð sjálfan. Þetta var um auðlindaskatt.
    Um málið vildi ég segja að við höfum fjallað um það allnokkrum sinnum í nefndinni. Það verður að segjast alveg eins og er að ekki gafst mikill tími til að fara yfir það. Við fórum þess á leit að fá samtöl við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þeir voru kallaðir fyrir, fyrst hver í sínu lagi og síðan mættu þeir allir í einu. Ekki gafst mikið tækifæri til að eiga við þá löng samtöl um þetta mál en það kom skýrt fram hjá þessum aðilum að þeir voru mjög mótfallnir því að fara að hrófla við lögunum að svo komnu máli. Þeir vildu ekkert segja um það hvort ástæða væri til að endurskoða lögin enda er endurskoðunarákvæði í núgildandi lögum. Hér hefur oft komið fram að það hefur verið svo tengt endurskoðun fiskveiðistefnunnar að ekki er ástæða til að vera að hrófla við lögunum að svo komnu máli og ber að endurskoða lögin samhliða endurskoðun fiskveiðistefnunnar. Það er að sjálfsögðu aðalatriði málsins á þessu stigi, hæstv. forseti, hvernig á að standa að undirbúningi máls sem þessa.
    Í ákvæði til bráðabirgða í lögum frá 5. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Sjávarútvegsráðherra skal fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við þá endurskoðun.`` Í þeim umræðum sem fóru fram um frv. vorið 1990 var mjög rík krafa frá hv. þm. um að endurskoðun á þessari löggjöf fylgdi endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Kröfurnar komu ekki síst frá þáv. stjórnarandstöðu. Svo segir í nál. í efri deild, með leyfi hæstv. forseta: ,,Frv. þetta er svo nátengt frv. um stjórn fiskveiða að það verður hvorki rætt né afgreitt nema samhliða því. Vísast til nál. 4. minni hl. um stjórn fiskveiða um efnislega greinargerð fyrir afstöðu hans.`` Undir þetta rituðu hv. þm. Halldór Blöndal og Guðmundur H. Garðarsson.
    Í neðri deild kom eftirfarandi fram: ,,Frv. þetta er svo nátengt frv. um stjórn fiskveiða að það verður hvorki rætt né afgreitt nema samhliða því. Vísast til nál. 4. minni hl. um stjórn fiskveiða um efnislega greinargerð fyrir afstöðu hans.`` Undir þetta rituðu Hreggviður Jónsson, Matthías Bjarnason og Kristinn Pétursson.
    Það var því krafa Alþingis á þeim tíma að endurskoðun á þessum tvennum lögum yrði látin fylgjast að. Nú hefur meiri hluti Alþingis, stuðningsmenn hv. ríkisstjórnar, ákveðið að svo skuli ekki vera. Um það hefur verið tekin sjálfstæð ákvörðun að löggjöfin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins skuli tekin fyrst fyrir og skuli ekki fylgja endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Jafnframt hefur verið ákveðið að ekki sé ástæða til sérstaks samráðs í samræmi við ákvæði til bráðabirgða II í lögum frá 5. maí 1990. T.d. hefur komið fram að samráð við hagsmunasamtök í sjávarútvegi átti sér ekki stað að því er varðar þessa lagabreytingu. Það veit ég að formaður nefndarinnar getur góðfúslega staðfest. Það kom líka fram þegar þeir menn voru kallaðir til sem eiga að stýra því endurskoðunarstarfi á lögunum um stjórn fiskveiða, sem nú hefur verið ákveðið að fari fram á vegum stjórnarflokkanna og án sérstaks samráðs við stjórnarandstöðuna, að þeir litu ekki á það sem verkefni sitt að fjalla um þetta mál. Það kom mjög skýrt fram og það kom fram að ekki hafði verið fjallað um þetta mál í endurskoðunarnefndinni. Það er jafnframt ljóst að það var ekki haft samráð við sjútvn. Alþingis um málið áður en það var lagt fram. Það er svo annað mál hvort ákvæði sem þessi séu mjög heppileg í löggjöf og hvort eðlilegt sé að Alþingi setji ákvæði sem hefta framkvæmdarvaldið að þessu marki. Að framkvæmdarvaldið geti ekki lokið endurskoðun tiltekinna laga nema að höfðu samráði við hagsmunaaðila og að höfðu samráði við tiltekna nefnd þingsins. Um þetta má deila og ég get út af fyrir sig tekið undir að það er e.t.v. ekki á allan hátt mjög heppilegt. En þetta fór inn í lög og lög á að virða. Það á ekki síst við um ríkisstjórn á hverjum tíma og alla þá sem styðja ríkisstjórn. En mér sýnist að það sé alveg komið fram að eftir þessu hefur ekki verið farið og ætti það í sjálfu sér að vera nægilegt til þess að forsetar Alþingis beittu sér fyrir því að málinu væri vísað frá og vísað til þeirra sem undirbjuggu málið og þeim falið að undirbúa það í samræmi við gildandi lög. Það hefur ekki verið gert af forsetum þingsins. En ég minnist þess að sambærilegt ákvæði var eitt sinn í löggjöf um stjórn fiskveiða og því samráði var þá lokið með sérstöku bréfi til forseta þingsins eftir að talað hafði verið við hagsmunaaðila í greininni og sjútvn. þingsins á þeim tíma. Það var talið rétt form til að uppfylla þessa lagaskyldu. Að vísu varð niðurstaða þess samráðs sú að ekki væri efni til breytinga á löggjöfinni og því var ekkert frv. flutt og talið rétt að bíða þangað til gildistími laganna rynni út.
    Mér finnst þetta vera allalvarlegt þótt ég sé ekki að halda því fram að ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis hefði átt að fara eftir áliti hagsmunasamtaka í málinu eða áliti sjútvn. þingsins. Það hefðu þeir að sjálfsögðu ekki þurft að gera. En hér er um svo stórt mál að ræða sem er þar að auki mjög umdeilt að það er alvarlegur hlutur þegar efnt er til endurskoðunar á málinu í andstöðu við gildandi lög. Hér er um mál að ræða sem hefur verið í mótun í samfélaginu. Átt hefur sér stað feiknarleg umræða og hún á sér stað enn þann dag í dag. Það hefur verið almenn skoðun að mjög víðtækt samráð þyrfti að eiga sér stað um málið í þjóðfélaginu öllu til þess að stofna ekki til ófriðar um það. Ég er ekki að halda því fram að um það hafi ríkt neinn sérstakur friður. En það hefur a.m.k. ekki orðið neinn ófriður til samræmis við það sem Morgunblaðið boðar í málinu. Þar er því haldið fram að borgarastyrjöld muni verða og barist verði til síðasta manns, eins og ritstjóri blaðsins hefur haldið fram. Morgunblaðið telur hlutverk sitt vera að koma fram stefnubreytingu í málinu og það skuli nást og tuktar ríkisstjórnarliðið reglulega til í málinu og heldur áfram tangarsókninni. Það skyldi þó ekki vera að þeir séu farnir að hlýða Mogganum. Það kæmi ekki á óvart því að ég minnist þess stundum að sumir sem hafa staðið í pólitík hafa litið á Moggann og kallað hann mömmu og gjarnan verið haft við orð að nú væri rétt að hringja í mömmu áður en haldið væri lengra. Það gæti verið að nú hafi verið hringt í mömmu og niðurstaðan hafi verið sú að það skyldi tekið upp nýtt vinnulag. Morgunblaðið heldur mjög fram stefnu Alþfl. í málinu og telur hana vera hina einu réttu og sönnu. Er það gott fyrir þá sem hafa staðið að útgáfu Alþýðublaðsins og þurfa nú sennilega fljótlega að hætta að vita til þess að þeir eiga sér svo sterkan bandamann. Ekki síst hlýtur fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans að vera mjög hamingjusamur með þessa niðurstöðu. ( Gripið fram í: Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.) Já, ég ætla ekkert að segja um það. En það er vissulega alvarlegt mál að þessi vinnubrögð skuli vera tekin upp. Farið er að breyta umdeildum lagaákvæðum án þess að ræða við hagsmunaaðila. En það sem verst er er að það er gert í algerri andstöðu við þá og ekki nokkur maður sem mælir því bót.
    Nú er hins vegar rétt að taka það fram að löggjöfin er ekki óumdeild og margir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi voru andvígir henni frá upphafi og komu þeim skoðunum rækilega á framfæri. En ég held að það sé alveg ljóst að við þessa kúvendingu mun andstaða þeirra aukast mjög og menn fái nú hin langþráðu átök um málið.
    Hér er um svo mikið hagsmunamál alls landsins og ekki síst sjávarútvegsins og landsbyggðarinnar að ræða að það er mikilvægara en nokkuð annað að reyna að halda bærilegan frið. Þótt um sé að ræða 500 millj. kr. í ríkissjóð eru þær fljótar að tapast ef ekki tekst að halda sæmilegri samstöðu í þessu stóra máli. Ekki er nóg að halda samstöðu við Alþfl., það þarf að halda samstöðu við fleiri og það er hættulegt að taka allt of mikið tillit til skoðana Alþfl. og Morgunblaðsins enda þótt þeir séu nokkuð sterkir þegar þeir leggja saman. Ég skal viðurkenna það og ber að taka eitthvað tilliti til þess en það má ekki ganga svo langt að af hljótist stórslys.
    Ég hlýt því að harma að ekki skuli hafa gefist betri tími til að fjalla um málið í upphafi og hafa á því vandaðri undirbúning. Ég skil ekki satt best að segja hvað liggur á í þessu máli. Af hverju er verið að eyða tíma núna sérstaklega í þetta mál? Af hverju lá svo mikið á að koma málinu í höfn fyrir áramót þegar sú staðreynd blasir við að ekki á að byrja að selja veiðiheimildir samkvæmt þessari löggjöf fyrr en næsta haust? Er ekki nóg ráðrúm til að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti á þingi og taka í það nokkurn tíma? Stundum hefur þurft að afgreiða mál mjög hratt á þingi og miklu hraðar en æskilegt hefur verið. En það hefur verið almenn regla að það væri ekki gert nema það væri algerlega nauðsynlegt, t.d. að því er varðar fjárlög.
    Nú er því haldið fram að um hliðarfrv. við fjárlögin sé að ræða og þess vegna verði það að liggja ljóst fyrir. En ef meiri hlutinn á Alþingi ætlar sér að afgreiða málið þá býst ég við að fjmrn. mundi treysta á það og geta þá fjármagnað það eins og það verður að gera fram á vorið hvort sem frv. er afgreitt nú á nokkrum dögum eða t.d. í febrúar.
    Við óskuðum eftir því að fá að ræða þetta mál við fulltrúa Landssamtaka sveitarfélaga en mál sem þessi brenna mjög á þeim. Orðið var við því með þeim hætti að þeim var sent frv. og þeir beðnir um að svara því daginn eftir eða þarnæsta dag. ( Gripið fram í: Það eru vaskir menn.) Já, það eru vaskir menn í meiri hluta nefndarinnar og þar er vaskur formaður sem kemst léttilega frá sínum hlutum eins og hann hefur lýst yfir. Þeir svöruðu þessu en tóku allir fram að þeir hefðu eiginlega ekki haft neinn tíma til þess að fara yfir málið. Það var mjög ljóst á svörunum að viðkomandi aðilar höfðu ekki haft tíma til að setja sig inn í málin. Þeir höfðu ekki haft tíma til að hafa samráð við meðstjórnarmenn sína í viðkomandi samtökum. Eru þetta, hæstv. formaður, varaformaður, gegnandi formaður sjútvn. og hæstv. sjútvrh., nauðsynleg vinnubrögð í sambandi við þetta mál? Er ekki hægt að vísa því aftur til nefndar og við fáum eins og tvær vikur til að fara betur yfir það og ræða við þessa aðila? Ég fæ ekki skilið hvað liggur svona mikið á í málinu nema þá að það séu einhverjir samningar að baki sem ekki hefur verið talað um.
    Ég hlýt því að endurtaka það sem við leggjum til, að í reynd viljum við að þessu máli sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Við berum fram tillögu um það þar sem yrði fjallað um það með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir og málið að nýju lagt fyrir Alþingi. Það verði tekið til endurskoðunar í sambandi við endurskoðun á fiskveiðistefnunni sem á að ljúka fyrir árslok 1992. Ég endurtek að við sem störfum í stjórnarandstöðunni viljum hafa einhverja aðild að málinu, ekki endilega þeir aðilar sem eru í sjútvn. þingsins heldur þeir flokkar sem eiga þar fulltrúa.

    Ég vil minna á allt það endurskoðunarstarf sem hefur farið fram til margra ára. Í endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins voru flestir sjóðir sjávarútvegsins voru lagðir af. Það var mikil hreinsun og tókst ótrúlega góð sátt um og voru fulltrúar allra þingflokka í nefnd um þá endurskoðun. Það var einmitt sú nefnd sem lagði til að Úreldingarsjóðsmálið yrði tekið fyrir sérstaklega og því varð ekki lokið hjá nefnd sem lauk störfum árið 1986 til að endurskoða sjóði sjávarútvegsins. Nú ætla menn ekki að hafa sama hátt á. Vel má vera að ekki þyki mikilvægt hjá núv. ríkisstjórn að eiga mikið samstarf um þessi stóru mál við stjórnarandstöðuna. Enda hefur komið skýrt fram í vetur að núv. ríkisstjórn leggur sig mjög fram um að eiga sem minnst samstarf við stjórnarandstöðuna og telur það vera merki um styrk sinn. Ætla ég ekki að fara að vitna til allra þeirra dæma sem hafa komið upp í vetur. En enn á að halda áfram að sýna styrk sinn því að nú á að gera þá mikilvægu breytingu á löggjöf um stjórnsýsluna að opna á fyrir það að hægt sé að senda sérstaka kommissara til að taka að sér fjármálastjórn í hverri stofnun. ( ÖS: Eins og þið hafið lagt til sjálfir áður.) Ég hef aldrei lagt það til, hv. þm., það má vel vera að einhverjir úr þínum fyrri flokki hafi lagt það til, ég þekki ekki svo vel þar innan dyra eins og þú, en ég hef aldrei verið tillögumaður um það að setja sérstaka kommissara í hverja stofnun. Ég teldi það t.d. ekki mjög gott mál ef menningarfulltrúinn í London, sem Alþfl. hefur sent þangað og er sérfræðingur í bumbuslætti, ætti að verða sérstakur fjármálastjóri í sendiráðinu. En samkvæmt því sem nú hefur verið lagt til getur maður átt von á því að settir verði slíkir fjármálastjórar í sérhverja stofnun. Kannski verður sérstakur útsendari Alþfl., sem mun hafa verið mikið á ferð og var áður í skemmtanabransanum, gerður að kommissar í einhverjum stofnunum. ( Gripið fram í: Hver er þessi maður?) Ég er ekki alveg viss um hvað hann heitir. En ég hef orðið var við að einhver slíkur maður hefur verið á ferðalagi með formanni flokksins um landið og haldið með honum marga fundi. Ég er ekki frá því að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi stundum verið á því ferðalagi sem var í fyrrum flokki þingflokksformanns Alþfl.
    Þetta eru ekki vinnubrögð sem sæma mönnum. Til eru allar heimildir í stjórnsýslulögum Íslands til að taka á þeim fjármálavanda sem kann að vera í sérhverri stofnun ríkisins og á ekki að þurfa neina sérstaka útsendara í það. En nú á að sýna vald sitt, ekki bara á Alþingi heldur í sérhverri stofnun. Það skal vera ljóst að hlýði menn ekki verður sendur pólitískur kommissar á menn. Vel getur verið að menn vilji ýmislegt á sig leggja til að komast hjá að fá slíka menn inn fyrir þröskuldinn hjá sér. Vel má vera að mönnum þyki þetta slík ógnun að því verði hlýtt. En það á ekki að setja upp slíkar ógnanir, hv. þingflokksformaður. Það á að reka stofnanir í samræmi við fjárlög og ráðuneytin eiga að sjá til þess að þeim sé framfylgt.
    Í þessu frv. er eitt af hlutverkum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins lagt niður þó að nokkrar tilfæringar séu gerðar til að endurvekja það, en það er byggðahlutverk sjóðsins. Segja má að núgildandi lög geri ráð fyrir tvenns konar hutverki. Í fyrsta lagi úreldingarhlutverki til að hagræða í sjávarútvegi og í öðru lagi byggðahlutverki. Byggðahlutverkið á sér alllanga sögu. Kröfur hafa verið uppi um það að gefa kost á slíkum möguleikum til að koma til móts við byggðarlög sem lenda í sérstökum vandamálum. Það hafa verið um þetta ríkar kröfur hér á Alþingi frá nánast öllum stjórnmálaflokkum, jafnvel frá Alþfl. Ég vil í því sambandi nefna það alveg sérstaklega að á löggjafarþinginu 1987--1988 flutti hv. 1. þm. Vestf., sem er því miður ekki viðstaddur, eftirfarandi brtt. við löggjöfina um stjórn fiskveiða, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sé skip með veiðiheimild selt úr byggðarlagi, sem að mestu byggir á fiskveiðum og fiskvinnslu, skal ráðherra heimilt að bæta viðkomandi byggðarlagi aflatapið þannig að veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir eru verði auknar. Heimild þessari má þó því aðeins beita að sala skips valdi straumhvörfum í atvinnulífi og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu.``
    Þetta þótti þeim sem hér stendur vera nokkuð opin heimild og væri ekki gott að

nokkur ráðherra, hvorki sjútvrh. né aðrir hefði slíka heimild í lögum, þ.e. að viðkomandi ráðherra skuli bæta viðkomandi byggðarlagi aflatapið þannig að veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir yrðu verði auknar. Það sem nánast var verið að leggja til er t.d. að ef skip er selt frá Patreksfirði þá skuli sjútvrh. hreinlega bæta við veiðiheimildum til annarra skipa á staðnum og taka það af öðrum hluta flotans. En hvernig fór með þessa till. á hv. Alþingi? Hún var felld með 21 atkv. gegn 21 í neðri deild Alþingis. Þessi víðtæka heimild fyrir sjútvrh. á hverjum tíma svo lengi sem þessi lög hefðu verið í gildi var felld á jöfnu í neðri deild Alþingis. Ekki munaði nema einu atkvæði að þessi heimild hefði verið samþykkt.
    Menn hljóta að spyrja eftir að slíkt kemur fyrir á Alþingi í andstöðu við viðkomandi fagráðherra og í andstöðu við sitjandi ríkisstjórn hvort ekki sé ástæða til að taka slíkan vilja alvarlega þó að hann sé ekki meiri hluti en jafn hluti, þegar helmingur þingsins tjáir sig með þessum hætti í atkvæðagreiðslu, þar á meðal allmargir stjórnarliðar og starfandi ráðherrar í núv. ríkisstjórn eins og t.d. hæstv. heilbr.- og trmrh. sem gerði sig mjög gildandi í umræðum um þessi mál og studdi hv. 1. þm. Vestf. mjög dyggilega. Er engin ástæða til að taka slíkar atkvæðagreiðslur alvarlega? Er ekki ástæða til að reyna að finna einhverja leið, ef hún er þá finnanleg, til að koma til móts við þessi sjónarmið? Það reyndu menn að gera. Ég vil jafnframt taka fram að ýmsar aðrar skoðanir komu fram á Alþingi í þessu sambandi, t.d. fluttu fulltrúar Kvennalistans tillögu sem byggði á því að byggðirnar hefðu meira með fiskveiðiheimildirnar að gera. Fulltrúar Alþb. fluttu slíkar tillögur og einstökum þingmönnum varð mjög tíðrætt um þessa hluti. Af hverju ætli þingmenn hafi talað svo mikið um þetta mál? Það var einfaldlega vegna þess að þeir voru óttaslegnir yfir því að eitt og eitt byggðarlag kynni að fara mjög illa út úr þessum breytingum. Margir hverjir vildu kenna því fiskveiðistjórnunarkerfi um það sem upp var tekið. Það var ekki vegna sérstakra erfiðleika í viðkomandi byggðarlagi heldur beinlínis af völdum stjórnkerfisins sjálfs. Það var alveg ljóst að ef tillaga sem þessi hefði verið samþykkt þá var búið að brjóta niður kvótakerfið. Það hefði ekki fengist staðist með slíkum hætti ef viðkomandi sjútvrh. hefið notað slíkar heimildir enda býst ég við að honum hefði vart verið stætt á öðru en að gera það vegna þess að það stóð í tillögugreininni að hann skuli gera það. Það hefði orðið allsherjarófriður um það ef farið væri að taka veiðiheimildir af einum og flytja þær yfir á annan eftir því hvað gerðist á einum og einum stað. Það hefði ekki getað gengið til langframa. Hér var um mjög alvarlegt tilvik að ræða í þeirri miklu vinnu sem hefur farið fram að skapa einhvern meiri hluta fyrir sanngjörnu fiskveiðistjórnunarkerfi. Þeirri vinnu er því miður ekki lokið og verður aldrei lokið. Alltaf verður tekist á um mikilvæga hagsmuni og þetta er eitt af þeim atriðum sem verður að taka tillit til í þeirri vinnu. Þess vegna fóru menn í nokkru eftir þessum vilja. Jafnframt er rétt að taka það fram að það voru líka uppi skoðanir í fyrri ríkisstjórn og kröfur frá samstarfsaðilum þar um að einhver slík ákvæði kæmu inn en illa gekk að finna form á þessa skipan mála.
    Því varð niðurstaðan að rétt væri að beita markaðslausn í þessu sambandi. Ekki ætti að vera hægt að úthluta slíkum veiðiheimildum af viðkomandi ráðherra til sérstakra byggðarlaga heldur yrði að byggja á því að slíkar veiðiheimildir væru seldar við tiltekin skilyrði. Þessi tilteknu skilyrði áttu að vera þau sem koma fram í tillögunni frá hv. 1. þm. Vestf. að sala skips hafi valdið straumhvörfum og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu. Sama hugsun er í núgildandi lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins því að þar stendur að heimilt sé skv. 9. gr., með leyfi forseta: ,,Skilyrði fyrir aðstoð sjóðsins er að sala fiskiskips eða fiskiskipa hafi valdið straumhvörfum í atvinnumálum viðkomandi byggðalags þannig að fyrirsjáanleg sé veruleg fækkun starfa og byggðaröskun sé yfirvofandi.``
    Það má því segja að orðalagið úr tillögugrein hv. 1. þm. Vestf. sem hlaut slíkan stuðning á Alþingi hafi verið tekið upp. Þetta er dæmi um það hvernig ýmsir aðilar hafa haft áhrif á málið frá upphafi eins og vera ber í stóru og erfiðu máli.
    Gert var ráð fyrir því ef slíkar aðstæður kæmu upp að þá gæti viðkomandi byggðarlag sótt um aflaheimildir og skyldu þær boðnar til kaups en það væri skilyrt að viðkomandi afla væri landað í þessu tiltekna byggðarlagi. Ekki var gert ráð fyrir því að hér væri um varanlega ráðstöfun að ræða og það er alveg rétt sem hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. sjútvrh., að menn sáu ekki fyrir endann á því hvernig þarna mundi takast til. Ég á t.d. ekki von á því sem stendur að mörg byggðalög mundu uppfylla þessi skilyrði og þá sem betur fer. En samt var talið að um mikilvægan öryggisventil væri að ræða sem gæti mætt áföllum þó ekki væri nema um stundarsakir meðan menn fyndu önnur varanlegri úrræði. Ef öll fiskiskip fara frá einhverju tilteknu byggðarlagi á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austfjörðum, svo dæmi séu tekin, mun sá vandi koma inn á borð stjórnvalda. Og jafnvel þótt það sé æskilegt að markaðsbúskapur hafi sem mest að segja í samfélagi okkar getum við ekki litið fram hjá vanda einstakra byggðalaga. Þá hljóta menn að spyrja í framhaldi af þessu þegar þessi löggjöf verður komin í gegn á Alþingi hvernig menn ætli að taka á slíkum málum ef þau koma upp.
    Því er að hluta til svarað í grg. með frv. en þar stendur að það sé eðlilegt að Byggðastofnun taki sérstaklega á slíku máli. Það er út af fyrir sig skoðun að vísa því til þeirrar stofnunar sem hefur með þau mál að gera, en hjá stjórn og forstjóra þeirrar stofnunar kemur fram að Byggðastofnun hefur enga burði til þess. Framlög til þeirrar stofnunar hafa verið lækkuð, fjárhagsstaða hennar er fremur slæm og mér vitanlega eru engin áform um að styrkja hana. Hefur stjórnarformaður hennar, hv. 1. þm. Vestf., sem ég hef áður vitnað til, jafnvel látið í það skína að hún geti miðað við áform ríkisstjórnarinnar þess vegna verið staðsett á Hveravöllum sem veðurathugunarstöð. Það voru ekki mín orð. En svo virðist að þar sé uppi ágreiningur og því ekki líklegt að Byggðastofnun verði fær um að gegna þessu hlutverki sem Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins átti að gera. (Gripið fram í.) Nei, náttúrlega má stunda margvíslega starfsemi frá Hveravöllum með nútímafjarskiptasambandi, en þó hygg ég að það sé ekki æskilegt að reka svo virðulega stofnun sem þessa á þeim slóðum.
    Þessum spurningum hefur ekki verið svarað nema meiri hluti nefndarinnar hefur sagt sem svo: Fjórði hluti þessara aflaheimilda á að geta gengið til byggðarlaga sem eru í vanda, en á markaðsverði. Þ.e. þau byggðarlög sem kunna að eiga í vanda verða að geta keppt við alla aðra sem vilja kaupa veiðiheimildir á markaði, hvort sem það eru frystiskip eða aðrir. Allir vita að þessi litlu byggðarlög eru á stundum ekki í stakk búin til þess að keppa á þeim markaði. Þess vegna gef ég lítið fyrir þær fyrirætlanir. Ég er ekki að segja að það sé alveg gagnslaust en ég hafði alltaf gert ráð fyrir því að lega viðkomandi byggðarlaga væri þannig að þau ættu fremur erfitt með að keppa við ýmsa aðra á markaðinum í þessu sambandi. Jafnframt hefur komið fram að Byggðastofnun er ekki fær um að aðstoða þessa aðila í sambandi við slík mál.
    Ég hefði viljað spyrja hæstv. sjútvrh. um það hvernig hann hyggist halda á því máli eða hvort hann sé þeirrar skoðunar að ekki eigi að sinna þessu viðfangsefni og hvort hann er þá þeirrar skoðunar að þetta atriði geti ekki orðið til þess síðar að spilla samstöðu um málið. Það er nú svo að málefni sem þessi verða hvað heitust þegar erfiðleikarnir koma upp en liggja oft á milli steina þess í milli. Ég óttast mjög ef þetta atriði verður tekið með þessum hætti út úr málinu í heild muni það geta spillt samstöðu síðar. Ekki endilega samstöðu við útvegsmenn og sjómenn heldur samstöðu við ýmsa aðila sem eru fulltrúar byggðanna, fólks sem býr á þeim stöðum þar sem þetta kann að koma upp og þar af leiðandi er mjög óskynsamlegt að standa að málinu núna eins og hér er verið að gera. Vonandi reynist þetta ekki rétt en ég get ekki annað en haft uppi sterk viðvörunarorð í sambandi við þetta mál því að ég tel að það sé ekki 500 millj. kr. virði að spilla samstöðu um það. Það á eftir að koma í ljós að þar yrði um mikið slys að ræða sem verður ekki metið til

fjár.
    Það er alveg ljóst að sú kvótaskipan sem hefur komist á er að skila sér betur og betur í aukinni framleiðslu og meiri verðmætasköpun og þarf ekki annað en að vitna til þess að framleiðsluverðmæti sjávarafurða er meira á síðasta ári en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir aflasamdráttinn. Það kemur að vísu margt til, t.d. hækkandi afurðaverð. En enginn vafi er á því að verðmætari framleiðsla og betri nýting sjávarfangs er smátt og smátt að skila sér. Þetta gerist ekki í einu vetfangi, þetta gerist á löngum tíma og aðalatriðið er að menn hafi þolinmæði til þess að bíða eftir árangrinum. Þarna hefur verið lagður mikilvægur grunnur sem ber að varðveita, grunnur sem mjög margir aðilar hafa staðið að úr öllum stjórnmálaflokkum, öllum hagsmunasamtökum, fulltrúar byggðanna í landinu. Engum einum er fremur að þakka í þeim efnum en öðrum, þar hafa hundruð manna komið að verki og skilað því með mikilli prýði. Þetta ber að halda í heiðri og vinna að málinu í samræmi við það.
    Hæstv. forseti. Ég á víst að mæta á nefndarfundi klukkan þrjú þannig að ég vildi spyrja um það hvort ekki væri rétt að ég gerði hlé á máli mínu. ( Forseti: Ef hv. þm. á að mæta á nefndarfundi klukkan þrjú er sjálfsagt að hann geri hlé á málin sínu, en ég vil upplýsa hv. þm. um það að hv. 17. þm. Reykv. hefur óskað að gera athugasemd með andsvari við ræðu hv. þm. og hann gerir það að lokinni ræðu þingmannsins. Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að mér sé gert kleift að sinna mínum þingskyldum en í samtali við forseta þingsins var rætt um að fundur stæði til þrjú þannig að ég á von á því að þessum fundi verði frestað eða honum slitið. Ég er aðeins að vitna til þess en ef þar hefur orðið breyting þar á þá get ég haldið áfram mínu máli. ( Forseti: Það hefur ekki orðið breyting á því, ég hef fengið upplýsingar um það að fyrirhugað var að slíta þessum fundi klukkan þrjú, þannig að það fer þá saman, og ég mun gera það þegar hv. þm. lýkur máli sínu.) Ég mun þá fresta minni ræðu en ég tel ekki samrýmast þingsköpum að hv. 17. þm. Reykv. geti gert andsvar við minni ræðu fyrr en að henni lokinni. ( Forseti: Það hefur ekki verið gefið í skyn hér.)